Mál og menning

Mál og menning

En sjaldan er það metið sem skyldi og sýnt í orðum og gjörðum hve dásamleg Guðs gjöf það er að geta tjáð sig og talað. Gerðist það væru illu orðin og niðurdrepandi víðs fjarri og blekkingarnar líka og svikin. Orð koma til leiðar bæði góðu og illu.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Fyrst allra orða vil ég lýsa því yfir, að mér þykir einkar ánægjulegt að standa hér að messu með þér í Þingvallakirkju sr. Kristján Valur og er þakklátur fyrir að vera falið að leiða hér helgihald öðru hverju sem prestur á sviði þjóðmenningar. Jafnframt óska ég nýráðnum þjóðgarðsverði, Ólafi Erni Haraldssyni heilla og blessunar Guðs í dýrmætri þjónustu hans í þjóðarhelgidómi Þingvalla, þar sem dýpstu rætur íslensks þjóðlífs, kristni og menningar er að finna.

Mannlíf og menning sem ólgandi straumur eða marglitt myndverk. Þannig er hægt að lýsa menningarnótt eða fremur menningardegi í norðannepjunni í Reykjvík í gær og bæta við angan og bragði. Borgarstræti, bryggjur og hafnir, söfn og sýninga- og tónleikasalir, listastofur, veitingahús og heimili, knæpur og kirkjur drógu til sín iðandi manngrúann og túlkuðu menninguna með sínum hætti. Meira að segja hlaðið við hegningarhúsið á Skólavörðustig breyttist í listasmiðju tóna og ljóða. Listamenn og söngkórar erlendis frá gáfu deginum fjölþjóðlegan tón og brag, sem vel féll að innlendri listsköpun og tónaflóði.

Dásamlegt er að geta fagnað, undursamlegt að sjá litrróf, heyra raddir og tóna, tala, snerta, finna ilm og njóta. Mikið þakkarefni er að njóta þess sem skynfærin gefa til að túlka undur Guðs sköpunar og lífs. Mikið er misst ef eitthvert skynfæra skortir. Á það minnir frásögn Guðspjallsins. Sá sem ekki heyrir á erfitt með að komast í samband við aðra menn og umhverfi sitt. Ekkert hljóð heyrist í taknmálsfréttum sjónvarps og vandasamt mun flestum að ráða í þær. Sá sem táknmálið flytur hreifir hendur og fingur, setur á sig svipbrigði, er ýmist ábúðarmikill eða glaðvær og tekst þannig að opna þeim, sem eru tálmaðir á heyrn og máli, innsýn í og skilning á atburðum líðandi stunda. Hann greinir frá viðburðum á menningardegi, lýsir rannsókn sakamála, slysum og hernaðarátökum, íþróttafréttum og veðurfregnum. Erfitt er að segja til um, hve vel táknmálið gagnast heyrnarlausum til að yfirstíga takmarkanir sínar og fá fylgst með tíðindum og aflað sér upplýsinga. Táknmyndir geta ekki komið í stað hljóðs og orða. En aðdáunarvert er hversu hægt hefur verið með einurð og þjálfun að nýta það skyn sem fyrir er til að ná sambandi við umheiminn og frábært er ef tekst að lækna daufdumban mann, opna heyrn hans og þroska málfæri hans.

Ekkert segir af því hvort daufdumbi maðurinn, sem Jesús læknar, hafi einhvern tímann heyrt, en hann á vini sem gera hvað þeir geta til þess að bæta úr neyð hans og fá reynt það undur, að eyru hans og tunga opnast til að heyra og mæla eftir að Jesús fer um þau nærfærnum höndum og skilningi. Hvarvetna sem Jesús er á ferð ryður hann Guðsríkinu braut og losar um fjötra sköpunar og lífs og vinnur gegn öllu sem myrkvar og lamar og spillir áhrifum Guðs í veröldinni.

Jesús lítur upp til himins og andvarpar og segir svo ,,Effaþa.’’ Opnist þú, merkir það á máli hans aramísku. Kraftaverk Jesú eru ávallt svar við bæn. Hann framkvæmir þau ekki í eigin mætti. Faðirinn himneski sýnir sig í þeim. Máttarverk Jesú eru sérstæð en eru þó ekki röskun á reglu sköpunarinnar. Fremur ber að líta svo á, að sköpunin komist í sitt rétta lag og horf með þeim. Í vitnisburði Jesú og verkum sjáum við það verða sem ætti að vera og mun verða að veruleika, þegar Guðs ríki og ráð birtast í fyllingu sinni. ,,Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur, ”segir enda í lexíu dagsins. Stundum gerist það, að eitthvað af undri þess komanda ríkis brýst fram og birtist í söfnuði kristinna manna, kirkjunni, þegar beðið er fyrir sjúkum og vanheilum og unnið að því af hjarta og kunnáttu að létta byrðar þeirra.

Að fá heyrn og mál og geta talað, hafi menn verið sviptir því áður er mikið lofgjörðarefni. Að hafa alltaf getað það er ekki síðra lofgjörðar-og þakkarefni. En sjaldan er það metið sem skyldi og sýnt í orðum og gjörðum hve dásamleg Guðs gjöf það er að geta tjáð sig og talað. Gerðist það væru illu orðin og niðurdrepandi víðs fjarri og blekkingarnar líka og svikin. Orð koma til leiðar bæði góðu og illu. Þau hvetja til átaka og stríðs og einnig til líknar og friðarstarfa. Orð Guðs lífgar og leysir. Sú er grunnjátning kristinnar trúar að Jesús Kristur sé Orð Guðs í mannlegri mynd. Það orð og vitnisburður sem boðar hann þarf að fá að berast inn í hlustir og huga til að móta viðhorf og verk. Mikil ábyrgð hvílir á þeim, sem eru í fylkingarbrjósti í kirkju Krists, að gæta þess að vitnisburðurinn sýni sig ávallt í einlægni og heilindum og stuðli að vernd og framgangi lífs, styðji særða og þjáða en valdi ekki eða auki raunir. Verk sem í raun og sannleika mótast af lífsins orði sýna sig jafnan í gefandi samskiptum heilbrigðra og skertra svo að lífsöryggi eykst og lífið fær ljósan tilgang.

,,Leitin að tilgangi lífsins ber okkur oft um grýtta og erfiða leið, sem vörðuð er gátum og þversögnum. Þeir sem byrja að leita þurfa fyrst að leita að sjálfum sér”, segir borgarstjórinn nýi í Rvík, Jón Gnarr, í bók sinni ,,Þankagangi.” Og bætir við; ... ,,Og til þess að finna sig, þarf maður fyrst að týna sér og finna sig aftur í öðrum. Kanski að það sé það sem Guð er að reyna að gera með okkur”, og fá okkur til enda í fyllsta samræmi við boðskap Jesú, gæti hann líka sagt.

Í útvarpsviðtali við borgarstjórann fyrir menningardaginn kom fram að hann tæki þátt í skemmtiskokki og yrði víða sýnilegur í viðburðum dagsins en viðurkenndi að sitthvað væri enn í ólagi í borgarpólitíkinni. Flokkarnir væru enn of mikið í sínum kvíum og játaði að ,,Besti flokkurinn” hefði sýnt óvitaskap í ýmsu en hann ynni að því að gagnkvæm virðing og tilltitssemi einkenndu samskiptin í borgarstjórninni og kæmu fram í góðri samvinnu. Líkast til þarf hrekklausan trúð til þess að geta talað svona opinskátt á vettvangi stjórnmálanna enda hefur Jón sjálfur kynnt sig sem slíkan í skrautlegu gerfi. Efndir og árangur verður hægt að meta af því hvort unnið verði raunhæft að því að rétta hlut þeirra sem þjást og þarfnast skilnings og skjóls, meta af því, hvort umhyggja og ábyrgðarkennd vaxa í samskiptum á komandi tíð, svo að borgarlífið hlýni þrátt fyrir nepjuna sem ríkt hefur í samfélaginu.

Afar fjölbreytt og nokkuð frumleg dagskrá mennningardagsins gæti vottað breyttar áherslur. Ekki var leitað langt yfir skammt þótt fjöldi góðra gesta utanlandsfrá hefðu mikið fram að færa í söng og öðrum listum. Þjóðlegur arfur í klæðaburði mótaði tískusýningar og fjölskyldur dorguðu við höfnina og tónlistin var ekki bara endurómur af utanaðkomandi dægurflugum heldur hafði sterkan þjóðlegn tón. Sjö listmálarar máluðu stóra mynd af mismunadi hlutum Íslands í samkomutjaldi á Geirsgötu og nefndu, Ísafold, og ekki með því að teikna einfaldlega landakort heldur fremur táknmyndir; litadýrð og spúandi eldfjall, hveragufu og hamraborgir, fólk að syngja, bát á sjó, hús og byggingar. Hallgrímskirkja var á myndinni. Og indælt þótti mér, eftir að hafa gengið upp brattan Skólavörðustíginn, að hlýða í hlýrri og tignarlegri kirkjunni á sálmafoss, eins og auglýst var.

Hann hljómaði fagurlega í kröftugum söng kórs á nýortum og hrífandi sálmi, eftir sr. Kristján Val, um ást að vori, sem kallar fram nálægð himins og um frið er opnar sem hlið fyrir himins nánd. ,,Ef friðarhliðin ljúkast upp./ Himininn er nálægt þér. /Ljós Guðs dýrðar skín við þér. /Himininn er nálægt þér. /Ef hlekkjum efans þú losnar frá./ Og hjartað fagnar nýrri þrá./Þorsta þínum svalað er. Himinn er nálægt þér"/ Og það var sem orð pistilsins: ,,Bókstafurinn deyðir en andinn lífgar” lýstust upp í boðskap sálmsins. Lögmál Guðs er ekki steinrunninn dæmandi bókstafur, ekki þvingun og fjötrar heldur farvegur virkni hans og áhrifa fyrir sáttmálann nýja, lífssambandið við Jesú Krist sem umbreytir, lífgar og leysir. Kjark þarf til að elska, hugrekki til að vinna raunhæft að friði, kjark til að trúa og leita umbreytandi lausna á skorti, neyð og raunum í nafni Krists og krafti.

Sá leyndardómur afhjúpast í atburðum Guðspjallanna, að lifandi Guð, sem grunnur og uppspretta lífsins, vinnur hjálpræðisverk sín í Jesú nafni og leggur leið sína inn á braut þjáninganna og baráttunnar til að slíta syndafjötra og yfirvinna eyðingaröflin sem skyggja á kærleika hans og veldi. Og sú braut leiðir til úrslitaátaka í raun og þjáningu krossfórnarinnar. Fram til þess, var ekki rétt að af því vitnaðist. Fáum var ætlandi að nema þýðingu þess og vægi fordómalaust. En nú þegar Kristur er upprisinn og sigrandi elska hans hefur opinberast vill hann, að við sem hver ný kynslóð fylgjenda hans hlýðum á og nemum þýðingu orða hans og gjörða ,,sem allt gerir vel” og lítum þau í samhengi við kröfu hverrar stundar. Hann þráir að við séum næm og árvökul gagnvart orði hans og áhrifum sem ryðja Guðsríkinu braut í fórnandi elsku og sýna sig í fögru máli og menningu, menningu sem merkir ekki aðeins samnefnara af öllu athæfi manna heldur viðleitni þeirra til að gera lífið bjart og fagurt, gleði -og tilgangsríkt og nær því marki fyrir hann.

Því getum við fagnandi tekið undir með skáldinu frá Kötlum, játað og sagt í trú og trausti svo sem hæfir hér í kirkju og í þjóðarhelgidómi Þingvalla:

,,Ó, Guð vors lands! Ó. Guð vors lands/er gestur dagsins í björtum ljóma./ Og hugir vor allra hljóma við ylinn frá augliti hans.”

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen Soli Deo Gloria,