Immanúel nærri

Immanúel nærri

Þetta er falleg ósk og bæn um að allt hið góða sé nærri, bæði undir og yfir og allt um kring sé andinn Guðs elskandi nærri.
fullname - andlitsmynd Bára Friðriksdóttir
05. desember 2017

Í einum af fallegustu sálmum okkar Nóttin var sú ágæt ein kemst Einar Sigurðsson í Eydölum svo að orði (v. 15):

Vertu yfir og undir hér,
Emmanúel, fagna eg þér,
á bak og fyr og í brjósti mér
og báðum hliðunum nærri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

Þetta er falleg ósk og bæn um að allt hið góða sé nærri, bæði undir og yfir og allt um kring sé andinn Guðs elskandi nærri. Og ekki bara bara það, það er bæn um að Guð sé í okkur í hugsun og tilfinningum. Með slíkri bæn er gott að taka á móti aðventu. Að biðja um að allt það góða sé í okkur og styðji okkur til beggja handa. Þess bið ég fyrir landi og þjóð og fyrir heimsbyggð allri.
Orðið Emmanúel eða Immanúel merkir Guð með okkur og vísar það til Jesú. Jólin sem við horfum fram til er tilvísun í Emmanúel. Latneska orðið Advent eða aðventa þýðir koma. Það er einhver að koma og við notum tímann til að undirbúa komu gestsins, undirbúa okkur til að taka á móti gestinum. Gesturinn er barnið litla í jötunni. Hugsið ykkur, barnið sem færir Guð til okkar, það verður heilög nærvera.

Gleðilega aðventu!
Með ósk um að við bjóðum Immanúel velkominn.