Stephen Fry segir satt

Stephen Fry segir satt

Í tilefni af þessum kröftugu ummælum vaknaði ég upp við þá hugsun að í raun játa ég trú á vitfirrtan Guð, þótt hann sé ekki sá sem Fry er að nefna.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
03. febrúar 2015

Hinn geðþekki sjónvarpsmaður Stephen Fry lét þau orð falla í nýlegu viðtali við Írska ríkissjónvarpið að ef hann hitti Guð eftir dauðann lægi honum helst á hjarta að spyrja hann hvernig hann dirfðist að skapa heim fullan af ranglæti. Hann tók dæmi af beinkrabbameini í börnum: „Hvernig dirfist þú? Hvernig dirfist þú að skapa heim þar sem er slík eymd sem er ekki okkur að kenna? Það er ekki réttlátt. Það er algerlega, algerlega illt. Af hverju ætti ég að virða duttlungafullan, meinfýsinn, heimskan guð sem skapar heim sem er svo uppfullur af óréttlæti og þjáningu?“

Orðum Fry fylgir ást á lífinu og heiðarlegt óþol fyrir öllu hinu óbætanlega sára og rangláta. Og hver getur ekki tekið undir orð hans? Ef til væri Guð sem stýrði þessum ófögnuði skyldum við forðast hann. Öll með tölu.

Í tilefni af þessum kröftugu ummælum vaknaði ég upp við þá hugsun að í raun játa ég trú á vitfirrtan Guð, þótt hann sé ekki sá sem Fry er að nefna.

Ég trúi á Guð sem toppar allan fáránleika í hamslausri viðleitni sinni til þess að stöðva þann óbætanlega sársauka og ranglæti sem fylgir mannlífi. Ég trúi á Guð sem einnmitt vegna alls þessa óbætanlega skaða endaði nakinn, nauðgaður og negldur á tré sem nokkurskonar auglýsingaskilti hrokavaldsins hrópandi í fullkominni vitfirringu sigrðast manns: „Guð minn, Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig?!“

Heimurinn getur ekki þolað þennan Guð og mun aldrei þola hann. Hann mun alltaf krossfesta hann aftur og aftur og enn á ný af því að hann sér engan Guð í honum. Sér bara Guð í afskræmingu hans - þessum almáttugua, fjarlæga og alráða sem Fry var að tala um og réttilega hafnaði. Hver myndi ekki hafna slíkum Guði sem meiðir og lítllækkar og hriðir ekki um neinn? Og væri það Guð kristninnar ættum við líka að hafna kristninni, aldrei tengja okkur við hana og síst kynna hana börnum. En ef við viljum í raun kynnast Guði kristinnar trúar þá er það aftur þessi ónýti Guð, þessi grátandi og nauðgaði, þessi sem ýtt er út úr veröldinni af því að hann er ófáanlegur til að verja sig en veðjar á hina varnarlausu ást. Þessi Guð sem tekur á sjálfan sig hið óbætanlega, ranga og svívirðilega.

Ég held að ástæða þess að okkur er svo óeiginlegt að koma auga á Guð í Jesú Kristi sé sú að við elskum hrokavaldið og trúum í raun á yfirráð sem hin æðstu gæði. Okkur finnst að Guð hljóti að vera almáttugur í sama skilningi og valdið í heiminum. En Guð Biblíunnar er ekki almáttugur á þann hátt. Hann sendir enga rakettu í hausinn á Hitler, Isis og félögum. Hann getur ekki stöðvað allt hið óbætanlega tjón.

Menning okkar trúir því að það sé hægt að lækna heiminn og að það megi gera með félagslegri stjórnun eða tæknilausnum. Kristin trú veit að heimurinn verður ekki læknaður, bara frelsaður. Og vegna þess að við viljum sjálf smíða okkar guði og viljum hafa þá ýmist almáttuga að okkar skapi eða breyska í okkar mynd eins og hina Grísku sem Fry vitnar til í þessu umrædda viðtali, þá verður Jesús frá Nasaret alltaf óvinsæll og því óvinsælli sem við veðjum djarflegar á eigið hyggjuvit andspænis óleysanlegri gátu þjáningarinnar.

Einn guðfræðingur skrifaði um það sem gerðist á krossinum og sagði: „Í honum mætir ástin á valdinu valdi ástarinnar. Hér horfist löngun mannsins til þess að verða eins og Guð í augu við þrá Guðs eftir því að vera maður.“