Trúmaður á tímamótum

Trúmaður á tímamótum

Saga Haralds Níelssonar (1868-1928) er viðburðarík og afar fróðleg fyrir hinn almenna lesanda. Hún er í senn þroskasaga einstaklings, ástarsaga og sorgar en einnig átakasaga hugsjónamanns, hún er hvort tveggja í senn þjóðlífsspegil og kirkjusaga.
fullname - andlitsmynd Gunnar Kristjánsson
30. nóvember 2011

Gunnar KristjánssonSaga Haralds Níelssonar (1868-1928) er viðburðarík og afar fróðleg fyrir hinn almenna lesanda. Hún er í senn þroskasaga einstaklings, ástarsaga og sorgar en einnig átakasaga hugsjónamanns, hún er hvort tveggja í senn þjóðlífsspegil og kirkjusaga sem gerist á sviptingasömum tímum frá því fyrir 1900 fram til 1928 þegar Haraldur Níelsson kvaddi þennan heim fyrir aldur fram.

Þetta eru árin þegar nútíminn er að ganga í garð, tuttugasta öldin með öllum þeim stórfelldu breytingum sem urðu á þjóðlífi og menningu okkar Íslendinga og raunar vítt og breitt um alla vestur-Evrópu. Sagan rekur hvernig Haraldur Níelsson kynnist hinum stóra heimi sem stúdent, verður síðan þátttakandi og brautryðjandi, baráttumaður og prédikari þar sem hann náði að hrífa áheyrendur svo að menn urðu að útvega sér aðgöngumiða til að komast inn í kirkjuna sem fylltist og yfirfylltist mánuð eftir mánuð og ár eftir ár.

I. Haraldur Níelsson þekkti hefðbundna aldagamla búskaparhætti undir Grímsstaðamúlanum þar sem hann ólst upp á góðu heimili, en fylgist síðar með vexti bæjarins við Tjörnina sem þróast hægt og sígandi í átt til lítillar borgar með flestu sem höfuðstað heyrir til. Í bréfum frá erlendum stórborgum lýsir hann síðar stórum búðargluggum, jarðbikuðum götum, akvögnum og keyrsluvögnum, glæsibyggingum og borðalögðu fólki: allt er framandi, allt er nýtt, tímarnir breytast, samfélagið er á fleygiferð inn í óvissa framtíð þar sem vonir eru bundnar við vísindi og tækni. Tuttugasta öldin knýr dyra, orðið framfarir er lykilorð tímans.

En líkt og hjá Anton Chekov eru allar framfarir tvíræðni undirorpnar, hvort tveggja er ávallt í senn skref fram á við og aftur á við, paradísarmissir og paradísarheimt.

Haraldur ratar í slóð þeirra fjölmörgu heppnu stúdenta sem stunduðu nám við Hafnarháskóla, og síðan lá leiðin lengra inn á vettvang fræðanna, inn á ódáinslendur rannsókna, fræða og hugsjóna, og loks inn á vígvöllinn þar sem barátta við fulltrúa hins staðnaða trúarkerfis fór fram. Í ferð með Haraldi Níelssyni fær lesandinn góða innsýn inn í breytingatíma þar sem ekkert svið þjóðlífsins, hvorki stjórnmál, atvinnuhættir né menningin var ósnortið. Og alls ekki trúarlífið.

II. Fræðilega séð markaði Haraldur Níelsson sér afgerandi stöðu með Biblíuþýðingunni sem kom út 1908. Hann hafði þar forystu fyrir fámennum hópi vaskra guðfræðinga, það kom í hans hlut að undirbúa verkið sem hann gerði af mikilli vandvirkni, fór meðal annars í nám í hebresku vegna þýðingarinnar og leitaði í því sambandi til færustu manna við háskólana í Kaupmannahöfn, Halle í Þýskalandi og í Cambridge á Englandi. Útgáfan naut einnig góðs af framlagi annarra, ekki síst textum Sveinbjarnar Egilssonar úr Viðeyjarbiblíunni 1841.

Í utanferðum sínum vegna þýðingarinnar komst Haraldur ekki aðeins í kynni við þýðingarfræði og ritskýringu heldur einnig túlkunarfræði og þar með þá frjálslyndu, lúthersku guðfræðihefð sem hefur verið einn meginstofninn í guðfræði tuttugustu aldar og allt til þessa dags. Í Halle hafa áhrif þess manns sem nefndur hefur verið kirkjufaðir nítjándu aldar og faðir túlkunarfræðinnar svifið yfir vötnunum, Fríedrichs Schleiermachers, sem var reyndar áhrifvaldur á Fjölnismenn áður.

Þýðingin 1908 hefur í stórum dráttum staðist tímans tönn, enda tvennt öðru fremur sem hún hefur sér til ágætis: annars vegar er þar allnákvæmlega stuðst við hebresku og grísku frumtextanna og hins vegar er textinn settur fram á vandaðri klassískri íslensku. Þýðing Biblíunnar er enn sem fyrr vandaverk ekki síst vegna þeirrar stöðu sem hún hefur í vitund þjóðarinnar að vera til fyrirmyndar um íslenskt mál.

Um það leyti sem Haraldur Níelsson vann að þýðingu Biblíunnar (1897-1908) varð hann fyrir sterkum áhrifum af frjálslyndu guðfræðinni, samstarfsmenn hans við þýðinguna, þeir séra Þórhallur Bjarnarson og dr. Jón Helgason voru eindregnir fulltrúar þessarar stefnu og tengdu hana náið guðfræði og guðrækni þjóðkirkjunnar. Í þeirra augum hefur þjóðkirkjan vart verið hugsanleg án hins frjálslynda undirstraums.

III. Frjálslynda guðfræðin spratt úr jarðvegi upplýsingarstefnunnar á meginlandinu sem róttæk umbótastefna þar sem ný biblíurýni var sterkt einkenni, litið var á hin fornu rit sem hverjar aðrar heimildir og rannsóknir þeirra áttu að lúta nákvæmlega sömu rannsóknaraðferðum og aðrar fornar ritheimildir. Í öðru lagi einkenndist þessi stefna af fráhvarfi frá fornum játningum kirkjunnar, nú áttu þær ekki að skipta meginmáli heldur trúin í hjarta mannsins líkt og í öndverðu þegar hinir fyrstu lærisveinar hrifust af Jesú frá Nazaret og ákváðu að fylgja honum. Trúin er milliliðalaust samband mannsins við guðdóminn og felst í því að gera málstað Jesú Krists að veruleika.

Frjálslynd guðfræði byggir á guðfræðihugsun sem stóð andspænis vaxandi raunvísindahyggju í lok nítjándu aldar. Hún leitaðist þá og leitast enn við að eiga gott samband við nútímalega hugsun í vísindum, menntun og menningu. Frjálslynd guðfræði kallaði einnig fram á sjónarsviðið frjálslynda þjóðkirkju með lágan þröskul og víðar dyr, henni er trú og trúarreynsla einstaklingsins ofar í huga en játningar og helgisiðir. Frjálslynd trúariðkun er því einnig þáttur í þessari mynd, þar sem sjálfsforræði einstaklingsins er viðurkennt og varðveitt, hann er ekki peð í stórri stofnun heldur snýst málið um hann sjálfan sem einstakling, um persónulega trúarafstöðu og trúariðkun.

Haraldur er einn þeirra guðfræðinga sem greiddu frjálslyndu guðfræðinni leiðina til Íslands. Hún átti sér þá langa sögu á megin-landinu, hér á landi var andstaðan við framandi trúarhugsun sterk, menn fundu ekki þörf fyrir nýjan skilning á vettvangi trúarinnar, þar gat allt verið áfram í sama fari þótt veröldin byltist, svo sterkt var hið íhaldssama samfélag hér á landi, svo rótgróið í hefðbundna hugsun og fastmótaðan menningarlegan táknheim sem neitaði að gefa eftir.

IV. Sumir létu sér ekki nægja að rannsaka hið sýnilega, heldur seildust inn á svið hins ósýnilega. Skyldi handanlæg tilvist guðdómsins vera komin inn á bannsvæði raunvísindanna, skyldi mannkynið nú í fyrsta sinn í sögunni hafa náð því markmiði að leysa manninn úr allri óvissu um annað líf, um líf handan grafar og dauða? Gæti undraverkfærið sími hugsanlega komið á sambandi við hina framliðnu? Hvað var að gerast á þessari öld sem virtist vera svo full af ævintýrum?

Eitt af því sem fáir guðfræðingar hafa talið ástæðu til að fjalla sérstaklega um í prédikunum eða ritgerðum varð um tíma eitt meginviðfangsefni Haralds, sálarrannsóknir. Þær voru janframt eitt umdeildasta efnið sem guðfræðingar þjóðarinnar tókust á um drjúgan hluta liðinnar aldar, umræður voru oft heitar.

Hvaða afstöðu sem menn kunna að hafa til sálarrannsókna á Haraldur heiður skilinn fyrir þá áræðni sem hann sýndi að hætta sér inn á þetta viðkvæma svið í trúarmenningu þjóðarinnar. Hin óútskýranlegu fyrirbæri lífsins voru á dagskrá hjá Haraldi. Að frátöldum rannsóknum á miðilsfyrirbærum – sem aðrir eru nú sjálfsagt hæfari til að rannsaka en guðfræðingar – sýndi hann lífsreynslu fólks á sviði hugsanaflutnings og fyrirboða eindreginn áhuga. Slík reynsla var og er sterkur þáttur í lífi og trúarheimi þjóðarinnar og þar af leiðandi guðfræðinni ekki óviðkomandi svo framarlega sem hún vill láta sig reynsluheim mannsins varða. Um hitt má deila hvort Haraldur var of gagnrýnislaus til að trúa á þau fyrirbæri sem hann vildi rannsaka vísindalega og hvort hann var of fús til að trúa á raunvísindi og tækni til að ljúka upp hinum huldu sviðum mannlegrar tilvistar sem ýmist gátu verið í hans eigin huga eða utan hans, þetta voru – vel að merkja – einnig tímar sálfræðinnar þegar hún var að stíga sín fyrstu skref í hinum akademíska heimi. Kannski varð áræðni hans og afstaða til þess að hann naut ekki þeirrar virðingar sem hann átti skilda innan kirkjunnar þegar frá leið.

Rétt er að gera hér skarpan greinarmun á frjálslyndri guðfræði og spíritisma. Síðarnefnda stefnan ruddi sér til rúms í Bretlandi en á þýska menningarsvæðinu voru áhrif spíritismans hins vegar engin en þar stóðu trúarbragðaheimspeki og trúarbragðafræði með blóma auk trúarlífssálarfræðinnar. Þar var því um auðugan garð að gresja á vettvangi rannsókna á sviðum sem tengdust trúarlífi mannsins í sögu og samtíð.

V. Líkt og Umberto Eco, hinn þekkti ítalski táknfræðingur, hefur sagt, þá er menningin margslungið samspil óteljandi táknkerfa sem taka sífelldum breytingum. Í þessu samspili táknkerfanna er táknheimur trúarinnar sér á báti og í reynd undirstöðutáknheimur, því að innan hans er það sem maðurinn tekst eindregið á við þyngstu spurningarnar, tilvistarglímuna sjálfa, spurningar um líf og dauða.

Frjálslyndu guðfræðingarnir áttuðu sig á þessu undirstöðuhlutverki trúarinnar og þar með guðfræðinnar í menningu og samfélagi, í þeirra augum var samtalið við menninguna því lykilþáttur í einu og öllu sem þeir tóku sér fyrir hendur. Séra Matthías Jochumsson fann flestum öðrum betur hljómgrunn við þjóðarsálina, séra Þórhallur var í forystu á mörgum þýðingarmestu sviðum þjóðlífs og menningar á sínum tíma, séra Haraldur horfði til framtíðar í glímunni um trú og vísindi og vildi opna dyrnar og taka áhættuna, nú var að duga eða drepast.

Frjálslyndu guðfræðingarnir voru framsæknir og hiklausir í framgöngu, þeir óttuðust ekki nýja tíma vísinda og tækni með nýjum spurningum og nýjum ögrandi viðfangsefnum, þeir voru ekki komnir til að tapa heldur til að sýna gildi og mátt þess málstaðar sem hafði gengið gegnum breytingu táknheimanna í tvö þúsund ár, hvers vegna skyldi tuttugusta öldin verða honum ofviða? Hér var engu að kvíða, hér var aðeins um eitt að ræða: að sækja fram í vísindum og fræðum, í samtali og samvinnu.

Orðræða þeirra snerist um trúna miklu heldur en um kirkjuna: í þjóðkirkjunni var það ekki kirkjustofnunin sem málið snerist um heldur trú mannsins, það var trúin sem hélt þjóðinni uppi, gaf henni kjarkinn til að lifa, vonina til að takast á við erfiða tíma, þar var þá undirstöðumannúð að finna sem gaf henni sjálfsmynd og sjálfsskilning í mótlæti og meðbyr lífsins. Allt voru þetta þeirra hugtök, þeirra hugsjónir, partur af þeirra táknheimi.

En allt átti það eftir að lenda utangarðs að meira eða minna leyti í þeirri kirkju sem síðar varð og hafði ekkert við minningu hinna framsæknu guðfræðinga að gera og vildi veg þeirra sem minnstan. Væri orðræða kirkjuleiðtoga okkar og raunar guðfræðiumræðunnar frá seinni hluta tuttugustu aldar rannsökuð kæmi væntanlega í ljós að orðin „frjálslynd guðfræði“ hefðu verið á bannlista og kæmu vart fyrir nema ef vera skyldi í neikvæðri merkingu. Svo kyrfilega var horfið frá sjónarmiðum hinnar frjálslyndu guðfræðihefðar í íslensku þjóðkirkjunni.

Hver veit nema þeirra tímar séu nú aftur að renna upp og hugsjónir frjálslyndu guðfræðinganna sem mótuðu þjóðkirkjuhugsjónina fyrir íslenska menningu komist aftur á dagskrá að breyttu breytanda.

VI. Þótt biblíufræðin hafi verið helsta viðfangsefni Haralds í upphafi og kynni hans af frjálslyndu guðfræðinni hafi fyrst verið á þeim vettvangi að því er virðist, urðu áhrif stefnunnar sterkari og eindregnari á guðfræðihugsun hans þegar frá líður. Ástæðan var sú að hann var maður boðunarinnar. Hann sat ekki í vörðu umhverfi fræðimannsins heldur beið hans hvern helgan dag sama verkefnið: að koma málstað guðspjallanna og annarra rita Biblíunnar til skila úr prédikunarstólnum.

Raunar vekja prédikanir hans spurningar um frjálslyndi hans, í mörgum efnum virðist það ekki alltaf hafa vinningin yfir hinum bókstaflega skilningi þegar horft er til útlegginga hans, þar hefur áhersla hans á sálarrannsóknir greinilega sín áhrif þar sem sjónarmið spíritismans virðast iðulega bera hina fræðilegu ritskýringu ofurliði.

Haraldur var maður hins talaða orðs. Hann var maður þess skapandi orðs sem mætir manninum á þeim vettvangi þar sem tekist er á við spurningar lífsins sem mestu máli skipta, tilvistarspurningarnar sem mæta manninum með breytilegum hætti í breytilegum táknheimum menningarinnar. Á tímum Haraldar þegar menn horfðu vonaraugum til vísinda og tækni, til framfara á öllum sviðum, fundu menn engu að síður eins og endranær að eitt orð er öðrum sterkara, það orð sem var Guð, það orð sem kallar manninn til sjálfs sín, sem gerir honum kleift að skapa nýjan heim, öðlast nýtt hugrekki, finna nýja von í þessum heimi. Hinn skapandi heimur orðsins var heimur Haralds, ekki sá heimur sem gerir lífið að reikningsdæmi þar sem allt gengur upp heldur raunheimur mannins sem er engu reikningsdæmi líkur og gengur ekki upp, í þeim heimi ríkir sú skapandi hugsun sem býr til veröld þar sem manninum er borgið.

VII. Trúmaður á tímamótum er titill sem hæfir hinu nýja verki eftir Dr. Pétur Pétursson prófessor. Haraldur Níelsson var trúmaður og hann stóð á tímamótum eins og þjóðin öll í upphafi liðinnar aldar. Höfundur hefur haft úr miklum efniviði að vinna, gríðarlegt magn ritaðra heimilda hefur staðið til boða, einnig fjöldi bréfa og þar að auki hafa höfundi komið að gagni samtöl við afkomendur Haralds. Verk höfundar er sannkallað stórvirki, ekki aðeins fyrir þær sakir að hér er saga merks Íslendings sem markaði spor í söguna heldur einnig saga eins merkasta guðfræðings þjóðarinnar á tuttugustu öld. Hér er því kafað ofan í trúarsöguna í upphafi aldarinnar.

Það er vel við hæfi að Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út. Ég efa ekki að þetta vandaða ritverk á eftir að vekja verðskuldaða athygli þjóðarinnar. Ég óska höfundi og öllum aðstandendur verksins til hamingju.