Hann talaði um syndina

Hann talaði um syndina

Já, og svo þegar þið komið heim, er aldrei að vita nema að heimilisfólkið spyrji, um hvað presturinn hafi nú talað í ræðunni. ,,Jú, hann talaði um syndina", getið þið þá sagt. ,,Og hvað sagði hann um syndina?" verður þá kannske spurt. ,,Tjah - hann var nú ekkert svo mikið á móti henni!"

Til er lítil saga af kerlingu sem fór í messu í sinni sveit. Þegar heim var komið spurði bóndinn, sem hafði setið heima, um hvað presturinn hefði talað í ræðunni. ,,Hann talaði um syndina” sagði konan. ,,Og hvað sagði hann um syndina?” spurði karlinn áfram. ,,Hann var á móti henni” svaraði hún.

Syndatal

Slær þessi frásögn ekki tvær flugur í einu höggi? Lýsir hún ekki í senn íslenskri samræðumenningu og umræðuefni presta í stólræðum? Látum hið fyrra órætt að sinni, en hið síðara er hæfir stund og stað. Syndin er sígilt umfjöllunarefni í predikun kirkjunnar, þótt menn séu auðvitað misuppteknir af henni. Það er ekki á hvers manns færi að tala um syndina og gerir nokkrar kröfur til þess sem mælir. Ég man sjálfur eftir því þegar ég var prestur á Ísafirði, í upphafi míns prestskapar. Alltaf fannst mér það óþægilegt að tala yfir hausamótum heimamanna sem voru flestir eldri og reyndari en ég og áttu dýpri reynslubrunna til að ausa úr. Í samanburðinum var ég, háflþrítugt ungmenni, alinn upp í vernduðu reykvísku umhverfi, enginn jafningi þessara víkinga sem hafa staðið vaktina á, útverði byggðar í álfunni.

Predikanir mínar voru því allt annað en skammarræður yfir syndugu líferni fólks og breyskleikum. Ég kunni eiginlega ekki við að fara út í þá sálma.

Ekki minnist ég þess þó að ljúflegheitin í mér, hafi fallið í sérstaklega frjóa jörð og ekki fékk ég mikið lof fyrir stólræðurnar. Eitt skiptið, og ég man ekki hvernig á því stóð, fann ég hjá mér löngun til að semja ræðu sem var uppfull af heilagri vandlætingu yfir líferni fólks og gjörðum þess. Að lokinni messunni, þar sem ég stóð venju samkvæmt í anddyri kirkjuskipsins og þakkaði fólki samfélagið, var ég viss um að nú fengi ég að heyra það. Hvað væri þessi stráklingur að sunnan eiginlega að segja lífsreyndu fólki úr íslensku sjávarplássi til syndanna. En það var nú öðru nær. Fólkið ljómaði af gleði og þakkaði mér fyrir vel mælt orð sem aldrei fyrr. Svo kom auðvitað lykilsetningin: ,,Já, þetta þarf fólk nú að fá að heyra”, sögðu himinlifandi messugestir.

Já, þetta þarf fólk nú að heyra! Syndatal beinir sjónum okkur fremur að næsta manni en okkur sjálfum og slíkt er síður en svo bundið við hina fögru Vestfirði. Það heyrist gjarnan þegar talað er um bresti fólks og það sem betur má fara. Það er örugglega mannlegt.

Grjótkast

Í guðspjalli þessa sunnudags er sögð kunnugleg saga. Bersyndug konan er umkringd reiðum mönnum sem í nafni lögmálsins hyggjast grýta hana til bana. Lögmálið var óvægið og lagði fram reglur um siðferðislega hegðun fólks, kynlíf þess og önnur samskipti, matarvenjur og reglur um hreinlæti og fleira. Reglur þessar fólu það í sér að fólki var refsað ef það braut gegn þeim. Að baki bjó vissulega frumstæð hugsun. Þetta var samfélag sem sjálft var aðþrengt. Óvinir voru á alla bóga, bæði mennskir og náttúrulegir. Óttinn við reiði Guðs, var mikill. Fólk túlkaði ýmsa atburði sem hent gátu þetta brothætta samfélag sem guðlega refsingu.

Já, við getum auðvitað lesið hana sem vitnisburð um þvermóðsku, refisgleði og grimmd þeirra sem eiga í orðaskiptum við Krist í sögunni. Það eru hinir títtnefndu farísear og fræðimenn sem svo oft eru söguhetjur í frásögnum af Jesú. Í raun snýst sagan ekki eingöngu um vonsku, illsku og grimmd. Hún fjallar fremur um þá sýn sem við höfum á lífið, Guðstrúna og auðvitað þetta hugtak sem sagan hefst og endar á - það er hið sama og prestar tala um í kirkjum landsins, sjálfa syndina.

Syndin í augum farsíea var ágalli í fari fólksins sem gat kallað yfir alla þjóðina ægilegar refsingar. Þeir áttu þann draum að þjóðin öll gæti lifað syndlaus, og væntu þess að launin yrðu ríkuleg. Í augum Krists var syndin sem konan hafði drýgt - ekki neitt sem greindi hana frá öðrum mönnum. Því fór raunar fjarri. Öll erum við breysk og ófullkomin. Syndin er sameiginleg okkur öllum. Dómharkan fer okkur því illa. Lögmálið fær því nýja merkingu í þessu samhengi. Fagnaðarerindið er einmitt á þá leið að Guð elskar synduga menn og veitir þeim fyrirgefningu. Um þetta fjallar starf Krists sem líkti sér gjarnan við lækni sem sinnir hinum veiku. Ekki þurfa heilbrigðir slíkrar þjónustu við.

Áhrifarík saga Sagan af bersyndugu konunni er ein þeirra sem hafa haft mikil áhrif á það hvernig við hugsum og breytum. Kona þessi sem skyndilega birtist á sjónarsviði hjálpræðisfrásagnarinnar, nafnlaus og óþekkt - verður þess valdandi að fylgjendur Krists fá skýr skilaboð um það hvernig þeim ber að mæta náunga sínum.

Á 17. öld, þeim sama tíma og hinn svo kallaði rétttrúnaður ríkti á Íslandi með galdrafári og viðlíka hremmingum má finna dæmi um það hvernig einmitt þessi frásögn fékk kirkjuyfirvöld til að sýna mildi í dómum sínum. Þorlákur Skúlason Hólabiskup fékk mál konu nokkurrar til úrskurðar, hún hafði einmitt brotið gegn hjúskaparheiti sínu. Þorlákur vísaði til hórseku konunnar í þessu guðspjalli og sagði:

Ég þyrði að segja sömu orðum við þá konu skepnu, ef í mínu umdæmi væri: Hafi þig enginn fordæmt frá lífi eður landsvist, þá fordæmi ég þig ei frá heilögum ektaskap, svo að þér gefist ekki orðsök, að syndga oftar í þann máta framvegis.

Saga þessi mýkti hjarta biskupsins í tilteknu máli og fékk hann til að milda dóm sinn.

Óleysanlegt verkefni? Jesús fékk í raun verkefni sem mætti kallast óleysanlegt. Hvorn kostinn sem hann hefði valið þá hefðu féndur hans getað fundið höggstað á honum. Viðbrögðin sem hann sýndi báru það líka með sér hversu torveld lausn var á vandanum. Vart hefði það gagnast konunni hefði hann hvatt þá til að þyrma henni og þá um leið afskrifað sjálfan sig sem túlkanda lögmálsins. Nei, konan hefði haft lítið gagn af vörn þess sem hefði um leið glatað allri tengingu sinni við ákærendurna. Með sama hætti hefði dómur í þessu máli falið í sér grimmilegan úrskurð og hatursfullan, í raun hefði hann verið í andstöðu við þann kærleiksboðskað sem Kristur flutti.

Jesús setti á hinn bóginn, gjörðir þeirra í annað samhengi. Hann beindi sjónum þeirra fremur í eigin barm en í átt að konunn. Lykilhugtakið í svari hans er orðið sem sat eftir predikun prestsins í sögunni af kirkjuferð kerlingarinnar. Það er sjálf syndin sem verður í munni Krists að einhverju sem allir eiga sameiginlegt og þá um leið hvetur okkur til að fara varlega í dómum okkar gagnvart náunganum. Sú hugsun mætti ekki síður ríkja í huga okkar, nútímamanna sem eigum það til, rétt eins og aðrir, að upphefja okkur sjálf á kostnað náungans. Finnum honum allt til foráttu, sjáum flísina í auga hans en látum bjálkann í okkar eigin auga óhreyfðan. Það kemur ekki á óvart að sú samlíking er einmitt fengin úr ranni Krists.

En hvað, hvað þá með dómana sem við þurfum raunverulega að fella yfir þeim sem brotið hafa af sér? Er þá í lagi að myrða, stela, svíkja og skemma? Þarna greinir Biblían á milli þess að fella dóma, já og refsa í þeim tilgangi að halda samfélaginu í réttum skorðum, og svo hins að menn setji sig í hlutverk Guðs og dæmi náunga sinn á hinum eilífu mælikvörðum. Og gleymum því ekki, að þótt við sjáum ekki allta bjálkann í eigin auga, grefur dómharkan að endingu undan okkur sjálfum. Ómeðvitað leggjum við til mælikvarða sem okkur sjálfum reyndist torvelt að fylgja og við nögum undirstöður eigin tilvistar um leið. Þetta kallar fram stöðuga samviskukvöl og veikir sjálfsmynd okkar.

Syndin - í þessum skilningi er þess vegna eitthvað sem við getum minnt okkur á að tilheyrir mennskunni í föllnum heimi. Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum. Orð þessi hafa haft mikil áhrif. Hugsanlega koma þau orð upp í huga okkar næst þegar við hefjum grjótið á loft í reiðum og fordæmandi hópi gagnvart einhverjum sem ekki fær rönd við reist. Hugsanlega verða þau til að við hikum, eins og í frásögninni, hugsum, beinum sjónum okkar ekki út á við heldur inn á við og spyrjum hvort þetta sé raunverulega sú afstaða sem leiðir til farsældar og réttlætis. Þá kann að vera að við leggjum frá okkur hnullunginn, eða jafnvel fylgjum fordæmi Krists í sögunni og komum þeim til varnar sem enga björg fær sér veitt.

Já, og svo þegar þið komið heim, er aldrei að vita nema að heimilisfólkið spyrji, um hvað presturinn hafi nú talað í ræðunni. ,,Jú, hann talaði um syndina", getið þið þá sagt. ,,Og hvað sagði hann um syndina?" verður þá kannske spurt. ,,Tjah - hann var nú ekkert svo mikið á móti henni!"