Íslensk þjóð, kristin þjóð!

Íslensk þjóð, kristin þjóð!

Íslensk kristni er þjóðinni nær jafn nálæg og náttúran. Íslensk kristni ber mann í hæstu hæðir upplifunar á vængjum andans um leið og hún er rótföst og fær næringu sína úr akademískum jarðvegi þar sem gagnrýnin hugsun og manngildi eru hennar helstu næringarefni.

Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?

Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. Matt 7.7-12

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þessi heilsa og bæn um að náð Guðs sé yfir þér og allt um kring, er kveðja sem flutt er í hverri messu í nafni postulans til safnaðanna og kirkjunnar. Náðin sem við öll eigum í Jesú Kristi er sú að Guð elskar þig og mig og alla menn skilyrðislaust.

Þjóðhátíðardagur í dag – gleðilega hátíð, gleðilega þjóðhátíð.

Afmælisdagur

Afmælisdagur Jóns Sigurðssonar forseta er um allt það sem sameinar Íslendinga, sameinar þjóðina. Við eigum svo margt sem sameinar, tungumálið, söguna og menninguna. Glaðværðina, kærleikann og vinnusemina.

Flóra Íslands

,,Hver holtasóley orðin að hárbrúðu senn hnípa þær naktar og fræ þeirra berast um blásinn mel

stíga fisléttan dans í blænum festast á steinum losna flögra leita sér skjóls

Fræ yfir hrjóstrugum mel hnettir í köldum geimnum

Á stjörnu kviknar líf stöku fræ festa rætur.“

Yrkir Snorri Hjartarson í ljóðinu Hrjóstur og hefur þar að viðfangi landið okkar fagra, leitina, lífið og þjóðarblómið Holtasóley sem fékk þann sess árið 2004.

Í Flóru Íslands eigum við fjölda jurta, Maríustakk, Eyrarrós, Gleymmérei, Blágresi, Hrafnaklukku, Lyfjagras og margt annað. Hvönnin er víða, falleg, ilmandi, í stórum breiðum er hægt að leika sér í feluleik, leita, búa til flautur úr stilkunum, borða hana og jafnvel nýta til lækninga eins og margt í hinni fallegu sköpun Guðs.

Íslensk kristni

Íslensk kristni er þjóðinni nær jafn nálæg og náttúran. Íslensk kristni ber mann í hæstu hæðir upplifunar á vængjum andans um leið og hún er rótföst og fær næringu sína úr akademískum jarðvegi þar sem gagnrýnin hugsun og manngildi eru hennar helstu næringarefni.

Kristin trú, trúin sem þú átt! Kannski áttu þar dýrmæta gjöf, án þess þó að taka eftir henni, þér til gagns.

Bænin með börnunum við rúmstokkin er eitt af einkennum íslenskrar kristni og á sér rætur í húslestrunum fornu. Að signa barnið og lesa fyrir það allt frá fyrstu tíð, er eitthvað sem margir íslenskir foreldrar sinna og rækta.

Foreldrar biðja með börnunum sínum og bænaversin geta orðið lítilli sál að persónulegum helgidómum. Svo ekki sé talað um gildi samverunnar í lok dags þar sem margt er rætt og jafnvel beðið fyrir.

Jesús Kristur lofar bænheyrslu. Jesús Kristur lofar því að sérhver sá sem biður muni öðlast. Og þar er ekki litlu lofað, en stór sannleikur Herra lífsins.

Napur raunveruleikinn

Trúargangan hefur stundum verið sögð sú torfærasta á vegi lífsins. Ég þekki það af samtölum við fólk og auðvitað á eigin vegferð. Samfélagið mætir okkur stundum eins og kærleikurinn sé aukaatriði og gleymdur.

Markleysi, grundroði og sofandaháttur í ýmsum málefnum virðast stundum stærri þættir í samfélaginu en viðurkenning, skipulag og að markmiðin séu skýr. En þannig viljum við ekki hafa það. Við eigum saman þá von og trú og sýn að samfélag okkar sé kærleikans megin, að rúm sé fyrir alla og þak yfir höfuðið, og einkenni samskiptanna í anda gullnu reglunnar sem Jesús talar og segir í guðspjalli dagsins. ,,Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulu þér og þeim gjöra.“

Frásagnir guðspjallanna

Við Íslendingar, eigum án efa þá þrá sameiginlega að fá svör við spurningunum sem sálin spyr, þeim tilvistarspurningum sem varða tilgang lífsins, stefnu og merkingu.

Hjartað er sjálfsagt betur til þess fallið að meðtaka svörin við þeim spurningum heldur en heilinn.

Frásagnir guðspjallanna veita óm af svörum sem hjartað skilur og sálin.

Frásagnir guðspjallanna um sigur lífsins, upprisu og eilífan tilgang Guðs, eru ekki háðar tíma, í fortíð, nútíð eða framtíð, en þó í senn eiga frásagnirnar sér sögusvið í dag, í gær og á morgun. Því þær koma reiður á raunveruleikann sem á stundum virðist illskiljanlegur og tilviljunarkenndur.

Frásagnir guðspjallanna miðla náðinni og eru tæki til að minna okkur á tilfinningar okkar, ótta, gleði og umhyggju, minna okkur á það allt sem við eigum sameiginlegt, ekki aðeins sem Íslendingar heldur sem manneskjur.

Frásagnirnar eiga rætur í hjarta Guðs og drjúpa af vörum hans, og finna sér farveg í verkum okkar hvert með öðru og hvert fyrir annað.

Frásagnirnar koma okkur í samband við vilja Guðs, koma okkur í samband við okkar innri mann og ytri heim, þær tengja það sem við skynjum og skiljum. Þær minna okkur sífellt á hvað það er sem gerir okkur að manneskjum.

Aðstæður sorgar og gleði

Þegar við lendum í aðstæðum sem valda okkur hugarróti eða ótta, og öll skynsamleg rök veita enga huggun, þá þekkjum við hvert við leitum.

Þegar ástvinur deyr, þá söfnumst við saman um þann boðskap sem segir að líf hvers og eins er dýrmætt, ómetanlegt, að mannlegt líf í hverri mynd sé gjöf frá skapara alls sem er. ,,Af jörðu ertu komin, að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa.“

Þann óm eigum við sem okkar sameiginlegu innri rödd. Það er samt stundum eins og sá ómur komi okkur á óvart, kannski þægilega á óvart. Veiti huggun og fró, lausn og líf. Eilíft líf.

Eins við gleðistundir, þegar barn fæðist, nýr maður verður til. Og nafnið nefnt og síðan barnið borið á bænarörmum að skírnarfonti á helgum stað.

Og við finnum þakklætið í eigin brjósti, vonina til framtíðar, kærleikann sem gjarnan og oftast sem betur fer einkennir umgjörð barnanna í okkar samfélagi.

Og ritningin segir: ,,Sjáið, hvílíkan kærleika Guð faðir hefur auðsýnt oss, að vér skulum kallast hans börn. Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists hefur elskað oss að fyrra bragði. Svo elskaði hann heiminn að hann gaf einkason sinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Þetta er kjarni kristninnar, elska Guðs og kærleikur sem hjarta mannsins skynjar og skilur og við þekkjum.

Réttur barnanna

Tímaleysið virðist stundum mikið hjá foreldrum. Vinnudagurinn langur og umgjörð heimilanna virðist á stundum vera að þynnast.

Foreldrar þurfa að vera heima. Foreldrar vilja vera heima og börnin og jafnvel unglingarnir vilja vera með foreldrum sínum, fá vettvang og ramma.

Unglingar vitnuðu um það á forvarnardegi forseta Íslands nú í vetur að þeir vilja eyða meiri tíma með foreldrum sínum og eru það skýr skilaboð sem jafnvel koma einhverjum á óvart.

Það er sannað og ljóst að samverur fjölskyldunnar eru besta forvörnin í sífellt flóknari heimi. Við þurfum að sameinast um það að setja fjölskylduna í fókus, hafa hana í fyrirrúmi.

Það er foreldranna að skipuleggja sig þannig að það sé hægt, forgangsraða þannig að samverustundir séu mögulegar.

Foreldrar þurfa að geta veitt börnum sínum þá nærveru að heimilið sé griðarstaður en ekki endilega skemmtistaður, að heimilið sé sá helgidómur sem það á að vera.

Og þar sem óöryggið ríkir, erfiðleikar, fíkn, sjúkdómar eða hvað annað sem getur raskað þeirri ró og þeim friði sem þar á að ríkja, þá aðstoðar samfélagið.

Samfélagið grípur þá inní á faglegan máta, stundum af veikum mætti vegna fjárskorts, álags og manneklu, en gjarnan í góðu og farsælu samstarfi, bæði á strætum borgarinnar og eins í tengslum við heimilin og skólana um land allt.

En allt það er unnið til stuðnings og gæfu, til að koma til móts við þann skýlausa rétt barnanna að fá að vera börn.

Vanrækslan getur tekið á sig ýmsar myndir, allt frá sinnuleysi til undanlátssemi og ofneyslu.

Börnin vilja vera börn, þar sem agi og kærleikur eru systkin. Og börnin verða að fá tækifæri til þess að upplifa sig nóg hér og nú, ekki þurfa að flýta sér að verða fullorðin, heldur fá að njóta bernskunnar.

Undur lífsins

Lífið er undur og engin maður skilur það til fulls. Lífið er gjöf sem svo gott er að þakka, þakka Guði fyrir lífsins gjafir. Því hamingjan leynist oft í þakklátu hjarta.

Börnin kunna að undrast.

Hafðu í huga, kæri áheyrandi, næst þegar þú tekur eftir litlu barni falla í stafi yfir einhverju sem þér er farið að finnast hversdagslegt fyrir löngu, hafðu þá í huga hve heimurinn er falleg gjöf, og undur lífsins á hverju strái.

Að baki því öllu býr kærleikans hugur og orð, heilagt Orð.

Tvær stoðir kirkju og samfélags

Ritningarnar, hið heilaga Orð geyma margar perlur og dýrmætt er að lesa og veita því farveg inn í hversdagsleikann.

Gullna reglan og tvöfalda kærleiksboðorðið eru okkur Íslendingum eins nálæg og krónu blöð holtasóleyjarinnar eru stilknum eða mosinn hrauninu í íslenskri náttúru.

,,Elska skaltu Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum mætti þínum. Annað er þessu líkt, elska skaltu náungann eins og sjálfan þig.” ,,

,,Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulu þér og þeim gjöra.”

Skuldbinding trúarinnar

Við eigum öll þennan kjarna í okkar viðhorfum og trúarlílfi, elskuna og tillitssemina.

Jesús vill hins vegar meira en að við eigum trúna fyrir okkur sjálf. Jesús kallar okkur til að lifa hana í okkar daglega lífi. Við eigum að bera ljósi Drottins vitni fyrir meðbræðrum okkar og systrum og umhverfinu.

Þegar við skírum og fermum erum við að skuldbinda okkur, taka afstöðu. En sú skuldbinding trúarinnar útilokar ekki annað fólk heldur einmitt eykur líkur á kærleikans samfélagi þar sem fordómar víkja fyrir fræðslu og samtali.

Fermingin er eðlilegt framhald skírnarinnar og hlutverk skírnarvotta, fjölskyldu og kirkju er að starfa saman í kærleika börnunum til heilla. Varðveislan á undrinu, lotningin fyrir lífinu og virðingin fyrir manneskjum er markmið þess alls.

Því elskan til lífsins og manngildið er, hefur verið og verður án efa ávallt grundvallaratriði íslenskrar kristni og íslensks samfélags.