Guð gerðist maður

Guð gerðist maður

Guð gerðist maður. Það segja jólin okkur. Auðvitað geta jólin sagt okkur ýmislegt fleira líka, til dæmis að nú sé Gunna á nýju skónum, jólagjöfin í ár sé spjaldtölva eða að jólasveinninn drekki Coca-cola.
fullname - andlitsmynd Þorgeir Arason
25. desember 2012
Flokkar

Guð gerðist maður.

Það segja jólin okkur.

Auðvitað geta jólin sagt okkur ýmislegt fleira líka, til dæmis að nú sé Gunna á nýju skónum, jólagjöfin í ár sé spjaldtölva eða að jólasveinninn drekki Coca-cola.

En hin kristnu jól segja okkur fyrst og fremst þetta:

Guð gerðist maður.

Og það vill Jóhannes guðspjallamaður segja okkur með jólaguðspjallinu sínu, sem ég las hér á undan.

Þar er reyndar ekki talað um neitt barn í jötu, þar eru engir englar, engir fjárhirðar eða vitringar og hvorki minnst á Maríu né Jósef. Það allt eftirlætur Jóhannes þeim Lúkasi og Matteusi að gera í sínum jólaguðspjöllum.

Nei, Jóhannes lýsir atburðum jólanna ekki með jarðneskum eða áþreifanlegum hlutum, heldur með þessum háfleyga og ljóðræna texta, sem markar upphafið að frásögn hans um Jesú.

Tákn guðspjallamannsins Jóhannesar er örninn, eins og við sjáum hér á nýmáluðum predikunarstólnum, einmitt vegna þess að í þessum orðum, formálanum að guðspjallinu sínu, þá hefur Jóhannes sig upp til flugs, líkt og örn sem þenur tignarlega út vængi sína, flýgur öðrum fuglum hærra og reynir að nálgast guðdóminn:

„Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð ... Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans...“

Orðið varð hold. Guð gerðist maður. Ljósið skín í myrkrinu.

Þetta segja jólin. Og þetta er það, sem öllu skiptir.

Í fornkirkjunni sögðu sumir meira að segja, að þennan formála að Jóhannesarguðspjalli ætti að grafa með gullletri á áberandi stað í hverri einustu kirkju, svo að hann færi ekki framhjá neinum.

Ljósið skín í myrkrinu, skín frá jötunni í Betlehem til að lýsa upp og yfirvinna sérhvert myrkur.

Við Íslendingar þekkjum myrkrið vel og það stendur okkur nærri á þessum árstíma, í kringum vetrarsólstöður. Nú á fimmta tímanum er orðið almyrkt og aðeins rafljósin og snjórinn munu lýsa okkur leiðina niður kirkjutröppurnar á eftir.

Þó erum við, sem hér erum stödd í dag, sennilega ekki eins kunnug myrkrinu og forfeður okkar og formæður, sem öttu harða baráttu við myrkur og kulda á vetrum. Við í nútímanum keppumst líka við að flýja myrkrið og losa okkur undan því. Ég sá frétt í sjónvarpinu um daginn um mann á Akureyri sem notaði að mig minnir 20.000 perur í jólaskreytinguna í garðinum sínum! Hún var að vísu ósköp falleg en ég þakkaði þó í huganum fyrir að mínir nágrannar á Egilsstöðum væru ekki svona stórtækir í seríubransanum.

Þó að enginn geti vitað á hvaða tíma ársins Jesús fæddist - og tímasetning hinna kristnu jóla var raunar ekki endanlega ákveðin fyrr en á fjórðu öld – þá má segja að enginn árstími sé eins vel til þess fallinn að skynja táknræna merkingu hátíðarinnar, sér í lagi hér á norðurslóðum, og einmitt sá allra myrkasti, þegar daginn byrjar að lengja að nýju „eitt hænufet í senn,“ eins og margir segja.

Orð guðspjallamannsins um ljósið sem skín í myrkrinu verða okkur eitthvað svo áþreifanleg þegar myrkrið í náttúrunni minnir okkur á dimmuna í tilverunni, hið andlega myrkur.

Við vitum öll, líka þegar við njótum kræsinga jólahaldsins, að lífið er ekki endalausar brúnaðar kartöflur. Við þurfum öll að takast á við dekkri hliðar þess, fyrr eða síðar.

Oftar en ekki berast okkur líka fregnir af atburðum þar sem myrkrið virðist hafa náð yfirhöndinni. Dæmi um það eru voðaverkin í Newtown í Bandaríkjunum á nýliðinni aðventu, þar sem fjöldi saklausra barna lét lífið í skotárás ungs manns.

Frammi fyrir slíkum atburðum verður okkur orðfátt. Og við reynum að verja sjálf okkur með einhverju móti fyrir hinni tilgangslausu grimmd sem við okkur blasir. Það er okkur eðlilegt að reyna að flýja þetta hyldjúpa myrkur, svona rétt eins og við lýsum húsin okkar upp til að berjast gegn dimmunni úti.

Þess vegna hættir okkur til að fjarlægja okkur sjálf frá slíku grimmdarverki með því að leita rökrænna skýringa og hugsa: Sá sem gerir þetta er ekki eins og við hin. Hann er svona eða hinsegin, með þessa greiningu eða þetta vandamál eða búinn að spila þennan tölvuleik. Svona er ég ekki.

Og kannski er það allt saman rétt.

En gleymum því samt ekki að ekkert okkar er fullkomið. Ljós og myrkur takast daglega á innra með okkur öllum. Líf kristins manns er stöðug barátta um að velja hið góða, velja ljósið og lifa í fyrirgefningu syndanna. „Hjörtum manna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu,“ orti Tómas. Við getum eins sagt að hjörtum manna svipi saman í Newtown, Connecticut og í Hjaltastaðarþinghá, Fljótsdalshéraði.

Við skulum því forðast að burtskýra ofbeldið og grimmdina í heiminum. Við skulum standast þá freistingu að taka okkur stöðu á hliðarlínunni, eins og í skímunni utan við myrkrið, þegar slíkir atburðir verða og horfa á þá úr hlutlausri fjarlægð. Við skulum leyfa okkur að finna til með foreldrunum sem upplifa þessi jól í skugga þyngstu sorgar barnsmissis, setja okkur í þeirra myrku spor og biðja fyrir þeim. En við skulum líka leyfa okkur að finna til og biðja fyrir ógæfumanninum sem missti tökin á tilverunni og lét myrkrið ráða yfir sér, og fyrir ástvinum hans.

En ekki síður þurfum við að minna sjálf okkur á orð Biblíunnar um að öll séum við syndarar sem skorti Guðs dýrð. Þar getur enginn hafið sjálfan sig eða verk sín upp yfir aðra og otað að þeim vísifingrinum.

Mannlega ljósið okkar verður nefnilega aldrei annað en dauft endurskin af ljósi Guðs. Jafnvel þau okkar sem ekkert aumt mega sjá, hvorki skepnur né menn, enginn kemst nærri dýrð Drottins og ljósi hans í sínum eigin krafti. Þetta er það sem Páll postuli bendir okkur á í pistli jóladagsins úr Títusarbréfi. Þar segir að Guð hafi frelsað okkur „ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni ... Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.“

Við erum réttlætt og bíðum eilífa lífsins, vegna þess að Guð gerðist maður.

Guð gerðist maður sem fann til, upplifði myrkrið, gekk í gegnum freistingar, einsemd, útskúfun og kúgun, þjáningar og dauða, og yfirvann sérhvert myrkur.

Þess vegna greinum við í gegnum sortann hið sanna ljós, sem ljómar okkur á helgum jólum og vill lýsa í hjörtum okkar á hverjum degi. Og það ljós er ekki samsett af 20.000 rafmagnsperum. Það er ljós Jesú Krists, ljósið sem skín frá þeim atburði, að Guð gerðist maður.

Guð lét okkur, börnin sín, ekki sitja ein í myrkri syndar og dauða.

Orðið varð hold.

Guð kom.

Og þess vegna skín okkur ljós.

Amen.

Lexía Jes. 9.1-6, pistill Títus 3.4-7 - Guðspj. Jóh. 1.1-14