Fullveldi í 100 ár

Fullveldi í 100 ár

Í gær, þann 1. desember minntumst við þess að Ísland varð formlega frjálst og fullvalda ríki fyrir einni öld. Í Dómkirkjunni hér í dag minnumst við þess einnig, í tali og tónum.

5. Mós.; Op. 3:20-22; Lúk. 4:16-21.

Biðjum:
Vertu Guð faðir, faðir minn
Í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í gær, þann 1. desember minntumst við þess að Ísland varð formlega frjálst og fullvalda ríki fyrir einni öld. Í Dómkirkjunni hér í dag minnumst við þess einnig, í tali og tónum.

Dagurinn í dag markar einnig upphaf nýs kirkjuárs, aðventan er hafin og kveikt hefur verið á fyrsta kerti aðventukransins, spádómskertinu. Kertinu sem minnir okkur á spádómana um komu frelsarans í heiminn. Lítið ljós sem minnir á vonina sem því fylgir að eiga gott í vændum, betra líf, betri daga.

Allt sem er á sér aðdraganda. Í huganum hefst ferlið sem breytir því sem er. Ferlið sem leiddi til fullveldis Íslands stóð lengi yfir. Það kostaði þrautseigju og þolinmæði. Fullvissan um að það væri best fyrir land og þjóð að verða frjálst og fullvalda ríki dó aldrei. Draumurinn rættist og sambandslögin voru undirrituð í hlýjasta mánuði ársins 1918.

Við setningu Alþingis það ár var guðsþjónusta hér í Dómkirkjunni eins og enn tíðkast. Þá var Jón Helgason biskup og sagði hann þá m.a. í prédikun sinni: „Og þegar þér nú, bræður, kjörnir fulltrúar þjóðar vorrar, gangið að háleitu og ábyrgðarmikla köllunarverki yðar á þingi þjóðarinnar, þá er það að þessu sinni aðallega til þess að ráða þessu stórmáli til farsællegra lykta, að leggja samþykki yðar á þann hinn nýja sáttmála, sem á komandi tíma á að gilda sem sambandslög Íslendinga og Dana. Þér skuluð þá og vita, að beztu óskir þjóðarinnar – ég vona allrar – fylgja yður til þessa starfs.“

Það eru aðrir tímar nú. Fyrsta setningin í tilvitnuninni sýnir það. Þá voru aðeins „bræður“ á Alþingi. Svo er ekki nú. Biskupinn gengur út frá því að þingmenn líti á hlutverk sitt í þjónustu þjóðarinnar sem háleitt og ábyrgðarmikið köllunarverk. Ég geri ráð fyrir að svo sé enn.

Á þessum tíma höfðu konur fengið kosningarétt og embættisgengi. Það hefur þó tekið ansi langan tíma að fullt jafnrétti kynjanna sé virt. Í síðustu viku var alþjóðleg ráðstefna kvenna í leiðtogastöðum í Hörpunni í Reykajvík. Fram kom í viðtali við íslenskar forystukonur þar að samstaða og samtal væru lyklarnir að jafnari stöðu kynjanna. Í könnun sem kynnt var á ráðstefnunni kom líka fram að enn væru töluverðir fordómar gagnvart konum í stjórnunarstöðum í vestrænum ríkjum. Það er því verk að vinna og fyrirmyndir skipta miklu máli þegar til framtíðar er litið. Það sem augað sér hefur áhrif. Ég minnist í því sambandi lítils drengs í mínu prestakalli. Hann var með móður sinni á samverustund sem ég boðaði til en þá stóð í pontu karlkyns prestur í prófastsdæminu. Drengurinn var eitthvað órólegur og móðir hans sussaði á hann og bað hann hafa sig hægan meðan presturinn talaði. Drengurinn leit á móður sína undrandi og sagði: Hann er karl. Hinn fjögurra ára snáði vissi ekki að karlar væru prestar því hans prestur var kona.

Árið 1918 var erfitt ár í sögu þjóðarinnar. Eldgos, frost, spænska veikin gerðu fólki erfitt fyrir og margir lifðu hörmungarnar ekki af. Allar þessar ástæður voru ekki á færi manna að fyrirbyggja. Fólk varð að takast á við ófögnuðinn. Þrátt fyrir þetta gátu menn fagnað frelsi og fullveldi. Nú er aldarafmælinu fagnað og við höfum rækilega verið minnt á að tala vel um hvert annað og við hvert annað. Það er á mannlegu valdi að bregðast við þeirri áminningu.

Á öllum tímum hefur verið litið til unga fólksins sem á framtíðina fyrir sér, því þau bera með sér inn í framtíðina það sem fyrir þeim er haft. Við viljum gefa börnunum gott veganesti til göngunnar á lífsins vegi, ekki bara á veraldlega vísu heldur og kannski ekki síður hvað siðferðið og andlega lífið varðar.

Ég ræddi við kennara með áratuga reynslu af kennslu barna í grunnskóla. Annar kennarinn velti fyrir sér hvort börnin hefðu getu til að takast á við lífið, börnin sem alin eru upp bak við skjáinn og hafa samskipti við hvert annað í gegnum skjáinn. Þessi börn munu stjórna landinu eftir nokkur ár sagði hann. Hinn kennarinn sagðist ekki hafa áhyggjur af þessu. Þau sjálf hefðu komist til manns þrátt fyrir áhyggjur foreldranna og fullorðna fólksins í barnæsku þeirra. Það er gott að vera á varðbergi og hafa möguleika á að kynna sér nýjungar í uppeldi barna, en það er ekki gott að hafa áhyggjur. Það er hins vegar hlutskipti margra sérstaklega á aðventunni þegar allt á að vera svo flott og gott og spennandi fyrir alla.

Í dag, á fyrsta sunnudegi í aðventu hefst árleg jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar. Safnað er fyrir verkefnum í sveitum Úganda og Eþíópíu. Hjálparstarfið veitir einnig efnalitlum fjölskyldum hér á landi stuðning fyrir jól. „Alls nutu 1304 fjölskyldur eða um 3500 einstaklingar um land allt aðstoðar fyrir síðustu jól“ segir í frétt frá Hjálparstarfinu. Áhyggjur fólks sem fær aðstoð hjá Hjálparstarfinu eða öðrum samtökum, eru skiljanlegar. Það er hræðilegt til þess að vita að fólk hér á landi búi við fátækt. Það er smánarblettur á okkar samfélagi sem ætti ekki að vera til staðar árið 2018.

Fyrsta kertið á aðventukransinum minnir okkur á vonina. Það gerir guðspjallið einnig. Guðspjallið greinir frá því þegar Jesús kom í samkunduhúsið í heimabæ sínum Nasaret á hvíldardegi eins og hann var vanur. Hann stóð upp til að lesa og las úr spádómsbók Jesaja. „Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins“ segir þar meðal annars. Hvílíkur fagnaðarboðskapur sem þarna er fluttur. Bölið breytist í blessun, blindir sjá ljósið, þau sem í fjötrum eru verða leyst og boðskapurinn skal fluttur til að hann heyrist. Hver er það sem á að koma þessum gleðitíðindum til fólksins? Það er lesarinn sjálfur. „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig“ segir þar. Jesús hefur verið valinn til að flytja þessi miklu tíðindi sem hafa þau áhrif á þau sem heyra að nýtt líf blasir við.

Við mörg höfum verið kölluð til að flytja þennan góða boðskap. Það er vissulega mikið ábyrgðarhlutverk. Við höfum verið send til að fara út í söfnuðina til fólksins í kirkjunni svo áfram megi heyrast kærleiksboðskapur Jesú. Söfnuðurinn kallar, kirkjan sendir, prestar hlýða kallinu.

Fyrir 100 árum var umræða um það á Alþingi og í þeim miðlum sem þá voru sem og manna á milli hvort ríkið ætti að vernda og styðja þjóðkirkjuna eins og getið er um í stjórnarskránni. Sú umræða er því ekki ný af nálinni. Hlutverk kirkjunnar er bara eitt og það er að flytja fagnaðarboð frelsarans sem felur í sér kærleika, von, réttlæti, þakklæti og fleira sem allar kynslóðir mega heyra og hefur hingað til haft mikil áhrif á samfélag þeirra þjóða sem heyrt hafa boðskapinn.

Baráttan fyrir sjálfstæði lands og þjóðar hófst löngu áður en árið 1918 rann upp eins og við þekkjum af sögunni. Stefnur og straumar í Evrópu höfðu þar áhrif. Íslendingar fóru utan til náms en hugurinn var heima og dvaldi við það hvernig hægt væri að bæta hag almennings. Kirkjan hafði mikilvægu hlutverki að gegna sem farvegur upplýsinga til fólksins í landinu. Í kirkjunum fengu sóknarbörnin að frétta af gangi mála og gátu þannig myndað sér skoðun á því sem fram fór. Einnig gengdu prestarnir lykilhlutverki sem milliliðir leiðtoganna í Kaupmannahöfn og fólksins hér á landi. Þeir dreifðu tímaritum þeirra, fóru um með bænaskrár og sátu einnig á Alþingi sem fulltrúar fólksins. Þannig leiddu þeir þjóðlega vakningu.

Á síðasta ári minntumst við 500 ára afmælis siðbótar Marteins Lúthers. Við lestur Biblíunnar fékk hann hugmyndir að kenningum sínum sem höfðu samfélagsmótandi áhrif. Þær kenningar höfðu áhrif á námsmennina ungu í Kaupmannahöfn. Til dæmis tveggja ríkja kenning Lúthers sem gengur út á að Guð ríki yfir mannkyninu með tvennum hætti. Í ríki andans gefur Guð þær gjafir, er verða mönnum til tímanlegs og eilífs hjálpræðis. Í veraldarríkinu heldur Guð við þeirri ytri skipan, sem er nauðsynleg mannlegu samfélagi. Kenningin Lúthers um hinn almenna prestsdóm felur í sér áskorun um virka aðild að lífi og starfi kristins safnaðar og afdráttarlausa hvatningu til þátttöku í samfélagi manna. Þjónn Guðs á ekki að halda sig bara fyrir altarinu eða í eigin heimi heldur ber hverju og einu okkar að leggja náunga sínum og þar með samfélagsheildinni allt það lið er framast er unnt. Mannúðarstarf er unnið hvar vetna þar sem náungakærleikur ríkir, í stofnunum samfélagsins, fyrirtækjum og í félögum. Siðbót Lúthers hafði mikil áhrif á þau samfélög þar sem lúthersk kirkja náði fótfestu. Sú siðbót er lifandi og okkur eilíf áminning um að betur megi gera, einstaklingi og mannkyni til heilla.

Það er margt sem hefur orðið til þess valdandi að fullveldið var samþykkt og formlega hafið fyrir 100 árum. Frelsið og fullveldið, landið okkar og skipan mála á því er fjöregg sem við verðum að gæta. Árið 1918 var fólk upptekið af því að lifa af. Nú eru verkefni okkar önnur ef líf á að þrífast hér á jörð í framtíðinni. Náttúran er í hættu. Við höfum ekki gætt að því að ganga þannig um landið okkar að sómi sé að til framtíðar litið.

Í umhverfisstefnu kirkjunnar kemur fram að eitt stærsta samfélagslega vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í dag eru loftlagsbreytingar. Þær koma skýrast fram og eru hvað víðtækastar í náttúrufari. „Þetta vandamál er siðferðilegt málefni sem sem varðar alla“ segir í umhverfisstefnunni.
„Þjóðkirkjan boðar hófsaman lífsstíl og réttláta skiptungu jarðargæða. Sú boðun hefur vonandi þær afleiðingar í för með sér að fólk vakni til vitundar um náttúruvernd og mikilvægi þess að allir taki höndum saman til að sporna gegn loftlagsbreytingum af manna völdum.

„Kirkjan þarf að vera trú spámannlegri köllun sinni og benda á óréttlætið í heiminum. Hún þarf að benda á félagslegu neyðina sem og hina umhverfislegu sem hlýst af loftlagsbreytingum. Hún þarf að benda á ójöfnuðinn sem skapast vegna loftlagsbreytinga.“

Hver kynslóð tekur mið af sinni samtíð. Jólaundirbúningurinn var annar árið 1918. Þá var aðventan nefnd upp á íslensku jólafasta. Á jólum var allt það besta borið fram en fyrir jól var farið sparlega með. Nú er öldin önnur. Jólahlaðborð út um bæ og sveitir. Eðli mannsins hefur þó ekki breyst. Eins og forfeður okkar og mæður þráum við öryggi og skjól. Félagsskap, kærleika og hlýju.
Ég bið þess að íbúar þessa frjálsa og fullvalda lands njóti blessunar og farsældar á hinu nýbyrjaða kirkjuári og geti með gleði tekið á móti jólum í friði og kærleika.

Til hamingju með frelsið og fullveldið. Guð gefi okkur styrk og vit til að varðveita það og blessi land og þjóð í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.