Krísa og dómur

Krísa og dómur

“Hryðjuverkamenn brestur rétta dómgreind. Þeir dæma í Guðs stað, sem er synd. Þeir hafa ekki Guð í vasanum og hafa engan guðlegan rétt, þótt þeir haldi það sjálfir. Þeir eru í krísu en hafa því miður slæma dómgreind og fella því ranga dóma.” Prédikun í Neskirkju 31. júlí 2005 fer hér á eftir.

Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.

Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun. Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.Matt 11. 16-24

Dómur og vei-yrði Vei þér Kórasín. Vei þér Betsaída. Vei þér Kapernaum. Mér finnst raunar þessi viðvörunar-, dóms- eða vei-texti dagsins afar þungbær á gleðidegi og um mitt sumar, þegar allir eru í fremur léttu skapi. Ég viðurkenni fúslega að ég var að íhuga alla vikuna hvort ég ætti að velja mér annan útleggingartexta og aðra textaröð! Af því að textinn angraði mig velti ég vöngum yfir hvernig aðrir prédikarar færu með, fletti upp gömlum prédikanasöfnum og sjá, enginn sem ég fletti upp lagði út af þessum texta. Ég varð bæði undrandi en þó kannski svolítið feginn. Biskupar á Íslandi og aðrir andans jöfrar, sem hafa gefið út ýmis prédikanasöfn, höfðu þá líka átt í vandræðum með textann! Ég spurði sjálfan mig hvort eitthvað væri meira á netinu og fletti uppá nokkrum prédikanasíðum og þar var ekki heldur um auðugan garð að gresja. Hverju sætir? Jú þetta er erfiður dómstexti, sem enga huggun veitir. Spádómsræður með vei-kryddun er ekki það sem beðið er um í kirkjum. Prédikarar hafa fæstir löngun til að prédika dómsboðskap, nema þeir megi til. Prédikun má aldrei verða úlfur, úlfur, nema köllunin sé skýr. Á þá bara að sleppa því að fjalla um þennan erfiða texta með vei-yrðum Jesú? Það eru auðvitað freistandi að fara á svig við texta kirkjuársins og velja eitthvað skemmtilegra. En þá færi maður að eins og þau sem flýja allt þungbært og vilja helst ekkert tormeltara en glamur og froðu.

Ástand, viðbrögð og dómur Í texta dagsins veltir Jesús vöngum yfir andlegu ástandi landa sinna. Hann sparar þeim ekki stóru orðin og er eiginlega bæði sár og hæðinn. Minnir á að á undan honum hafði Jóhannes skírari komið með mikilvægan boðskap. Landar hans hafi nú ekki hrifist af meinlæti hans, bindindissemi og boðskap og talið að hann væri geðveikur, hefði illan anda. Ekki hefðu Ísraelar verið sjálfum sér samkvæmir því þegar hann sjálfur hefði komið, sótt veislur og verið partíljón eins og miðaldra fólk myndi kalla athæfi Jesú. Þá hefðu menn hneykslast á honum og kallað hann mathák og vínsvelg. Sem sé, alveg sama hvað gert væri, enginn áhugi, engin skilningur, engin trú. Svo fylgja þessar ávítur Jesú gegn borgunum þar sem hann hafði farið um og gert gott, unnið verk sem hefðu átt að opna augu hinna blindu, opna hlustir hinna daufu, opna hjörtu hinna þverúðarfullu, opna vitund hinna naumu, opna allar sálargáttir. En þegar allt er gert og allt um þrýtur er ljóst að fólk er forhert og þá kallar það yfir sig dóm. Vei Betsaída og Kórasín. Við þekkjum þorpsnafnið Betsaída úr öðru samhengi (Lúk. 9.10). En nafnið á Kórasín er ókunnugt og ekkert er vitað með vissu hvaða þorp það er og kannski hefur það orðið skyndilegri eyðingu að bráð. En borgina Kapernaum þekkjum við af ýmsum kraftaverkasögum Jesú og einhver í þessum hópi í kirkju í dag hefur komið til þessarar hrífandi borgar við Genesaretvatnið. Dómur Jesú er skýr: “Til heljar mun þér steypt.” “Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér,” segir Jesú. Ég skal alveg viðurkenna að texti stuðar. Jesús fellir dóm, það er þungur dómur, dómur til heljar, dauðadómur. Hvað finnst þér um slíkan dóm og er það okkar að fara að dæmi Jesú og dæma til dauða, fella þyngstu dóma.

Eftirdæmið? Stöldrum við og færum til nútíðar. Er það okkar að segja vei Jerúsalem, vei Bagdad, vei sé þér Washington eða vei Bombay? Hvað þarf til að kalla dauða yfir fólk og borgir? Er það ekki það sem hryðjuverkamenn gera? Hvað eru hryðjuverkin í London og Madríd annað en slíkur dómur. Hópur af fólki telur sig þess umkominn og með fullu umboði að ganga erinda Allah og sprengja dauðasprengjur, fella sem flesta, valda sem mestum usla og leitast við að sprengja stoðir hins pólitíska, efnahagslega og trúarlega valds. Hvað voru árásirnar á New York annað en dauðadómur yfir þeirri borg. Vissulega munu múslímarnir segja að þetta hafi verið ofsafengin útgáfa hins íslamska boðskapar, sem hafi ekkert með raunverulegt Islam að gera. Þeir spyrja okkur vestrænt fólk hvort við fellum ekki dauðadóma í okkar politík yfir borgum, t.d. með árás á Bagdad á sínum tíma. Mannfall óbreyttra borgara er gríðarlegt síðan innrásin hófst, og því hefur verið haldið fram að fjöldi þeirra er fallið hafa vegna átakanna sé nærri fjölda allra Reykvíkinga! Ef svo er hefur ákvörðun um innrás verið annað og meira en ákvörðun um hernaðaraðgerð, s.s. dauðadómur. Við erum ekki í neinu hlutlausu dómarasæti hvað það mál varðar, heldur aðilar.

Hin kokhrausta vörn Ég var sleginn að hlusta á ungan mann í London, sem kom að hópi fréttamanna sem voru að fjalla um rannsókn ensku lögreglunnar á tilræðum. Maðurinn var múslimi og varði kokhraustur sjálfsmorðsárásirnar, það væri skylda múslima að heyja þetta stríð. Og lögreglan leiddi hann burt til yfirheyrslu. Það er þessi kokhrausta einsýni og dómahyggja, sem hræðir mig. Hvaða rétt hefur múslimi að fella dauðadóm og styðja hryðjuverk? Hann hafði engan rétt til þess. Ég held að sá maður sé bæði á algerum villigötum og hættulegur, sem heldur fram að réttlætanlegt sé að nota óbreytta borgara í stríði, iðka borgarhernað af þessu tagi með því að sprengja fólk. Við slíkum boðskap og fólki á að bregðast hart. Þar á ég ekki aðeins við múslímska ofstækismenn heldur ofsamenn af öllum gerðum og átrúnaði. Þeir eru ekkert síður til meðal kristinna manna. En þar erum við komin að áherslumáli dagsins.

Dómur, krísa og dómgreind Hvers er valdið til að dæma og hvað gerir að verkum að sumir menn verða ofsamenn í líferni og afstöðu? Er það mitt að dæma í hinstu málum? Er það mitt að dæma um það hvort heilu borgirnar skuli dæmdar? Jesús hikaði ekki, það er rétt. En er það okkar að fara að dæmi hans og úrskurða, dæma í hinum stóru málum. Vissulega er hann fordæmi hins kristna manns, en ekki í öllu! Þar erum við komin inn í hina djúpu aðgreiningu á hinu guðlega og mannlega, sem orðað var til forna sem guð/maður. Dómur til dauða varðar hinn guðlega rétt.

Ég fór að íhuga gríska orðið Κρίση (frb. kríse). Það er orðið sem er að baki krísu í slangurmáli okkar. Á enskunni varð það að crisis og síðan Krisis á þýskunni og með ýmsum hliðstæðum á mörgum málum. Gríska orðið er notað í Nt og getur þýtt kreppa, en það þýðir líka dómur og það að greina rétt á milli, þ.e. rétta greind. Orðið hefur því fjölbreytilega og áhugaverða málvídd. Hvað gerist í krísu? Jú, þá eru felldir dómar. Þú þekkir vel hversu viðbrögð í aðkrepptum aðstæðum geta verið ofsafengin. Þegar við erum í uppnámi, í krísu, segjum við margt og gerum við margt sem ekki sýnir mikið vit eða yfirvegun. Við viljum helst ekki taka of afdrifaríkar ákvarðanir í uppnámsaðstæðum. Hið sama gildir í alþjóðlegum krísum – þá er ekki ráð að hrapa að niðurstöðum eða fara á alþjóðlegum taugum. En þegar að kreppir og krísan hrín yfir er mikilvægt að fella rétta dóma og iðka góða dómgreind. Dómar geta verið felldir án mikillar greindar en það þarf rétta og yfirvegaða greind í dómum til að dómarnir verði réttir. Íslenska orðið dómgreind ber vitni um orðsnilld og góða málgreind (í þýsku heimspekisamhengi tengt heimspekilega orðinu Urteilskraft sbr. hefð og rit I. Kant).

Grimmd og réttlæting Við höfum orðið fyrir alþjóðlegri kreppu og ofsamenn hafa vaðið uppi og vitnað til vilja Allah og telja sig mega fella dauðadóma. Þessa menn brestur rétta dómgreind. Hryðjuverkamenn hafa tekið sér meira vald en þeim er heimilt. Þeir ætla sér að dæma í Guðs stað, sem er synd. Þeir hafa ekki Guð í vasanum og hafa engan guðlegan rétt, þótt þeir haldi það sjálfir. Þeir eru í krísu en hafa því miður slæma dómgreind og fella því ranga dóma. Lærdómur voða þessara liðnu daga er, að við eigum að gjalda varhug við öllum mönnum, sem ætla sér að dæma í Guðs stað, einu gildir hvort þeir eru múslímar eða kristnir. Við eigum að gæta okkur á öllum þeim, sem standa í hernaði gegn óbreyttum borgurum og vaða uppi með ofbeldi. Þeir eru grimmdarseggir en ekki guðsmenn.

Dæmum ekki - verum meðvituð Þá erum við komin að texta dagsins að nýju. Við skulum ekki fella dauðadóma, ekki úrskurða neina til helvítis eða dauða. Það er ekki á okkar færi, það er léleg dómgreind, það er úr takti við aðstæður okkar og möguleika. Hvorki þú, ég eða nokkur maður annar hefur þekkingu, vit, dómgreind, og yfirsýn til að úrskurða um eilífa velferð Kórasín, Kópavogs, Bombay eða Washington. Leyfum Guði að vera Guð og dæma í málum eilífðar. Verum hins vegar full af umburðarlyndi, mannkærleika og heilbrigðri dómgreind. Opnum þjóðfélag okkar, heimili, kirkju, samfélag gagnvart öllu velviljuðu fólki, en króum þau af og úthýsum sem koma með dráp í huga og augum.

Jesúafstaðan er forsendan Af hverju var Jesús svona harðorður? Af því að það var afstaðan til hans sjálfs sem skipti endanlegu máli. Var Jesús svona upptekin af afstöðunni til sín? Já, hún var algert aðalatriði. Ef menn höfnuðu honum höfnuðu þeir Guði og þar með höfum við fengið skýra mynd af boðskap hans. Þar er kannski dýpsta krísan í okkar lífi. Hvað viljum við gera með þennan Jesú? Í kristninni er það dýpri spurning en dómur yfir siðferði og afstöðu. Þar skilur á milli lífs og dauða.

Lítill drengur var borinn til skírnar í upphafi þessar messu. Hann heitir Hannes. Skírnarþeginn er sonur Íslendings og japanskrar konu. Þau ákveða að bera barnið sitt til skírnar, sem er ekkert sjálfsagt, því á þessum tímum er það ákvörðun um stefnu og lífsafstöðu að ala barnið sitt upp í kristinni trú. Þar er heil dómgreind.

Guð dæmir Einu sinni var prestssonur, sem sat hjá pabba sínum sem var að undirbúa prédikun sunnudagsins. Strákur spurði föður sinn: “Pabbi, hvernig veistu hvað þú átt að segja í kirkjunni?” Pabbinn, svaraði annars hugar: “Guð segir mér það?” Strákur glennti upp augun og spurði á móti: “En af hverju ertu þá alltaf að strika út það sem þú er búinn að skrifa?!”

Eru ekki dómar og líf hliðstæða prédikunargerðar. Þegar við semjum og ályktum ættum við að gjalda varhug við að þykjast hafa guðlegan rétt og vit. Við skulum ekki ruglast á okkar málum og Guðs. Verum auðmjúk gagnvart verki Guðs og gætum að varpa ekki eigin boðskap upp á himin eigin vona og veru. Hlýðum á boðskap Jesú, en vörumst öll þau sem þykjast hafa einkarétt á túlkun hins himneska boðskapar. Greinum að Guð og mann, það er dómgreind í lagi. Amen.