Perlan, fjársjóðurinn, happið

Perlan, fjársjóðurinn, happið

Perlan, fjársjóðurinn, happafengurinn – það ert þú! Það ert þú sem ert svo óumræðilega dýrmæt, dýrmætur í augum Guðs að hann leggur allt í sölurnar fyrir þig! Af því að hann elskar þig.

Enn sagði Jesús: „Líkt er himnaríki fjársjóði sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.

Enn er himnaríki líkt kaupmanni sem leitaði að fögrum perlum. Og er hann fann eina dýrmæta perlu fór hann, seldi allt sem hann átti og keypti hana.

Enn er himnaríki líkt neti sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða þegar veröld endar: Englarnir munu koma, skilja vonda menn frá réttlátum 50og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. Hafið þið skilið allt þetta?“

„Já,“ svöruðu lærisveinarnir.

Jesús sagði við þá: „Þannig er sérhver fræðimaður sem orðinn er lærisveinn himnaríkis líkur húsföður sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu.“ Matt. 13. 44-52

Kæri söfnuður. Fyrst af öllu vil ég þakka fyrir elskulegar móttökur hér í Kársnessókn og að fá að eiga þessa helgu stund með ykkur hér í Kópavogskirkju. Ég hef verið að vísitera, það er að vitja kirknanna og safnaðanna hér í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og notið aðstoðar og góðrar samfylgdar prófastsins, séra Gísla Jónassonar. Okkur hjónunum hefur þótt það einstaklega ánægjulegt allt saman. Svo víða eru perlur að finna og fjársjóði í þjónustu kirkjunnar hér í prófastsdæminu. Það góða fólk sem leggur fram góða krafta, hugi og hjartaþel í þágu Guðs ríkis. Guð blessi það allt.

Það var gott að koma hingað í Kársnessókn og ég óska ykkur til hamingju með allt það góða sem hér er að gerast í söfnuði og samfélagi. Ég þakka sóknarpresti, sóknarnefnd, kirkjuvörðum og messuþjónum, organista og kór alla alúð og umhyggju sem lögð er í þjónustuna og það góða viðmót sem ætíð er að mæta hér.

Ég þakka sérstaklega það allt sem gert er til að prýða þessa guðsþjónustu. Og síðast en ekki síst vil ég þakka ykkar hlut, Skólakór Kársness, og það góða samstarf sem í áranna rás hefur verið milli Kópavogskirkju og skólans. Það uppeldisstarf sem hún Þórunn Björnsdóttir hefur unnið er ómetanlegt og hefur skilað einstaklingum, samfélagi og menningu og kirkju óviðjafnanlegum verðmætum. Guð launi það og blessi.

„Líkt er himnaríki fjársjóði.... Líkt er himnaríki perlu.“

Dæmisögur Jesú sem eru guðspjall dagsins kannast flestir við, einfaldar, auðskildar, hrífandi örsögur. En þær vekja margar spurningar. Jesús er að segja okkur hvernig himnaríki er, það er hvernig Guð er. Og hann dregur upp myndir og líkingar. Jafnhliða dæmisögum notar Jesús líka margvísleg myndtákn um Guð og sjálfan sig, hirðir, vínviður, ljós, bjarg. Velþekktar myndir, sem hjálpuðu þeim sem heyrðu að skynja meira en þeir heyrðu í orðunum einum. Engin ein mynd eða líking er tæmandi.

Dæmisögurnar lýsa kunnuglegum fyrirbærum eða hugsanlegum atvikum, en eru þó um eitthvað allt annað en það sem orðin lýsa beinlínis. Hver um sig og saman segja þær: Svona er Guð.

Skrítlur eru leifturmyndir sem vekja viðbrögð. Ef þú þarft að útskýra skrítluna þá missir hún marks. Ef þú ferð að skilgreina hana, draga fram mótsagnir og rökleysur, þá er hún ekki brandari lengur, ekki lengur fyndin, varpar ekki lengur þessu óvænta ljósi eða sjónarhorni á veruleikann.

Dæmisögur Jesú eru eins og skrítlur, leifturmyndir sem varpað er upp og sýna veruleikann í nýju ljósi. Það er með þær eins og brandarann, við eigum að hlusta á punktinn, „pointið“ í sögunni. Og punkturinn í þessum dæmisögum Jesú er gleðin, fögnuðurinn yfir því óvænta og þeim möguleikum, þeirri framtíð sem lýkst upp í þeirri gleði. Og, segir Jesús, þannig er himnaríki, svona er Guð!

Dæmisögurnar sem eru guðspjall dagsins vekja ýmsar spurningar og ef við gáum nánar að þá eru þarna ótal vandamál. Maður finnur falinn fjársjóð í akri og hann segir engum, fyrr en hann hefur selt allar eigur sínar til að kaupa þennan akur. Þetta er nú ekki heiðarlegt! Nú eða kaupmaðurinn sem safnar fögrum perlum og finnur eina og fer og selur allt sem hann átti til að geta keypt þessa einu perlu. Þetta er ekki mjög skynsamlegt, er það? Eða fiskimennirnir sem fylla net sín og kasta burt því óæta, bíðum við, þetta er ólöglegt! Brottkast er ólöglegt. Og svo klykkir Jesús út með því að tala um efsta dóm. Og það er ósmekklegt, jafnvel ólíðandi! En, veistu, þær snúast ekki um þetta, þetta er eins og smáatriðin í brandaranum, við festum okkur ekki í þeim. Það er „pointið“ sem gildir, og punkturinn í þessu sögum öllum er feginleikinn, fögnuðurinn, gleðin. Það vill Jesús segja okkur með þessum sögum, þannig er himnaríki, sá veruleiki þar sem áhrif Guðs, vilji og markmið ráða. Það er eins og fögnuður yfir því óvænta, happinu, uppgötvuninni, nægtunum. Kaupmaður leitaði að dýrum perlum. Og fann eina, óviðjafnanlega. Ef til vill er okkur erfitt að skynja punktinn í þessu, vegna þess að okkar samtíð leggur mest upp úr leitinni, en ekki því að finna. Sannleiksleit telst mikilvæg í menningu sem einatt lítur niður á þau sem telja sig hafa fundið sannleikann. Ef einhver segist hafa fundið svar sem fullnægir og mettar sál og anda, þá telst hún eða hann þröngsýnn, kreddufastur, einstrengingslegur, eða einfaldlega leiðinlegur, og ekkert er nú verra en það! Nútíminn er tortrygginn á kennivald og treystir ekki þeim sem halda fram algildum viðmiðum. Samkvæmt fagnaðarerindinu er leitin ekki takmark í sjálfri sér, hún er þrá, hún er þorsti eftir svölun, svari, vissu, vörn.

Til er brandari um mann sem var í miklum kröggum. Hann ákallar Guð í neyð sinni og biður hann hjálpar. Í kirkjunni úthellir hann hjarta sínu:„Góði Guð, láttu mig vinna í lottóinu!“

Laugardagskvöld rennur upp og dregið er í lottóinu. Enginn vinningur. Vinurinn fer í kirkjuna og kveinar og biður:„Guð, ég bað þig um hjálp, láttu mig vinna í lottoinu.“ Næsta skipti og dregið er fær hann engan vinning heldur. Og maðurinn er alveg niðurbrotinn er hann grætur sáran:„Af hverju hjálpaðir þú mér ekki þetta eina sinn og lést mig vinna í lottóinu? “

Og Guð svarar og er svolítið pirraður: „Heyrðu, góði, þú verður að mæta mér á miðri leið í þessu….Kauptu lottómiða!“

Stundum segist fólk hafa týnt sinni barnatrú, misst sjónar á Guði og nú sé það leitandi að því sem næri andann, svali trúarþörfinni. Það er gott að vera leitandi með opinn huga. En kristin trú leggur samt áherslu á gleðina yfir því að finna, en umfram allt því að vera fundinn. Eins og guðsmaður nokkur sagði til forna: „Þú myndir ekki leita Guðs nema vegna þess að Guð hafi þegar fundið þig.“ Kristin trú er einmitt að vita sig vera fundinn, Guð hefur fundið þig. Ég held reyndar að kaupmaðurinn í dæmisögunni og maðurinn sem keypti akurinn og kaupmaðurinn með netið, þeir tákni umfram allt Guð. Og perlan, fjársjóðurinn, happafengurinn – það ert þú! Það ert þú sem ert svo óumræðilega dýrmæt, dýrmætur í augum Guðs að hann leggur allt í sölurnar fyrir þig! Af því að hann elskar þig. Hann gleðst yfir þér og fagnar þér, hver sem þú ert, augu hans sáu þig áður en þú varðst til í móðurlífi, hann þekkti þig löngu áður en þú vissir til þín. Á það minnir skírnin þín.

Hvað er svona dýrmætt við kirkjuna og hinn kristna arf? Hvers virði er þessi arfur sem kirkjan stendur fyrir, Biblíusögurnar, bænirnar og barnatrúin? Ýmsum virðist vera í mun að kjafta það niður skefjalaust. En nýlega ritaði Guðrún Jónsdóttir, geðlæknir, grein í Morgunblaðið þar sem hún lyftir fram þessum dýrmæta arfi trúarinnar. Og hún segir:„Biblían er innblásin bók, þótt hún sé rituð af mönnum. Hún er að mínu mati gull og demantsnáma sem við ættum að lesa með leiðsögn heilags anda, trúa eins og stendur, gera eins og stendur, og þá fáum við eftir þörfum okkar: Von, vissu, vörn gegn efa, angist og ótta, örvæntingu og kvíða. Huggun og styrk í sorg og stríði, síðast en ekki síst fyrirgefningu og frið og sigur fyrir náð Jesú til eilífs lífs.“ Og svo segir hún, og ég vil taka undir þau orð og gera þau að mínum:„Lokaorð mín og stöðug bæn fyrir þjóð okkar og fósturjörð er vers úr 35. passíusálmi séra Hallgríms Péturssonar:

Gefðu að móðurmálið mitt, minn Jesús, þess ég beiði, frá allri villu klárt og kvitt krossins orð þitt útbreiði um landið hér, til heiðurs þér, helst mun það blessun valda, meðan þín náð, lætur vort láð lýði og byggðum halda.