Frá toppi til táar

Frá toppi til táar

Í fótþvottaskál Jesú speglaðist himininn og þau sem nutu fótþvottarins sáu hinn fullkomna mann speglast í vatninu. Sá sem þvær fætur getur hreinsað, bætt og skírt heiminn.
Flokkar

Það var hrífandi að fylgjast með þriggja ára strákum mínum fyrir nokkrum kvöldum. Mamma þeirra hafði góðan tíma til að dekra við þá. Eftir að þeir voru búnir í kvöldbaði og búið að þurrka þá, settust þeir niður og fengu svo fótanudd. Lyktin af kremi fyllti vitin, vellíðan fór um litla og heita líkama. Augun ljómuðu. “Þetta er gott, pabbi.

Mamma, þetta er gott.” sögðu þeir. Upplifun þeirra var sterk og mörgum dögum seinna segja þeir: “Eigum við ekki að hafa fótanudd núna?” Þeir vita að fótaþvottur er dásamlegur.

En það eru ekki aðeins ungir drengir, sem kunna að meta fótadekur. Gleði þeirra kallaði fram minningar í huga minn. Ég naut þess láns, að amma mín var öll elliár sín á heimili mínu. Ég man eftir fótaþvottatímum og hve amma naut þess þegar móðir mín kraup á hnén og baðaði fætur hinnar háöldruðu konu. Það var heillandi og verða vitni að því að umhyggjusöm dóttir dekraði við lúna fætur móður sinnar, snyrti neglur, skóf þykkildi og bar í þurrksprungur. Fótaþvottur á Grímsstaðaholtinu er líkur fótaþvotti um allan heim. Allir menn njóta umhyggjunnar. Og í fótaþvotti er fólgin djúp umhyggja og lotning fyrir manngildi. Þegar einhver fellur á hné til að dekra við fætur annars manns er mikið sagt og dýrmæti þess sem er þjónað er staðfest. Mamma laut að fótum ömmu og í huganum er myndin eins og íkón, helgimynd, sem minnir á meistarann, sem laut að fótum vina sinna og kenndi þeim lífsleikni.

Jesús þvoði fætur

Í texta dagsins, sem er lesinn í öllum messum þessa lands og í fjölda kirkna um allan hinn kristna heim, er rifjuð upp fótaþvottasaga, sem skráð er í þrettánda kafla Jóhannesarguðspjalls. Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. Sá gjörningur var ekki sjálfgefinn og raunar óvæntur, því fótaþvottur var starfi þræla og hinna lægst settu sem og ástúðarstarfi eiginkvenna. Það var óhugsandi að leiðtogar eða höfðingjar myndu nokkurn tíma sinna fótaþvotti annarra. Fótaþvottamenn voru menn á botninum. Hliðstæða sögunnar af fótþvottamanninum Jesú er því ekki í bókmenntum fornaldar.

Á sandalatímum urðu fætur óhreinir. Fótaþvottur var nauðsynlegur. Strax í fyrstu bókum Biblíunnar kemur í ljós, að gestrisinn maður sá til þess að komumenn á heimili hans nytu fótahreinsunar (Dæmi eru t.d. í 1.Mós. 18.4; 19.2; 24.32 sem og í Dómarabók 19,21). Að gæta ekki þessa var dónaskapur. Á undan máltíðum þrifu menn fætur sína og sömuleiðis áður en gengið var til náða (Ljóðaljóðin 5.3). Kámugir fætur voru skilaboð, tákn um djúpa sorg (2. Samúelsbók 19,25). Engar skriflegar reglur eru til um fótaþvott en þó eru til þær upplýsingar um mikilvægi hreinleikans. Prestar urðu að þrífa fætur og hendur áður en þeir fóru til helgiþjónustu sinnar. Hreinleiki hins ytra var jafn mikilvægur hreinleika hið innra og forsenda þess að menn gætu nálgast hið heilaga og hinn Heilaga.

Jesús fór úr yfirhöfn sinni, girti sig þvottaklæðum og fyllti skálina af vatni. Han laut niður, kraup fyrir veislufólkinu og byrjaði að þvo. Vinir hans voru ýmsu vanir, en þetta var eitt af því sem var óhugsandi, að Meistarinn gekk í starf þræls, gekk í eiginkonuhlutverk. Þeir vissu að Jesús var meistari gjörninganna, hinna táknrænu viðsnúninga, sem alltaf þjónuðu kennsluhlutverkum. Símon Pétur var ekki maður meðalhófsins heldur hafði sín mál í ökkla eða eyra. Nú gat hann ekki hugsað sér nein fótamál, en svar Jesú var skýrt. Ef Símon Pétur þægi ekki þjónustuna væru þeir ekki lengur vinir. Og lærisveinninn var svipað þeytispjald og Ragnar Reykás, nú vildi hann alhreinsun. En tilboð Jesú var ekki um alþvott skrokksins heldur táknþvott. Verk Jesú var guðsríkisgjörningur. Dagurinn er ekki skírdagur vegna þess að þetta sé þvottadagur líkamans, laugardagur, heldur dagur til að hreinsa lífið, skíra andann, sýna eðli trúarlífsins og til hvers guðsríkið er.

Táknmál fótaþvottarins

Fótaþvottur er góður fyrir vellíðan. Um allan heim er verið að þvo fætur í kirkjum á þessari stundu, ekki til að litlir strákar stynji af sælu eða ömmur gleðjist heldur til að miðla visku Guðsríkisins og mannskilningi: Sá er ekki mestur og bestur, sem trónir á toppnum, á mest af dóti eða er frægastur fyrir spretthlaup samkeppninnar. Best eru þau, sem hafa séð í gegnum glitvefnað veraldar og uppgötvað, að lífsgæðin eru fólgin í að þjóna. Mest eru þau, sem sjá hlutverk sitt í að vera til fyrir aðra og efla velsæld þeirra.

Vald í ríki Jesú er fólgið í öðru en ytri styrk og stöðu. Hásætin eru ekki toppurinn, heldur sest hamingjan fyrst og fremst í þakkláta menn. Þegar fólk eflir aðra eru menn á toppnum. Þegar Jesús var komin á leiðarenda var hann ekki með hugann við valdastólana í Jerúsalem heldur aðeins upptekinn af að þjóna öðrum, fyrst með því að þrífa fætur, bæta líkamslíðan sinna manna og síðan þjóna þeim til borðs, brjóta brauð og tryggja að allt hans fólk nyti næringar. Þannig er Guðsríkið líka líkamlegt og félagslegt umhyggjufyrirbæri, veruleiki til að efla fólk á allan máta.

Við lífslok Jesú opinberaði hann eðli ríkis síns og sýndi sjálfur hvernig lífsafstaða fylgjenda hans ætti að vera. Ef Jesús hefði bara verið upptekin af ytra valdi hefði hann verið gleymdur. En af því hann var altekinn af Messíasarskilningi þjónustunnar frelsar hann heiminn. Jesús skírði merkingu lífsins á skírdegi. Altarisgangan tengist skírdegi, líka Getsemanefrásagan, en dagurinn þiggur nafn sitt af þessari gjörningasögu þvottarins.

Kölluð til að vera

Í sögusafni veraldar eru ýmsar hliðstæðar þjónustusögur. Kunn er sagan af dómara á aðskilnaðartímanum í Suður-Afríku. Hann hafði á heimili sínu svarta þjóna, sem sáu um flest það sem gera þurfti. En maðurinn sótti kirkju sem iðkaði fótaþvott og sá í því atferli ábendingu um lífsafstöðu. Svo vildi til að dómaranum var falið að þvo fætur einnar af þjónustukonum sínum heima. Þegar hann sá hver ætti að njóta hikaði hann við, en kraup svo niður og þvoði þessa svörtu fætur, sem höfðu þjónað honum, fólkinu hans og lífi þeirra. Og fótaþvotturinn varð til að hann sá samhengi sitt að nýju, enduruppgötvaði mennsku sína. Hann sá allt í einu líf sitt í ljósi Jesúafstöðunnar, að manneskjan hefur ekki hlutverk sitt af stéttaskiptingu samfélagsins heldur er manngildi fólgið í og skilgreint af Jesú Kristi. Frammi fyrir Guði höfum við allt aðra skilgreiningu en í mannheimi. Í Guðsríkinu, sem er æðra en mannaríki, erum við þjónar en ekki herrar. Í Guðsríkinu erum við kölluð til auðmýktar gagnvart undri lífsins, til elsku gagnvart þörfum fólks og Guðs góðu sköpunar. Við erum kölluð til að vera það sem við erum - en ekki það sem við eigum eða stjórnum.

Já, við erum allt í einu í öðru samhengi, þegar við erum komin á hnén og farin að þvo fætur. Við höldum áfram að vera við sjálf, vera í fjölmörgum hlutverkum, en þó eru við kölluð til róttækara lífs og dýpri lífsskilnings. Við náum lengst í þjónustunni, við iðkum Jesúlífið með því að þjóna öðrum. Sá mannskilningur opinberast í vatninu í fótþvottaskálinni, sá veruleiki mótar nýjan mannskilning og nýja tilveru. Í fótþvottaskál Jesú speglaðist himininn og þau sem nutu fótþvottarins sáu hinn fullkomna mann speglast í vatninu. Sá sem getur þvegið fætur getur hreinsað, bætt og skírt heiminn.

Drengir umluðu af gleði og amma brosti út að eyrum. Lærisveinarnir mundu eftir þessari makalausu upplifun þegar Jesús fór höndum um tærnar, sælan fór um þá og vitundin fylltist af gleði. Fótþvottur er fyrir lifandi fólk og þjónusta er fyrir lífið. Hlutverk okkar í heiminum er að vera börn Guðsríkis. Skírdagur er til að skíra eðli heimsins, kirkjunnar og okkar.

Amen.

Prédikun í Neskirkju á skírdagskvöldi, 9. apríl, 2009.

B-röð Lexía:  Slm 116.12-19 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig? Ég lyfti bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins. Ég greiði Drottni heit mín og það í augsýn alls lýðs hans. Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans. Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína. Ég færi þér þakkarfórn, ákalla nafn Drottins. Ég greiði Drottni heit mín og það í augsýn alls lýðs hans, í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem, Hallelúja. Pistill:  1Kor 11.23-29 Því að ég hef meðtekið frá Drottni það sem ég hef kennt ykkur: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: „Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.“ Hvert sinn sem þið etið þetta brauð og drekkið af bikarnum boðið þið dauða Drottins þangað til hann kemur. Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins á óverðugan hátt verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins. Hver maður prófi sjálfan sig áður en hann etur af brauðinu og drekkur af bikarnum. Því að sá sem etur og drekkur án þess að gera sér grein fyrir að það er líkami Drottins, hann etur og drekkur sér til dómsáfellis.Guðspjall:  Jóh 13.1-15 Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk. Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú. Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“ Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“ Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“ Jesús segir við hann: „Sá sem laugast hefur þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þið eruð hreinir, þó ekki allir.“ Hann vissi hver mundi svíkja hann og því sagði hann: „Þið eruð ekki allir hreinir.“ Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og sest aftur niður sagði hann við þá: „Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður.