Ár ljóss og jarðvegs

Ár ljóss og jarðvegs

Það eykst sem af er gefið. Og við getum jafnvel gefið inn í framtíðina með því að skrá okkur á vef landlæknisembættisins sem líffæragjafa. Þannig gæti jafnvel hold, sem ella yrði að mold, orðið öðrum til lífgjafar við ákveðnar aðstæður. Hvernig við síðan rísum upp af jörðu við enda daganna er ekki okkar að sjá fyrir. Guð einn veit – og Guði treystum við.

Við opnunarhátíð Árs ljóssins sem haldin var í París nýverið ræddi Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna um ljós sem sameinandi tákn er merki visku og veiti innblástur um víða veröld. Ljósið sé notað í listum, til heilsueflingar og við trúarlega iðkun. Hann minnti á að ljósið sé grundvöllur allrar tilvistar. Án ljóstillífunar væri ekkert líf. Ljóstækni hefur valdið byltingu í lyfjagerð, landbúnaði og orkuframleiðslu og getur verið grundvöllur fyrir betri lífskjör í heiminum, en meðal þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna er sem kunnugt er að binda endi á fátækt, stuðla að sjálfbærri þróun og sporna við umhverfisvá. Ljóstækni gengir þar mikilsverðu hlutverki og sér aðalritarinn fyrir sér að slík tækni færi aukna birtu inn á heimili, sjúkrastofnanir og fyrirtæki sem þýði öruggari, heilbrigaðri og framleiðsluvænni framtíð, m.a. með hreinni sólarorku. Ár ljóssins geti orðið ungum hugsuðum innblástur að leiðum til þess að öll jarðarbörn geti lifað lífi sínu með reisn. Ávarpið endar Ban Ki-moon með biblíulegri tilvísun: Let there be a year of ligth, segir hann.

Og nú er Vetrarhátíð framundan. Opnunarverk hennar er „Ljósvarða“, ljóslistaverk eftir Marcos Zotes sem næsta fimmtudagskvöld mun umbreyta Hallgrímskirkju í kraftmikilli, sjónrænni upplifun, eins og segir í einu blaðanna. Verði ár ljóssins.

Hold er mold Ár ljóssins er reyndar líka ár jarðvegarins og fléttar skemmtilega saman trúarleg stef og vísindi. „Af jörðu ertu komin“ staðfestum við við kristna útför með tilvísun í síðari sköpunarsöguna (1Mós 2.7) – og ,,að jörðu skaltu aftur verða". „Hold er mold,“ kvað Hallgrímur í vísu um fánýta fordild. Þannig er hringrás lífsins, frá mold til moldar, og ljósið kallar fram gróður jarðar, manninum og öðrum jurtaætum til lífs, nokkuð sem við öll erum sammála um. En í þriðja hrynjanda moldarinnar á kistulok skilur að vísindi og trú: „Af jörðu skaltu aftur upp rísa.“ Um það atriði hafa vísindin hreinlega ekkert að segja. Gerðar hafa verið tilraunir til að sanna að sálin lifi áfram, svokallaðar sálarrannsóknir - og voru vinsælar hérlendis fyrir um hundrað árum - en slík samblanda tveggja raunólíkra þátta tilverunnar skilar engu. Áhugi vísindanna liggur á sviði hins jarðneska, hvernig bæta megi mannlega tilvist í þessum heimi í samspili við náttúruna. Þar er gríðarlega brýnt að visku og þekkingu vaxi fiskur um hrygg, að hugsuðir framtíðarinnar nýti hæfileika sína sem best og hljóti til þess aðstæður og uppörvun.

Trúin er á engan hátt í samkeppni við vísindin og hlýtur að styðja við hvaðeina það sem unnið er veröldinni til gagns. Trúað fólk lítur svo á að hæfileikar vísindafólksins séu gefnir af Guði og biður þess að tækni og vísindi fái sem víðastan framgang, mannkyni og umhverfi til góðs. Guð leit yfir sköpun sína og fannst það allt harla gott, heyrum við í stefi sköpunarsögunnar (1Mós 1.31). Í þeim anda viljum við vinna að vernd og uppbyggingu manns og náttúru, hvar sem því verður við komið.

Að setja ekki ljós sitt undir mæliker Í Fjallræðunni fáum við hvatningu frá Jesú að setja ekki ljós okkar undir mæliker heldur á ljósastiku þannig að það lýsi öllum í húsinu (Matt 5.15). Við séum nefnilega ljós heimsins; sama einkunn og gefin er frelsaranum sjálfum. Við getum tekið þessi orð Jesú sem almenna áskorun til mannkyns um að rækta guðgefna hæfileika sína, öllum til gagns. Oftar eru þessi orð Jesú þó skilin í þeirri merkingu að við kristið fólk séum kölluð til að birta veruleika trúarinnar í öllu okkar lífi, til þess að heimurinn trúi; að fólk sjái góð verk okkar og vegsami föður okkar sem er á himnum, eins og segir í versinu á eftir (Matt 5.16). Þarna þarf þó ekki að vera neinn eðilsmunur á. Samkvæmt kristinni trú erum við öll kölluð til að vanda okkur í hvívetna og lifa hæfileika okkar, gera gagn, hvert með sínum hætti, öðrum til góðs. Með því heiðrum við skapara okkar og eflum Lífið með stórum staf.

Lækir, lindir og uppsprettur Í fyrri ritningarlestri þessa sunnudags (úr 5Mós 8) erum við minnt á þá afstöðu trúarinnar að allt sé gjöf frá Guði. Landið góða, náttúran, frjósemi jarðar, lækir og lindir og uppsprettur sem streyma fram í dölum og á fjöllum (5Mós 8.7); ekkert af þessu byggir á okkar eigin afli eða styrk handa okkar. Það er Guð sem gefur styrkinn til að afla auðs, eins og þar stendur (5Mós 8.18). Í stað þess að miklast af okkar eigin verkum erum við hvött til að mikla Guð, þakka skaparanum fyrir gæðin sem hann gefur, já og hæfileikana sem hann hefur lagt inn í líf okkar.

Trúin á að Guð sé uppspretta hæfileika okkar og hæfni til að sjá okkur farborða, þróa nýja tækni og bæta umhverfi okkar, ætti að vera okkur hvatning til góðra verka. Trúin á mátt mannsins og megin getur líka komið ýmsu til leiðar, en er einhvern vegin tvívídda, föst í hringrás frá mold til moldar. Þegar þriðju víddinni er bætt við, trúnni á upprisu holdsins - „af jörðu muntu aftur upp rísa“ – er þar með gefinn vegvísir óendanlegra möguleika, botnlausrar sköpunargleði, sem lætur ekki ljós sitt undir mæliker. Ég er sannfærð um að Heilagur andi Guðs kemur við sögu á svo miklu stærra sviði heldur en við getum ímyndað okkur; andagiftin sem sprengir upp venjuleg viðmið hins dauðlega og gefur stórkostlegar hugmyndir og uppfinningar. Þriðja víddin er í þessum skilningi sprengikraftur fagnaðarerindisins, upprisutrúarinnar, sem hefur margföldunaráhrif inn í hið tvívíða, lögmálsbundna jarðlíf.

Að brenna upp og bíða tjón Í síðari ritningarlestrinum (1Kor 3.10-15) er talað um mismunandi leiðir til að nýta hæfileika sína. Grundvöllinn, sem er Jesús Kristur, þ.e. trúin á frelsarann krossfestan og upprisinn, hefur Páll postuli lagt inn hjá Korintumönnum með hæfileikum sínum til að prédika af Guðs náð. Einhver annar hefur svo tekið við og nýtt sína hæfileika til að byggja ofan á grundvallaratriði trúarinnar sem Páll miðlaði. Þessi yfirbygging, kennsla um ýmis atriði trúarinnar, getur verið með ýmsum hætti. Sumt er gagnlegt, annað ekki. Hafi einhver farið með bull og vitleysu munu verk hans brenna upp og hann bíða tjón, en þó lifa af eldskírnina; sé grundvöllurinn Kristur.

Þarna er vísað í hvernig við getum sóað hæfileikum okkar og valdið tómu tjóni, ef við gætum ekki að því að vanda okkur. Gull, silfur og dýrir steinar eru mynd þess sem vandar til verka, mynd upprisumáttarins, þess sem stenst eyðingarmátt eldsins. Tré, hey og hálmur er þá mynd þess forgengilega, þeirrar kennslu sem ekki fær staðist, skilur ekkert eftir hjá áheyrendum sínum, tóm mold og holdsins hyggja. Þetta getur átt við á svo mörgum sviðum, þó Páll noti þessa líkingu hér yfir trúarlega uppbyggingu safnaðar.

Að græða eða grafa í jörð Lesa má guðspjallið (Matt 25.14.-30) með svipuðum hætti. Guð gefur okkur talentur, það er hæfileika, til rækta. Það skiptir ekki máli hve miklir hæfileikarnir eru, okkur eru gefnir þeir til ávöxtunar. „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té,“ segir Jesús á öðrum stað (Matt 10.8). Við erum öll góð í einhverju, er stundum sagt við börnin, og það er mikið til í því. Öll höfum við þegið eitthvað til að gefa áfram, til fjölskyldu okkar, á vinnustað, við fræðistörf og listir, til samfélagsins almennt. Öll getum við verið ljós, gefið ljós, orðið til blessunar á einhvern hátt. Öll jákvæð viðleitni er af hinu góða. Einu mistökin eru að gera ekki neitt, svipað og sagði í auglýsingunni um árið. Hverju getur þú miðlað til annarra? Hvað hefur þú að gefa? Er það bros, hlýlegt viðmót, vísindaleg uppgötvun, fötin úr skápnum, listræn tjáning, ánægjulegt samtal? Gefðu það í dag. Í þriðju vídd upprisukraftsins gildir að það eykst sem af er gefið. Það eykst sem af er gefið. Og við getum jafnvel gefið inn í framtíðina með því að skrá okkur á vef landlæknisembættisins sem líffæragjafa. Þannig gæti jafnvel hold, sem ella yrði að mold, orðið öðrum til lífgjafar við ákveðnar aðstæður. Hvernig við síðan rísum upp af jörðu við enda daganna er ekki okkar að sjá fyrir. Guð einn veit – og Guði treystum við.

Fegurðin felst í því að koma auga á möguleikana í stað þess að einblína á takmarkanirnar. Oft erum við búin að ákveða fyrirfram að eitthvað sé ekki hægt eða að einhver muni bregaðst við með neikvæðum hætti, líkt og þriðji maðurinn í guðspjalli dagsins. Merkilegar uppgötvanir, til dæmis á sviði ljóstækni, eins og Ban Ki-moon kallar eftir, verða ekki til með slíku hugarfari. Grundvellinum Jesú Kristi verður ekki miðlað ef við útilokum fyrirfram að við boðskapnum verði tekið. Páll postuli tók þá áhættu að segja frá Jesú í Korintuborg. Hann uppskar margfaldan ávöxt, ávöxt sem ekki sér fyrir endann á þann dag í dag. Við getum afsakað okkur með því að Páll hafi fengið fleiri talentur en margur annar. Við sjálf höfum kannski bara eina. En látum hana ekki fara til spillis. Gefum með okkur af trú okkar, byggjum gull og gersemar ofan á grundvöllinn Jesú Krist með því að vanda okkur í allri okkar framgöngu og vinnum mannkyni og umhverfi gagn á hvern þann hátt sem okkur er unnt, sönn ljóssins börn, svo sem við erum kölluð til.

Þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur. Drottinn mun stöðugt leiða þig, seðja þig í skrælnuðu landi og styrkja bein þín. Þú munt líkjast vökvuðum garði, uppsprettu sem aldrei þrýtur. Jes 58.10-11

Og síðasta orðið, handan holds og heims, á himneski gjafarinn:

Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Matt 25.21

Let there be light.