"Lýðræðið deyr í myrkrinu"

"Lýðræðið deyr í myrkrinu"

Í samhengi nútímalýðræðissamfélags hlýtur því fagnaðarerindið að krefjast þess að kjörnum fulltrúum sé veitt aðhald og að gagnsæi ríki í allri vinnu og ákvarðanatöku þannig að réttlæti fái þrifist í því ljósi sem stafar af anda sannleikans en myrkrinu sé ekki gefið færi á því að verða skjól þeim verkum sem ekki þola dagsins ljós. Og þar á þjóðkirkjan að fara fyrir með góðu fordæmi.
Mynd

Prédikun flutt í Háteigskirkju 15. maí 2022

Lexía: Esk 36.26-28; Pistill: Jak 1.17-21; Guðspjall: Jóh 16.5-15

„Faðir ljósanna, lífsins rósanna, lýstu landinu kalda“ sungum við hér áðan í sálmi Matthíasar Jochumssonar. Guð er hér ávarpaður sem skapari himintunglanna, sá sem lætur sólina senda lífgefandi geisla sína að lokka lífið upp úr sverðinum að loknum löngum og ströngum vetri í harðbýlu landi, og verður þannig fámennri þjóð „líkn í lífsstríði alda“. Ljósið, sem Matthías hefur í huga, er sem sé sólarljósið í bókstaflegri merkingu, sem forsenda lífs í lífeðlisfræðilegum skilningi. En orðið „líf“ er margrætt og hefur margar merkingar og getur t.d. vísað til örlaga fólks, lífsgöngu þess frá vöggu til grafar. Þá er það ekki lengur lífeðlisfræðilegrar merkingar heldur félagslegrar og vekur spurninguna: Hvernig reiddi þessum einstaklingi af? Hvernig hagaði hann eða hún lífi sínu? Og á samfélagslegu plani: Hvað einkennir lífið í þessu eða hinu samfélaginu? Einkennist stjórnafarið af lýðræði borgaranna eða alræði fámenns hóps? Búa íbúarnir við velmegun eða fátækt? Ríkir frelsi og umburðarlyndi eða forpokuð afturhaldssemi?


Það er á þessu félagslega sviði sem höfundur Jakobsbréfs hugsar sér áhrif Guðs sem „föður ljósanna“. Þó svo að hann sé sannarlega að vísa til trúarinnar á Guð sem skapara himintunglanna þá gefur hann orðunum nýja og óeiginlega merkingu. Það ljós sem frá Guði er sprottið er ekki aðeins sýnilegt sólarljósið sem hitar upp Jörðina heldur einnig það ljós sem lýsir upp hvern þann vettvang mannlegs samfélags þar sem réttlætið dafnar og lýsir innra með hverri þeirri manneskju sem tekur með hógværð á móti orði Guðs. Reyndar lítur höfundur bréfsins svo á – líkt og t.d. svo margir höfundar Gamlatestamentisritanna á undan honum – að orð og vilji Guðs, sem andi hans miðlar, sé forsenda réttláts samfélags. Í síðustu versum Gamla testamentisins, í Spádómsbók Malakí, er einmitt brugðið upp mynd af því þegar „sól réttlætisins“ mun renna upp yfir þá sem virða nafn Guðs eins og það er kallað og vængir hennar færa lækningu. Það má skilja sól réttlætisins sem myndmál fyrir Guð eða gæsku og náð Guðs og hér blandar skáldið á snilldarlegan hátt saman tveimur myndum: annars vegar af sólinni, sem á breiddargráðunni fyrir botni Miðjarðarhafs er ekki aðeins lífsnauðsyn heldur getur einnig verið banvæn, og hins vegar af fuglinum sem breiðir út vængina til þess að skýla ungum sínum fyrir steikjandi sólarbreyskjunni. Þar með verður ljóst að hið guðlega ljós sem af sól réttlætisins stafar er fyrst og fremst eða jafnvel einvörðungu lífgefandi og gefur skjól.


En í því felst auðvitað ákveðin þversögn því að maður sér jú frekar fyrir sér að skjól sé að finna í skugganum líkt og unginn finnur skjól í skugganum af vængjum móður sinnar eða föður. En þversögnin leysist upp þegar við áttum okkur á því fyrir hverju sól réttlætisins veitir skjól: Hún veitir skjól fyrir myrkrinu! „Hjá [föður ljósanna] er engin umbreyting eða flöktandi skuggar“ segir í pistlinum, sem og: „Hann ákvað að láta orð sannleikans vekja okkur til lífs.“ Þessi hugsun kallast á við það sem segir í 1. Jóhannesarbréfi: „Guð er ljós, og myrkur er alls ekki í honum.“  Þar er myrkrið táknmynd fyrir syndina, sem hindrar framgang þess réttlætis, sem Guð vill að ríki í samfélagi manna. Þar segir jafnframt:


 2.9 Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. 10 Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. 11 En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.“


Það er með öðrum orðum skortur á náungakærleika sem einkennir líf sem lifað er í myrkrinu en ekki aðeins það heldur einnig það sem höfundurinn kallar að elska heiminn fremur en Guð. Í því felst m.a. að girnast allt sem glepur augað og gera sig sekan um oflæti vegna eigna sinni. Það er sem sé verið að mæla gegn veraldarhyggju, sem við myndum í dag kalla efnishyggju og neyslumenningu, ágirnd í efnisleg gæði, en jafnframt ágirnd í völd því oflætið sem sprettur af eignum er vissulega birtingarmynd ákveðinnar valdastöðu. Og pólitísk völd eru á vissan hátt óáþreifanleg eign sem tryggir áhrif og stöðu í samfélaginu.


Þessi orðræða ritningartextanna um ljós og myrkur er áhugaverð í ljósi þess að við gengum að kjörborðinu í sveitarstjórnarkosningum í gær en það sem vakti hugrenningatengsl mín við kosningarnar var það, að ég rak augun í einkunnarorð stórblaðsins Washington Post, sem ég les stundum, en þau hljóma þannig: Democracy Dies in Darkness eða „lýðræðið deyr í myrkrinu“. Einhverja rekur kannski minni til þess að það var ekki síst fyrir tilstilli blaðamanna Washington Post sem flett var ofan af Watergate-hneykslinu sem að lokum leiddi til afsagnar Richards Nixons Bandaríkjaforseta 1974. Oft er talað um baktjaldamakk og að ákvarðanir séu teknar í reykfylltum bakherbergjum og gjörðir manna þoli ekki dagsljósið. Þannig er lýst hvernig fólk notar vafasamar aðferðir sem eru ekki endilega í samræmi við reglur lýðræðisins og misnotar jafnvel stöðu sín í sókn sinni eftir auði og völdum eða til þess að tryggja völd sín. Það verkfæri sem lýðræðislegt samfélag kallar í auknum mæli eftir til þess að verjast slíkri misnotkun kallast gagnsæi: að forsendur fyrir öllum ákvörðunum sem varða almannahag séu uppi á borðum og að allir sitji við sama borð þegar kemur að úthlutun gæða af hvers kyns tagi. Þessi krafa hlýtur að vera eðlileg á öllum stjórnstigum og í öllum stofnunum samfélagsins og félagasamtökum – einnig þjóðkirkjunni þótt hún heyri ekki lengur undir stjórnsýslulög.


Nú, að loknum sveitarstjórnarkosningum, býður það verkefni kjörinna fulltrúa að sinna rekstri sveitarfélaganna og vinna að ýmsum framfaramálum í þágu íbúanna. Í hverri guðsþjónustu þjóðkirkjunnar biður þjónandi prestur fyrir hönd safnaðarins hinnar almennu kirkjubænar að lokinni prédikun. Þar er Guð meðal annars beðinn um að gefa þeim sem starfa í almannaþágu visku og kærleika til þess að þjóna samfélaginu. Þetta er ekki innihaldslaus bæn eða einhver hugsunarlaus þula sem endurtekin er sunnudag eftir sunnudag án þess að þess sé vænst að hún hafi í raun áhrif. Þvert á móti stendur þessi bæn föstum rótum í þeirri sannfærðu trú kristinnar kirkju að það sé rétt sem Jóhannes guðspjallamaður hefur eftir Kristi í guðspjalli dagsins þegar hann segist ætla að senda lærisveinunum hjálpara, anda sannleikans. Í þessu felst sú trú að andi Guðs sé að verki í heiminum og að hann geti haft áhrif á fólk. Í lexíu dagsins er það orðað sem svo að í stað steinhjarta gefi Guð manneskjunni hjarta af holdi, sem merkir að það sé móttækilegt fyrir orði og vilja Guðs, móttækilegt fyrir því að gera það sem er gott og rétt. En um leið er bænin hvatning sem beint er til hinna kjörnu fulltrúa og eftir atvikum þeirra í söfnuðinum sem hafa ábyrgðarstöður með hendi.


Texti Jóhannesarguðspjalls er sannarlega ekki auðskiljanlegur en engu að síður er Jóhannes það guðspjall sem hefur haft hvað mest áhrif á kristna trú. Ein ástæðan fyrir því kann að vera sú að inntak þess er torrætt og dularfullt og við hrífumst af leyndardómum og gátum. En önnur og þungvægari skýring kann að felast í þeirri staðreynd að ólíkt Matteusi, Markúsi og Lúkasi sem leggja svo mikla áherslu á trúna á endurkomu Krists á efsta degi, leggur Jóhannes áherslu á heilagur andi haldi áfram verki Krists í samfélagi lærisveinanna og að það verk skuli birtast á lifandi hátt í orði og verki kirkjunnar. M.ö.o.: Endurkoma Krists, sem hinir guðspjallamennirnir þrír gerðu ráð fyrir einhvern tíma í framtíðinni, er fyrir Jóhannes þegar orðin að veruleika í sendingu hjálparans, sem að öllu leyti er hliðstæður Jesú í hlutverki sínu sem opinberandi Guðs vilja. Þar af leiðir einnig að dómurinn yfir ranglæti heimsins á sér ekki stað á hinum efsta degi heldur á sér þegar stað í boðun trúarinnar á Jesú, krossfestan og upprisinn, og á sigur lífsins yfir dauðanum, sigur réttlætisins yfir ranglætinu. Af þessum sökum er það frumskylda kirkjunnar og ekki síst vígðra þjóna hennar, sem söfnuðirnir hafa valið til þess að sinna hinu heilaga prests- og prédikunarembætti, að boða fagnaðarerindið sem henni er trúað fyrir, fagnaðarerindi réttlætisins.


Í samhengi nútímalýðræðissamfélags hlýtur því fagnaðarerindið að krefjast þess að kjörnum fulltrúum sé veitt aðhald og að gagnsæi ríki í allri vinnu og ákvarðanatöku þannig að réttlæti fái þrifist í því ljósi sem stafar af anda sannleikans en myrkrinu sé ekki gefið færi á því að verða skjól þeim verkum sem ekki þola dagsins ljós. Og þar á þjóðkirkjan að fara fyrir með góðu fordæmi.


Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.