Amen og bænirnar hennar mömmu

Amen og bænirnar hennar mömmu

Mamma kenndi mér amen. Hún kenndi mér líka að biðja Faðir vor og bænavers kvölds og morgna. Svo kenndi hún mér að leggja fram lífsefnin, stór og smá, fram fyrir hinn vel hlustandi Guð á himnum.

Mamma kenndi mér amen. Hún kenndi mér líka að biðja Faðir vor og bænavers kvölds og morgna. Svo kenndi hún mér að leggja fram lífsefnin, stór og smá, fram fyrir hinn vel hlustandi Guð á himnum.

Veggmynd í barnaherbergiVissulega ræddum við stundum hvort eyrað á Guði væri svona stórt að það heyrði svona vel, hvort Guð hefði mörg eyru, hvort það væri eitthvað kerfi í svörunum. Var þjónusta stórguðsins við smáfólkið svo alger að hún væri persónuleg og aðlöguð þörfum allra? Mamma var viss um að hvert orð væri heyrt sérstaklega, brugðist væri við hverju smáatriði í bænum. En við ættum að muna að biðja alltaf í þeim anda að Guðs vilji verði áður en við lykjum með Ameninu.

Svo kenndi mamma mér að bænirnar eru eitt, en lífið okkar væri fegurst ef það væri ein samfelld Guðsganga, samfelld bænaiðja. Líf okkar mætti helst vera þannig að það væri eins og bænaferli. Milli morgun- og kvöldbæna væri tími, hugsanir, samskipti, vinna og verk sem trúmenn ættu að helga Guði, ekki síður en frátekinn bænatíma. Allt skyldi vegsama Guð. Ég trúði þessu alveg því mamma gerði sitt til að lifa í samræmi við trú sína.

Þegar ég eltist fylgdist ég stundum með helgistundum hennar. Þegar pabbi var dáinn, amma einnig og börnin flogin úr hreiðrinu átti hún daginn og stundirnar og gat aðlagað eftir eigin þörfum. Þá las hún í Biblíunni sinni góða stund, síðan í einhverri hugvekjubók. Þessar bækur bera merki um notkun. Síðan bað hún. Þegar heyrnin var líka farin til Guðs á undan henni var hún farin að tala við Guð með nokkuð hærri rödd en áður og skeytti engu um hvort einhverjir væru nærri, umvafði alla ástvini og fyribænarefni elsku sinni og sendi óhikað og með fullu trausti langt inn í himininn.

Að eiga sér fyrirbiðjanda er ríkidæmi. Bænirnar hennar mömmu vöfðust inn í og umvafði líf okkar ástvina hennar. Þegar við rötuðum í vandkvæði í lífinu bar hún vandann fram fyrir Guð. Þegar við nutum gæða og hamingju vissum við að það allt var einnig lagt fram fyrir Guð. Hún bað fyrir garðinum sínum og gróðri, nágrönnum og málum þeirra. Meira segja spretta og heyskaparhættir norður í Svarfaðardal voru mál sem hún taldi rétt að tala um við Guð. Ef einhvern hefur undrað velfarnaður í slíkum málum nyrðra er kannski ein skýringin að kona við Tómasarhaga í Reykjavík var með á nótum og lyfti upp í himinhæðir.

Mamma var mótuð af bæn, líf hennar í grunninn var bænalíf. Þegar hún fékk tappa í heila og minnið hvarf að mestu hvarf ekki vitundin um trú eða samræðan við Guð. Hvað ungur nemur gamall temur. Það sem þjálfað hefur verið alla ævi nýtist á neyðarstund. Síðustu dagana í þessu lífi gat mamma ekkert talað. Þegar komið var að lífslokum hennar sat Elín, kona mín, hjá henni og þá allt í einu og skyndilega opnaði mamma augun og sagði skýrt:

„Amen!“ Meira sagði hún ekki upphátt. En þetta amen var örugglega endir á bænagerð í huganum, því amen var ekki til eitt og sér heldur endir á samtali við Guð. Meira sagði móðir mín ekki í þessu lífi. Amen var hennar hinsta orð, lokorðið í allri orðræðu lífisins, lyktir alls lífs mömmu. Hún var bænakona og þegar lífi var lokið kemur amen. Þegar Amen er sagt heyrir eyra Guðs, opnar faðminn og svarar. Líf sem endar með Amen er gott líf.