Talað um sársauka

Talað um sársauka

Þetta, að lifa á tímum þar sem hægt er að deyfa sársauka er – svo fundið sé títtnotað orð – fordæmalaust. Þrautir hafa alltaf verið stór þáttur í lífi fólks, lífi sem var miklu þjáningarfyllra og styttra en það er á okkar dögum.

„Ertu hraustur?“ Já, þarna sat ég í stólnum með ljósið í augunum, á tannlæknastofunni, í öllu varnarleysi en um leið umlukinn því besta sem nútíminn hefur upp á að bjóða.


Það besta við samtímann


Og sá sem hélt á bornum spurði mig hvort ég væri hraustur. „Uuu já“ svaraði ég, á þrítugsaldri þegar þarna kemur sögu og stoltið hefur varnað mér því að svara neitandi. „Þá þarf ég ekki að deyfa þig“, sagði sá grímuklæddi og byrjaði að spóla í burtu á mér gamlar og úrsértuggnar fyllingar.

 

Í mínum huga er tannlæknastóllinn eitt af sigurmerkjum okkar daga. Sú staðreynd að unnt er að framkvæma sársaukalausar aðgerðir, á þessu viðkvæma svæði sem munnurinn er, segir mér að ég sé lánsamur að hafa fæðst á þessum slóðum, á þessum tímum. Lofið fær reyndar heilbrigðiskerfið allt. Þetta var auðvitað undantekningin frá reglunni, sem ég sat þarna á nálum um að nálin færi of nálægt taug.

 

Ég kæri mig líklega kollóttan um margt það annað sem samtíminn færir okkur. Um tæknina sem nýtist við afþreyingu, ég gæti verið án skreppitúra til útlanda og mig grunar að bróðurpartur starfa samtímans standi og falli með því að fólk fær áhuga á einhverju nýju, fær svo leið á því sama og svo fær það áhuga á einhverju öðru. Þetta tryggir hringrás atvinnulífs en fer hörmulega með plánetuna okkar og þar með framtíðarhorfur komandi kynslóða. En þegar kemur að umönnun þessa musteris sem líkaminn er þá stendur mér ekki á sama.


Á réttum stað á réttum tíma

 

Já ég þraukaði í stólnum. Næst þegar ég átti tíma fékk ég sömu spurningu og ég heyrði sjálfan mig játa því að ég væri hraustur. Og viðbrögðin voru þau sömu: „Þá þarf ég ekki að deyfa þig.“ Aftur kreisti ég armbríkurnar á stólnum, í hvert sinn sem mér fannst ýlfrandi borinn orðinn of nærgöngull.

 

Þetta, að lifa á tímum þar sem hægt er að deyfa sársauka er – svo fundið sé títtnotað orð – fordæmalaust. Þrautir hafa alltaf verið stór þáttur í lífi fólks, lífi sem var miklu þjáningarfyllra og styttra en það er á okkar dögum. Margar frásagnir eigum við úr mistri fortíðar sem lýsa hlutskipti fólks gagvart þessum málum. Hallgrímur Pétursson lýsir til að mynda grimmu dánarstríði Steinunnar dóttur sinnar. Í frumbernsku hefur líklega verið þjökuð af lungabólgu, enginn fékk neitt við ráðið og barnið andaðist. Ef við höldum að sorg hafi ekki níst fólk hér forðum þá nægir að lesa viðbrögð skáldsins við þeim harmadauða: „Sorg hans var stærri en hafið“ orti Snorri Hjartarson um þá atburði.

 

Hallgrím hefur ekki skort innsæið þegar hann orti sálmana sem hann nefndi Historíu pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Krists, sjálfa Passíusálmana. Þeir eru lesnir um þetta leyti árs og passía merkir í þessu samhengi einmitt þetta – þjáning og þraut.

 

Sögur af þessum toga sitja í minninu. Nú fyrir skömmu heyrði ég lýsingu á því að þegar annar Grimm bræðra – þeir sem ævintýrin eru kennd við – var á barns aldri og það þurfti að fjarlægja úr honum botnlangann. Hver var deyfingin? Jú, móðir hans sagði honum ævintýri sem barnið hlýddi niðursokkið á, meðan læknirinn eða líklega fremur bartskerinn, framkvæmdi aðgerðina.

 

Já, það er gott að vera uppi á réttum stað á réttum tíma. Og nú þegar við klöppum saman lófunum fyrir heilbrigðisstarfsfólki fer vel á því að hugleiða hversu ómetanlegur sá hópur er hvernig sem á málin er litið. Eins og ég segi, það mætti svipta mig æði mörgu af svokölluðum lífsgæðum samtímans bara meðan þessi mál eru í lagi. Guð blessi störf þessa fólks og gefi ráðamönnum vit og kjark til að umbuna þeim sem skyldi.


Sársauki annarra

 

En nú hér í upphafi dymbilviku langar mig að ræða um sársaukann sem hreystimennið ég fékk agnarlítinn snert af þarna í stólnum forðum daga. Sársauki okkar flestra er í sögulegu lágmarki en samt er hann ríkur þáttur í skynjun okkar. Það er að segja sársauki annarra sem við fylgjumst með í gegnum fréttir og aðra frásögn. Þá er merkilega stór hluti af því sem við fylgjumst með til að stytta okkur stundirnar tengt þrautum og barningi af einhverjum toga.

 

Ég leyfi mér að giska á hver ástæða þess er, að efni þetta fer svo víða, á svo greiðan aðgang að okkur, sem gætum svo hæglega skipt um rás og beint athygli okkar annað. Þrautir og voði eru einhverjir áhrifamestu kennarar sem mannkyn hefur eignast og það hefur mótað okkur meira en flest annað. Deyfingar eru aðeins eitt dæmi um afrakstur þessa. Lífs- og sjálfshjálp okkar væri óhugsandi ef ekki væri fyrir þennan fylgifisk þess að lifa og vera til, nefnilega sársaukann.

 

Fyrir vikið eru frásagnir af óhæfuverkum og þrautum sem að þeim stafar, eins og segull á athygli okkar. Rithöfundurinn Susan Sonntag lýsir þessu í bók sinni: ,,Um sársauka annarra.“ Að mati hennar erum við, andspænis þrautum systkina okkar, eins og sálmaskáldið á Hvalsnesi með óhuggandi barnið í fanginu, hjálparlaus þegar kemur að þessum þjáningum, en þær leita á okkur.

 

Við deilum þessari veröld með öðru fólki en verðum um leið vitni að botnlausum harmi. Myndir og myndbrot birta okkur innsýn í annan og verri heim og lýsa þó aðeins litlum hluta af þeim raunveruleika. Þeim sem festur er á filmu eða tekinn upp og svo er hann sniðinn til og sendur út til okkar. Sonntag ræðir það hvernig við skautum á milli frétta af hörmungum um víða veröld. Það ætti að vera eðlilegt að forðast slíkar myndir í heimi þæginda og allsnægta en þær draga okkur samt að sér.

 

Við sem þekkjum ekki ógnir stríðs af eigin raun, getum ekki að endingu sett okkur í spor þeirra sem þarna eiga í hlut en myndirnar leiða okkur samt áfram. Þetta er það sem fréttirnar reyna að opna fyrir okkur. Við getum lært og þroskast af þessum þrautum, reynt að dýpka skilning okkar á því hvaðan mannvonskan er sprottin. Við sáum í fyrstu myndir frá Wuhan í Kína, svo frá Norður Ítalíu og nú er líf okkar allra mótað af þessum sama veruleika. Samfélagið verður aldrei eins.


Dymbilvika

 

Og hann er einmitt leiðarstef þeirrar viku sem nú er hafin – dymbilvikunnar. Sagt er að hér forðum hafi meðhjálparar og kirkjuhaldarar átt við kirkjuklukkurnar þegar þessi tími var genginn í garð. Þeir skiptu út járnhólknum sem lamdi í skelina svo undir tók í sveitinni. Í staðinn settu þeir trékylfu, eða dymbil, sem gaf frá sér veikari hljóð. Af þessum sið stafar heiti þessarar viku. Það var í anda þess þar sem fólk hugleiddi hinstu daga Jesú þar sem birtist okkur sú mynd af fórn þess sem saklausa mátti líða þunga þrautir.

 

Því þessi tími passíunnar er einn langur óður til hluttekningar og samlíðunar. Texta dymbilviku, þess tíma sem er framundan í kirkjunni, má lesa á ýmsa vegu. Hér staldra ég við þær sterku tilfinningar sem birtast í þessum frásögnum. Nú á pálmasunnudag er það vandlæting Júdasar og svo fögnuðurinn sem mætti Jesú er hann kom til Jerúsalem. Hann var hylltur sem konungur en sjálfur var hann ólíkur slíkum hefðarmönnum. Það sjáum við meðal annars á fararskjótanum sem hann valdi sér – þessum asna sem sagt er frá í textanum.

 

Síðasta kvöldmáltíðin á skírdagskvöldi lýsir brotnu samfélagi. Það er merkilegt að máltíðin – sem í hinu forna Ísrael þótti endurspegla sjálft guðsríkið – verður umgjörð um svik og ofbeldisverk. Föstudagurinn langi er svo dimm hugleiðing um þjáningu og dauða. Hvort tveggja er fylgifiskur þess að lifa og elska og kynslóðirnar sem hafa íhugað þennan texta hafa fundið fyrir því hvernig Kristur mætir þeim í þeirra eigin þrautum. Og fólkið sem hafði áður hyllt Jesú snerist gegn honum: „Krossfestið hann!“ hrópaði lýðurinn. Fagnaðarlætin sem ómuðu við innreið Jesú í borgina helgu verða innantóm þegar þau eru túlkuð í því samhengi.

 

Allir textar dagsins eiga bakgrunn sinn í mótlæti. Sakaría stendur í rústum sigraðrar borgar og hvetur til uppbyggingar. Páll postuli er fangi og hefur áhyggjur af söfnuði sínum. Og hér er að sama skapi hersetið samfélag og dimmir atburðir eru fraumundan.


Passía

 

Hér stend ég í nánast tómu kirkjuskipi og flyt þessi orð. Vorið í kirkjunni er svo gerólíkt því sem við væntum í öllum okkar áformum. Þannig er það líka í lífi ykkar sem hlýðið á, já fyrir mannkyn allt. Hversu brothætt er þessi tilvera okkar? Okkar sem lifum á tímum þar sem litið er á sársaukaleysi sem mannréttindi. Þeir tímar eru fullir af þverstæðum. Fjöldi fólks er háður neyslu á ópíóðum og lyfjum sem deyfa tilfinningar, minnka næmi okkar fyrir umhverfinu, því okkur er talin trú um það að þrautir séu eitthvað til að forðast. Samt leitar auga okkar uppi myndir af sársauka annarra og hann birtast okkur á ýmsum stöðum eins og dæmin sanna.

 

Þessi heimur okkar er flóknari en veröld Hallgríms Péturssonar og Grimm bræðra og þeirra annarra sem lifðu á sömu jörð en á verri tímum. Okkar veröld er veröld breytinga, þar sem hrörnunin er örari og óvægnari en nokkru sinni fyrr. Verkefni okkar verður að geta lagað okkur að þessum breytingum – sem kunna á mörgum sviðum að verða til afturfara eins og við höfum kynnst nú síðustu vikurnar. Þá kann að fara svo að tímalaus boðskapur Biblíunnar sem hefur staðið af sér mannvirki, heimsveldi og ótal hugmyndir, verði okkur sá nægtarbrunnur sem ekki þrýtur. Þótt flest annað sé ofurselt hverfuleikanum stendur fagnaðarerindið eftir óhaggað og það miðlar okkur tímalausum sannindum.

 

Sögurnar sem bíða okkar komandi daga eru hluti af þeirri frásagnarhefð. Þar birtist okkur passían, þjáningin í allri sinni dýpt. Og þar mætir okkur sjálft páskaundrið sem miðlar okkur þeirri trú að myrkrið sé aldrei svo svart að þar sem ljósið nái ekki að skína að nýju.

 

Nú þegar við stöndum frammi fyrir nýrri stöðu í lífi okkar er dýrmætt að hugleiða reynslu kynslóðanna sem hefur mótast í gegnum reynslueld mótlætis af öllum mögulegum toga. Afrakstur þeirrar reynslu birtist okkur í sjálfum okkur. Og þar er líka mestur lærdómur sem við getum sjálf aflað. Mótbyrinn, þrautirnar, höfnunin, særindin – þetta getur brotið okkur niður og sett okkur á verri stað. En ef við tökum á móti því með þeirri auðmýkt sem birtist okkur í fari þeirra leiðtoga sem hér hefur verið fjallað um, verður það okkur til blessunar.

 

Já, og í þriðja sinnið sem ég settist í stólinn hjá tannlækninum mínum ónafngreinda spurði hann mig eins í fyrri skiptin: ,,Ertu hraustur?" Ég hristi höfuðið. ,,Nei, ég er ekki hraustur." - „Nú, þá deyfi ég þig“. Þegar ég svo var búinn að skola munninn, feginn því að síðasta heimsóknin var senn á enda þá spurði ég hann, nei ég fullyrti: ,,Þú lætur náttúrulega aldrei deyfa þig.“ - „Ég?“ svaraði hann, „ég sest ekki í stólinn ódeyfður.“