Góð tré og vond

Góð tré og vond

...þegar við hættum að reyna að bæta okkur, þegar við höldum að við höfum skilið lífsins leyndarmál og þurfum ekki að bæta okkur meir, þá glötumst við. Bílstjóri sem er viss um að vera á réttri leið, spyr ekki til vegar, þótt hann sé villtur. Eins gott að hann sé læs á umferðarmerki og snúi við, þegar hann áttar sig.

Náð sé með ykkur og friður. Mér sýnist það skipta okkur máli, að annað fólk álíti okkur vera gott. Það skiptir máli að vera álitinn góður maður. Það skiptir máli að vera góð kona í augum annarra. Enginn vill vera vondur. Meira að segja Saddam Hussein skrifaði skáldsögu, þar sem hann lét gott og slæmt takast á og hið góða sigraði. Ætli hann álíti sig vera vondan mann?

Þegar ég hugsa þetta eilítið dýpra, þá held ég að sumu fólki sé sama um það hvað öðrum finnst um það. Það lifir lífinu eins og því hentar best, sama hverjir gjalda fyrir það. Aðeins fáeinir vinir eða nánasta fjölskylda fá að upplifa góðar hliðar þess fólks.

Ég heyrði í sumar frásögn af konu. Hún hafði festst í vítahring margvíslegrar ógæfu, verið misnotuð í æsku, glímt við lystarstol og fleira. Líf hennar fram á þennan dag einkennist af mótþróa við umhverfið, ögrandi í klæðaburði, tónlistarkona sem spilar kraftmikla rokktónlist, neytir eiturlyfja. Hún sýndi öðru fólki litla þolinmæði, er stjórnsöm en á erfitt með að lynda við fólk. Vansæl og óhamingjusöm, hafði þó vit á að leita sér hjálpar og náð smám saman tökum á lífi sínu.

Einn af harmleikjum lífs hennar er að velja sér menn sem fara illa með hana. Þau fáu skipti sem hún tók saman við blíða menn, reyndi hún að fá þá til að meiða sig. Þegar það tekst, segir hún: "Þú ert bara eins og allir aðrir."

Ein af systrum hennar er geðklofa og bræður hennar eru heldur ekki heilbrigðir. Hún styður þau. Einn dag, þegar ógæfan varð meiri en hún gat borið, spurði hún vinkonu sína: "Af hverju kemur þetta allt fyrir mig? Ég er ekki vond kona!" Hún vill vera góð manneskja. Hún er ekki allra, vill ekki vera allra, en hún vill samt sem áður vera álitin góð kona. Undir hrjúfu yfirborði slær hjarta, innst inni er hún elskuverð og góð manneskja.

Ef sjálfsmynd hennar brestur, hvað gerist þá? Hvað ef hún áttar sig á því að hún er ekki góð þegar kemur að elskhugum sínum? Hvað ef hún áttar sig á því að hún gengur of langt í samskiptum við annað fólk, sem hún meiðir með framkomu sinni? Hvað ef hún fer að hugsa, ég á örlög mín skilið, ég er í raun alger tæfa, vond kona? Hvað gerist ef sjálfsmyndin brotnar?

Ég get ekki grennslast dýpra í sálarlíf hennar, en ég get sett mig í hennar spor að þessu leyti. Það skiptir mig máli hvað annað fólk finnst um mig. Það meiðir mig þegar ég hef það á tilfinningunni að ég stend ekki undir nafni, stend ekki undir væntingum mínum eða annarra. Verst af öllu er ef ég fæ ekki að sanna ágæti mitt, að fá ekki að sýna að ég er ágætur, þrátt fyrir fyrstu kynni.

Texti dagsins snertir við þessu þegar segir: " Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. ... Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði." (Matt. 12)

Líkingamálið er skýrt, ekki satt? Það er sama hvað blóðugur harðstjórinn talar fallega til okkar, sýnir sig í jákvæðu ljósi eða skrifa fallegar sögur, við trúum honum ekki, getum ekki trúað honum. Vont tré, vondur maður, vondar gjörðir og vondur tilgangur . Þetta er dálítið eins og að fara um veg. Til þess að komast til Keflavíkur, verður maður að fara af Hringveginum, nr. 1 og fara á Reykjanesbrautina, nr. 41. Hringvegurinn er ágætur til síns brúks, ef halda á til Egilsstaða, eða Akureyrar. En það er sama hversu mikið við gerum fyrir hringveginn, hversu vel honum er við haldið og hversu vel umferðin gengur á honum, hann leiðir okkur aldrei til Keflavíkur (eða Ísafjarðar ef því er að skipta).

Það er ekki eins og hlutirnir séu svartir og hvítir, þegar kemur að gæsku eða vonsku okkar. Kona verður ekki vond þótt hún misstígi sig, meiði fólk með orðum og gjörðum. Maður verður ekki góður þótt hann geri góða hluti. Vondur maður getur gert góðverk, en þau gera hann ekki góðan. Það er sama hversu mörg börn hann kyssir eða mikið fé hann gefur til góðgerðarmála. Hann verður ekki góður maður fyrir svoleiðis. Ég held hinsvegar að kona sú sem ég nefndi til sögunnar, hún sé í raun góð. Hún leggur rækt við systkini sín, leitast við að bæta sig og leitast jafnvel við að auka skilning sinn á því hvernig stendur á ógæfu hennar. Hún beygði af hringveginum í átt að Keflavík. Það að hún ekur eftir malarvegi, gerir hana ekki vonda. Leiðin er erfið, en hægt er að komast til Keflavíkur um Krísuvík eða um Reykjanestána. Það skiptir máli að vera á réttri leið.

Þegar öllu er á botninn hvolft er það þannig að þegar við hættum að reyna að bæta okkur, þegar við höldum að við höfum skilið lífsins leyndarmál og þurfum ekki að bæta okkur meir, þá glötumst við. Bílstjóri sem er viss um að vera á réttri leið, spyr ekki til vegar, þótt hann sé villtur. Eins gott að hann sé læs á umferðarmerki og snúi við, þegar hann áttar sig. Á vegi lífsins heitir það að átta sig og snúa bifreiðinni við, að iðrast og gera yfirbót. Biðja miskunnar og bæta fyrir brot sín. Hefja nýtt líf, að endurfæðast. Frelsast. Njóta miskunnar Guðs og manna.

Mig langar að nota síðustu augnablik þessarar prédikunar til að horfa uppúr sálarlífi konunnar og vegferð bílstjórans og líta á þann veg sem samfélag okkar ekur eftir. Þegar við lítum um öxl má líkja íslensku samfélagi við kappakstursbíl eða rallýbíl sem hefur flogið eftir vegi alla síðustu öld. Úr torfkofa í háhýsi, frá sjálfsbjargarbúskap til stóriðju, alþjóðaviskipta og kauphallar, frá fátækt til ríkdæmis. Þessi bifreið gengur ekki fyrir díselolíu heldur er mér nær að halda að V-Power frá Shell sé eldsneytið sem knýr hana. Kraftmikið, blýlaust og eins hreint og hægt er að hafa það. Bensín sem kemur bifreiðinni hæglega á þriðja hundrað kílómetra, þar sem hún fer á leið sinni eftir Reykjanesbrautinni, fjórbreiðri. Mikill hraði. Gott er að vera fljótur á leiðarenda. En hraðinn er verði keyptur, sjónarsviðið þrengist, við sjáum ekki mikið meira en það sem framundan er, sjáum ekkert út á kantana.

Hvað gleymist? Hröð uppbygging á grunni ábatans hefur kostað okkur sumt af félagslegri stoð sem hefur byggst upp af almannafé. Það þarf aðeins að líta til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, til sumarlokana skurðdeildar og fæðingardeildar til þess að skilja hvað ég er að fara. Það er ekki hagkvæmt að reka sjúkrahús á Suðurnesjum á sumrin, ódýrara er að aka fólki til Reykjavíkur ef skera á upp eða fæða barn. Hvar þetta fólk á að liggja er vandi LSH, sem er löngu orðið yfirfullt. Aukinn hraði okkar blindar okkur fyrir puttalingum í vegkantinum, sem misstu rútunni og eiga ekki fyrir einkabíl.

Það er gott að búa í landi sem býr við velmegun, en ekki ef velmegunin skilur eftir fleiri og fleiri án bjarga. Spurning Jónasar Hallgrímssonar, Fjölnismanns, fyrir nær 200 árum síðan er í raun spurning dagsins í dag: "Höfum við gengið til góðs, götuna frameftir veg?"

Á tímum Jónasar upphófst þjóðarvakning og sjálfstæðisbarátta sem gekk gegn hagsmunum fárra; góðbænda og verslunarmanna sem áttu mikið undir konungdæminu. Í dag beinast þessi orð gegn þeim sem fara með landsins auð eins og hann væri þeirra fengur. Þeirra sem stjórna byggð og eyðingu byggðar með innblásnir af gróðavon án tillits til mannauðs. Gott tré hefur góðan ávöxt, vond kerfi geta skilað hagnaði, en kostnaðurinn gleymist, sem er metinn í sársauka og verður ekki bættur.

Það er ekki svo gott að ég, sóknarpresturinn hafi svar við vanda landsins, sem á stundum hugsar meir um næstu krónu sem hægt er að græða en náungann sem hægt er að bjarga. En þar kemur að þér og mér, að horfa í kringum okkur með þeim augum, sem sjá það sem fellur af bílpallinum og þann stendur við vegbrúnina og kemst ekki með.

Gott tré verður ekki vont, þótt það beri einstaka vondan ávöxt. Vont tré má bæta, svo fremi sem því er ekki snúið gegn tilgangi sínum. Það væri ófyrirgefanleg synd að spilla góðu tré. Það er ófyrirgefanlegt að bæta ekki vont tré.

Höldum vöku okkar og látum hraðann ekki spilla sjónum okkar. Dýrð sé Guði, um eilífð. Amen

Prédikunin var flutt 12 sd. eftir þrenningarhátíð 2005 í Kálfatjarnarkirkju