Orð Guðs gefur styrk og huggun

Orð Guðs gefur styrk og huggun

Fyrir kristna menn er óhugsandi að halda sér við trúnna og þau gildi sem hún boðar nema huga að rótunum, orði Guðs. Það talar til okkar í öllum aðstæðum lífsins.

2. su. í níuviknaföstu, Biblíudagurinn, 8. febrúar 2015.

Við skulum biðja: Drottinn Guð. Þökk sé þér fyrir þitt lifandi og kröftuga orð. Orðið, sem leiðbeinir, styrkir, huggar, nærir. Við biðjum þig hjálpa okkur að tileinka okkur það og minnast systkina okkar, sem þyrstir í Orðið en hafa ekki aðgang að því. Hjálpa okkur að hjálpa þeim að eignast Biblíuna á þjóðtungu sinni, í Jesú nafni. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Við sátum saman og horfðum á sjónvarpið. 2 konur af sitt hvorri kynslóðinni, frá sitt hvorum heimshlutanum og af sitt hvorum trúarbrögðunum. Við horfðum á mynd um Jósef og bræður hans, sem sagt er frá í 1. Mósebók í Biblíunni. Hún þekkti söguna af þeim bræðrum ekki síður en ég, hafði lesið hana í sinni trúarbók, Kóraninum. Gyðingar þekkja líka þessa sögu, enda er 1. Mósebók hluti af þeirra trúarbók, eins og okkar. Fyrir mér var þetta uppgötvun. Ég hafði ekki áttað mig á því að í Kóraninum væru sögur sem við þekkjum úr Gamla-testamentinu. Þá fann ég hvað við mannfólkið eigum margt sameiginlegt annað en eðli okkar og kærleiksþörf. Við áttum líka eitthvað sameiginlegt í trúnni. Við lesum sögurnar sem oftar en ekki fjalla um málefni sem við erum að glíma við í dag. Sagan um Jósef og bræður hans er dæmi um það, því hún fjallar ekki aðeins um mannlegar kenndir, heldur einnig um þekkt málefni dagsins í dag. Og þannig er það með margar sögur í Biblíunni. Þær kynslóðir sem lærðu Biblíusögur í barnaskólanum ættu að kannast við margar þeirra. Við erum ekki öll eins, sjáum hlutina ekki eins, skynjum ekki veröldina á sama hátt, túlkum það sem við lesum og reynum á mismunandi hátt. Það gildir líka um kristið fólk. Við eigum trúna á Jesú Krist sameiginlega, en við túlkum ekki textana í Biblíunni endilega á sama hátt. Setjum líka mismiklar áherslur á textana. En við eigum hina helgu bók sameiginlega, Biblíuna. Í dag er hennar dagur í kirkjunni okkar. Biblíudagurinn, þegar við höldum Biblíunni á lofti og minnum okkur á að lesa hana og tileinka okkur boðskap hennar. Árið 2015 er sérstakt Biblíuár hér á landi, því þann 10. júlí næstkomandi eru 200 ár liðin frá því Hið íslenska Biblíufélag var stofnað. Félagið var stofnað af frumkvæði skosks prests, sem kom hingað til lands færandi hendi með Biblíur frá breska og erlenda Biblíufélaginu enda var Biblían þá ekki almenningseign hér á landi, þó hún hafi verið þýdd á íslenska tungu og fyrst gefin út meira en 200 árum fyrr. „Biblían hefur algjöra sérstöðu í heimi bókmenntanna. Engin bók hefur náð meiri útbreiðslu en hún og haft víðtækari áhrif á trú, sögu og menningu fjölmargra þjóða um allan heim. Biblían er trúarbók 2 milljarða manna. Skáld, rithöfundar, myndlistarmenn og tónlistarmenn hafa með list sinni sótt hugmyndir og túlkað boðskap Biblíunnar. Íslendingar og íslensk menning er engin undantekning á því“. (biblian.is) „Biblíufélagið er ekki bara elsta félag landsins heldur eitt af elstu Biblíufélögum í heiminum. Hið íslenska Biblíufélag hefur haft það markmið að vinna að útgáfu og útbreiðslu Biblíunnar á Íslandi, sjá til þess að Biblían sé ætíð fáanleg á aðgengilegri íslensku og stuðla að lestri hennar. Íslendingar voru á meðal 20 fyrstu þjóða heims sem fengu Biblíuna alla á eigin þjóðtungu“. (biblian.is)

Biblían er Guðs orð og textarnir sem lesnir voru hér í dag fjalla um það orð. Þar segir „Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“ Því er haldið fram í orðræðu dagsins og kristni og áhrif hennar fari þverrandi á meðal þjóðarinnar. Við skulum hafa það í huga að þrátt fyrir að allt hafi sinn tíma, mun orð Guðs aldrei þverra. Það mun alltaf lifa og hafa áhrif á fólk sem meðtekur það. Það orð mótar viðhorf og lífsstíl, enda er hugarfarið grundvöllur að lífsviðhorfi og framgöngu allri í lífinu. Kristið lífsviðhorf er fullvissa um það að Guð hafi fyrirætlanir til heilla fyrir líf okkar og muni vel fyrir sjá, hvað svo sem á dynur í lífi okkar. Orð Guðs gefur styrk og huggun, það leiðbeinir og gefur kjark og djörfung og síðast en ekki síst er orð Guðs lifandi og kröftugt og beittar hverju tvíeggjuðu sverði eins og kemur fram í pistli dagsins. „Boðskapur Biblíunnar á erindi við okkur í dag. En boðskapurinn á líka erindi til komandi kynslóða. Komandi kynslóðir þurfa líka að fá að heyra um Jesú,  kynnast Biblíunni og læra hvernig Biblían hefur haft áhrif á sögu okkar, tungumál og menningu“.  (biblian.is)

Orðið á mismunandi greiðan aðgang að hjörtum okkar. Um það fjallar dæmisagan sem lesin var úr Markúsarguðspjalli hér í dag. Sagan sú á sér hliðstæður í guðspjöllum Matteusar og Lúkasar þar sem Jesús sjálfur útskýrir dæmisögurnar, sem honum var tamt að nota til að koma boðskap sínum á framfæri. Hann segir frá sæði sem sáð var í jörð. Jarðvegurinn er misjafn, en þar sem sæðið festir rætur vex það af sjálfu sér og gefur ávöxt án allrar aðkomu þess er sáði því.

Eins er því varið með Guðs orð. Við höfum aðgang að því á okkar eigin tungumáli. Við höfum aðgang að því í bókinni, Biblíunni og á alnetinu. En lesum við það? Tileinkum við okkur það? Það eru margir sem þrá að eiga Biblíu og geta lesið hana. Á Biblíudaginn er safnað fyrir verkefnum til stuðnings trúsystkinum okkar í öðrum löndum. Í ár er safnað fyrir Biblíufélagið í Havana á Kúpu. Raiza er þrítug kona þar í landi. Hún er starfsmaður Biblíufélagsins í Havana. Hún segir: „Sjálf fékk ég fyrstu Biblíuna mína þegar ég var 11 ára. Á Kúbu er mikill skortur á Biblíum. Þess vegna eru mörg biblíufélög í heiminum að taka höndum saman og safna Biblíum fyrir Kúbu.  Verkefnið heitir ,,Ein milljón Biblía til Kúbu’’ og mun standa yfir í þrjú ár. Biblíufélagið á Íslandi tekur þátt í þessu verkefni eins og áður segir og á biblíudaginn verður sérstaklega safnað fyrir þessu verkefni í kirkjum og söfnuðum landsins“. (biblian.is)

Juan Ruiz biskup, tekur undir þörfina fyrir Biblíur á Kúbu.  - Það er næstum ómögulegt að skilja að það séu til kristnir sem ekki þekkja Biblíuna eins og hún er ríkur þáttur í okkar menningu, segir hann. Biblían er grundvöllur kristinnar trúar og fyrir trúarlíf sérhvers kristins manns. Orð Guðs virkar í lífi fólks. Hjá kristnu fólki er Biblían eins og súrefni fyrir lungun!“ segir biskupinn. (biblian.is)

Það er ekki hægt að lifa nema hafa súrefni fyrir lungun eins og við vitum. Fyrir kristna menn er óhugsandi að halda sér við trúnna og þau gildi sem hún boðar nema huga að rótunum, orði Guðs. Það talar til okkar í öllum aðstæðum lífsins. Fyrir tveimur vikum var haldið Biblíumaraþon í söfnuðum landsins. Það var hvatning á afmælisári til að heyra texta Biblíunnar og tileinka sér þá. Það er góð leið til að gera Biblíulestur að daglegri iðju að taka þátt í slíku maraþoni. Það kemur á óvart hvað textarnir tala inn í samtímann. Jesús talar í guðspjallstextanum um guðsríkið og líkir því við mustarðskorn, sem er agnarsmátt en verður að stóru tré. Þannig er það einnig með orð Guðs. Það kann að þykja óskiljanlegt og framandi í fyrstu. Smám saman kemur þó skilningurinn og þörfin fyrir að heyra það og lesa. Að lokum verður það í lífi okkar sem stórt tré með stórum greinum. Tré, sem skýlir okkur fyrir votviðrum lífsins og kennir okkur æðruleysi og auðmýkt gagnvart lífinu. Boðskapur Jesú Krists er okkur mikilvægur. Hann lætur ekki alltaf vel í eyrum, því hann agar, jafnframt því að veita styrk og leiðsögn. Á dimmum og döprum dögum reynist mörgum vel að draga mannakorn og leyfa því að tala til sín og veita leiðsögn inn í daginn. Það gera reyndar fjölmargir alla daga ársins, hvernig svo sem stendur á í lífi þeirra.

Eina konu þekki ég sem var í vanda stödd. Hún hafði miklar áhyggjur af því hvernig hún kæmist af, því hún sá enga leið framundan í peningamálum sínum. Hún var orðin svo áhyggjufull að hún var búin að ákveða að selja íbúðina sína en vissi ekki hvar hún myndi eiga heima að því loknu. Hún hafði verið alin upp í kristinni trú. Henni voru kenndar bænir og brýnt fyrir henni að Orðið, með stórum staf, orð Guðs væri máttugt. Svo hún fór í kassann góða með mannakornunum sem sonur hennar átti, en í honum voru Biblíuorð, ein ritningargrein á hverjum miða. Hún dró miða dag eftir dag, kvöld eftir kvöld og alltaf fékk hún miða með hvatningar- og styrkingarorðum. Guð er góður, Guð er kærleiksríkur, Guð er miskunnsamur. Hún reyndi að treysta þessum orðum og þau gáfu henni þann styrk sem hún þurfti á að halda til að takast á við verkefni dagsins og takast á við bága fjármálastöðu sína. Dag einn hringir síminn. Hún hafði unnið dágóða upphæð í happdrætti. Sú upphæð dugði til að borga skuldir sem voru áhyggjuefni hennar og enn dró hún miða úr kassanum góða. Þá kom upp miði hvar á stóð: "Þakkið Drottini því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu"

Neyðin rak þessa konu til að treysta Guði. Hún sá enga aðra leið út úr vandræðum sínum en að treysta Guði og sem betur fer gat hún það. Hún reyndi að halda ró sinni og fá styrk af orði Guðs. Það gaf henni frið í hjarta til að takast á við vandann og treysta því að Guð myndi vel fyrir sjá. Og við höfum oft heyrt þessi orð: Vegir Guðs eru órannsakanlegir og það fékk þessi kona að reyna. Það þarf nefnilega bæði trú og traust til Guðs og sálarfrið til að geta tileinkað sér orð postulans, sem einnig standa í hinni helgu bók: "Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður" Þó allt annað bregðist í heimi hér, grasið visni, blómin fölni, þá varir orð Guðs að eilífu. Því megum við treysta, á það megum við trúa. Fögnum því tækifæri sem afmælisárið er til að kynnast betur orði Guðs og því sem það færir okkur.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.