Guðfræði mergðarinnar

Guðfræði mergðarinnar

Íslendingar hafa upplifað veikleika þjóðríkisins, færanleika fjármagns og sýndarveruleika með áþreifanlegum hætti síðasta veturinn. Sumir vilja efla þjóðríkið, aðrir vilja tengjast öðrum þjóðríkjum. Flestir kalla eftir nýrri heimssýn og ferskri hugsun. Fjöldi fólks horfir fram á fátækt og gjaldþrot á næstu árum og reiðin kraumar í samfélaginu.
fullname - andlitsmynd Sigríður Guðmarsdóttir
03. nóvember 2009

Mergðin

Í voru sóttu þekktir stjórnmálaheimspekingar Antonio Negri og Michael Hardt Ísland heim, en Hardt og Negri eru þekktir fyrir bækur sínar Empire (2000) og Multitude (2004). Nöfn þessara bóka mætti þýða með „Veldi“ og „Mergð“ og hafa þessi tvö hugtök einkennt mjög málflutning þessara tveggja áhugaverðu fræðimanna.

Hardt og Negri eru póstmarxistar, þeir eru uppteknir af aðstæðum hinna fátæku í heiminum, en telja að díalektíkin sem einkennir hinar fyrri marxískar analýsur hafi gengið sér til húðar. Að dómi Hardts og Negris er þegar runnið upp nýtt skeið í stjórnmálum og efnahagslífi heimsins sem þeir kenna við veldi eða empire. Veldi tekur við af þjóðríkjum heimsins sem ráðandi afl, veldi er sveigjanlegt, hnattrænt, byggir á óefnislegri framleiðslu og þjónustu og færanlegu vinnuafli.

Hardt og Negri telja að eina leiðin til þess að stunda kommúnisma á dögum veldis, sé ekki að hverfa aftur til fornra atvinnuvega heldur að hafa áhrif á það hvernig fjármunum er skipt á milli manneskja. Þar kemur til kasta mergðar (multitude) og máttar hennar. Hardt og Negri telja að mergðin, hinn óendanlega fjölbreytilegi hópur fólks hafi í eldri þjóðskipulögum endalaust verið settur fram sem einlit heild sem „fólkið“, eða „þjóðin“, og „þjóðin“ hafi síðan verið látin speglast í ríkishugtakinu, þar sem staða fjöldans þróaðist frá undirsetum til borgaralegra réttinda. Á tímum veldis þar sem þjóðríkin hafa veikst mjög telja þeir mikilvægt að krafturinn, sveigjanleikinn,sköpunargleðin, kænskan og andófið sem felist í mergðinni og fjölbreytninni sé virkjaður.

* * * Íslendingar hafa upplifað veikleika þjóðríkisins, færanleika fjármagns og sýndarveruleika með áþreifanlegum hætti síðasta veturinn. Sumir vilja efla þjóðríkið, aðrir vilja tengjast öðrum þjóðríkjum. Flestir kalla eftir nýrri heimssýn og ferskri hugsun. Fjöldi fólks horfir fram á fátækt og gjaldþrot á næstu árum og reiðin kraumar í samfélaginu.

Ég átti þess kost að hlusta á Hardt og Negri og komst þá að því Hardt þekkti ágætlega til frelsunarguðfræði, hinna marxísku analýsa Suður-Ameríku, sósíalska femínismans og svörtu guðfræðinnar sem svo mjög settu svip sinn á guðfræðiumræðu áttunda áratugarins, en eiga nú allmikið undir högg að sækja m.a. vegna þess hversu úreltur marxisminn er talinn meðan hugmyndakerfa heimsins.

Frelsunarguðfræðin vildi beina sjónum til hinna fátæku, til exodusar þeirra sem lökust hafa kjörin, til tilvistar hér og nú, og íveru hins heilaga meðal þeirra smáðu. Og kannski er kominn tími til að fletta upp gömlum frelsunarguðfræðiskruddum Gutierrez, Boffs og Bingemer í bland við nýrri kenningar um andóf og frelsi mergðarinnar. Hvernig hljóðar guðfræði mergðarinnar á Íslandi, guðfræði hinna fátæku í kjölfar bankahrunsins?