Skipun prests, frá auglýsingu til ákvörðunar

Skipun prests, frá auglýsingu til ákvörðunar

Ferlinu var því ekki lokið þegar ákvörðun var tekin um að auglýsa aftur. Sú ákvörðun var tekin eftir fund biskups með valnefndinni. Er það bæn biskups að farsæl lausn náist sem sóknarbörn og umsækjendur eru sátt við.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
06. júní 2014

Prestar eru skipaðir í embætti í Þjóðkirkjunni eftir ákveðnum reglum sem kirkjuþing hefur sett. Biskup Íslands skipar í embættið að undangenginni vinnu valnefndar prestakallsins, sem hefur það hlutverk að meta einn úr hópi umsækjenda sem hæfastan til að gegna embættinu. Valnefndin er ekki aðeins bundin af þessum starfsreglum um val og veitingu prestsembætta, heldur verður hún einnig að starfa eftir lögum, s.s. þjóðkirkjulögunum og stjórnsýslulögunum. Einnig ber henni að virða jafnréttislög og jafnréttisstefnu Þjóðkirkjunnar. Starf valnefnda er því ærið og ábyrgðin mikil. Tekin hefur verið saman handbók fyrir valnefndir til að auðvelda þeim störfin.

Valnefnd er ekki bara valnefnd heldur er hún einnig hæfisnefnd. Hún verður að meta guðfræðimenntun, starfsreynslu, starfsferil, hæfni til boðunar, hæfni til sálgæslu, samskiptahæfni, sérstök skilyrði samkvæmt auglýsingu, aðra menntun og aðra starfsreynslu. Einnig þarf nefndin að taka tillit til frammistöðu í viðtalinu, leiðtogahæfileika, framtíðarsýnar og reynslu og hæfni í stjórnunarstörfum. Það er því ekki bara hvað hverjum og einum finnst um umsækjanda sem taka verður tillit til heldur margt annað. Það fara e.t.v. ekki alltaf saman vilji nefndarmanna og hæfi umsækjanda miðað við atriðin sem eru til skoðunar. Þess vegna getur komið upp sú staða að valnefndin kemst ekki að niðurstöður eða að hún kemst að niðurstöður sem ekki er reist á lögmætum sjónarmiðum.

Þegar valnefnd hefur lokið störfum sendir hún fundargerð til biskups, þar sem rökstuðningur fyrir valinu kemur fram. Einnig fær biskup skýrslu lögfræðilegs ráðgjafa nefndarinnar. Biskup fer yfir öll gögn málsins og fullvissar sig um að niðurstaða valnefndar sé reist á lögmætum sjónarmiðum. Sé svo ekki getur biskup skipað í embættið þann sem hann metur hæfastan, framlengt umsóknarnfrest eða ákveðið að auglýsa embættið að nýju.

Nú hefur það gerst að biskup Íslands, sem er það stjórnvald er skipar í embættið, féllst ekki á niðurstöðu og rökstuðning valnefndar í Seljasókn út frá þeim lögum og reglum sem taka þarf tillit til. Ekki vildi biskup ganga gegn vilja meiri hluta valnefndar og þar með fulltrúa sóknarbarna sem þjónustunnar eiga að njóta og skipa prest sem þau hafa ekki valið. Ekki fannst biskupi það raunhæfur kostur að framlengja umsóknarfrestinn, heldur taldi biskup að síðast talda úrræðið væri ásættanlegt fyrir embættið og sóknarbörnin. Þess vegna var prestakallið auglýst aftur til umsóknar.

Umsækjendum hafði verið tilkynnt niðurstaða valnefndar prestakallsins en ekki hafði verið skipað í stöðuna. Ferlinu var því ekki lokið þegar ákvörðun var tekin um að auglýsa aftur. Sú ákvörðun var tekin eftir fund biskups með valnefndinni. Er það bæn biskups að farsæl lausn náist sem sóknarbörn og umsækjendur eru sátt við.