Íslendingar borða ekki pöddur

Íslendingar borða ekki pöddur

Brottkast afla er mikið vandamál og stóralvarlegt frá sjónarhóli sjálfbærni og náttúruelsku. Kvótakerfið sjálft hvetur til brottkastsins.

Humar. Mynd http://www.flickr.com/photos/tupwanders/85978918/

Snjórinn

Nú hylur snjórinn bæinn okkar eins og mjúkt hvítt teppi sem hefur verið breitt yfir allt umhverfið. Þegar byrjaði að snjóa fyrir nokkrum dögum, breytti allt um svip. Hús og garðar fengu á sig dulúðlegan blæ, götur og ljósastaurar voru eins og klipptir út úr Narníu. Umferðarniðurinn og borgarhávaðinn sem fylgir íbúunum frá morgni til kvölds kæfðist undir þykkri snjóbreiðunni. Áætlanir og tímamörk riðluðust því enginn komst almennilega leiðar sinnar. Snjórinn fékk okkur til að staldra við.

Nýfallinn snjór sem breiðir yfir allt kallar fram þrána í brjóstum okkar eftir góðum bernskudögum og eftir því sem er hreint og óspillt. Snjórinn fellur á skítugar götur og ruslahauga. Hann leyfir okkur að halda augnablik að umhverfið okkar sé einmitt þannig: hreint og óspillt. Þannig fylgir snjónum fylgir huggun og hugheysting.

Þessa daga og misseri líður okkur á Íslandi eins og við sitjum á stórum haug þar sem ýmislegt leynist. Hruninn trúverðugleiki nær frá viðskiptaheiminum inn í embættismannakerfið,  stjórnmálin og samfélagið allt. Við bíðum eftir aðgerðum sem miða að réttlæti í samfélaginu okkar.

Slíkar aðgerðir eru forsenda þess að sátt náist í samfélaginu. Án sáttar getur kreppa lifað í huga og hjarta ungra og aldinna. Aðgerðir sem miða að réttlæti í samfélaginu, nefna hlutina sínu rétta nafni og kryfja málin til margjar. Þær ganga jafnt yfir alla. Réttlæti snýst hvorki um hefnd né offors. Það miðar að jafnvægi og jafnrétti.

Við bundum ákveðnar vonir við stjórnlagaþingið – að þar fengju kjörnir fulltrúar þjóðarinnar að fara yfir grundvallaratriðin sem lýðveldið okkar byggir á. Eitt af stóru málunum þar eru vitaskuld auðlindir þjóðarinnar og hvernig við umgöngumst þær. Sumir vilja meina að umdeildur dómur hæstaréttar sem dæmdi framkvæmd kosninga til stjórnlagaþingsins ólöglega eigi einmitt rætur sínar að rekja til þeirra hörðu átaka sem standa yfir í þjóðfélaginu um auðlindir hafsins, fiskinn okkar og kvótakerfið.

Kvótakerfið, sem að hluta til er byggt á verndunarsjónarmiðum, er núna til endurskoðunar sem ekki sér fyrir endan á eða hvernig muni fara. Helst er bent á tvo þætti sem gagnrýna má kvótakerfið fyrir: áhrifin á byggðirnar og umgengnin við aflann. Skuldsetning sjávarútvegsins er svo annað mál. Þar veldur hver á heldur.

Brottkast afla og brottkast fólks

Umgengnin við aflann – auðæfi hafsins sem manneskjan nýtur góðs af – er það sem við ætlum að staldra við í dag, sérstaklega það sem við heyrum svo oft talað um og þykir bera sjómennskunni slæmt vitni. Brottkastið. Það hefur snertir nefnilega guðspjallstextann sem er lesinn í dag:

Enn er himnaríki líkt neti sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker en kasta þeim óætu burt. (Matt 13.47-48)

Hér er verið að lýsa á brottkasti. Brottkast á afla er notað til að útskýra aðgreininguna sem á sér stað „þegar veröldin endar“. Þá munu englarnir koma, „skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ (Matt 13.49-50)

Í samhengi dagsins er brottkast afla mikið vandamál og stóralvarlegt frá sjónarhóli sjálfbærni og náttúruelsku. Kvótakerfið sjálft hvetur til brottkastsins vegna þess að sá sem er á veiðum og hefur bara tiltekinn kvóta fyrir tiltekna tegund, má hreinlega ekki koma að landi með aðrar tegundir. Þeim er því fleygt og nýtast hvorki til manneldis né viðgangs náttúrunnar sjálfrar.

Ranglátt fyrirkomulag leiðir til ranglátra afleiðinga. Brottkast afla er því miður ekki eina dæmið um ranglátt brottkast sem viðgengst. Félagslegt brottkast er líka af hinu illa, þegar fólk er flokkað í æskilegt og óæskilegt, í skóla, á vinnustöðum, í þjóðfélaginu öllu. Við heyrðum eitt slíkt brottkastsdæmið orðað nú í síðustu viku þegar formaður samtaka atvinnulífsins talaði um að „allir sem einhverju máli skipta“ væri á tiltekinni skoðun. Óhjákvæmilega leiðum við hugann að því hverjir það séu sem skipti þá minna eða jafnvel engu máli.

Íslendingarnir og pöddurnar

Í guðspjallinu er brottkastið og aðgreiningin hins vegar af hinu góða - eða öllu heldur eitthvað sem veruleiki guðsríkisins kallar óhjákvæmlega á. Eða hvað? Þegar ég settist niður til að undirbúa þessa guðsþjónustu skrifaði Kristín stutta færslu og dreifði henni á facebook. Þar var þessi brottkaststexti einmitt nefndur og vinirnir á facebook spurðir hvað þetta þýddi í samhengi trúarinnar og kirkjunnar.

Viðbrögðin sem létu ekki á sér standa komu úr ýmsum áttum. T.d. skrifaði einn vinur okkar það sem við höfum oft heyrt – það að aðgreiningin í guðspjallinu á góðum og illum eigi ennþá við og þarna sé t.d. verið að tala um trúaða og trúlausa. Trúaðir séu góðir og trúlausir vondir.

Annar vinur benti á að textinn fengi okkur til að hugsa um það hvernig mat okkar á góðu og illu, ætu og óætu, nýtilegu og ónýtu breytist með tímanum. Það sem var álitið óætt í Genesaretvatni á dögum lærisveinanna væri löngu orðið að ætum fiski. Og ein vinkona bætti um betur og minnti okkur á að lengi vel var öllum humri sem veiddist hér við land fleygt – „ Íslendingar enda lítið gefnir fyrir pöddur!“

Tímarnir breytast, en fólkið?

Svona breytast tímarnir og svona breytist mat okkar, sýn og skilningur á því hvað er gott, hvað er hjálplegt, hvað styður við manneskjuna og lífið, og hvað er slæmt, hvað brýtur niður og viðheldur ranglæti.

Brottkast er hluti af veruleikanum af því að við erum alltaf að greina hluti í sundur. Það er hluti af því að vera manneskja að þurfa að greina á milli, þurfa að dæma hvað er gott og hvað er hjálplegt. En við eigum ekki að stunda ranglátt brottkast, rangláta aðgreiningu. Þess vegna sjáum við að fiskveiðistjórnunarkerfi sem hvetur til brottkasts afla er ekki gott kerfi. Þess vegna spyrjum við okkur hvort réttmætt sé að kasta burt stjórnlagaþingi í því uppbyggingarferli sem við viljum sjá eiga sér stað á Íslandi.

Einu sinni köstuðum við humrinum sem veiddist af því við vildum ekki borða pöddur. En svo uppgötvuðum við að þetta ófrýnilega skeldýr er í raun herramannsmatur og selst dýrum dómum. Þannig erum við minnt á að stundum er sitthvað nýtanlegt sem við héldum að væri það ekki. Það kemur á óvart hvað nýtist.

Brýningin í textum dagsins og næringin sem við sækjum í samfélaginu við Guð og hvert annað á þessum bjarta og snjóþunga degi því kannski tvenns konar.

Annars vegar að við séum tilbúin að endurskoða hvernig við höfum stundað brottkast með aðgreiningu sem stjórnast ekki endilega af kærleika og ábyrgð. Að við séum opin fyrir því sem kemur á óvart og fyrir hinu dýrmæta sem leynist meðal þess sem við töldum óætt, óalandi og óferjandi.

Hins vegar að við berum gæfu til þess að greina á milli þess sem er gott og hjálplegt og þess sem rífur niður.

Fagnaðarerindi guðspjallsins sem við megum taka með okkur út í daginn, út í vikuna er þetta: Við erum frjáls til að velja góðu götuna sem er okkur til blessunar, náunganum til góðs og Guði til dýrðar. Við erum frjáls að velja lífið.

Guðspjall

Enn sagði Jesús: „Líkt er himnaríki fjársjóði sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.

Enn er himnaríki líkt kaupmanni sem leitaði að fögrum perlum. Og er hann fann eina dýrmæta perlu fór hann, seldi allt sem hann átti og keypti hana.

Enn er himnaríki líkt neti sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða þegar veröld endar: Englarnir munu koma, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. Hafið þið skilið allt þetta?“

„Já,“ svöruðu lærisveinarnir.

Jesús sagði við þá: „Þannig er sérhver fræðimaður sem orðinn er lærisveinn himnaríkis líkur húsföður sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu.“ Matt. 13. 44-52