Hvað er málið?

Hvað er málið?

Að jafnaði eru illir andar allt annað en mállausir. Nú er í tísku vestan hafs að flytja falskar fréttir í fjölmiðlum. Hvers konar hvatir eru þar að baki? Hverjum þjóna þær sannarlega? Spyr sá sem ekki veit. Það er mjög mikilvægt þegar þessi kórónafaraldur gengur yfir heiminn að halda fólki um allan heim upplýstu og því er ábyrgð fjölmiðla mikil að flytja réttar upplýsingar


Guð, uppspretta ljóssins. Þú opnar augu okkar svo að við getum séð í gegn um hið óútskýrða og þorum að trúa þrátt fyrir allt óöryggið. Hjálpa þú okkur að taka eftir ljósinu sem lýsir okkur í Jesú Kristi og hrekur hverkyns nótt á brott. Því að hann er ljósið okkar að eilífu. Amen.

Guðspjall dagsins segir frá því þegar Jesús læknaði mann sem hafði misst málið. Stundum missir fólk málð eftir slag eða heilablæðingu. Það er gríðarlega erfitt að missa málið og geta ekki tjáð sig með orðum. Skaðinn er skeður en stundum kemur hæfileikinn til að tala með þjálfun. Það kemur ekki fram hver hafi verið ástæðan fyrir því að þessi maður hafi misst málið. Samtíðarfólk Jesú hafði engu að síður sínar skýringar á því. Þar var illur andi að verki. Okkur nútímafólki þykir þetta vera fjarstæð skýring. Við höldum því fram að samtíðarfólk Jesú hafi ekki vitað betur. Á þeim tíma hafði fólk sínar skýringar á því sem var að gerast. Við höfum líka okkar skoðanir.

Við þekkjum nú margar staðreyndir sem fólk á þeim tíma þekkti ekki. Það hafði ekki vitneskju okkar um sýkla og veirur. Þá voru ekki til lyf sem virkuð gegn veirum og sýklum. Penisilínið var ekki til. Ef fólk fékk alvarlegar sýkingar þá féll það frá fyrr en síðar. Samtíðarfólk Jesú þekkti ekki til orsaka líkamlegra sjúkdóma sem okkur þykja augljósar og fullskírðar. Það hafði ekki grun um þær aðferðir til sjúkdómsgerininga sem vísindi nútímans hafa fundið og beitt með ótvíræðum og blessunarríkum árangri.

Samtíð Jesú talaði sitt mál þegar hún rýndi gátur hins illa. Vissulega erum við ekki sammála þessu fólki sem þá lifði. En vitum við allt betur en samtíðarfólk Jesú. Erum við nær því að leysa lífsins gátur?  Við vitum meira um margar orsakir en þar með er ekki öllu svarað.

Við hittum fyrir mállausa manneskju eða annað fólk sem er að glíma við alls konar sjúkdóma af líkamlegu og andlegu tagi. Við vitum ekki hvernig því líður og eigum erfitt með að setja okkur í þeirra spor. Aðstandendur sjúkra fyrrum og nú á tímum horfast í augu við hina miklu gátu á bak við öll svör  Hvers vegna þurfum við að ganga í gegnum þetta? Hvers vegna er þetta á okkur lagt?

Hér nær vitneskja okkar ekkert lengra en þeirra sem uppi voru fyrir tvö þúsund árum. Við hlæjum að svörum þeirra sumum en við spurningum táranna eigum við engin svör. Þar hjálpa vísindin ekki. Og hvert getum við leitað þegar öll mannleg hjálp er þrotin? Hver er hinn sterkari þegar bölið beygir eða þegar ill atvik og vond áhrif valdla lánleysi?  Það er Jesús en nafnið merkir sá sem hjálpar, sá sem frelsar

Í dag horfumst við í augu vð hið óútskýrða og við þorum að leggja traust okkar á persónulegan Guð í Jesú Kristi sem er bróðir okkar og frelsari sem með fingri sínum getur rekið allt illt á brott eins og fram kemur í guðspjalli dagsins sem er sterkur vitnisburður um styrkleika Guðs gagnvart öllu böli sem mannkynið glímir við á öllum tímum.

Þrátt fyrir að læknavísindunum hafi tekist að framleiða lyf við ýmsum sjúkdómum þá geta nýir sjúkdómar skotið upp kollinum. Nú geisar faraldur um allan heim en ný tegund kórónuveiru greindist í Kína fyrir jólin Útbreiðsla hennar er með ólíkindum hröð því að smitleiðirnar eru margar.  Hún ber nafnið covid 19. Hún er bráð smitandi.  Þegar við höfum fengið hefðbundið kvef þá var það vegna smits frá veiru sem er líka nefnd kórónuveira en hún er ekki eins hættuleg  og ónæmiskerfi líkamans ræður undir venjulegum kringumstæðum við hana.

Við erum hvött til að gæta varúðar í samskiptum og þvo okkur vel um hendur með sápu sem vinnur betur á veirurnni en sprittið að sögn þeirra sem til þekkja.    .

Á föstudag ákváðu yfirvöld sóttvarna í samráði við ráðherra heilbrigðismála að leggja til að samkomubann, þar sem fleiri en 100 koma saman, hefjist á miðnætti í kvöld.  Lagt er til að það vari eigi skemur en einn mánuð. Í framhaldi af þessari ákvörðun ákvað biskup Íslands að allt messuhald og vorfermingar falla niður í þjóðkirkjunni.  Ákvörðunin er tekin með almannaheill í húfi og gildir á meðan samkomubann er í gildi. Streymt verður frá messuhaldi á netinu þann tíma sem almennt messuhald fellur niður.  Í tilkynningu biskups kemur fram að þessi ákvörðun setur þann einstaka viðburð sem ferming er hverjum og einstaklingi og fjölskyldu hans í erfiða stöðu.  Fermingardagur er tímamótaviðburður í lífi einstaklinga. Um leið er dagurinn oft mikið ættar og vinarmót þar sem fólk á öllum aldri kemur saman til að samfagna fermingarbörnunum, ekki síst eldra fólk sem kann að vera í svokölluðum áhættuflokki gagnvar veirunni. Ákvörðunin er tekið með velferð fólks í huga.

Við tökum undir þessi orð biskups.

Við vonum að faraldurinn gangi fljótt yfir heiminn á næstu mánuðum. Vonandi finna læknavísindin svar við þessari nýju veiru í formi bóluefnis á næstu misserum.

Læknavísindin í dag eiga langt í land með að finna fullkomna lækningu gagnvart helstu sjúkdómum sem herja á fólk, t.d. krabbameininu.  Þau hafa þó stuðlað að langlífi fólks sem lifir í dag mun lengur en áður fyrr, hvað þá á dögum Jesú.

Veðurfarið í vetur hefur valdið ýmsum mikilum búsifjum, t.d. á Flateyri í kjölfar snjóflóðs sem vakti upp minningar um snjóflóðið þungbæra 1995. Og nú fyrir helgi varð harðasti jarðskjálfti á Reykjanesi síðan óróinn byrjaði þar á síðasta ári. Náttúran lætur ekki að sér hæða og við þurfum að glíma við óblíð náttúruöfl líkt og forfeður okkar gerðu, mikið hvassviðri og fannfergi.

Efnahagsleg áhrif kórónuveirunnar eru þungbær fyrir ferðaþjónustuna í landinu ekki síst í ljósi nýjustu tíðinda þegar Bandaríkjaforseti ákvað að banna flug frá Ameríku til Evrópu í tvo mánuði.   Það er hætt við því að margir ur þessum geira fái uppsagnarbréf í hendur um mánaðamótin. Og hlutabréfamarkaðir í heiminum eru nú í frjálsu falli með tilheyrandi búsifjum fyrir fyrirtæki, félög og fjárfesta.

Hvers vegna þurfum við að ganga í gegnum þetta allt saman í vetur, jafnvel ofan á allt annað sem við erum að glíma við?  Er lífið eitt samfellt reynslupróf þar sem hver veldur sem á heldur?  Lífið kennir okkur að við eigum bara þennan dag. Þess vegna ber okkur að sýna varkárni í samskiptum við hvert annað. Það er erfitt að mega ekki knúsa hvort annað í þessu árferði eða heilast og kveðja með handabandi í kirkjudyrum sem annars staðar. Nú er mikilvægt að þjappa okkur saman sem aldrei fyrr, sýna þolinmæði og þolgæði, umburðarlyndi og tillitssemi, og tala fallega við hvert annað. Við þurfum sérstaklega að hugsa vel um aldrað fólk og aðra sem standa höllum fæti gagnvart veirunni og eru t.d. með veikt ónæmiskerfi.

Við þurfum að tala við börnin okkar og barnabörnin og fullvissa þau um að heimurinn sé ekki að farast en umfjöllun um loftslagsmál vakti upp slíkar hugsanir hjá börnum heimsins. Við erum hins vegar minnt á það að Guð hefur gefið okkur jörðina með öllu því sem prýðir hana og því ber okkur skylda til að fara vel með auðæfi jarðarinnar.

Það er talað um það að við lifum nú fordæmalausa tíma. Það hefur borið á því að fólk sé  að hamstra mat og klósettrúllur í verslunum en það er til nóg af mat og klósettrúllum í landinu. Það er ekkert sem bendir til þess að vöruskortur sé framundan að sögn þeirra sem til þekkja.

Það er mikilvægt fyrir fólk að halda ró sinni í samkomubanninu. Tíminn vinnur með okkur gagnvarveirunni. Vissulega gerir hún okkur skráveifu með ýmsum hætti en hún mun ekki eiga síðasta orðið. Við íslendingar höfum áður þurft að ganga í gegnum erfiðleika til sjávar og sveita, ekki síst af völdum náttúruhamfara. Við lifðum efnahagshrunið af og gott betur og við munum sigrast á þessari veiru fyrr en síðar með hjálp læknavísindanna og Guðs sem gefur öllu þessu góða fólki um heim allan sem glímir við veiruna vísdóm til að stöðva framgang hennar.

Guðspjallið greinir frá því að Jesús læknaði mann sem hafði misst málið. Sumir samtímamenn Jesú sem urðu vitni að þessu sökuðu hann um að gera þetta með hjálp höfðingja illra anda.

Ég hef umgengist mállaust fólk sem tjáir sig með táknmáli. Aldrei hefur mér dottið í hug að illir andar hafi gert þetta fólk mállaust.  Hins vegar finnst mér þefur illra anda af því sem sumt fólk tjáir sig um á netinu þar sem hægt er að leggja fólk á öllum aldri í einelti. Það er líka vondur fnykur af mörgu því sem fólk skrifar um annað fólk í kommentakerfum fjölmiðla á netinu.   

Það kemur fyrir að menn missa mál þegar síst skyldi.  Margir kannast við það. Alltof margir.  Það var eitt sáttarorð sem koma þurfti, ein einföld viðurkenning, ein hlý athugasemd, eitt orð til að brjót ísinn. Þetta litla orð kom ekki. Orðið sem hefði getað gert kraftaverk, eins og á stóð. Það kom ekki. Það var eins og það frysi á vörum, eins og tungan væri haldin.  Þetta gerist milli hjóna, milli systkina, milli barns og foreldri. Þegjandi kali milli manna,freðin þögn hefur stundum orðið lamandi kvöl, ævilöng þraut. Það er líkt og að mállaus  illur andi hafi komist upp á milli manna.

Að jafnaði eru illir andar allt annað en mállausir. Nú er í tísku vestan hafs að flytja falskar fréttir í fjölmiðlum. Hvers konar hvatir eru þar að baki? Hverjum þjóna þær sannarlega?  Spyr sá sem ekki veit.

Það er mjög mikilvægt þegar þessi kórónafaraldur gengur yfir heiminn að halda fólki um allan heim upplýstu og því er ábyrgð fjölmiðla mikil að flytja réttar upplýsingar. Og yfirvöld í hverju landi fyrir sig ber skylda til að efla sínar sóttvarnir í þágu borgaranna og segja fjölmiðlum rétt frá svo allir jarðarbúar séu upplýstir á hverjum tíma.

Jesús segir að sannleikurinn muni gera okkur frjáls. Við erum minnt á það á föstunni á Jesús er í baráttu við illar hvatir,óræð viðbrögð, hið illa í tilverunni. En hann er og verður hinn sterkari. Við erum merkt honum í heilagri skírn. Við höfum sigurmerki hans á enni og brjósti, krossins heilaga sigurtákn.  Þegar við signum okkur þá vottum við hverju ósýnilegu og sýnilegu auga hverjum við  tilheyrum.  Við sýnum þá að við  tilheyrum Jesú sem allt hið illa flýr. Við eigum hlutdeild í sigri hans gagnvart dauðanum.

Kæru vinir. Við skulum halda ró okkar og taka ekki þátt í hræðsluáróðri og æsifréttamennsku heldur fara varlega og minna á náungakærleikann, þolinmæðina og umfram allt vonina um betri tíma.

 ,,Því að ekki gaf Guð okkur anda hugleysis heldur anda máttar og kærleiks og stillingar” Amen.

             

      Flutt í Árbæjarkirkju 15 mars 2020 í þann mund  sem samkomubann skall á.