,,Guð er eilíf ást/Engu hjarta er hætt"

,,Guð er eilíf ást/Engu hjarta er hætt"

Tókuð þið til þess í gær hvernig veröldin stöðvaðist og stóð kyrr í gær klukkan sex þegar aftandagur jóla gekk í garð. Kyrrð lagðist yfir, hvinurinn þagnaði. Allir komnir heim eða við aftansöng í kirkju. Börnin gleðjast, gleði þeirra ætíð söm.

Gleð þig, særða sál, Lífsins þrautum þyngd. Flutt er munamál, Inn er helgi hringd

Yrkir skáldið Stefán frá Hvítadal í tilefni jólanna

Gleðileg jól öll sömul! Tókuð þið til þess í gær hvernig veröldin stöðvaðist og stóð kyrr í gær klukkan sex þegar aftandagur jóla gekk í garð. Kyrrð lagðist yfir, hvinurinn þagnaði. Allir komnir heim eða við aftansöng í kirkju. Börnin gleðjast, gleði þeirra ætíð söm. Hugur fullorðna reikar til liðins tíma. Þeir sem gegnir eru koma einnig til okkar – lifandi og látnir koma til okkar. Á hverjum jólum upplifum við jól allra skeiða lífs okkar og í hugann koma allir sem voru kærir. Við erum bæði misjöfn og við erum líka eins. Sennilega skynjum við veröldina í meginatriðum eins, gult er gult og rautt er rautt. Við áttum okkur á því hvað við eigum við með hugtökunum ljós og myrkur, sólin líður fyrir augum okkar með svipuðum hætti yfir himinhvolfið. Lítið og stórt hafa svipaða merkingu. Samt líður tími okkar misjafnlega. Hjá sumum líður hann hratt, hjá öðrum hægt. Hjá sumum er eins og allt sé að koma í fangið á þeim – dagarnir eru ógnþrungnir og slítandi, erfiðir, allt á fótinn. Dagar annarra eru því líkastir að allt sé undan fæti. Brosandi hlaupa þeir mót grasgrænni og gefandi sléttunni meðan aðrir klifra daglega fjöll jafnvel þverhnípt. Sagt er um nútímamanninn, sennilega á það við um borgarbúann, að hann sjái lífið sem beina línu þar sem einn áratugur lífsins tekur við af öðrum, sem hann mjakist eftir beinum vegi með tiltekinni byrjun og tilteknum endi. Áður fyrri er mér sagt var skynjunin öðruvísi. Hringlaga. Vorið, sumarið, uppskeran, haustið, veturinn, jólin, fastan, páskarnir í kristnum samfélögum. Og enn er þetta svo í sveitum þó þær dragi dám af borgarsamfélaginu. Ég held að þetta sé list sem við ættum að tileinka okkur að sjá lífið sem hringrás, upplifa bæði árstíðirnar sem eru hver með sínum hætti og dramað sem kynslóðirnar hafa gert úr sviplausu dagatalinu. Byrja á því að gefa okkur jólunum á vald, lifa jólin, sökkva okkur niður í jólin, leyfa þeim að koma alveg inn að hjartanu, upplifa helgileikinn. Upplifa tímann sem stöðuga endurtekningu sömu hringrásar. Lífið verði eins og trjábolur þar sem ein felling bætist utan á á ári hverju. Á jólum skiptir ekki máli hvað nákvæmlega gerðist. Fæddist Jesú nú, nákvæmlega nú? Hvers konar Guð er þetta sem talað er um? Varð María ólétt af heilögum anda? Slíkar spurningarnar skipta ekki öllu máli. Það sem skiptir máli er að Jesú og jólahátíðin eru hluti af okkar lífi, samofnin lífi okkar og tilveru, þetta er sagan okkar, þetta er okkar meginsaga, okkar Guð, okkar frelsari. Og hvað segir sagan okkur. Hún lýsir þeirri þrá mannsins að ekki sé allt sem sýnist. Að til sé almáttugur Guð sem stýri öllu til góðs. Lýsir þeirri von okkar að allt fari að endingu vel. Þessi von og þessi þrá kristallast í sögunni um barn sem fæðist við óvenjulegar aðstæður og fær blíðar móttökur þrátt fyrir harðan heim. Lifum jólin, gleðjumst yfir fæðingu barnsins, tilvist okkar eigin barna, veruleika okkar eigin lífs, opnum augu okkar fyrir undri og fegurð þessa heims, fyrir því sem við höfum, sjáum og skynjum. Njótum gjafanna, skrautlegu umbúðanna, skreytinganna, allt er þetta svipað og í fyrra og hitteðfyrra og fyrir tíu árum og fyrir þrjátíu árum. Kannski er það endurtekningin, ritúalið, sem gerir trúna svona lífsseiga. Þráin eftir endurekningunni, kjölfestunni, að upplifa hið sama góða, ekki sé allt hvefult. Allt felur þetta í sér þann sama hugblæ og á fyrstu dögum þegar hirðarnir sýndu jólabarninu lotningu sína og vitringarnir gáfu því gjafir. Já, njótum jólanna. Byrjum á því að njóta hins dásamlega söngs kórsins okkar, höldum svo héðan glöð í hjarta, hvert og eitt, öll sömul. En eigum við þá ekkert að hugsa um aðra? Um fátæku börnin? Um þá sem ekki hafa til hnífs og skeiðar? Um þá sem búa við ömurlegar aðstæður? Vitaskuld. Elskan í garð annarra er forsenda alls þessa, alls tilstandsins. Án þess hikstar enda gleðin í heilbrigðu hjarta. Hugum því að öðrum. Gefum gaum að öðrum út fyrir okkar eigin fjölskyldu í okkar nærumhverfi. Er einhver hér í götunni sem við gleymdum? Einhver þarna sem á lítið eða er einn? Gáum að því. Og leggjum okkar til réttláts og góðs heims. Við gerðum það sum á jólaföstunni, sumir styrkja barn á fjarlægum stað og enn aðrir geta bætt úr aðgerðarleysi sínu. Bætum þennan heim.” Jólin felast í einfaldri frásögu, ævintýrablæ, jólasálmum, bænum, tækifæri til að gefa þeim sem mest þurfa á að halda. Við þörfnumst þessa tíma. Við þurfum á hátíðinni að halda — ekki til að flýja raunveruleikann, heldur til þess að staldra við, hugleiða, þakka og sækja þrótt til að geta látið gott af okkur leiða Því að ..barn er oss fætt…sonur er oss gefinn….á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Og Skáldið frá Hvítadal að lokum Guð er eilíf ást Engu hjarta er hætt. Ríkir eilíf ást, Sérhvert böl skal bætt. Lofið Guð sem gaf, Þakkið hjálp pg hlíf. Tæmt er húmsins haf, Allt er ljós og líf