Öll erum við eitt í Kristi

Öll erum við eitt í Kristi

Guðspjall: Matt. 15. 21-28 Lexia: 1M 32. 24-30 Pistill: Jak. 5. 13 - 20

Það er skemmtilegt fyrir okkur bræður og systur í trúnni á Jesú Krist að ganga til fundar við Drottin hér í Snartarstaðakirkju við Kópasker og tilbiðja hann í anda og sannleika. Hann ávarpar okkur hvert og eitt með nafni frá þeim degi er við vorum borin til skírnar og á þá ósk heitasta að eiga daglegt samfélag við okkur upp frá því. Þjóðerni okkar, litarháttur, kynhneigð eða líkamlegt ásigkomulag okkar skiptir ekki máli í augum hans. Við erum öll eitt í augum hans. Með einum og öðrum hætti hvetur hann okkur, kirkju sína hér á jörðu, til að vera hendur sínar og fætur hér í þessum heimi. Hann vill nota hendur okkar til að vefja þá örmum sem eiga erfitt uppdráttar vegna sjúkdóma og sorgar, misréttis og kúgunar. Hann hvetur okkur öll til að ganga veg réttlætisins, bera fagnaðarerindinu vitni í orði og verki, byggja upp samfélag þar sem hugað er að þörfum alls fólks til líkama og sálar, samfélag þar sem öllum á að geta liðið vel.

Ég fór á Landsmót KFUM og K í Vatnaskógi fyrir hálfum mánuði. Yfirskrift mótsins var: “Hver er náungi minn?” Einn liður í dagskránni var kynning á svonefnum lifandi bókasöfnum. Þar gátu þátttakendur talað við nokkra útlendinga sem og íslendinga. Þátttakendum var skipt í nokkra hópa sem skiptust á að heimsækja fólkið á nokkrum stöðum í Vatnaskógi. Hópurinn minn talaði fyrst við mann sem missti sjónina fyrir nokkrum árum. Við gátum reynt að setja okkur inn í aðstæður hans með því að bregða huldum sundgleraugum fyrir augun þannig að við sáum ekkert. Þannig áttum við að feta okkur eftir stíg að kapellunni þar sem við hittum loks blinda manninn sem var síðan spurður út í aðstæður sínar af áhugasömum unglingum sem tóku þátt í mótinu. Við fórum síðan á næsta stað þar sem við ræddum við fyrrum fanga sem hafði seti í fangelsi fyrir að hafa smyglað eiturlyfjum til landsins. Sjálfur hafði hann verið í neyslu og verið úthýst af fjölskyldu sinni. Hann lifði í heimi sem enginn getur í raun og veru sett sig inn í nema lifa sjálfur í honum um tíma. Þetta er harður heimur þar sem kærleiksfaðmur eða vinarþel er víðsfjarri.

Því næst kynntumst við egypskum múslima sem hafði tekið kristna trú fyrir nokkrum árum. Það var athyglisvert hversu einlægur einstaklingurinn var í trú sinni á Jesú Krist. Það var jafnframt hryggilegt að heyra hann segja frá því að múslimsk fjölskylda hans í Egyptalandi hafi úskúfað sér eftir að hann tók þá ákvörðun að fara að trúa á Jesú Krist.

Þar á eftir fengum við að kynnast tveimur þeldökkum kristnum konum frá Nígeríu sem greindu frá ofsóknum sem þær höfðu mátt sæta vegna trúar sinnar þar í landi. Þær voru búnar að vera nokkurn tíma á Íslandi. Þær töluðu um það hvað hraðinn væri mikill í íslensku þjóðfélagi. Það væru allir að keppast við að hafa í sig og á, hlaupandi eftir veraldlegum hlutum. Fáir virtust hins vegar fannst þeim, gefa gaum að því sem væri dýrmætara en gull, sem er fagnaðarerindið um Jesú Krist. Þær sögðu að Guð myndi ekki líta inn í hlöðuna hjá okkur til að sjá hvað við ættum mikið af veraldlegum eigum né í pyngju okkar heldur á hjartað. Það sem ég átti sameiginlegt með þessum konum var trúin á Jesú Krist. Það sem vakti athygli mína var það hversu glaðar og ánægðar þær voru í sinni trú þrátt fyrir að aðstæður þeirra heima fyrir voru bágbornar að mínum dómi.

Þegar ég hlustaði á þær þá leit ég til baka og minnist jólasamkomu í Bandaríkjunum sem ég sótti fyrir mörgum árum. Þar var saman komið fjölmargt fólk af ýmsum þjóðernum. Það sem ég átti sameiginlegt með þessu fólki var að við tilbáðum Jesú Krist í anda og sannleika á mjög frjálslegan hátt þar sem við klöppuðum höndum og sungum hástöfum. Þetta var áhrifamikil stund sem skildi mikið eftir í minningunni. Jesús þekkir allt þetta fólk líka með nafni ætlaði þeim hlutverk til að gera þennan heim betri, mannvænlegri á allan hátt. Þrátt fyrir að allt þetta fólk hafi verið útlendingar í mínum huga þá fann ég til samsemdar með þeim því að það var um leið bræður mínir og systur í trúnni á Jesú Kristi.

En ég velti því fyrir mér hvaða augum landar mínir litu á þær? Ég fór að hugsa um það hvort þær hefðu orðið fyrir fordómum hér á landi vegna litarháttar síns? Við lifum í fjölmenningarlegu samfélagi því að nokkur þúsund einstaklingar af erlendu bergi brotið hafa sest hér að. Pólverjar hafa getið sér gott orð fyrir dugnað við vinnu hér á landi einkum við störf sem íslendingar vilja ekki líta við. Kínverjar hafa ekki látið erfitt íslenskt veðurfar á hálendinu koma í veg fyrir að þeir gætu unnið við Kárahnjúkastíflu. Þó nokkrir íslendingar hafa hins vegar gefist upp á slíkri útivinnu við stifluna. Eru það fordómarnir kannski sem standa í vegi fyrir því að sumir íslendingar vilja ekki vinna með útlendingum?

Ísland fyrir íslendinga var slagorð sem heyrðist fyrir nokkrum árum þegar fólki fór að fjölga hér sem er af erlendu bergi brotið. Hart var brugðist við þjóðernishreyfingu sem gerði sig líklega til að láta að sér kveða gegn þessu fólki. Það er vel að mínum dómi vegna þess að við íslendingar eigum að bjóða þetta fólk velkomið og hvetja það til að læra íslensku og hjálpa því að aðlagast íslensku samfélagi. Það mun auðga menningu okkar og siði eins og þjóðahátíðin á vestfjörðum ber vitni um sem haldin er árlega.

Miklir uppgangstímar eru nú vonandi framundan í þessu nýja sveitarfélagi sem fær nýtt nafn á vordögum. Það væri e.t.v. táknrænt á þessum uppgangstímum sem vonandi eru framundan að gefa þessu nyja sveitarfélagi nafnið Vorþing svo ég slái nú örlítið á létta strengi. Margfeldisáhrifanna mun vafalaust gæta einnig hér á Kópaskeri með ýmsum hætti. Ef af álversframkvæmdum verður á Bakka við Húsavík þá munu þó nokkrir útlendingar koma að uppbyggingunni sem hafa sérþekkingu á framkvæmdinni auk verkamanna sem ráðnir verða af starfsmannaleigum hér á landi sem erlendis. Hvernig ætlum við að taka á móti þessu fólki sem á sína trú, menningu og siði? Við þurfum að huga að því. Þar þarf þjóðkirkjan að halda vöku sinni í samráði við stoðaðila í sveitarfélaginu og bjóða upp á heildræna þjónustu þar sem litið er til þess að sérhver manneskja er líkami,sál og andi.

Í guðspjalli dagsins er greint frá því hvernig mótttökur Jesús fékk þegar hann hélt inn í byggðir Týrusar og Sídonar. Jesús var þarna sem útlendingur í ókunnu landi þar sem íbúarnir voru ekki gyðingar. Úr þessum byggðum kom kanversk kona til hans og lærisveinanna og elti þá með hrópum og köllum. Hún kallaði sífellt í uppnefningartón. “Miskunna þú mér herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda”. Kanverska konan vissi að Jesús væri útlendingur og gyðingur í þokkabót. Jesús lét sem hann heyrði ekki í henni. Lærisveinarnir reyndu að fá hann til að sinna henni til þess að hún hætti þessum hrópum og köllum. Þá virðist Jesús hafa staðnæmst því að hann sagði þeim að hann væri aðeins sendur til að sinna týndum sauðum af Ísraelsætt, þ.e.a.s. gyðingum Þá laut konan honum og sagði: Herra, hjálpa þú mér”, án þess að nefna hann sem gyðing. Jesús svaraði þá með óvenjulegum og að því er virðist harkalegum og dónalegum hætti er hann sagðist ekki vilja gefa hundum brauð sem félli til af brauði barnanna. Hann sagði: “Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana”. Konan hefði getað brugðist jafnharkalega við en það gerði hún ekki. Hún trúði því staðfastlega að Jesús gæti hjálpað sér og læknað dóttur sína. Þess vegna brást hún auðmjúklega við hastarlegum orðum Jesú og sagði: “Satt er það herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra.”.

Með því að nefna Jesú sem gyðing þá dró hún hann í dilka eins og okkur öllum hættir til með fólk sem við tölum við sem er af erlendu bergi brotið. En þegar hún hætti því þá tók Jesú við sér og hjálpaði henni til þess að sýna fram á það að fagnaðarerindið er ekki aðeins ætlað gyðingum heldur öllu fólki. Guðsbarnarétturinn er öllum ætlaður. Brauðið og vínið sem Jesús deildi út til lærisveinanna í síðustu kvöldmáltíðinni er öllum ætlað, líka útlendingum. Okkur kristnu fólki ber að stuðla að því að allir fái notið réttar síns sem elskuð börn hins himneska föður sem þessi kirkja var reist til dýrðar og aðrar kirkjur í víðri veröld.

Hápunkturinn á landsmótinu í Vatnaskógi var þegar brotning brauðsins fór fram á laugardagskvöldinu. Þar skynjuðum við sterkt nærveru Drottins í brauði og víni í samfélagi trúaðra sem á sér engin landamæri. Þar var enginn útlendingur heldur heimamaður Guðs. Amen.

Sr. Sighvatur Karlsson sóknarprestur á Húsavík flutti þessa prédikun í Snartarstaðakirkju við Kópasker 2. sunnudag í föstu 2006 í gospelmessu