Endurminning frá horfinni tíð

Endurminning frá horfinni tíð

Að sönnu er þetta endurómur frá gamalli tíð en hver man ekki sín bernskujól og yljar sér við þær minningar. þegar fram líða stundir? Við lítum gjarnan til baka yfir gömlu göturnar og minnumst margra gleðistunda með ættingjum og vinum á jólum.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
26. desember 2015

Það er yndislegt að syngja Guði nýjan söng á öðrum degi jóla í Neskirkju í Aðaldal ásamt ungu fólki sem með framlagi sínu auðgar þessa messu. Ég veit að ég tala fyrir munn kirkjugesta í þessum efnum.

Jólanóttin og jóladagurinn er að baki. Hér í dalnum áttu húsráðendur heilagar stundir á jólum mann fram af manni með sínum fjölskyldum hlýddu á lesturinn og sungu Guði sínum nýjan söng undir skarsúðinni við logana frá kolunum sem voru fleiri en endranær. Allt var svo bjart og fallegt þegar heilög jól gengu í garð og hreint út úr dyrum.

Þá var jólafastan í heiðri höfð og fæðuvalið var ugglaust tekið úr matarkistunni hér í dalnum. Eins og nafnið ber með sér þá neitaði fólk sér um ýmislegt sem þá þótti sjálfsagt frá upphafi jólaföstunnar þar til hátíðin gekk í garð til að tyfta holdið minnugt þess að sælla er að gefa en þiggja. Gjafirnar voru kannski kerti og spil, fatnaður, sauðskinnsskór og aðrir nýtilegir hlutir, lök og sængurfatnaður með bryddingum. Næsta víst má telja að gjafirnar hafi komið að góðum notum og verið gefnar af glöðum og þakklátum gefendum.

Að sönnu er þetta endurómur frá gamalli tíð en hver man ekki sín bernskujól og yljar sér við þær minningar. þegar fram líða stundir? Við lítum gjarnan til baka yfir gömlu göturnar og minnumst margra gleðistunda með ættingjum og vinum á jólum.

Þegar ég var ungur drengur þá fór ég stundum í safnaðarheimili Langholtskirkju í Reykjavík á aðfangadagskvöld í bláu madrósafötunum mínum og söng jólasálmana hástöfum standandi á stól.Svo fór ég heim og fékk að opna harðan pakka og snerti englahárið sem þakti jólatréð og braut eina jólakúlu á jólatrénu. Mamma mín minnir mig stundum á þessar minningar með blik í augum þegar nær dregur jólum þegar hún horfir á son sinn sem hefur þjónað sem prestur á Húsavík í nærfellt 30 ár.

Á komandi ári verður hún níræð. Hún fæddist í torfbæ á suðurlandi og átti þar sínar helgustu stundir sem barn þegar jólahátíðin gekk í garð. Þegar faðir hennar las lesturinn á aðfangadagskvöld sem byrjaði svo: ,,En það bar til um þessar mundir.“ Lúk 2:1

Ég þarf nú ekki að leggja út af jólagjuðspjallinu með löngum lestri. Mér finnst meira gaman að fylgjast með börnum setja það á svið. Eitt sinn var barn í hlutverki gistihúseigandans sem tók hlutverk sitt mjög alvarlega og sagði við Maríu og Jósef að því miður væri allt fullt í gistihúsinu. Svo tóku áhorfendur eftir því að gistihúseigandinn varð skyndilega mjög leiður á svipinn og sagði skyndilega hátt og skýrt við Maríu og Jósef. ,,En, komið þið bara inn, þetta hlýtur að reddast.“ Þetta er líka endurminning frá gamalli tíð sem kallar fram bros og hlátur, já jólagleði.

Í aðdraganda jóla bendir kirkjan jafnan á forna spádóma í gamla testamentinu sem kristið fólk trúir að hafi verið vísanir til fæðingar frelsarans, Jesú frá Nasaret. Spámaðurinn Jesaja segir t.d. í 9 kafla rits síns: ,,Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla.” ( Jes. 9.6) Spádómar gamla testamentisins eru innblásnir af Guði og spámennirnir fluttu boðskap frá Guði. Þeir sem lögðu við hlustir eftir þessum boðskap á tímum gamla testamentisins varð ljóst að biðtími var runninn upp, biðtími sem rynni út þegar Messías kæmi en Messías er konungstitill. Margir gyðingar áttu síðan eftir að trúa því að Messías hafi fæðst í Jesú sem nefndur var hinn smurði, en nafnið Kristur er líka konungstitill. En hann kom ekki til að ríkja sem konungur á jarðnesku landi heldur í hjörtum mannanna, í hjarta mínu og þínu sem mál mitt heyrir.

Ég átti einu sinni ljósgeislamynd af Jesú sem ég fékk forðum sem barn í sunnudagaskólanum í Langholtskirkju og setti inn í lítið album sem ég varðveitti eins og gull. Myndin var af Jesú þar sem hann knýr dyra og heldur á lukt. Vafningsjurt þakti dyrnar. Það leit út fyrir að dyrunum hefði ekki verið lokið upp lengi. Það vakti líka eftirtekt mína að það var enginn snerill á dyrunum. Það er vegna þess að snerillinn er í okkar höndum. Það er okkar að opna dyrnar og bjóða hinum hæsta sem kom til okkar í saklausu barni, að ganga í bæinn og ríkja sem konungur í hjörtum okkar og vísa okkur veg um ókunnar slóðir inn í framtíðina.

Jesús, sem þekkti þessa gömlu lestra gamla testamentisins var eitt sinn beðinn á fermingardegi sínum að lesa úr spádómsbók Jesaja hjá sínu heimafólki í Nasaret. Hann valdi þetta vers: ,, Andi Drottins er yfir mér því að Drottinn hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, til að græða þá sem hafa sundurmarið hjarta, boð föngum lausn og fjötruðum frelsi, til að boða náðarár Drottins.“ Jes. 60) Svo lukti hann aftur bókinni og sagði: ,,Í dag hefur þessi ritning ræst í áheyrn yðar.“En hans eigið fólk trúði honum ekki og hann var hrakinn út úr þorpinu.

Einar Sigurðsson (1538-1628) prófastur frá Heydölum yrkir um þessa vantrú fólks í garð Jesú þegar hann segir í sálminum fallega sem við þekkjum svo vel og börnin sungu hér áðan : ,,Nóttin var sú ágæt ein, í allri veröld ljósið skein, það er nú heimsins þrautarmein, að þekkja hann ei sem bæri.“ En Einar gerir eina játningu sem við getum vaflaust flest tekið undir með honum þegar hann segir jafnframt í sálminum góða . ,,Þér gjöri eg ei rúm með grjót né tré, gjarnan læt ég hitt í té, vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér minn kæri. Með vísnasöng, ég vögguna þína hræri.“

Vissulega var allt jólahald fábreytilegra hér áður fyrr en fólk reyndi þó að gera sér dagamun, kannski þegar nær dró jólum. Á jólaföstunni voru hangikjötsbeinin kannski skafin inn að beini til að minna fólk á að forðast allt óhóf í aðdraganda jóla. Þá var jafnan reynt að líta til með fólki og málleysingjum til að fullvissa sig um að enginn skorti neitt þegar hátíðin gekk í garð. En næsta víst má telja að allt var gert hreint fyrir jólin og fólk lagðist undir hreint lín á jólanóttina.

Í eðli sínu er jólahátíðin alltaf hin sama. Það er aðeins umhverfið, vettvangur hátíðarinnar sem er breytilegur. Þess vegna eiga þeir sem eldri eru aðrar bernskuminningar um jólin og jólahaldið en þeir sem yngri eru að árum.

Margir minnast hinnar óþreyjufullu tilhlökkunar, þegar dagarnir voru taldir. Margir minnast hins dularfulla, hátíðlega og ósegjanlega sem gagntók hugann og hjartað, þegar stundin rann upp, aðfangadagskvöldið. Margir minnast yfirþyrmandi kyrrlátrar innri gleði í lágreistum bæ, í stofu undir skarsúð þar sem jólin voru inni í hverjum krók og kima. Minnast ljósanna sem loguðu björt í lágum snúðum, jólalestursins og sálmasöngsins.

,,Hvert fátækt hreysi höll nú er, því Guð er sjálfur gestur hér.” Allt þetta breiddi birtu blessunar og dýrðar yfir barnssálina og heillaði hugann.

Við yljum okkur jafnan við arinn minninganna þar sem bernskujólin eru rifjuð upp. Það gerði líka aldamótaskáldið Guðmundur Guðmundsson skólaskáld. Hann fæddist 5 september 1878 í Hrólfsskálahelli á Landi og lést úr spænsku veikinni 19 mars 1919 og hvílir í Hólavallagarði við Suðurgötu í Reykjavík. Hann var gæddur ljóðrænum hæfðileikum í svo ríkum mæli að undrun sætti hve létt honum lét að yrkja. Ljóðið fann ég í Skólablaðinu frá 1912. Ljóðið bregður upp fallegri mynd af því þegar jólin gengu í garð í torfbæ.

Með langþráðu kertin var komið inn, hann kveikti á þeim, hann pabbi minn um súðina birti og bólin Hann klappaði blítt á kollinn minn og kyssti brosandi drenginn sinn, þá byrjuðu blessuð jólin.

Þá tók hún úr kistu hún mamma mín Og mjúklega strauk það, drifhvítt lín Og breiddi á borðið við gluggann Á rúminu sátum við systkinin Þar saman við jólakveldverðinn En kisa skaust fram í skuggann

Svo steig ég með kertið mitt stokkinn við, og starði í ljósið við mömmu hlið. Hún var að segja okkur sögur af fæðingu góða frelsarans, um fögru stjörnuna og æsku hans, og frásögnin var svo fögur.

Svo las hann faðir minn lesturinn, og langþreytti raunasvipurinn á honum varð hýrri og fegri. Mér fannst sem birti yfir brúnum hans við boðskapinn mikla kærleikans af hugblíðu hjartanlegri.

Og streyma ég fann um mig friðaryl sem fundið hafði ég aldrei til og sjaldan hef fundið síðan Og bjartari og fegri varð baðstofan og betur eg aldrei til þess fann hve börn eiga gleðidag blíðan.

Já, jólin heima voru látlaus frá æskunnar arni. Þau eru endurminning ljúfust frá horfinni tíð. Mig langar að lokum til að draga eina mynd Guðmundar skálds af móðurinni er hann segir: ,,Svo steig ég með kertið mitt stokkinn við.” Engar sögur hafa jafnmikil áhrif á börnin og þessar einföldu og fallegu frásögur um jólaboðskapinn í Betlehem þegar góð móðir segir frá. Það munu fleiri hafa orðið fyrir líkum áhrifum frá mæðrum sínum og þeim sem Matthias Jochumsson lýsir svo snilldarlega:

,,Síðan hóf hún heilög sagnamál himnesk birta skein í okkar sál aldrei skyn né skilningskraftur minn skildi betur jólaboðaskapinn.”

Að lokum langar mig til að deila með ykkur ljóði sem er að finna í upphafi kvæðaflokks Guðmundar skólaskálds sem hann nefnir: ,,Friður á jörðu“ Þar er að finna þetta fallega ljóð sem við þekkjum svo vel við lag eftir Árna Thorsteinsson.

,,Friðarins Guð, in hæsta hugsjón mín, Höndunum lyfti ég í bæn til þín! Kraftarins faðir, kraftaverkið gjörðu: Gefðu mér dýrðar þinnar sólarsýn Sigrandi mætti gæddu ljóðin mín, Sendu mér kraft að syngja frið á jörðu.“

Látum mótast af skilyrðislausum kærleika Guðs í okkar garð þar sem við förum ekki í manngreinarálit í samskiptum við náungann. Leitumst öll við að skapa frið í nær-og fjærumhvefi okkar innan lands sem utan. Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól og farsælt komandi ár. Amen.

sr Sighvatur flutti þessa prédikun í jólamessu í Neskirkju 26 desember 2015. Í messunni leiddu ung börn safnaðarsönginn undir stjórn Knúts Emils Jónassonar og Ásta Margrét Rögnvaldsdóttir söng einsöng að lokinni predikun.

Jólaguðspjallið: ,,En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðir úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: "Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu."Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum,og friður á jörðu með mönnum,sem hann hefur velþóknun á.“ Lúk. 2.1-14