Hvað á ég að gera?

Hvað á ég að gera?

Finnum um leið hvernig Jesús horfir á okkur með ástúð. Hann lítur ekki niður á okkur, þó honum heyri himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er. Ekkert okkar er of lítilmótlegt, of syndugt fyrir hið ástúðlega augnatillit Drottins Guðs, herra himins og jarðar.

Í guðspjalli dagsins (Mark 10.17-27) heyrum við af manni sem liggur mikið niðri fyrir. Jesús hafði verið í byggðum Júdeu að kenna fólkinu og blessa börnin og nú var hann að leggja af stað upp til Jerúsalem. Þá kemur þessi maður hlaupandi og ber fram spurningu sem varðar líf og dauða: ,,Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?”

Jesús bendir honum á að fylgja boðorðunum í samskiptum við annað fólk, varðveita líf og trúfesti og virða eignarréttinn, mannorð annarra og foreldra sína. Maðurinn segist hafa gert þetta allt frá blautu barnsbeini. Þá horfir Jesús á hann með ástúð og minnir á fyrsta boðorðið um að hafa ekki aðra guði en Drottinn Guð sem er í samræmi við fyrri hluta tvöfalda kærleiksboðorðsins um að elska Guð af öllu hjarta, allri sálu, öllum mætti og öllum huga. Það boðorð birtist meðal annars í því að vera reiðubúin að gefa Guði allt, líka sínar miklu eignir, eins og í tilviki þessa manns, og fylgja Jesú heilshugar.

Við þessi orð Jesú verður maðurinn dapur í bragði og fer hann burt hryggur. Hann var ekki reiðubúinn að setja allt sitt traust á Guð. Hann vildi fremur halda í eignir sínar sem ætlaða tryggingu fyrir velsæld og góðu lífi.

Hvers spyrjum við Jesú? Stöldrum aðeins við þarna. Í fyrsta lagi: Hvaða spurningar spyrjum við Jesú þegar við mætum honum á leið okkar um lífið? Hvað er það sem brennur svo á okkar hjarta að við komum hlaupandi til hans? Er það leitin að eilífu lífi? Eða er það þráin eftir hamingju? Eða komum við með dagsdaglegu málin til hans, heilsu okkar og fjölskyldu okkar, velgengni í atvinnumálum, afkomu? Hver er okkar spurning? Að hverju myndir þú spyrja Jesú ef hann stæði hér sjálfur á kirkjugólfinu miðju? Kæmir þú hlaupandi til hans eða myndir þú vera feimin og halda þig til hlés?

Ég veit ekki um ykkur, en líklega myndi ég þjóta til hans og biðja um meiri elsku, meiri umhyggju, meiri kraft til þjónustunnar. ,,Góði meistari, hvernig get ég þjónað þér betur?”, myndi ég kannski spyrja. Ef ég þori. Því kannski segði hann við mig eitthvað sem ég ætti erfitt með að fara eftir, eins og ríki maðurinn í frásögu Markúsarguðspjalls. Kannski segði hann mér að gefa eitthvað eftir sem ég held mikið upp á, ef það hefur tekið sess Guðs í lífi mínu. Og kannski kæmi þá á mig hik. En burtu færi ég ekki sjálfviljug því líf án Jesú er ekki valkostur í mínum huga.

Ástúð í augnatilliti Jesú Í raun eigum við öll möguleika á að bera fram innstu tilvistarspurningar okkar hér og nú. Því ,,hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra”, segir Jesús (Matt 18.20). Jesús er sem sagt hér. Hér er kirkjan hans, hér og hvar sem fólk safnast saman í stórum eða smáum hópum til að biðja í hans nafni. Berum fram angist okkar og umhugsunarefni, þrár okkar og væntingar til lífsins og biðjum Guð um svar. Kannski heyrum við það ekki jafnskýrt og maðurinn forðum en oft birtist það í innsæi okkar, huga okkar, fyrir tilverknað heilags anda.

Finnum um leið hvernig Jesús horfir á okkur með ástúð. Hann lítur ekki niður á okkur, þó honum heyri himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er. Ekkert okkar er of lítilmótlegt, of syndugt fyrir hið ástúðlega augnatillit Drottins Guðs, herra himins og jarðar. Hin allumlykjandi nærvera Guðs er líka hér í dag. Og Guð er persónulegur Guð sem á við okkur erindi, hvert og eitt. ,,Hvað verður um mig?” spyrjum við kannski, eða ,,Hvernig verð ég hamingjusöm?”. Svar Guðs er: Í nærveru minni. Þú skalt umgangast allt sem þér tilheyrir sem hafir þú það að láni og vera reiðubúin að gefa með þér af elsku Guðs, í elsku til náungans.

Við erum höndluð Því Guði er ekkert um megn. Við eigum bágt með að höndla líf okkar í eigin mætti. En Jesús hefur höndlað það fyrir okkur. Hann segir hér í guðspjallinu að torvelt sé að komast inn í Guðs ríki. Ef við viljum gera það af eigin ágæti, fyrir okkar eigin verðleika, verður förin örðug. En Jesús fór leiðina fyrir okkur. Guð er bara einnig bæn í burtu, er oft sagt. Og það er ef til vill það sem er örðugast. Við viljum helst fá ákveðna forskrift, gera ákveðna hluti, fasta, gefa tíund, biðja svona eða hinsegin, framkvæma einhverjar æfingar eða þylja fræði.

Allt getur þetta verið til góðs, en líka ógagns. Einfaldleiki kristinnar trúar er helst það sem flækist fyrir okkur. Byrjunin er að tengjast Guði – svara kalli Guðs, sem býður okkur að eiga samskipti við sig. Hann er persónulegur Guð og því getum við ræktað vináttu við hann. Það getum við gert með einfaldri bæn eða hugsun, með því að lesa frásögur Biblíunnar og orð Jesú, spámannanna og postulanna. Að viðurkenna vanmátt sinn er lykilatriði, þörf okkar fyrir Guð. Það þarf ekki að vera orðmargt eða flókið atferli. Bara að nefna nafnið Jesús getur verið þetta ákall hjartans sem breytir lífi okkar.

Nafnið Jesús Í leitinni að fegursta orði íslenskunnar var maður sem nefndi einmitt þetta nafn, Jesús. Það myndi ég líka gera, þó það eigi rætur að rekja til framandi menningar og fjarlægrar heimsálfu. En það er vegna merkingar nafnsins. Jesús merkir ,,Guð frelsar”. Borið fram sem bæn getur það þýtt ,,Guð, frelsaðu mig”. Og hvað merkir það þá? Jú, Guð frelsar frá lífsóttanum, frá sjálfselskunni, frá dýrkun þess sem í raun engu máli skiptir. Guð frelsar til elsku sinnar, til trúar, vonar og kærleika fyrir nafn, það er veru Jesú.

Og í þeim veruleika erum við hér í dag. Jesús er hér: ,,Meistarinn er hér og vill finna þig”, eins og Marta sagði við systur sína Maríu eftir að hafa játast Jesú eins og við heyrðum um fyrir tveimur vikum (Jóh 11.28). Þess vegna erum við hér, vegna hans sem er ,,hið sanna ljós [sem] er þegar farið að skína” (1Jóh 2.8). Felum okkur því ljósi sem er Jesús Kristur, fögnum því að fá að vera í hópi þeirra sem koma saman í hans nafni, gleðjumst yfir því að vera hluti kirkju hans um alla veröld og handan tíma og rúms. Spyrjum hann allra þeirra spurninga sem leita á hjarta okkar – og verum reiðubúin að ráða ekki við svarið, nema fyrir hans hjálp. Því Guði er ekkert um megn.