Hvað er Lítanían?

Hvað er Lítanían?

Orðið lítanía er grískt og merkir bæn eða ákall. Í kirkjunni hefur orðið verið notað um sérstaka víxllesna bænagjörð þar sem bornar eru fram bænir og áköll og þeim svarað með stuttum svörum svo sem „Frelsa oss, Drottinn“, „Hjálpa oss, Drottinn“ eða „Bænheyr oss, Drottinn“.
fullname - andlitsmynd Einar Sigurbjörnsson
03. júní 2014

Föstuguðsþjónustur

Í mínu ungdæmi voru föstuguðsþjónustur haldnar í Reykjavík og víðar á landinu. Þær fóru fram á miðvikudagskvöldum lönguföstu samkvæmt hefð sem bæði er lögð í Kirkjuskipan Kristjáns III. 1537 og dansk-norska kirkjurítúalinu frá 1685. Í föstuguðsþjónustum var lítanían gjarnan sungin. Oftast var það lítanía séra Bjarna Þorsteinssonar. Sem barn sótti ég föstuguðsþjónustur með foreldrum mínum ýmist í Hallgrímskirkju, Fríkirkjunni eða Dómkirkjunni. Í Dómkirkjunni og Fríkirkjunni var sungin lítanía Bjarna en í Hallgrímskirkju var sungin lítanía með gregorsku lagi sem var tekin úr Bænabók séra Sigurðar Pálssonar. Í sumum kirkjum var sunginn sami víxlsöngur og fluttur var í upphafi messu um föstuna samkvæmt Helgisiðabók 1934 enda er í leiðbeiningum um föstuguðsþjónustu í þeirri bók lagt til að sá víxlsöngur sé sunginn eftir prédikun. En hvað er lítanía?

Lítanía

Orðið lítanía er grískt og merkir bæn eða ákall. Í kirkjunni hefur orðið verið notað um sérstaka víxllesna bænagjörð þar sem bornar eru fram bænir og áköll og þeim svarað með stuttum svörum svo sem „Frelsa oss, Drottinn“, „Hjálpa oss, Drottinn“ eða „Bænheyr oss, Drottinn“. Í Austurkirkjunni eru lítaníur mikið notað bænarform í guðsþjónustunni þar sem prestur eða djákni ber fram bænir en söfnuður svarar með ákallinu „Kyrie eleison“, „Drottinn, miskunna þú“. Í Vesturkirkjunni fengu lítaníur snemma á sig iðrunar- eða yfirbótarblæ og voru sungnar á yfirbótar- og bænadögum. Lítaníur tengdust ekki síst bænahaldi á „gangdögum“ sem voru sérstakir bænadagar, sérstaklega mánudag, þriðjudag og miðvikudag fyrir uppstigningardag. Þá voru gengnar skrúðgöngur eða prósessíur og sungnar lítaníur og myndaðist ákveðinn átrúnaður á þeim sið. Gangdagurinn mikli var 25. apríl, sem einnig er dagur Markúsar guðspjallamanns, Markúsarmessa. Það var upphaflega heiðin hátíð sem hafði verið haldin í Róm með helgigöngum og var klædd í kristilegan búning eftir að kristnin varð ríkistrú í Rómaveldi 381. Í fyrstu var gengið milli kirkna í Róm og litanía sungin. Siðurinn breiddist út frá Róm ekki síst fyrir tilstuðlan Gregoríusar páfa mikla (d. 604) og var á þessum dögum farið í prósessíur og lítanían sungin. Af þeim sökum var gangdagurinn mikli nefndur litania major eða lítanían mikla. Eins var lítanían sungin fyrstu dagana í nóvember, kringum allra heilagra messu 1. nóvember. Áköllum til dýrlinga var skeytt inn í lítaníuna og því var lítanían oft nefnd lítanía heilagra (litania sanctorum). Nokkrar fleiri lítaníur voru til en litania sanctorum var sú upprunalegasta.

Lítanía Lúthers Lítanían tengdist yfirbótarkerfi kirkjunnar á miðöldum og þátttakendum í göngum þar sem lítanía var sungin var heitið aflátum. Siðbótarmenn gagnrýndu yfirbótarkerfið og settu sig þess vegna á móti göngum sem ættu að veita fólki aflát. Flestir siðbótarmenn vildu láta lítaníuna fara sömu leið og annað sem tengdist yfirbótarkerfinu og fella hana niður úr helgihaldi. Þar var Lúther á annarri skoðun og taldi lítaníuna kröftuga bæn og 1529 gaf hann út lítaníuna bæði á latínu og þýsku. Um það leyti olli framsókn Tyrkja miklum áhyggjum meðal fólks og hugsaði Lúther lítaníuna sem bænagjörð um vernd fyrir þeirri ógn. Uppistaðan í lítaníu Lúthers er litania sanctorum en öll dýrlingaáköll eru felld niður og formið þar að auki einfaldað. Lúther gerir ráð fyrir að hún sé sungin af tveimur kórum og flutt í kirkjum á virkum dögum, einkum miðvikudaga og föstudaga og jafnvel á sunnudögum í messunni, einkum um föstuna. Hann hélt hinni latnesku tónlist við latnesku lítaníuna en samdi sjálfur tónlist við þýsku lítaníuna af því að hann var á þeirri skoðun að það ætti ekki að syngja latneska tónlist við þýska texta. Bygging lítaníu Lúthers er á þessa leið: • Miskunnarbæn (Kyrie) og áköll til heilagrar þrenningar eins og í litania sanctorum en áköllin til dýrlinganna sem þar fylgdu eru felld niður. • Bænir og áköll til Krists. Þau eru tvenns konar. Annars vegar eru bænir um hlífð og vernd gegn böli og þjáningum og er hverju ákalli svarað með bæninni „frelsa oss“. Hins vegar eru áköll þar sem atriði úr lífi Jesú eru dregin fram til minningar og Jesús beðinn um að frelsa fyrir þau eða sakir þeirra: „Sakir fæðingar þinnar ... o.s.frv. frelsa oss, Drottinn“. • Fyrirbænir. • Niðurlag sem geymir m.a. Guðs lamb, Faðir vor og bænir (kollektur). Í latnesku lítaníunni eru fimm bænir en í þeirri þýsku fjórar og allar teknar úr litania sanctorum þar sem eru fleiri kollektur. Lítanía Lúthers er talin meðal sálma hans og var prentuð í fyrstu lúthersku sálmabókunum.

Lítanían á Íslandi Lítanía Lúthers var þýdd á dönsku þegar árið 1533 og athyglisvert að þar var hún tónsett eins og hin latneska lítanía og reglum Lúthers um að syngja ekki latneska tónlist við texta sem væru þýddir á móðurmál m.ö.o. ekki fylgt. Í Ordinansíunni 1537 segir að lítaníu megi syngja í messunni eftir prédikun „ef svo krefur almennileg nauðsyn“. Gísli Jónsson þýddi lítaníuna úr dönsku og birtist hún í sálmakveri hans 1558. Guðbrandur lét þýða hana að nýju og tók upp í Sálmabók 1589 en án tónsetningar. Lítanían er tónsett í Grallaranum 1594 ætluð til flutnings í messu á bænadögum. Þar segir:

Eftir prédikun skulu tvö ungmenni syngja lítaníuna og skulu prestarnir halda fólkinu að svara þar til.

Í framhaldinu er lítanían sett upp fyrir tvo kóra samkvæmt leiðbeiningum Lúthers en ekki tekið fram um hlutverkaskiptingu milli ungmennanna og kóranna. Lagið er latneska lagið við lítaníuna en ekki lag Lúthers við þýsku lítaníuna og fer Guðbrandur þar eftir því sem hafði tíðkast í Danmörku frá 1533. Lokabænirnar fylgja líka danskri hefð. Sú fyrsta er um fyrirgefningu syndanna og byggist á fyrstu kollektu Lúthers, önnur er fyrir konungi og ríkisráðinu og sú þriðja er um frið. Sú bæn er mjög forn að uppruna og var meðal lokabæna í litania sanctorum þó að Lúther hafi hana ekki með í sinni lítaníu. Lítanían var uppsett með sama hætti í öllum útgáfum Grallarans. Eftir að hinn almenni bænadagur, sem Íslendingar kölluðu kóngsbænadag, var innleiddur 1685 skyldi syngja lítaníuna á honum samkvæmt ákvæðum í danska kirkjurítúalinu frá 1685. Þar segir að lítanían skuli sungin af þremur ungmennum en kórinn eigi að svara. Þá var bætt við sérstakri lokabæn fyrir föstuna. Það er hugsanlegt að lítanían hafi orðið víxlsöngur milli prests og safnaðar og prestur hafi tónað það sem fyrsta kór var ætlað að syngja en söfnuður sungið hluta annars kórs.

Eftir að sögu Grallarans lauk með útgáfu messusöngs- og sálmabókar 1801 var lítanían ekki gefin út fyrr en séra Bjarni Þorsteinsson gekk frá texta hennar með útgáfu sinni að hátíðasögvunum 1899. Lítanían er ekki prentuð í Helgisiðabók 1910 en hins vegar er í Helgisiðabók 1934 stutt lítanía sem er ætluð til flutnings við guðsþjónustu á skírdag og föstudaginn langa og tekið fram að í stað hennar megi syngja lítaníu séra Bjarna Þorsteinssonar. Sigfús Einarsson setti tónlist við víxlsöngvana úr Helgisiðabók 1934 en mér er ekki kunnugt um að hann hafi tónsett lítaníuna í Helgisiðabókinni. Mér er heldur ekki kunnugt um hvort nokkurt tónskáld annað hafi samið lag við lítaníuna.

Eins og áður sagði var lítanían oft sungin eftir prédikun í föstuguðsþjónustum og oftast nær lítanía séra Bjarna. Útgáfa séra Sigurðar Pálssonar í Bænabókinni 1947 var útgáfu á lítaníu Lúthers út frá Grallaranum með nótum. Á Akureyri var lítanían sungin um tíma á föstunni við sænska tónlist. Texti þeirrar lítaníu er settur samsettur. Í upphafi er texti lítaníunnar úr Helgisiðabók 1934 en í seinni hlutanum er textinn úr Grallaranum eða útgáfu Sigurðar Pálssonar í Bænabók 1947. Einar Sigurbjörnsson þýddi lítaníu Lúthers að nýju og gaf út 2004 og er sú útgáfa án nótna.

Lítanía Bjarna Þorsteinssonar

Þegar séra Bjarni Þorsteinsson prestur í Siglufirði gaf út Hátíðasöngvana 1899 fylgdi hann útgáfu frumvarps sem handbókarnefnd þjóðkirkjunnar gaf út árið 1897 til nýrrar handbókar. Í frumvarpinu var engin tillaga að lítaníu. Hann saknaði þess að nefndin tók ekki lítaníuna saman og gerði það því sjálfur samkvæmt því sem hann segir í bréfi til dr. Valtýs Guðmundssonar frá árinu 1899:

Lítaníuna hafði handbókarnefndin ekki tekið upp í frumvarp sitt, svo þann texta hef ég sjálfur búið til, því lítaníunni vildi ég ómögulega sleppa; sendi ég biskupi þann texta til yfirlestrar og samþykkis, áður en hann var prentaður. Er það mín meining, að lítanían verði brúkuð fyrir (eða eftir) prédikun á föstudaginn langa.

Lítanía Bjarna Þorsteinssonar er mjög stytt útgáfa af lítaníu Lúthers og miðast áköllin aðallega við andlega neyð en fækkað fyrirbænum um tímanleg efni. Lítanían hefst á miskunnarbæn til heilagrar þrenningar sem kór syngur. Síðan fylgja áköll í víxlsöng milli prests og kórs. Prestur tónar ákallið og kórinn svarar hverju ákalli með bæninni: „Bænheyr þú oss, Drottinn Guð.“ Þá koma áköll sem kórinn ber fram en presturinn svarar með bæninni: „Frelsa oss, Drottinn Guð.“ Að skipta þarna hlutverkum er óeðlilegt og hefði verið eðlilegra að halda formi lítaníunnar óbreyttu sem víxlsöngs milli prests og safnaðar (kórs). Þó að Lúther geri ráð fyrir að lítanían sé flutt af tveimur kórum og lítanían sett upp með sama hætti bæði í Sálmabók Guðbrands og í Grallaranum heldur hvor kór sínu hlutverki og ber annar kórinn fram bænirnar og áköllin en hinn kórinn svarar. Lítanía séra Bjarna endar á hefðbundinn hátt á Guðs lamb og bænaáköllum og niðurlagið er tónbæn eða kollekta. Sú kollekta virðist samin af séra Bjarna sjálfum en byggist á kollektu Lúthers sem var fyrsta lokabæn lítaníunnar í Grallaranum.

Bjarni Þorsteinsson gengur út frá lítaníu Lúthers í Grallaranum. Í endurskoðun sinni á lítaníunni tekur hann burt nær allar fyrirbænir um tímanleg efni en gefur henni fyrst og fremst iðrunar- og yfirbótarblæ með fyrirbænum um andleg málefni. Þessi endurskoðun hans byggist á þróun sem hafði orðið í Danmörku á 19. öld. Á dögum upplýsingarstefnunnar var lítanían felld niður úr dönskum sálmabókum en margir söknuðu hennar. Tónskáldin C.E.F. Weyse (1774-1842) og A.P. Berggren (1801-1880) höfðu tekið saman lítaníur og er texti beggja fyrst og fremst syndajátning og bæn um andlegar þarfir. Bjarni tekur meira efni úr litaníu Lúthers og færir í skrautlegan tónlistarbúning sem gerir miklar kröfur til flytjenda, ekki síst prestsins sem einsöngvara. Það er spurning hvort það væri ekki verðugt verkefni fyrir kirkjutónlistarmann að gefa út lítaníu séra Bjarna í nýrri útsetningu fyrir tvo kóra að hætti Lúthers.