Bæn um frið

Bæn um frið

Við komum hér saman í skugga skelfilegra atburða í landinu sem kallast hið helga. Um þessar mundir verðum við þar vitni að skefjalausu ofbeldi og ægilegu blóðbaði og sjáum fyrir okkur andlit hinna hrjáðu og hrelldu. Við hörmum það og sameinumst í tjáningu samstöðu með því fólki sem þar þjáist. Og við tökum undir bænir þess og áköll um frið!
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
09. apríl 2002

„Til þín, Drottinn hnatta og heima, hljómar bæn um frið. Veittu hrjáðum, hrelldum lýðum hjálp í nauðum, sekum grið.“

Við komum hér saman í skugga skelfilegra atburða í landinu sem kallast hið helga. Um þessar mundir verðum við þar vitni að skefjalausu ofbeldi og ægilegu blóðbaði og sjáum fyrir okkur andlit hinna hrjáðu og hrelldu. Við hörmum það og sameinumst í tjáningu samstöðu með því fólki sem þar þjáist. Og við tökum undir bænir þess og áköll um frið!

Ég ann Ísrael og virði Gyðingaþjóðina. Ég elska landið sem er vettvangur þeirra miklu sögu sem Biblían segir, landið og þjóðina sem ól það fólk sem ritaði hin helgu rit og undursamlegu ljóð og skóp þá stórfenglegu sögu sem Gamla testamentið er. Ég elska það land og þjóð og trú sem ól af sér Maríu mey og son hennar, Jesú. Ég elska og virði þá bæn og þá trú sem mótaði bernsku hans og lífssýn og skóp merkustu friðar og mannúðarhugsjón allra tíma.

Ég virði Ísrael samtímans og finn djúpa samkennd með fólkinu sem þar býr. Ríki sem fæddist í hörmungum hildarleiks heimstyrjaldar og helfarar, ríki sem byggir á draumsýn fólks sem þjakað hefur verið og ofsótt um aldir en geymdi með sér bænina og drauminn og framtíðarsýnina um endurheimt fyrirheitna landsins. Íslendingar styðja Ísraelsríki og vilja því vel. Stofnun þess á bernskuárum íslenska lýðveldisins skapaði samhljóm milli þjóðanna tveggja og gagnkvæman áhuga. Þess vegna gengur það nærri okkur þegar Ísraelsríki sýnir grönnum sínum hernaðaryfirgang.

Ég virði palestínsku þjóðina og finn djúpa samkennd með henni. Þjóð sem lifað hefur í landinu helga frá alda öðli, varðveitt hefur helgistaði þess, geymt sögu þess og líf gegnum allar sviptingar, styrjaldir, hermdarverk og hörmungar sem þetta land og þjóðir þess hafa séð í aldanna rás. Það er djúpt harmsefni að fyrirheitin um ríki fyrir landlausa og ofsótta Gyðinga snúast upp í áratuga hernám á landi Palestínumanna, áratuga fjötra milljóna réttlauss fólks í flóttamannabúðum og nú kerfisbundið niðurbrot innviða samfélags heimastjórnarsvæðis þeirra.

Hugur okkar er hjá öllu friðelskandi fólki í löndum Ísraels og Palestínu og öllum sem harma og þjást. Við biðjum þess að stjórnvöld Ísraels snúi við af þessari óheillabraut.

Ég bið þess að bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn fái frið til að búa í landi sínu og móta samfélög sín í friði og frelsi. Ég virði rétt beggja til lands . En ég tel að hvorugur aðili geti byggt kröfu sína á guðlegum rétti í krafti þjóðernis síns eða trúarbragða. Ísraelsríki byggir á þeim rétti sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu því. Á sömu forsendu byggir réttur Palestínumanna. Enginn hugsandi maður vill að sá réttur sé afturkallaður og Ísraelsríki lagt niður. Þvert á móti verður maður að vona - líka Ísraels vegna og mannkynsins vegna- að ályktanir SÞ verði virtar svo að alþjóðasamfélagið geti tryggt landamæri Ísraels og Palestínu og stuðlað að eðlilegum samskiptum þjóðanna á þessu landsvæði.

Opinber tilgangur þeirrar herfarar sem Ísraelsher gerir nú á hendur borgurum á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna er að uppræta starfsemi hryðjuverkamanna sem ógnað hafa lífi almenings í Ísrael með sjálfsmorðsárásum. En margföld reynsla segir okkur að sú harka og þær kúgunaraðferðir sem nú er beitt skapa tvo hryðjuverkamenn fyrir hvern einn sem drepinn er eða niðurlægður.

Sjálfsmorðsárásir eru ólíðandi. Við höfum ekki gleymt 11.sept. Skelfilegt er til að hugsa að fólk, jafnvel unglingar, skuli ginnt út í slíkt af blinduðum haturspostulum með loforðum um að sjálfsmorð í þágu svokallaðs heilags stríðs tryggi tafarlausa sæluvist á himnum. Það er fyrirlitleg blekking afvegaleiddrar trúar ofstækismanna. En gleymum ekki að sjálfsmorðsárásirnar spretta úr jarðvegi örvæntingar, vonleysis, niðurlægingar og kúgunar og ofstækis. Þær eru vopn hinnar ítrustu örvæntingar. Hvað dugar gegn því? Vonin um réttlæti og frið. Vonin ein getur slegið þetta skelfilega vopn úr höndum ofstækisaflanna.

Veik er sú von. Vonin um frið og friðsamlega sambúð Ísraelsmanna og Palestínumanna í tveimur ríkjum sem virða landamæri og samninga sýnist víðsfjarri. Og þó. Ef allir leggjast á eitt - ef heimsbyggðin segir hingað og ekki lengra, þarf ekki að liggja lengi yfir samningum.

Þess vegna stöndum við ekki hjá þegar sárir fá ekki aðhlynningu og þyrstir ekki að drekka, þegar hjálparstarfsfólki er meinað að sinna nauðstöddum, þegar brennur í kringum Fæðingarkirkjuna í Betlehem þar sem friðarhöfðinginn sjálfur var lagður í jötu.

Segjum öll hingað og ekki lengra! Hörfi nú allir til sinna stöðva og haldi sig innan marka samninga þar til friður og nýjar forsendur eru fyrir hendi. Sjálfur sagði Kristur: „sælir eru friðflytjendur, þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“

Við getum lagt okkar af mörkum til friðar og sáttargjörðar, þótt fá séum og fjarri vettvangi. Hjálparstarf kirkjunnar hefur sent tvo Íslendinga á mannréttindavakt sem skipulögð er í Ísrael og Palestínu á vegum Lútherska heimssambandsins og samstarfsaðila þess austur þar. Það unga fólk okkar er ekki þar til þess að dæma eða fordæma, heldur til þess að bera vitni um atburði og framvindu, og vera til staðar ef vera kynni að alþjóðleg nærvera hefði hamlandi áhrif á kúgun og voðaverk. Við biðjum fyrir þeim og öllu alþjóðlegu hjálparstarfi á svæðinu sem er þar í fullum rétti og verður að fá að rétta særðum og nauðstöddum hjálparhönd hvað sem líður sjálfsmorðsárásum og stríðsrekstri.

„Til þín, Drottinn hnatta og heima, hljómar bæn um frið!“ Við tökum undir þá bæn er við heyrum andvarp hinna þjáðu og særðu. Við skulum leggja okkur fram um að sú bæn þeirra verði heyrð, með því að bera voninni vitni og vinna verk friðar og sáttargjörðar.

Ávarp á útifundi á Austurvelli 9. apríl 2002