Tómasarprófið

Tómasarprófið

Guðspjall: Jóh. 20: 24-31 Lexia: Pistill:

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það er yndislegt fyrir mig og kirkjukór Húsavíkur að fá tækifæri til að syngja Drottni nýjan söng í þessum fallega helgidómi, Dalvíkurkirkju og organistinn minn fagnar því að geta leikið á annað orgel sem er betra en gamla orgelið í Húsavíkurkirkju að mínum dómi.

Við höfum nú haldið heilaga upprisuhátíð Drottins og beðið um náð til að lifa í ljósi hennar og þjóna frelsaranum í sannri trú og kærleika í þessu lífi, hér og nú.

Við höfum hugleitt táknin og undrin sem upprisu Krists fylgdu með því að syngja Drottni nýjan söng að morgni páskadags og við höfum lesið og hlustað á vitnisburðinn um upprisuna í ritningunni. Við þetta atferli hefur trú okkar vonandi styrkst og þroskast eins og vera ber.

Guðspjall dagsins dregur upp mynd af lærisveininum Tómasi sem er þekktur fyrir sínar efasemdir og leit að sönnunum fyrir upprisu frelsarans. Það nægði honum ekki að heyra lærisveinana segja að þeir hefðu séð Drottin. Hann varð að fá að þreifa á handa-og síðusárum hans til að trúa. Mörgum þykir vænt um Tómas í dag vegna þess að það er svo auðvelt að setja sig í spor hans, efasemdarmannsins í hópi lærisveinanna.

Vísinda-og tæknihyggja nútímamannsins gerir það að verkum að hann á erfitt með trúa öðru en því sem hann getur sannreynt með skynsamlegum hætti. Þegar sagt er að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd þá er átt við að skaparinn hafi gefið manninum hæfileika til að hugsa og álykta og skapa og jafnframt hefur hann gefið manninum hjarta til að trúa á sig sem öðrum skepnum er ekki gefið í þessum heimi. Maðurinn hefur því líkama, sál og anda sem dýrin hafa ekki. Guð skapaði manninn til að eiga samfélag við sig og fól honum að gæta jarðarinnar sem ráðsmaður sinn.

Ábyrgð okkar er því mikil gagnvart auðæfum jarðar og gagnvart hvert öðru þar sem okkur er boðið að láta mótast af sigurafli trúarinnar og stuðla að því að hið góða, fagra og fullkomna nái fram að ganga í samskiptum okkar hvert við annað í þessu lífi. Stundum virðist okkur sem að hið illa nái að hrósa sigri. Svo virtist vera á Golgata á föstudaginn langa en við vitum betur í dag. Þar var vald illskunnar brotið á bak aftur og dauðinn missti þar brodd sinn þegar ljóst varð að Jesús var upprisinn, hafði sigrað heiminn.

Illskan hefur þó ekki endanlega verið brotin á bak aftur í þessum heimi eins og við höfum áþreifanlega orðið vör við í vetur. Einstaklega grimmileg hryðjuverk voru framin í Bandaríkjunum í haust og þúsundir dóu síðan í kjöfarið í Afganistan þegar Bandaríkjamenn svöruðu í sömu mynt.

Nú fylgjumst við með fréttaflutningi frá Ísrael þar sem ísraelsmenn sitja um fæðingarkrkju frelsarans í Betlehem þar sem 200 palestínu menn hafa leitað hælis bak við læstar dyr kirkjunnar. Þúsundir palestínumanna hafa látið lífið undanfarna mánuði þar sem þeir hafa barist með grjótkasti fyrir eigin tilvist í landinu helga. Það er ömurlegt að fylgjast með þessum hræðilegu atburðum sem engu áorka öðru en að auka enn á hatrið gagnkvæma milli þjóðabrotanna.

En minnumst þess að Jesús hefur sigrað heiminn og brotið eyðandi afl illskunnar á bak aftur og hann vill nota lærisveina sína, fyrr og nú, til þess að berjast góðu baráttunni með þeim meðulum sem hann gefur lærisveinum sínum í trausti þess að hann muni leiða okkur öll til endanlegs sigurs gagnvart myrkraöflunum.

Dyr fæðingarkirkjunnar í Betlehem eru læstar um þessar mundir vegna ófriðarbálsins sem þar geysar. En Jesús þarf að ganga inn um þessar læstu dyr og birtast palestínumönnunum sem þar hafa hreiðrað um sig og segja við þá líkt og lærisveinana forðum: Friður sé með þér. Þau orð kunna að verka á hjörtu þeirra með þeim hætti að þeir verði fyrir opinberun þannig að friðarumleitanir beri frekar árangur en ella. Biðjum að það sama gerist hjá ísraelítunum sem hafa hreiðrað um sig í sínum fílabeinsturnum og skeyta ekkert um hvaða augum umheimurinn lítur á hernað þeirra gagnvart palestínumönnum.

Hér í Dalvíkurkirkju er altaristafla eftir Bertel Thorvaldssen sem sýnir Jesú upprisinn brjóta brauð með lærisveinunum. Sagan segir að hjörtu þessara lærisveina hafi tekið að brenna þegar hann braut brauðið. Þá þekktu þeir Jesú skyndilega aftur. Þeir héldu að hann væri dáinn en hann var lifandi og var hjá þeim sjálfum á þessu augnabliki. Þegar þeir uppgötvuðu þetta þá hvarf Jesú sjónum þeirra.

Hjörtu margra í dag eru eins og læstar dyr þar sem stendur aðgangur bannaður. Myndin af frelsaranum þar sem hann stendur við dyr sem hafa ekki verið opnaðar árum saman kemur í hugann. Vafningsjurtir þekja hurðina svo augljóst er að hún hefur ekki verið opnuð lengi. Athygli vekur að snerillinn snýr ekki við frelsaranum. Hann er fyrir innan í þínum höndum og mínum. Það er okkar að opna dyrnar og bjóða frelsaranum að koma inn í hjörtu okkar. Ýmsir opna einungis rifu en frelsarinn vill ekki þrengja sér inn í líf okkar.

Hvað veldur því að við viljum ekki opna fyrir frelsaranum? Þar kann drambsemi okkar að koma við sögu, sjálfselska og annar breyskleiki sem stafar af syndugu eðli okkar. Þegar við opnum fyrir frelsaranum og leyfum anda hans að verka á okkur þá umbreytir hann okkur og hrokinn víkur fyrir auðmýktinni, sjálfselskan fyrir fórnfýsinni og breyskleikinn verður ekki eins ráðandi afl í lífi okkar. Eftir því sem við tileinkum okkur betur siðaboðskap frelsarans Jesú Krists því næmari verðum við á þarfir annarra í kringum okkur en þar skipar auðvitað nánasta fjölskylda okkar stóran sess í lífi okkar og vinir og samstarfsfólk.

Þær eru fáar stundirnar sem við notum til andlegrar uppbyggingar innan kirkju sem utan þar sem við gefum okkur t.d. að orði Guðs og leyfum því að verka á huga okkar og hjörtu með hjálp frelsarans sem er hjá okkur í heilögum anda. Ef við gerum þetta þá eignumst við það sem er dýrmætara en gull, það sem enginn getur tekið frá okkur, sem er sú frábæra vissa að finna sig borinn á örmum Guðs lífs og liðinn. Þá verður andstreymið í lífinu minna og byrðarnar léttbærari.

Hinar stundirnar eru svo miklu fleiri, hverfular og dauðlegar þar sem við gefum honum ekki gaum. Þegar upp er staðið er margt af því sem við gerum og tölum fánýtt og stundum verra því að það kallar á mæðu og angur. Þetta daglega líf er svo oft að mestu háð því stundlega, að friða ágirnd með því að eignast, en jafnóðum og það er fengið þá fæðist önnur löngun sem er kröfuharðari.

Þær eru fáar stundirnar með honum en þó þær einu sem öllu skipta þegar upp er staðið því að þær eru eilífar, týnast ekki og gleymast ekki heldur. Þær stundir breyta okkur sjálfum, gera okkur betri og sannari. Þær og þær einar búa okkur undir að lúta honum sem Drottni okkar og Guði okkar. Þær gera það að verkum að við getum sagt líkt og lærisveinninn Tómas: Drottinn minn og Guð minn.

Segjum sem svo að við opnum dyrnar og bjóðum konungi konunganna að koma inn. Myndum við fara fram á það við hann að hann færði sönnur fyrir því að hann væri sá sem hann sagðist vera og að hann væri sannarlega upprisinn? Við myndum vafalaust vilja að hann kæmi sjálfur inn um læstar dyrnar og segði eins og við lærisveinana: Friður sé með yður.

Lærsveinarnir urðu furðu lostnir er Jesús birtist þeim skyndilega. Þeir gátu ekki trúað sínum eigin augum. Á öðrum stað í guðspjöllunum segir að til þess að færa sönnur á það sem þeir sáu, þá gáfu þeir honum steiktan fiskbita á diski og hann tók hann upp af diskinum og setti hann upp í munninn, tuggði og kyngdi. Lærisveinarnir aðgættu nánar. Fiskbitinn var horfinn. Hann hafði ekki fallið niður á gólf. Jesús var raunverulegur. Hann var hvorki vofa né andi eða slæmur draumur. Lærisveinarnir voru sáttir og trúðu því sem þeir sáu.

Tómas kom síðar á fund þeirra. Ég veit ekki hvar hann hafði verið en mig grunar að hann hafi verið svo sorgmæddur eftir krossfestingu Krists að hann hafi ákveðið að draga sig í hlé á afvikinn stað og leyfa sorginni að vinna sitt verk í einrúmi. Fyrir Tómasi þá var krossinn óhjákvæmilegur. Þegar Lasarus veiktist og dó þá sagðist Jesús ætla að fara til hans til Betaníu. Þá sagðist Tómas við lærisveinana: “Við skulum fara líka til að deyja með honum”. Tómas skorti aldrei hugrekki en hann var efasemdarmaður. Hann elskaði Jesú samt svo mikið að hann var tilbúinn að fara til Jerúsalem og deyja með honum þegar hinir lærisveinarnir voru hræddir og hikuðu.

Ákafir sögðu lærisveinarnir honum að þeir hefðu séð Drottinn en hann trúði þeim ekki. Hann hefur haldið að þá hafi verið að dreyma eða að þrá þeirra að sjá Jesú hafi verið svo sterk að þeir hafi séð ofsjónir. Eða eins og þegar hungraðan mann dreymir brauð eða mann í eyðimörkinni sem sér vatnslind í hillingum. Lærisveinarnr sögðu Tómasi frá fiskbitanum en hann hló bara að þeim. Hann stóðst reynslupróf þeirra og setti fyrir þá sitt eigið próf og sagði: Látið Jesú sýna mér hendur sínar og síðu sína og látið hann sýna mér sárin sín. Ef hann hefur sár þá mun ég trúa en ef ég sé engin sár, jafnvel ekki ör þá skuluð þið gleyma honum og fiskbitanum sem þið buðuð honum.

Viku síðar sá Tómas hendur Jesú og fætur og sáramerkin og örin og trúði. Orð hans í garð Jesú staðfestu það er hann sagði: Drottinn minn og Guð minn.

Kristinn maður berst góðu baráttunni og ber ýmis konar merki um þá baráttu á líkama sínum. Ef þú segist vera kristinn maður þá gæti einhver komið til þín og beðið þig að sýna sér hendur þínar, fætur og síðu til þess að sanna það. Góður og gegn kristinn maður er reiðubúinn að berjast góðu baráttunni í þágu alls þess góða, fagra og fullkomna sem frelsarinn stendur fyrir, t.d. réttlæti, frið, heiðarleika, sannleikann. Geri hann það þá stenst hann Tómasarprófið.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amne.