Hvernig eflir kirkjan starfið í fjárhagsþrengingum?

Hvernig eflir kirkjan starfið í fjárhagsþrengingum?

Nú þegar þrengir að hjá barnafólki er mikilvægt að öll börn hafi aðgang að félags- og tómstundarstarfi. Starfið í kirkjunni með börnum og unglingum er því aldrei mikilvægara en einmitt núna. Hér er til mikils að vinna að standa vörð um öflugt starf kirkjunnar með börnum og unglingum.
fullname - andlitsmynd Stefán Már Gunnlaugsson
30. nóvember 2011

Samkvæmt fræðslustefnu Þjóðkirkjunnar, þá er hver sókn grunneining hins skipulagða fræðslustarfs kirkjunnar. Allar sóknir eigi að styðja foreldra og heimili við uppeldishlutverk sitt. Talað er um frumskyldu kirkjunnar í þessu sambandi. Ennfremur segir: “skírnarfræðslan … hefur það að markmiði að styrkja og fræða hin skírðu á ólíkum æviskeiðum og við margvíslegar aðstæður í lífinu”. Safnaðarstarfið á víða í vök að verjast vegna fjárhagsþrenginga. Sóknargjöldin hafa verið skorin niður sem nemur 33% frá því árið 2008 og frekari skerðing boðuð. Þjóðkirkjufólk greiðir sóknargjald til sinnar sóknarkirkju í heimabyggð. Þessum fjármunir standa undir öllum rekstri, helgihaldi og öðru starfi. Skerðing sóknargjalda og almennar verðhækkanir hefur truflað allt safnaðarstarf, en leggst þyngst á söfnuði sem glíma við mikinn skuldavanda. Barna-og unglingastarfið í kirkjunni hefur ekki farið varhluta af niðurskurði. En þá verður að leita nýrra leiða, bregðast við aðstæðum og greina sóknarfærin um leið og ríkisvaldið verði krafið um að standa við gerða samninga og skila til baka niðurskurði sóknargjaldanna. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um að niðurskurður sóknargjalda eigi ekki að bitna á safnaðarstarfinu og allra síst á starfi með börnum og unglingum, þá er það engu að síður raunin. Stöðugildum á þjónustusviði Biskupsstofu sem fjalla um æskulýðsstarf hefur fækkað og æskulýðsfulltrúum við kirkjur á höfuðborgarsvæðinu hefur verið sagt upp störfum. Dæmi eru um að starf með börnum og unglingum hafi verið hætt vegna niðurskurðarins og víða hefur verulega verið dregið úr efniskaupum sem getur svo bitnað á gæðum starfsins. Undafarin ár hefur verið byggt upp traust og faglegt starf með börnum og unglingum innan kirkjunnar þar sem fylgt er skýrum markmiðum og reglum undir handleiðslu vel menntaðs og öflugs starfsfólks. Mikið hefur verið unnið að leiðtogaþjálfun og uppeldi yngri leiðtoga sem hefur skilað sér í fjölbreyttara starfi og hæfum leiðtogum. Mikilvægt er að halda því starfi áfram og láta ekki staðar numið þrátt fyrir tímabundnar þrengingar. Samkvæmt fræðslustefnu Þjóðkirkjunnar á fræðslustarf með safnaðarfólki að vera í forgangi. Hér má ekki láta skuldasöfnun undangenginna ára hafa áhrif, heldur verður að hlúa að vaxtabroddunum þar sem stakkur er skorinn eftir vexti og bregðast við með breyttum starfsháttum. Virkja nýjar leiðir í starfi, efla sjálfboðið starf og þátttöku foreldra, afla starfinu styrkja, setja fram metnaðarfulla áætlun um sjálfstæða fjáröflun og byggja starfið á þáttum sem kosta minna. Þetta getur hvatt til fjölbreytileika og opnað leiðir til frekara samstarfs með skólasamfélaginu, félaga-og menningarsamtökum, bæjar- og sveitastjórnum og öðrum sem láta sig hag og velferð barna varða. Unga fólkið er velkomið í æskulýðsstarf kirkjunnar. Þess vegna er áhersla lögð á að ekki eru innheimt þátttökugjöld. Nú þegar þrengir að hjá barnafólki er mikilvægt að öll börn hafi aðgang að félags- og tómstundarstarfi. Starfið í kirkjunni með börnum og unglingum er því aldrei mikilvægara en einmitt núna. Hér er til mikils að vinna að standa vörð um öflugt starf kirkjunnar með börnum og unglingum.