Að vera þjóðþekktur eða vera þekktur af góðu

Að vera þjóðþekktur eða vera þekktur af góðu

Ég hef verið mjög hugsi eftir að lesa og hlusta á fréttaflutning af nýja stjórnlagaþinginu nú fyrstu dagana eftir að ljóst var hvaða fulltrúar hafa valist þangað. Það er orða og hugtakanotkun sumra sem um það fjalla sem veltist fyrir mér, sér í lagi notkun hugtaksins að vera þjóðþekktur.
fullname - andlitsmynd Gunnar Rúnar Matthíasson
04. desember 2010

Ég hef verið mjög hugsi eftir að lesa og hlusta á fréttaflutning af nýja stjórnlagaþinginu nú fyrstu dagana eftir að ljóst var hvaða fulltrúar hafa valist þangað. Það er orða og hugtakanotkun sumra sem um það fjalla sem veltist fyrir mér, sér í lagi notkun hugtaksins að vera þjóðþekktur. Stundum er að heyra og sjá sem hugtakið „að vera þjóðþekktur“ sé notað til að finna að ágæti þeirra fulltrúa sem á stjórnlagaþing hafa valist. Og ég spyr er fólk ekki oft þekkt af góðu.

Þó mér sé málið skylt í tilviki konu minnar sem þarna er ein fulltrúa þá leyfi ég mér samt að vekja athygli á þessari hugtakanotkun. Orða notkun og samhengi hugtaka er ekki hlutlaust þó þess sé gætt að nefna engar beinar sakir eða ávirðingar. En málfar og samhengi orða getur engu að síður mótað hlustun og lestur og ýmist vakið fyrirvara eða eftirvæntingu, neikvæðar eða jákvæðar hugmyndir um það sem verið er að fjalla um. Málfar mótar eins og svo oft hefur verið bent á. Hvernig lest þú annars lesandi góður fyrirsögn eins og þessa: „Þing hinna þjóðþekktu“. Við þurfum að vanda orð okkar og mál.

Þetta á einnig við um það að þó að okkur svo mörgum hafi orðið vonbrigði af dræmri kjörsókn þá felur það ekki í sér að þau sem valin voru gangi ekki heil til verks. Við, þjóðin, höfum valið þau persónulega, sem sjálfstæða einstaklinga í persónukjöri. eim er falið að fara yfir, árétta, endurskoða eða endurskrifa ný drög að stjórnarskrá okkar, grundvallar samþykkt samfélagsins Íslands. Til þessa hafa þau verið kölluð og nú reynir á að við stöndum með þeim, styðjum og hvetjum til að það verk verði vel unnið. þetta er fjölbreyttur hópur sem á sér rætur víða þó núverandi lögheimili svo margra þeirra sé hér á suðvestur horni landsins. Það er þeirra að ganga heil til verks, trú þjóð sinni allri, og leggja síðan verk sín fyrir þjóðkjörið þing okkar eins og reglur kveða á um.

Ég er stoltur af þeim fulltrúum sem hafa valist til stjórnlagaþings. Ég þekki af góðu öll þau sem mér eru kunn af kjörnum fulltrúum þó skoðanir okkar fari ekki alltaf saman. En þannig vil ég líka hafa það því fulltrúar stjórnlagaþings þurfa að glíma við, treysta og árétta grundvöll margbreytilegs samfélags sem virðir,treystir og áréttar hag hvers íbúa. Stjórnlagaþingsfulltrúum er ætlað að vinna með þær undirstöður sem allar aðrar leikreglur okkar munu byggðar á, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Ég þekki stjórnlagaþingsfulltrúa okkar af góðu og ég vænti góðs af þeim hvort sem þau eru þjóðþekkt eða ekki. Megi blessun fylgja þeim í störfum þeirra.