Umburðarlyndi og trú

Umburðarlyndi og trú

Á undanförnum árum hefur umræða um trú og guðleysi farið vaxandi. Nokkuð hefur verið um það að menn tefli fram vísindum gegn trú og trúarbrögðum. Í þeim samskiptum álita sumir að ekki sé rými fyrir sveigjanleika, hvað þá umburðarlyndi. Þessi skoðun á sér sögulegu rætur sem oft vilja gleymast.
fullname - andlitsmynd Sigurjón Árni Eyjólfsson
21. júlí 2011

Á undanförnum árum hefur umræða um trú og guðleysi farið vaxandi. Nokkuð hefur verið um það að menn tefli fram vísindum gegn trú og trúarbrögðum. Í þeim samskiptum álita sumir að ekki sé rými fyrir sveigjanleika, hvað þá umburðarlyndi. Þessi skoðun á sér sögulegu rætur sem oft vilja gleymast. Þær er m.a. að finna í þeim breytingum sem hafa orðið á heimsmynd og hugmyndakerfum manna á liðnum áratugum og öldum.

Í þessari samræðu er því gripið til tvískiptingunnar „við“ og „hinir“, þar sem einungis eru leyfðir tvær flokkar, með og á móti. Aðrar skoðanir, komast hreinlega ekki að. Við þekkjum vel til slíkra skiptinga og tvíhyggju. Hún leiðir oft til þess að minnst er á réttindi án tengsla við skyldur; að ekki sé talað um þegar umburðarlyndis er krafist af öðrum án þess að viðkomandi sé reiðubúinn að sýna það sjálfur öðrum en þeim sem deila sömu skoðunum. Það er auðvelt að halda áfram á þessari braut. Við getum vísað til þeirra hugmyndar að öll gildi séu jafngild því það skipti ekki máli hvaðan gott kemur. Slíkt er oft fullyrt án þess að gerð sé tilraun til að skilgreina fyrir hvað hugtakið „gott“ stendur. Loks virðist það oft vera að hugtökin umburðarlyndi, víðsýni, réttlæti og sanngirni séu tekin eignarnámi. En á sama tíma er öðrum eignuð hugtökin þröngsýni, óbilgirni, afturhaldssemi, menntaskortur og svo framvegis. Þegar umræða um trúmál eru annars vegar blasir þetta stundum við.

Einmitt þessi tvískipting, eða öfgar í umræðunni, er viðfangsefni þessa greinarstúfs. Í því samhengi verður fyrst gerð grein fyrir hugtakinu umburðarlyndi og hvernig má túlka það. Að því loknu verður leitast við að varpa ljósi á þann „trúboðsákafa“ sem gripið hefur margan „vísindahyggjumanninn“ í samtímanum. Trúarlífsfélagsfræðingar hafa dregið fram að „trúboðsákafi“ þeirra minni um margt á „trúboðsáhuga“ meðlima ýmissa sértrúarhópa. Þetta er skiljanlegt þar sem sannfæring og trú afmarkast ekki við trúarbrögð heldur tengjast flest öllum hugmyndakerfum manna.

Umburðarlyndi og trú Hugtakið umburðarlyndi (þýs: Toleranz) snýr að deilum. Þetta kemur strax í ljós við notkun þess. Við segjum: „Ég umber eitthvað, að minnsta kosti upp að einhverju marki.“ Hér er hugtakið notað til að setja ramma um það sem ber að virða. Handan hans er að finna það sem ekki er umborið, á ekki að vera, er óásættanlegt eða óæskilegt. Krafan um umburðarlyndi kemur því jafnan fram þar sem mismunandi gildismat ríkir og menn takast á um það. Hún verður ágeng þar sem hugmyndir um algildan mælikvarða, sannleika eða það sem er álitið vera rétt, skarast á milli hópa. Hér er vandinn oft sá hvernig taka eigi á slíkum andstæðum, vinna úr þeim og koma í réttan farveg.

Margur álítur sig geta tekið hér stöðu þriðja aðila sem miðlar málum. Annað er þegar sá er ekki til staðar og menn verða að miðla málum út frá eigin sannfæringu sem viðmælandi manns deilir ekki. Það hefur auk þess verið bent á að slíkar hlutleysis hugmyndir séu blekking ein, þar sem allir eru með einhverjum hætti tengdir umræðunni. Hlutlaust svæði er hér ekki til.

Til að forðast slíka nálgun eru til margar aðferðir, allt frá róttækri höfnun og ofbeldisfullum leiðum til að koma eigin sannfæringu að, til fullkominnar afstæðishyggju sem hafnar öllu algildu gildismati eða leyfir það yfirleitt ekki. Guðfræðilega gætum við orðað þetta svo að hér takist á tvær öfgar, annars vegar trú sem leyfir engan efa, eða efi sem leyfir enga trú (jafnvel þótt hann sé sjálfur trúarlegur). Í þessu samhengi greinir guðfræðingurinn Eckehard Stöve á milli þrennskonar birtingamyndir umburðarlyndis.

Þrjár birtingamyndir umburðarlyndis Í fyrsta lagi talar Stöve um hagnýtt umburðarlyndi (þýs: Pragmatische Toleranz). Hér neitar eða afsalar viðkomandi að hluta sannfæringu sinni hvað varðar eigin gildis– og sannleiksmat til að gera önnur gildi og gæði möguleg. Menn afmarka trúarsannfæringuna við persónulegt líf og hafna því oftar en ekki um leið að ein trúarsannfæring móti allt samfélagið. Þetta er gert til að tryggja frið, samfélagslegt réttlæti, velmegun o.s.frv. Þessi gerð umburðarlyndis er útbreidd og aðlagast vel fjölhyggjusamfélagi nútímans. Hún tryggir að friður, réttlæti og velmegun séu virt sem rammi samfélagsgerðarinnar. Það hefur verið bent á að slíkt umburðarlyndi geti leitt til hentistefnu vegna einhliða áherslu á hið hagnýta.

Í öðru lagi nefnir Stöve umburðarlyndi almennra sátta (þýs: Konsensus-Toleranz). Menn leitast hér við að skilja ytri umgjörð, siði og venjur frá kjarnanum. Kjarninn felur í sér aðalatriðin og það sem er fyrir utan hann telst aukaatriði. Þau má leggja til hliðar eða í það minnsta milda vægi þeirra. Sígild dæmi um þetta umburðarlyndishugtak kom þegar fram á tímum upplýsingarinnar, þegar menn reyndu í kjölfar trúarbragðastyrjaldanna að miðla málum milli kirkjudeildanna. Menn settu fram þá hugmynd að eðlislæg trú byggi að baki allra trúarbragða í ólíkum myndum. Yfirleitt var kjarni hennar lagður að jöfnu við einfalda siðfræðikenningu og reglur. Þær væru m.a. að finna í borðorðunum tíu. Þessi siðræna trú var jafnan tengd guðsmynd sem ættuð var úr hefð eingyðistrúarbragða.

Í þriðja lagi nefnir Stöve umburðarlyndi samtalsins (þýs: Dialogische Toleranz) eða umburðarlyndi sem samtal. Í þessu samhengi er gert ráð fyrir söguvitund þar sem gildi og viðmið eru skilyrt af því sögulega samhengi sem þau tilheyra. Af því leiðir að gildismat er sögulega afstætt, sem má aftur ekki leggja að jöfnu við afstæðishyggju. Þegar gildismat er samofið trúarsannfæringu er nauðsynlegt að greina á milli trúarlegrar upplifunar eða kjarna trúarinnar frá tjáningarformum hennar, þ.e. þeirra búninga sem trúarupplifunin er klædd í á hverjum tíma. Áherslan hvílir endanlega á frumreynslu trúarinnar þó að kjarni trúarinnar og trúarleg upplifun séu ætíð sett fram í samræmi við þá sögu og það samfélag sem hún er hluti af. Mikilvægt er að virða þá reglu að sama sé hve samofið formið er frumreynslunni, að það sé ætíð annað en inntak trúarinnar. Deilur við svokallað villutrúarfólk, eða fólk annarrar trúar, er því ekki sett fram sem vörn eða viðleitni til að sannfæra og fá viðkomandi til að skipta um trú. Menn leitast mun fremur við að leyfa mismunandi hugmyndum að takast á. Markmið samtalsins er að víkka eigin sjóndeildarhring, hugsun og tilfinningar með því að virða fjölbreytileika í trúartjáningu.

Vandinn sem gefinn er með umburðarlyndishugtakinu er þversögn þess. Hún verður að fá að standa. Umburðarlyndi sem þekkir ekki nein mörk eyðir sjálfu sér. Til þess að umburðarlyndið hafi áhrif, og hægt sé að beita því, verður það að vera „umburðarlaust“. Umburðarlyndið verður að hafna þeim kenningum sem neita veruleika þess. Umburðarlynt samfélag líður því ekki umburðarleysi sem grefur undan því, hvort sem um er að ræða hópa eða einstaklinga. Það verður því að snúast til varnar gegn misnotkun á umburðarlyndi, þ.e. þegar umburðarlyndi er nýtt til að rækta eða stuðla að umburðarleysi og kúgun. Í þessu samhengi erum við komin að vissum takmörkum. Sannleikskrafan er þess eðlis að það er ekki hægt að ýta henni til hliðar í nafni afstæðis allra hluta, það er þversögn. Allt slíkt er vatn á myllu bókstafstrúar, sama hvaða nafni hún nefnist. Umburðarlyndi er því annað og meira en dyggð. Það er t.d. ekki hægt að leggja umburðarlyndi að jöfnu við dyggðina þolinmæði. Það er líka annað og meira en uppgjöf andspænis því að geta ekki sannfært annan um vægi eigin sannfæringar. Umburðarlyndið er listin að sigla milli trúarofstækis eða sannfæringar sem líður engan efa og efa sem leyfir enga trú eða sannleikslausa afstæðishyggju. Umburðarlyndi hafnar trú án efa og efa án trúar. Það gengst aftur á móti við trú og efa.

Spennuhlaðið samband vísinda og trúar Með siðbótinni fór sá rammi að riðlast sem kristindómur setti um vestrænt samfélag. Í kjölfar deilna kirkjudeildanna og ófriðarins sem fylgdi í kjölfarið varð mönnum ljóst að sú trú og kristni, sem hvor kirkjudeild fyrir sig gerði kröfu um að vera fulltrúi fyrir, nýttist ekki lengur sem grundvöllur samfélagsins. Greina varð á milli veraldlegs og andlegs valds með þeim hætti að hið veraldlega vald byggði á grunni sem var ekki skilyrtur af annarri hvorri kirkjudeildinni. Eftir 30 ára stríðið, sem lauk með friðnum í Westfalen árið 1648, má segja að vísindin, sérstaklega náttúruvísindin og þau heimspekikerfi sem fylgdu þeim að málum, hafi tekið meira og minna yfir það svið sem guðfræðin hafði fram að því sinnt. Þannig skilgreindi guðfræðin ekki lengur hvað stjórnmálafræðin, félagsvísindin, siðfærðin o.s.frv. fjalla nú um. Menn studdust æ meira við náttúruvísindi og byggðu á aðferðum þeirra. Þetta átti einnig við innan hugvísinda þar sem áhrif pósitívismans jukust ár frá ári. Menn álitu að á bak við veruleikann og hugmyndir manna um heiminn, sérstaklega innan trúarbragða, byggi einfaldur siðrænn boðskapur sem birtist í hinum ýmsu tilbrigðum innan samfélaga og trúarbragða. Eitt meginmarkmið fulltrúa upplýsingastefnunnar var að gera grein fyrir þessum þáttum fyrir samfélag og líf einstaklinga.

Óhætt er að segja að með frönsku byltingunni 1789 hafi orðið enn meiri breytingar. Þjóðin og þjóðríkið taka þá stöðu sem trúarbrögðin höfðu áður haft. Vísindin, sérstaklega náttúruvísindin, setja þá mælikvarða sem menn eiga að styðjast við. Hefst nú óslitin sigurför þeirra innan háskóla og samfélags. Greinar nátturuvísinda verða mótandi og í háskólum eru aðrar greinar settar svo að segja í þeirra umsjón. Innan þeirra er ákveðið hvað eru vísindi. Náttúruvísindin eru skilgreind raunvísindi og annað flokkast undir hugvísindi. Afleiðing þessa er aukin áhersla á efnishyggju og pósitívisma innan hugvísinda. Þessi skilningur hefur mikil áhrif á trú og trúariðkun sem voru nú æ meira bundin við einsktalinginn og einkalífið. Algildiskrafa trúarinnar hverfur og hið persónulega og „barnatrúin“ tekur sæti hennar. Merkingarlega þrungin hugtök guðfræðinnar missa vægi sitt. Dómurinn er ekki lengur Guðs í lok sögunnar, heldursagan sjálf og þróun hennar. Hún er dómarinn, og dóm hennar þarf stöðugt að endurskoða og endurmeta í ljósi hverrar samtíðar.

Í anda efnishyggju og pósitívisma er sagan rannsökuð. Menn reyna að finna þau lögmál sem hún lýtur og setja fram kenningar um þróun hennar. Í framhaldi af því eru stjórnmálakenningar mótaðar. Má segja að á bak við helstu heimspeki- og stjórnmálastefnur síðastliðinna tvö hundruð ára liggi þessi sýn til grundvallar. Á henni byggir kommúnisminn sína díalektísku efnishyggju og sögulegu þróunarhugsun og nasisminn á félagslegri þróunarhyggju (e: social darwinism). Markaðshyggjan og nýfrjálshyggjan eiga sér einnig sínar rætur. Þegar líða fer á 20. öldina eru greinilegir brestir komnir í þennan skilning. Við fall berlínarmúrsins árið 1989 er haldleysi hennar staðreynd og meinbugir þessarar heimssýnar öllum ljósir. Vísindin, sem hafði verið sniðinn þröngur stakkur efnishyggju og pósitívisma, stóðu ekki lengur undir hlutverki sínu. Þau risu ekki lengur undir því að vera rammi samfélagsins. Efnishyggja og pósitívismi voru ekki sá vísindalegi grunnur sem var hægt að útskýra nánast allt út frá. Merkileg þróun á sér stað á þessum tíma sem á sér hliðstæðu við þá kreppu sem trú og kristni þurfa að ganga í gegnum innan vestrænnar menningar. Þegar kristin trú missti stöðu sína sem mótandi afl innan vestræns samfélags, fannst mörgu trúuðu fólki að tilvera þeirra færi á flot. Fortríðarþrá samhliða leit að festu greip marga. Í henni tefldu menn fram ritningunni sem heildstæðum veruleika. Hún átti að veita svar við öllum spurningum mannlegrar tilveru. Biblían varð þannig gerð að óskeikulum mælikvarða og hópar bókstafstrúar komu fram á meðal mótmælenda. Á sama tíma varð krafan um óskeikuleika páfa í trúar- og siðfræðiefnum miðlægari meðal rómversk kaþólskra. Má líta á þessar hreyfingar sem viðbrögð við þessari breyttu stöðu kristninnar innan vestrænnar menningar. Menn hafa almennt gengist við þessari breyttu stöðu. Margir kristnir guðfræðingar hafna því slíkri fortíðarþrá. Þeir hafa síðastliðin 200 ár reynt að aðlaga trú og kristni að þessum breytta veruleika og skilja kirkjuna hér sem eina af mikilvægum stofnunum í mótun gildismats innan samfélagsins.

Fall Berlínarmúrsins 1989 kallaði fram svipuð viðbrögð hjá mörgum sem aðhylltust guðlausa vísindahyggju. Sumir þeirra brugðust við með leiðum sem þekktar eru úr guðfræðisögunni og svipað varnarferli virðist hafa farið af stað og innan kirkjunnar 250 árum áður. Óskeikular kenningar í anda efnishyggju og pósítívisma eru settar fram um að vísindi veiti ætíð svör og þeim beri að fylgja. Menn virða hér að litlu leyti að spurningar er lúta að tilgangi og tilvist tilheyrðu ekki verksviði náttúruvísinda. Hvað þá að það sé ekki þeirra að svara spurningunni afhverju eitthvað er, heldur að skýra út hvernig hlutirnir eru eða virka. Menn rugla þannig saman vísindum og hjálpræðisleiðum. Merkilegt er að þessi vísindahyggja virðist ætla að taka á sig myndir sem maður finnur aðallega í trúarsamfélögum. Þannig hafa ýmis guðlaus lífsskoðunarfélög sem kenna sig við vísindalega heimsmynd boðið upp á nafngjöf, fermingu, giftingar og jarðarfarir. Þetta eru allt gjörningar sem eiga sér hliðastæðu við kirkjulegar athafnir. Fyrirmyndir eru sóttar til athafna sem þekktust í Austur–Þýskalandi og var beitt gegn þeim athöfnum kirkjunnar. Athyglisvert er að opinber játning meðlima skiptir miklu máli. Þessar guðleysishreyfinar greina sig frá almennu guðleysi á þann máta að innan fræðanna er talað um „Sekúleran Fundamentalisma“ og „militanten und antiklerikalen Atheismus“ þ.e. veraldlega bókstafstrú, og árasagjarnt og kirkjufjandsamlegt guðleysi. Trúfræðingurinn Klaus Müller segir að það komi því lítið á óvart að í sumum félögum sem kenna sig við „sértækt guðleysi“ og „visst trúleysi“ gangi menn vísindahyggju og guðleysi á hönd líkt og meðlimir í sértrúarhópi. Þeir játast því að vísindi og guðleysi verði að leggja að jöfnu og er afdráttarlaust guðleysi forsenda félagsaðildar. Loks ber að minnast á „trúboðsáhugan“ sem er sannarlega mikill. Markmiðið er ekki samtal og að víkka sjóndeildarhringinn, eins og kom fram í skilgreiningu á samtals umburðarlyndinu, heldur annað hvort að snúa viðkomandi til sinnar skoðunar eða gera hann ótrúverðugan gagnvart öllum öðrum. Í þessari viðleitni ganga sumir langt og vinna markvist að því að útiloka trú og kristni frá almennri orðræðu.

Niðurstaða Vandinn sem vísindahyggjan stendur frammi fyrir er ekki ósvipaður þeim sem kirkjan stóð frammi fyrir 300 árum á undan. Það má segja að innan „vísindaheimsins“ hafi efnishyggja og pósitívismi aldrei haft það vægi sem af er látið. Það sem einkennir vísindasamfélagið er að múrar og þröskuldar milli greina hafa lækkað og menn átta sig betur en áður á mikilvægi þverfaglegrar umræðu og hvernig hinar ýmsu greinar nálgast lík viðfangsefni. Svokölluð náttúruvísindi og vísindahyggja hafa misst sérréttindi sín og þurfa eins og kirkjan og aðrir að taka virkan þátt í gildismótun samfélagsins en setja ekki lengur ramma umræðunnar. Því geta menn ekki lengur innan þessarar umræðu notað aðferðir „bókstafstrúar“, þ.e. að gera einn hóp eða stefnu að rót alls ills og litið svo á að ef henni sé ýtt til hliðar þá lagist heimurinn. Guðfræðilega séð er slíkur syndaskilningur mjög varhugaverður þar sem syndin er bundin við einhverja siðferðilega galla en ekki sem brotalöm mannlegs eðlis, eða firringu mannsins í þverstæðufullum heimi. Annað sem ber að varast og öllum bókstafsskilningi hættir til, hugmyndafræðilegum, pólitískum eða trúarlegum, er að taka söguna eignarnámi og nota allt sem þar er fagurt til að fegra eigin málstað og sverta annarra.

Heimildir: Peter Gerlitz: „Toleranz III. Religionssgechichtlich.“ TRE 33, Berlin, 2006, 668-676. Klaus Müller, „Atheismus als Gegenreligion“, í Magnus Striet (útg.), Wiederkehr des Atheismus, Freiburg 2008, 29–56. Hartmund Rosenau: „Toleranz II. Etisch“, TRE 33, Berlin, 2006, 664-668. Eckehart Stöve: „Toleranz I. Kirkengeschichtlich“, TRE 33, Berlin, 2006, 646-663. Ingo Broer / Richard Schlüter (útg.), Christentum und Toleranz, Wissenschaftliche Buchgesellschaft, Darmstadt, 1996. Richard Schröder, Abschaffung der Religion?, Freiburg 2008. Magnus Striet (útg.), Wiederkehr des Atheismus, Freiburg 2008