Hið lifandi brauð

Hið lifandi brauð

Jesús sagði: Aflið ykkur ekki þeirrar fæðu sem eyðist heldur þeirrar fæðu sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því að faðirinn… sjálfur Guð, hefur veitt honum vald sitt.“ já… ORÐ GUÐS er okkar andlega fæða.

2Kon 4.42-44, Post 27.33-36 og Jóh 6.52-58

prédikun....  Hið lifandi brauð

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ritningatextarnir fjalla allir um ,,brauð”  enda er umræðuefni þessa sunnudags…. Brauð lífsins… og í versi vikunnar segir Jesús:  Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs. (vers úr Jóh 6.51)

Brauð var uppistaðan í fæðu almennings á þessum tíma… og Jesús notaði táknmyndir sem fólkið þekkti… Jesús sagði: Ég er hið ,,lifandi” brauð sem steig niður af himni. Og í guðspjallinu sagði hann: Hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum… Auðvitað borðum við ekki bókstaflega líkama Krists né drekkum blóð hans… en við þurfum að meðtaka ORÐ hans… drekka í okkur boðskapinn. Jesús sagði: Aflið ykkur ekki þeirrar fæðu sem eyðist heldur þeirrar fæðu sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því að faðirinn… sjálfur Guð, hefur veitt honum vald sitt.“  já… ORÐ GUÐS er okkar andlega fæða.

Jóhannesarguðspjall byrjar á þessum orðum… Í upphafi var Orðið… og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð… Orðið er skrifað með stórum staf því Orðið er persóna. Biblían byrjar eins… Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð… Jesús hefur verið til frá upphafi, því hann steig niður af himni sem hið lifandi brauð… Jóhannes segir:  Orðið var Guð… Orðið er Jesús og Jesús, er okkar andlega fæða… Orð Guðs á að næra sálina og styrkja trúna. Fólkið skyldi samlíkinguna með brauðið, að þau þyrftu að hleypa Jesú inn í líkamann, eins og þegar það mataðist… þannig væri hann inn í líkamann, og gæti búið í hjörtum þeirra… Svo kannski er þetta orðatiltæki sem við þekkjum… að við séum það sem við borðum… miklu eldra en við höldum…

Í fyrri ritningarlestrinum var saga um Elísa.  Hann fékk 20 byggbrauð sem voru frum-gróða-brauð…. Í orðskýringum aftast í Biblíunni segir að frumgróði: var fyrsta uppskera og af henni átti að færa Guði fórn, því það er Guð sem gefur jarðargróðann… Þetta var gert í þeim tilgangi að Guðs blessun hvíldi yfir allri uppskerunni… þessu til stuðnings er vísað á 2 og 5 Mósebók. (2.Mós 23:19 og 5.Mós 26:1)

Textinn sagði okkur að Elísa vildi fæða 100 manns með þessum 20 byggbrauðum. Hveiti-brauð voru brauð ríka fólksins en byggbrauð voru brauð fátæka fólksins… sá sem kom með þessi brauð var ekki ríkur… en Drottinn blessaði brauðin, 100 manns urðu saddir, OG þeir leifðu… Við höfum heyrt svipaða sögu úr NT… það var þegar Jesús blessaði 5 byggbrauð og 2 fiska og gaf 5000 manns að borða… og það urðu 12 körfur afgangs… Sannarlega kraftaverk… ef við leikum okkur aðeins með þessar tölur þá getum við hugsað sem svo að Jesús muni sjá okkur fyrir lífsviðurværi alla 5 virka daga vikunnar… (5 brauð) sem og þessa 2 daga um helgar (2 fiskar), alla 12 mánuði ársins… sbr 12 körfur… Okkur mun ekkert skorta ef Guð er með okkur…

Maðurinn gaf Elísa ,, frum-gróða-brauð og dálítið af nýju korni”  Brauðin voru fórn… Fórn var gjöf til Guðs… EÐA til að friðþægja fyrir syndir og styrkja sambandið við Guð. Í GT er lögð rík áhersla á að þakka Guði fyrir hans blessanir… þeas gefa til baka… menn þökkuðu fyrir regn og sól sem tryggðu uppskeru, þökkuðu fyrir heilsu, barnalán, handleiðslu gegnum lífið og fl… Sumar af fórnunum voru ætlaðar til að prestarnir og fjölskyldur þeirra… sem voru starfsmenn Guðs, hefðu lífs-viðurværi en aðrar átti að brenna á altarinu, Guði til þægilegs ilms… eins og það er orðað… og það var eiginleg fórn… þ.e.a.s. engum lifandi manni til gagns… Fórnin, hvort sem hún var brauð, hveiti, korn, dúfa eða lamb… var gjöf til Guðs, gjöf sem táknaði þakklæti fyrir blessun… þess vegna sér maður stundum andstæðuna í NT… að menn töldu að hverslags fötlun eða sjúkdómar væru hegning fyrir syndir forfeðranna… hugsunin var… að blessun Guðs gæti ekki hvílt yfir því fólki… já, fólk notaði þessa skýringu sem ástæðu þess, að þessi byrði var lögð á það.

Þegar Jesús dó á krossinum rifnaði fortjaldið í musterinu í Jerúsalem… og allt breyttist, ekki bara hjá þeim sem fylgdu Jesú – heldur líka hjá gyðingum. Fórnir þeirra lognuðust út af… hátíðirnar fengu aukið gildi…EN… fyrir kristna, táknar dauði Jesú, að hann sé hin eina sanna fórn.

Nú er fasta… og páskar á næsta leyti… Jesús borðaði síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinum sínum á skírdag… þeir söfnuðust saman því páskahátíðin var að ganga í garð. Gyðingar minnast brottfararinnar frá Egyptalandi á páskum… þeir minnast þess þegar þeir slátruðu páskalambinu og settu blóð á dyrastafina svo engill dauðans færi framhjá þeirra húsi… Lærisveinar Jesú útbjuggu páskamáltíð fyrir þá… og mestar líkur á, að þeir hafi borðað lamb samkvæmt gyðinglegri hefð… en frásagnir guðspjallanna beinast að brauðinu og víninu

því sem við köllum ,,heilaga kvöldmáltíð” Brauðið var uppistaða venjulegrar máltíðar og þó Jesús væri búinn að segja lærisveinunum að hann væri brauð lífsins og að þeir þyrftu að eta hold hans og drekka blóð hans til að lifa eilíflega… þá var það líklega ofar þeirra skilningi og þess vegna nauðsynlegt fyrir Jesú að gefa þeim.. og okkur.. skilning með táknrænum hætti… Svo Jesús tók brauðið, gjörði þakkir og gaf þeim með þeim orðum að þetta væri líkami hans… og eins var með vínið, hann gjörði þakkir og gaf þeim með þeim orðum að þetta væri blóð hans… blóð sáttmálans, úthellt fyrir margasegir í Markúsar-guðspjalli en Matteus, bætir við setninguna: ,, til fyrirgefningar synda”… 
Jesús tók brauðið og gjörði þakkir áður en hann braut það og gaf… þarna innleiddi hann nýja athöfn… sem kristnir menn hafa viðhaldið síðan sem táknræna athöfn… EN Lærisveinarnir tóku við brauðinu og víninu með þeirri blessun og í þeirri trú, að þeir væru að borða SANNA fæðu eilífs lífs… Nú væri Jesús í þeim og þeir í honum

Elísa. lét aftur á móti… gefa mönnum sínum brauðið án þessgera fyrst þakkir… hann hafði fullvissu frá Guði að brauðið myndi vera meira en nóg… en menn hans átu brauðið bara til að seðja hungrið…  Milljónir manna hafa þann fallega sið að ,,gera þakkir” sem sagt hafa borðbæn fyrir… hverja einustu máltíð… sá siður hefur ekki fengið fótfestu á Íslandi… Í bæninni okkar Faðir vor, biðjum við: ,,gef oss í dag vort daglegt brauð”… við setjumst að matarborðinu dags daglega, eins og það sé sjálfsagt að það verði alltaf nægur matur á því… því við lifum við mikið öryggi í okkar samfélagi… en… eins og orðskýringin sagði: þá voru fórnir til Guðs lagðar fram til að þakka Guði… því það er Guð sem gefur jarðargróðann… gefur regn og sól, frjósaman jarðveg eða umhverfi og vaxtarkjör, hann greiðir úr vandamálum, gefur okkur öryggi, blessar okkur hvert á sinn einstaka hátt… og hann hefur greitt gjaldið fyrir okkar himnavist.  Hann er brauð lífsins, brauð eilífs lífs… og fyrir það þurfum við að þakka honum.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen