Peningarnir og Guð

Peningarnir og Guð

Hvenær sem við leitumst við að gefa gaum að þörfum annarra í stað þess að einblína á okkur sjálf þá erum við að endurgreiða brot af því sem Guðs er. Það er ekkert sem er óviðkomandi stjórnmálum og skattgreiðslum og fjármálum heldur hefur allt mögulegt með afstöðu okkar og umgengni við náungann að gera.

Þá gengu farísearnir burt og tóku saman ráð sín hvernig þeir gætu flækt Jesú í orðum. Þeir senda til hans lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum og þeir segja: „Meistari, við vitum að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins enda gerir þú þér engan mannamun. Seg okkur því hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“

Jesús þekkti illsku þeirra og sagði: „Hvers vegna leggið þið snöru fyrir mig, hræsnarar? Sýnið mér peninginn sem goldinn er í skatt.“

Þeir fengu honum denar. Hann spyr: „Hvers mynd og nafn er á peningnum?“

Þeir svara: „Keisarans.“ Hann segir: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“

Þegar þeir heyrðu þetta undruðust þeir, yfirgáfu hann og gengu burt.Matt. 22. 15-22

[audio:http://tru.is/hljod/2008-10-26-ks-hallgrimskirkja.mp3]

Við söfnumst til hátíðarmessu í Hallgrímskirkju á vígsludegi hennar, og minnumst í þökk og gleði fimmtíu ára afmælis Kirkjuþings íslensku Þjóðkirkjunnar og 75 ára afmælis Kirkjuráðs.

Kirkjuþing er löggjafarsamkunda Þjóðkirkjunnar og vettvangur starfsskila og stefnumótunar svo kirkjan geti betur innt hlutverk sitt af hendi. Á vettvangi Kirkjuþings er oft fjallað um peninga, - um fátt annað, segja sumir. Og hvað koma peningar fagnaðarerindinu við? spyrja menn. Og það er góð og gild spurning.

Peningar og umgengi um þá og viðhorf til þeirra koma reyndar víða við sögu í helgu orði. Textinn sem hér var lesinn áðan frá Amosi er tæpitungulaus og er eins og talaður inn í aðstæður okkar hér og nú. Og í guðspjöllunum er iðulega varað við ágirnd og við því að safna fjársjóðum sem mölur og ryð fá grandað. Áleitnar frásagnir guðspjallanna þar sem peningar koma við sögu hafa ekki látið mannkyn í friði. Mega ekki heldur láta okkur í friði. Enda áhrifaríkar og áleitnar í meira lagi. Þar er td frásagan af því þegar Jesús steypti niður peningum víxlaranna í musterinu og hratt um borðum þeirra. Megum við gleyma því? Og allir þekkja silfurpeningana þrjátíu, sem svikarinn hlaut að launum fyrir að svíkja meistara sinn. Síðan vita flestir hvað orðið blóðpeningar merkir. Einna áhrifamest finnst mér mynd ekkjunnar við fjárhirsluna og það sem Jesús segir um eyrinn sem hún lagði þar í. Í frásögninni um eyri ekkjunnar sýnir Jesús fram á hve verðmæti eru afstæð. Verðmætast alls er örlæti umhyggjunnar, gjafmildi góðvildarinnar, fórn kærleikans. Og loks er það sagan sem er guðpjall dagsins, spurningin um skattpeninginn, um peningana og Guð.

Þeir komu til Jesú með þessa spurningu, leiðtogar trúmála og stjórnmála í landinu, og þetta var einkar kænlega hönnuð gildra: „Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“ Þetta var ekki spurning til forsætisráðherra á blaðamannafundi. Í hernumdu landinu, arðrændu og kúguðu, var spurningin um skatt meir en spurning um prósentur, um velferð og hagsmuni efnahagslífsins. Það var spurning um hollustu við kúgarann annars vegar, land og þjóð og trú hins vegar. Hvort sem svarið var já eða nei, þá var það pólitísk eða trúarleg jarðsprengja.

Jesús bað þá að sýna sér pening, sem þeir gerðu. Þegar hann tekur þessa mynt í lófa sinn, blasir við honum mynd hins guðdómlega keisara og nafn hans og hástemdur titill sem markaði guðdóm hans og vald. Það glampar á gullið þar sem það hvílir í lófa umferðarprédikarans frá Nasaret.

Er ekki annars makalaust að heimurinn skuli minnast keisarans einungis vegna sögu hins síðarnefnda? „Hvers mynd og nafn er á peningnum?“ spyr Jesús. „Keisarans.“ svara þeir. Og svar Jesú er blátt áfram: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“

Gjaldmiðill er miðlun verðmæta, ávísun á verðmæti. Myndin og nafnið segir til um það hver það er sem gefur hann út og hvað að baki býr. Jesús minnir á að verðmætin sem peningarnir standa fyrir skipta máli. En aldrei öllu máli. Ríkið er nauðsynlegt mannlegu samfélagi, jafnvel Rómarkeisari þjónar Guði óafvitandi með því að halda uppi lögum og rétti og innviðum svo verslun og viðskipti geti gengið sinn gang og samfélagið þrifist. Guð notar margvísleg verkfæri til að ná markmiðum sínum, og setur ekki endilega trúarlega merkimiða á það. En Jesús sviptir peninginn, fjármagnið, ginnhelgi sinni og minnir á hið dýpra samhengi hlutanna. Þegar hann segir: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er “ – þá vísar hans til valdsviðs sem keisarinn með allan sinn auð og ofurvald hefur ekkert vald yfir né ráð á. Það eru þau verðmæti sem eru meira verð en allt annað, já og sem frelsarinn taldi svo mikils verð að hann sagði: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni?“ Sálin, hjartað, siðgæðið, með öðrum orðum afstaða manns til Guðs og valdsviðs hans, það varðar mestu. Það er eilífs gildis. Eilífs gildis.

Hvað skuldum við keisaranum? Jú, við komumst ekki hjá því að gjalda skattinn, hlutdeildina af þeim verðmætum sem gjaldmiðillinn stendur fyrir. Meðan við viljum njóta gæða þess. En eitt getum við gefið honum fúsum og frjálsum vilja og heilum huga. Við getum gefið honum fyrirbæn okkar. Já og við getum gefið honum vitnisburðinn um að engin þjóð, ekkert samfélag stendur án Guðs. Og við getum gefið honum trúmennsku í því að vinna þjóð og landi, lífinu og náunganum það sem helst má til heilla verða og blessun valda.

„Þegar þeir heyrðu þetta undruðust þeir, yfirgáfu hann og gengu burt.“ En Jesús gekk burt til að gjalda Guði það sem Guðs er. Hvernig? Með því að gefa líf sitt á krossi til lausnargjalds fyrir ÞIG og heiminum öllum til lífs. Með fórn kærleikans, umhyggjunnar, miskunnsemi og fyrirgefningar, kross og upprisu. Fyrir þig. Fyrir mig. Fyrir heiminn. Því svo elskaði Guð heiminn.

Það var einu sinni gamall maður, sem missti eigur sínar í bruna. Menn reyndu að hughreysta hann, en hann sagði: „Þetta gerir mér auðveldara fyrir að deyja.“ Og svo vitnaði hann í Hallgrím, eins og íslensk alþýða hefur löngum gert:

„Safna hóflega heimsins auð, hugsýkin sturlar geð. Þigg af Drottni þitt daglegt brauð, duga lát þér þar með. Holdið þá jörðin hylur rauð, hlotnast má ýmsum féð. Svo þig ei ginni girndin snauð, gæt vel, hvað hér er skeð.“ Pass.36.6

Í hvaða samhengi segir Hallgrímur þetta? Þegar hann sér fyrir sér hermennina sem sátu undir krossi Jesú og spiluðu upp á kirtil hans.

Þegar við horfumst í augu við fjármálahrun og meðfylgjandi óvissu og hugsýki þá er hollt að minnast þess að það er annar og styrkari grundvöllur að standa á en spurningin um hvernig við komumst í gegnum þetta. Það er grundvöllurinn sem Drottinn hefur lagt með krossi sínum og upprisusigri, valdið sem umbreytir ósigri í sigur, dauða í líf. Vald kærleikans. „Lífið veitir líkn og sárabætur og lögmál þess er kærleikurinn sjálfur.“ Sagði Davíð frá Fagraskógi

Mynd og nafn hins æðsta valds og tignar í heimi hér birtist ekki sem meitlað í glóandi gull né önnur forgengileg verðmæti. Heldur sem brauð lífsins, sem kom af himni og heiminum gefur líf. Mundu það þegar brauðið er lagt í lófa þér hér í altarisgöngunni. Það er eins og mynt sem ber mynd og yfirskrift hans sem allt vald er gefið á himni og á jörðu og lagði líf sitt í sölurnar fyrir þig, til að helga þig sér. Og sú mynt fellur aldrei í verði. Guð hefur lagt sjálfan sig að veði fyrir því.

Og þú berð mynd og nafn hans, þú og allir menn. Allir menn. Til er saga um mann sem stóð á flóamarkaði og reyndi að selja gömul hljóðfæri. Sum voru heil, önnur léleg, jafnvel bara drasl. Enginn leit við þeim. Þá kom þar að roskinn herramaður, skyggnist um og kemur auga á gamla fiðlu. Hún var ekki merkileg að sjá, meira að segja var stóllinn brotinn og strengirnir slitnir og horfnir. „Leyfðu mér að líta á þessa fiðlu,“ sagði maðurinn. Hann tók hana í hönd sér og fór varfærnislega höndum um hana, sneri henni á alla kanta, lyfti henni svo upp í ljósið og leit inn í hana. Fólkið sem þrengdist um markaðinn nam staðar og varð starsýnt á alvörusvipinn á manninum. Og grafarþögn sló á hópinn þegar maðurinn lagði fiðluna að hjarta sér eins og lítið barn og sagði við sölumanninn: „Ég skal borga þér tvær og hálfa milljón fyrir þessa fiðlu.“ Þetta gat enginn skilið, „hann hefur mismælt sig, okkur hefur misheyrst,“ hugsuðu menn. En maðurinn endurtók með miklum alvöruþunga: „Ég skal borga þér tvær og hálfa milljón fyrir þessa fiðlu.“

Þegar hann hafði borgað fyrir fiðluna og gekk burtu var hann spurður: „hvers vegna borgaðirðu svona mikið fyrir þetta fiðluskrifli?“ „Vegna þess,“ sagði maðurinn,„að ég sá Stradivarius-merkið í henni!“ Stradivarius, það er meðal allra bestu og dýrmætustu hljóðfæra sem til eru. Af hverju er ég að segja þessa sögu? Af því að þú ert með merki og nafn á hjarta þínu, sem Guð hefur ritað þar.

Það er merkilegt til að hugsa að gríska orðið sem notað er yfir mótið sem setur mynd og yfirskrift á myntina, peninginn, er orðið karakter. Skaphöfn, geð, upplag er það gjarna þýtt, eða persónuleiki. Guð hefur sett sitt merki, karakter, á þig. Við getum skemmt það, spillt og máð. En Guð sér og þekkir.

Blessun Guðs felst í því að hann sér merki sitt í okkur. Jafnvel þó að ekki sé allt eins og það á að vera, brestur í því sem heilt á að vera, að það vanti strengi, og hljómurinn sé ekki sem bestur í sál okkar og lífi. Samt sér Guð það sem enginn sér, merkið sitt sem hann hefur lagt í hjartað okkar. Hann sér barn sitt í þér og sérhverri manneskju. Guð sér í okkur það dýrmætasta alls, sem aldrei verður metið til verðs. Við megum treysta því og trúa.

Hvað hefur Guð með peninga að gera? Bókstaflega allt. Guð er með í sérhverjum viðskiptum með peninga. Af því að það er ekkert svið lífsins sem ekki er Guðs.

Hvenær sem við leitumst við að gefa gaum að þörfum annarra í stað þess að einblína á okkur sjálf þá erum við að endurgreiða brot af því sem Guðs er. Það er ekkert sem er óviðkomandi stjórnmálum og skattgreiðslum og fjármálum heldur hefur allt mögulegt með afstöðu okkar og umgengni við náungann að gera. Og náungi þinn er eins og þú skapaður í Guðs mynd, - jafnt bankastjórinn sem og bótaþeginn, - og ber eins mynd Guðs og yfirskrift. Myntin og seðlarnir tilheyra Seðlabankanum – en þú og ég tilheyrum Guði í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur, líka í fjármálum. Keisarinn er dauðlegur, vald og auður hverfult, Seðlabankinn smár, en Drottinn er mikill, Drottinn er mestur, hann sem kom á jörð til að þjóna og gefa og endurleysa þig.

Gjöldum því keisaranum það sem keisarans er, og Guði það sem Guðs er.