Brunnur miskunnarinnar

Brunnur miskunnarinnar

Það er svo erfitt að átta sig á því, að fyrirgefningin og miskunnsemin eru óaðskiljanlegar systur. Sá sem býr við ófrið í sálinni og er firrtur samfélaginu við það sem er sjálfinu æðra, Guð. skilur ekki samhengið í því að fyrirgefningin vex upp af miskunnseminni og miskunnsemin nærist á fyrirgefningunni. Þessar systur eru hjúpaðar sterkum faðmi kærleikans, eins og hann birtist í Jesú, orðum hans, lífi hans, dauða hans. „Brunnur miskunnarinnar“, segir Hallgrímur.

Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann.

Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til sinnar handar, Jesú í miðið. Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“

Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“

Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:

Þeir skiptu með sér klæðum mínum

og köstuðu hlut um kyrtil minn.

Þetta gerðu hermennirnir.

En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“

Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum.

Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.

Jóh. 19:16-30

Náð sé með yður og friður.

Þetta er dagur krossins. Hann er óvenju fyrirferðamikill í þessari kirkju í dag, - í myndrænum skilningi. Þessi stóri kross er nefnilega glæsilegt myndverk, þegar hann blasir við hér í kór Hallgrímskirkju, - þ.e.a.s. ef við erum hér til þess að dást að handbragðinu, sem frammi fyrir þessu stórbrotna listaverki má telja eðlilegt. En listamaðurinn ætlast ekki til þess. Þvert á móti er hann kominn hingað til þess að hrópa til okkar frá hárri hvelfingu kirkjunnar, þau orð sem Jesús stundi upp, þegar líkami hans og sál voru gegnumrekin allri þeirri vonsku, sem getur safnast saman á einum stað. Orð Krists á krossinum á Golgata.

Jarðneskan líkama Jesú var hægt að færa í örkuml, slökkva þá sál, sem í honum bjó og kæfa þá önd, sem endurspeglaði lífsmynd hans sem jarðnesks manns. Við lýsum því í trúarjátningunni með því að segja um þessi afdrif Jesú: “Krossfestur, dáinn, grafinn. Steig niður til heljar”. Þar eru engin aukaorð. En í þessum líkama, af konu fæddur, sló hjarta algjörs trúartrausts, ómælanlegs kærleika og fullkomins sakleysis. Þess vegna heldur trúarjátningin áfram: “Reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum. Steig upp til himna.” Það var samt ekki verk Jesú, sem gekk hér um á meðal okkar hinna, lifði og dó, heldur kærleiki Guðs, sem dæmdi Jesú réttlátan, án syndar. “Á dögum jarðvistar sinnar bar Jesús með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða. Þótt hann væri sonur Guðs lærði hann að hlýða með því að þjást.” Hebr. 5:7n. Í augum Guðs er Jesús “ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði okkur af syndum okkar og settist til hægri handar hátigninni á hæðum” (Hebr. 1:3).

Það þarf mikinn ófrið í sálinni til þess að drepa mann með því að krossfesta hann, - og fyrir það eitt, að vitna um miskunn Guðs og kærleika hans. Og það þarf mikla fjarlægð frá Guði til að koma því í verk. Sá sem er haldinn ófriði í sjálfum sér og firrtur trúnni á Guð býr við mikið miskunnarleysi í eigin sál. Það sést í verki illvirkjans, og ef nær er skyggnst einnig í sálu hans. Hver vill taka sér stöðu hjá slíkum manni. Hver vogar sér að koma þar til hjálpar, leiða á rétta braut, lækna slíka meinsemd? Hallgrímur hefur skoðað það.

Óvinum friðar blíður bað brunnur miskunnarinnar. Hann vill þeir njóti einnig að ávaxtar pínu sinnar, sagði: Faðir, fyrirgef þú, forblindaðir ei vita nú sjálfir, hvað vont þeir gera. Ps. 34:3

Þannig talar Hallgrímur út frá orðum Jesú: “Faðir fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra” Lk. 23:34. Og krossinn stóri, sem var reistur hér í tilefni dagsins, gefur okkur nýja sýn og nýjan aðgang að þeim orðum í dag, - í myndinni neðst, mynd nr. eitt.

Við sjáum hana öll. Augun á myndinni horfa fram. Á hvern horfir hún? Mig? Já, mér finnst það. Vera má að þér finnist hún einnig horfa á þig. En ég get ekki beinlínis talað út frá mér, þó það standi mér næst, því ég er ekkert, ef ég á ekki neina sýn til þín, eða neina tilfinningu. Ég er ekki manneskja, nema í samfélagi við þig. Ef ég er bara í sjálfum mér og ætti ekki aðgang að þér, og hugsaði bara út frá sjálfum mér og ekki til þín eða um þig, þá skipti það ekki máli, sem væri utan við mig og væri þess vegna bara eitthvað hlutkennt, ópersónulegt og snerti ekki anda minn. (Sjá hugm. M.Bubers). En það er andi Guðs sem gerir mig og þig að manneskju, manni, persónu, með sjálfstæða hugsun og sjálfstæðan vilja. Það er í mót þessari manneskju, sem myndin horfir, mér og þér. Og hvað segja þessi augu, sem virðast lifandi, augu þjáningar og miskunnar. Það er djúp augnanna sem grípur athyglina og þau horfa djúpt ekki satt? “Faðir fyrirgef þeim...” Þessi augu kallar Hallgrímur: “brunn miskunnarinnar”.

Það hlýtur að vera umhugsunarvert að þeir einir eru kallaðir illvirkjar, sem með Jesú voru krossfestir, hvor til sinnar handar. Krossinn er þversögn. En hann er svo stór, svo myndrænn, svo nálægur, að við finnum til um leið og við heyrum orðin, þegar við nálgumst hann, lítum til hans, lesum um hann í ritningunum, já, eða ef við tökum okkur stöðu frammi fyrir honum og sláumst í hópinn með hinum, Maríu, þeim þrem nöfnunum, Jóhannesi og svo fulltrúum valdsins, sem voru þess umkomnir, frammi fyrir þjáningunni, að spila upp á það eina, sem var til af veraldlegum gæðum Jesú, fötin hans. Alla vega eru á Golgata samankomnir illvirkjar, valdsmenn - og vinir Jesú, - sjálfsagt einhverjir fleiri. Það finnast alltaf áhorfendur að auglýstum hryllingi. Minnumst þess þó, að fólk er þar saman komið af mismunandi ástæðum. En ég er ég og þú ert þú og við myndum þennan hóp. Og þegar öllu er á botninn hvolft, er erfitt að finna út hver er bestur og hver verstur. Svo mikið er víst að móðir Jesú og vinir hans hættu lífi sínu til þess að standa með Jesú og gefa honum þann litla styrk, sem þau máttu veita við slíkar aðstæður, en Pétur vantaði, klettinn. Orðin berast til okkar allra: “Faðir fyrirgef þeim...” og það voru einmitt þau, ástvinir Jesú, frammi fyrir krossinum, sem námu þau orð og varðveittu þau fyrir okkur hin. Við skulum veita því athygli, að Jesús biður föður sinn á himnum um að fyrirgefa “þeim”, þ.e. hann biður öðrum en sjálfum sér fyrirgefningar. Hefur maður nokkurn tíma beðið aðra manneskju um að fyrirgefa einhverjum öðrum en sjálfum sér. Það er nú víst nógu erfitt að biðjast fyrirgefningar, eða þá að fyrirgefa öðrum, þótt ekki sé líka ætlast til að beðið sé fyrirgefningar öðrum til handa. En þannig er það, ef ég vil á annað borð komast út fyrir lokuða verund sálar minnar. Fyrirgefningin varðar bæði mig og þig. Hún varðar allt samfélagið. Hún er hluti mannlífsins. Líklega sá hluti þess, sem helst getur komið í veg fyrir að það liðist í sundur, eins og fjölskylda, sem ekki vill tala saman, eða þjóðarbrot, trúarhópar, sem ekki treysta á neitt, nema sjálfan sig í eigin veröld vanþroska, fáfræði og heimsku. Það er svo erfitt að átta sig á því, að fyrirgefningin og miskunnsemin eru óaðskiljanlegar systur. Sá sem býr við ófrið í sálinni og er firrtur samfélaginu við það sem er sjálfinu æðra, Guð. skilur ekki samhengið í því að fyrirgefningin vex upp af miskunnseminni og miskunnsemin nærist á fyrirgefningunni. Þessar systur eru hjúpaðar sterkum faðmi kærleikans, eins og hann birtist í Jesú, orðum hans, lífi hans, dauða hans. “Brunnur miskunnarinnar”, segir Hallgrímur. Hann skilur. Sá skilur, sem opnar hjarta sitt og huga fyrir anda Guðs.

Þetta er dagur krossins. Þjáningin er líka hluti þess að vera maður, manneskja, móðir, faðir, barn, ástvinur, - samlandi, eða hluti mannkyns, af sama bergi brotinn, barn Guðs og það erum við. Það sem hugsanlega getur haldið þessum hópi saman er kærleikur, og límið til þess, að ekki komi þar í brestir, eru miskunnsemi, fyrirgefning, þar sem ég og þú mætast.

Þetta getur aðeins opinberast okkur fyrir anda Guðs. Það skilur enginn orð Guðs, nema með því að treysta á anda hans - í hverju orði. Án trúartrausts eru hlustirnar lokaðar og hjartað kalt. Án trúartrausts mælir munnurinn út í tóm einsemdarinnar. Þá eru þar ekki ég og þú, heldur bara ég.

Menn leita skýringa á örsök stríðs og ófriðar. Spyrja í sömu andrá, hvar er leið friðarins? En eins og eitt fórnarlamb seinni heimsstyrjaldar sagði, D. Bonhoeffer: ‘Leiðin til friðar er ekki vörðuð tryggingum eða baktryggingum. Það er vegna þess að friður verður aðeins til þar sem ríkir traust. Í því felst áhætta mannlífsins. Það er ævintýrið, um það sem aldrei verður öruggt, skothelt. Friður er andstæða við öryggi. Sá sem krefst öryggis, vantreystir, og það er vantraust, sem um síðir leiðir til stríðs. Sá sem krefst tryggðapants, hinnar fullkomnu baktryggingar, gengur aðeins út frá eigin öryggi.’ (byggt á kommentar D.B. út frá Ds. 85). Hann er bara ég, - án þín.

Friður byggist á trausti til þess, sem er mér æðra og tekur um leið tillit til þín. Af sömu ástæðum getum við sagt að það sé ekkert að hinni fallandi krónu, heldur fremur þeim, sem renna henni um greipar sér. Gengið fer eftir lögmálum mannasetninga um tryggðapant. Og þar sem allt byggist á öryggiskerfum og tryggingum, hverfur traustið við minnsta grun og jarðvegur upplausnar verður til. Öryggiskerfi í húsum byggir meira að segja á vantrausti og ótta. Og það er alið á ótta húsráðenda, svo vantraustið verði traustinu yfirsterkara. Það er jafnvel atvinnuskapandi og þekkt fyrirbæri, bæði heimi lögræðis og lögleysis. Og okkur finnst þjónustan góð! Jesús trúir. Faðir fyrirgef þeim, þeir vita ekki hvað þeir gjöra...

Það er gott að mega safnast að krossi Krists. Hvergi er ásýnd miskunnarinnar sterkari, hvergi er áhrifaríkara að horfast í augu við verund Guðs, hugleiða tilveru sína og tilfinningar, væntingar og vonir, leggja á djúpið og leggja önd sína, - hugsun, sál og líkama, fram fyrir uppreistan kross, þar sem brunnur miskunnarinnar nærir og læknar, græðir og styrkir. Krossinn er þvertré, þversögn. Hann er dómur yfir öllu því, sem maðurinn gerir verst. En í honum felst von allrar framtíðar.

Og þegar Jesús gaf upp andann, áttu lærisveinar hans ekkert nema von upprisunnar fyrir orð hans. “...ef þú trúir munt þú sjá Guðs dýrð...” (Jh. 11:26)