Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Neyð annarra vekur mismikinn áhuga hjá okkur og öðrum. Neyð okkar vekur mismikla athygli annarra. Í fjölmiðlunum sjáum við og heyrum um þau, sem eiga í einhvers konar erfiðleikum og það snertir okkur efalaust á einhvern hátt. Maður staldrar ef til vill við og leiðir huga og hjarta til viðkomandi en svo flettir maður blaðinu áfram og skilur það svo eftir eða hendir því.

Neyð annarra vekur mismikinn áhuga hjá okkur og öðrum. Neyð okkar vekur mismikla athygli annarra. Í fjölmiðlunum sjáum við og heyrum um þau, sem eiga í einhvers konar erfiðleikum og það snertir okkur efalaust á einhvern hátt. Maður staldrar ef til vill við og leiðir huga og hjarta til viðkomandi en svo flettir maður blaðinu áfram og skilur það svo eftir eða hendir því. Lífið heldur áfram og önnur verkefni og hugðarefni taka við. En allt í einu verður sorgin þín. Þá öðlast hún dýpri og eiginlegri merkingu. Hún snertir þá þínar innstu tilfinningar og þær hafa ýmsar birtingarmyndir eins og reiði, máttleysi, lost, afneitun, samþykki og svo mætti áfram telja. Stundum veit maður ekki hvað á sér stendur veðrið þegar allar þessar tilfinningar skjóta upp kollinum og hvolfast yfir mann. Kanverska konan, sem guðspjall dagsins segir frá átti dóttur, sem var kvalinn illum anda. Móðirin reyndi allt sem hún gat til að hjálpa barninu sínu. Þá sammannlegu tilfinningu þekkjum við, sem eigum börn, að vilja allt fyrir þau gera. Kanverska konan leitaði til Jesú Krists. Manns af öðru þjóðerni og bað hann ad hjálpa sér, því vafalaust hefur hún frétt af lækningamátti hans og kraftaverkum. Hann nam staðar og ræddi við konuna og heyrði og skynjaði að fyrir henni skipti þjóðerni ekki máli heldur það að hún væri manneskja að biðja hann um hjálp. Hún trúði því að hann gæti hjálpað dóttur hennar og hann gerði það. Stundum rötum við eða aðrir í aðstæður, sem virðast yfirþyrmandi og óendanlega flóknar. Lífið og gildi þess taka þá breytingum. Það er auðvelt ad verða fastur í þessum aðstæðum og allt getur kannski virst bara vera urð og grjót og bara upp í mót, en reyndar lýkur kvæðinu Fjallganga eftir Tómas Gudmundsson með þeim orðum að þetta sé ekki misbratt heldur bara misflatt. Miklu skiptir ad eiga góða að. Fjölskyldu og vini, sem færa manni sanna vináttu, nærveru og stuðning og svo margt annað, sem aldrei verður metið til fjár. Til dæmis bros eða þögn með skilningi. “Bros getur dimmu í dagsljós breytt”, segir Einar Benediktsson í einu ljóða sinna. Þetta bros eða vinarþel þarf ekkert endilega ad koma frá ættingjum eða vinum heldur frá þeim, sem á vegi manns verða í lífinu. Og ekki þá vegna þess að viðkomandi er skoðannasystkini manns, eða gömul skólasystir eda skólabróðir. Heldur vegna þess að viðkomandi er barn Guðs rétt eins og ég og þú erum. En svo eru líka til dæmi þar sem hoggið er fast og illa að þeim sem minnst mega við því og könnumst við, við orðatiltækið: “Heggur sá er hlífa skyldi”. Lífið er nú einu sinni þannig að við verðum að fara að með gát í samskiptum okkar við aðra. “Ég hef ekki upplifað annan eins ágang fjölmiðla frá Íslandi, það er eins og við séum að verja fjöldamorðingja.” Þessi orð eru viðhöfð eftir erlendum lögfræðingi, sem er verjandi einstaklings frá Íslandi, sem er að takast á við erfiða hluti i lífi sinu fjarri fjölskyldu sinni og vinum í ókunnu landi. Lögfræðingurinn er lýsa áhuga nokkurra íslenskra fjölmiðla á máli þessa tiltekna einstaklings, mörgum símhringjingum, fyrirspurnum og spurningum og finnst nóg um áhugann. Því miður er það svo að ákveðnir fjölmiðlar hafa tekið sér mikið vald í hendur og sett fram kenningar í málum, sem hennta ef til vill hagsmunum þeirra best, hverjir svo sem þeir hagsmunir eru. En hver er þeirra sannleikur, sem gæta þess ekki að virða náunga sinn hver svo sem hann kann að vera? Kannski eru notaðar röksemdir eins og að það sé verið að koma sannleikanum á framfæri og það verði að eiga ser stað þó svo að það hafi einhver óþægindi i för með sér. “Aðgát skal höfð í nærveru sálar”, er góður íslenskur málsháttur sem maður verður stöðugt að hafa í heiðri og virða. Við getum sært og meitt án þess að við viljum það. Við erum mannleg. Það er ekki auðvelt að setja sig inn í aðstæður annarra. Enginn lifir manns eigin lífi nema maður sjálfur. Að misskilja eitthvað er ekki flókið. Og að heyra bara það, sem maður vill heyra er heldur ekki flókið. En við verðum að bera ábyrgð á því sem við segjum eða gerum. Stundum eru einstaklingar og fjölskyldur teknar fyrir hjá einhverjum fjölmiðlum þannig að það svíður undan. Svo er kannski vitnað í þessar eða hinar siðareglurnar og farið fram á að farið sé eftir þeim. Fer maður sjálfur eftir þessum reglum? Það verður maður að eiga við samvisku sína. Myndbirtingar, hártoganir, skilningsleysi, peningagróði og fordómar eru dæmi um nokkur orð, sem fara i gegnum hug manns og hjarta við þess háttar aðstæður. Fordóma er auðvelt að hafa. Þeir eru gjarnan felldir án þess að viðkomandi séu málin eða málefnin mikið kunnug. Það er auðvelt að setja saman alls konar tengingar og sögur án þess að hafa í raun forsemdur til þess. Hefðu einhverjir fjölmiðlar fjallað um mál kanversku konunnar og dóttur hennar? Ef svo hefði verið, með hvaða hætti þá? Hver hefði verið þeirra sannleikur?

Kristin trú kallar okkur sérhvert og eitt til ábyrgðar. Ábyrgðar i lífinu. Að við tökum ábyrgð á okkar eigin lífi og að við sýnum hvort öðru og okkur sjálfum virðingu og kærleika, rétt eins og Jesús Kristur gerði við Kanversku konuna. Lífið er að kristnum skilningi, gjöf fra Guði almáttugum. Gjöf sem okkur ber ad gæta vel að. Hann deildi gleði himnanna með englum Guðs en afsalaði sér því öllu til þess ag geta verið með hverju og einu okkar i okkar raunum. Jesús Kristur er svar Guðs vidð spurningum okkar andspænis ráðgátu þjáningarinnar. Og svar hans er ekki fólgið í orðum og skýringum, heldur í leið umhyggjunnar, miskunnar og fyrirgefningar. Guð er Guð hinna varnarlausu, sorgmæddu, hinna smáðu og allra þeirra sem verða undir þegar erfiðar bylgjur skella á. Hann er mátturinn, sem einn megnar að leiða mann i gegnum sorg til huggunar, gegnum dauða til lífs. Hann er Guð okkar allra. Hver svo sem við erum og hvar sem við erum. Og hann er alltaf með í för á lífsins göngu.