Vonarberar í Eurovision

Vonarberar í Eurovision

Í dag er dagur vonar. Vinum Sjonna og ekkju hefur tekist að vera vonarberar og boðberar lífs, mitt í öllu því erfiða. Mitt í sorginni standa þau á sviði í Dusseldorf og minna okkur á mikilvægi þess að njóta dagsins.

Vinir Sjonna á sviðinu í Düsseldorf

Í dag er komið að Eurovision keppninni 2011. Mörg höfum við beðið eftir þessari keppni með óþreyju eftir að ljóst var að Ísland yrði með. Pizzastaðir og snakkframleiðendur fagna meiri viðskiptum og stór hluti Íslendinga kemur sér fyrir í sjónvarpssófunum í kvöld.

Tíminn frá því íslenska lagið var valið sem framlag Íslendinga í keppnina hefur verið svolítið sérstakur. Það er akki alveg út í hött að segja að þetta hafi verið tími úrvinnslu og að sorgarferli hafi átt sér stað hjá mörgum.

Sviplegt andlát Sigurjóns Brink lét varla nokkurn Íslending ósnortinn og það var að mörgu leyti gott að lagið hans sigraði Söngvakeppni sjónvarpsins. Það þurfti nokkuð harðan skráp til þess að komast ekki við þegar vinir hans stigu á svið og fluttu lagið hans, honum til heiðurs. Sú ákvörðun að flytja lagið í forkeppninni hefur varla verið auðveld fyrir vini og fjölskyldu Sigurjóns en þessi ákvörðun var hárrétt því lagið hans hefur komist alla leið í aðalkeppnina og þessi vinna á án efa eftir að vera þeim hjálpleg í sorgarvinnunni.

Ég trúi því að velgengni íslenska lagsins sé mikilvæg fyrir sorgarúrvinnslu þjóðarinnar þ.e.a.s. þeirra sem fylgst hafa með þessum atburðum öllum. Þó svo að öll þjóðin syrgi ekki Sigurjón Brink persónulega þá syrgir hún það að ungur maður hafi látist snögglega í blóma lífsins. Það er alltaf vont að vera minnt á að það sem okkur yfirleitt þykir óhugsandi og ómögulegt, geti einmitt gerst þegar minnst varir. Þjóðin syrgir líka öll hin sem látist hafa fyrir aldur fram.

Í dag er dagur vonar. Vinum Sjonna og ekkju hefur tekist að vera vonarberar og boðberar lífs, mitt í öllu því erfiða. Mitt í sorginni standa þau á sviði í Dusseldorf og minna okkur á mikilvægi þess að njóta dagsins. Texti lagsins minnir okkur á að við vitum ekki hvenær röðin kemur að okkur.

Það er ómögulegt annað en að fyllast von um betri framtíð við að horfa á þetta frambærilega og einlæga fólk vera boðbera vonar, til minningar um góðan vin.

Ég óska vinum Sjonna alls hins besta í kvöld. Það skiptir þó engu máli í hvaða sæti þau verða því þau eru sigurvegarar.