Blátt áfram

Blátt áfram

Mikið forvarnastarf hefur verið unnið á vegum menntastofnana og frjálsra félagsamtaka gegn ofbeldi. Efla verður samstarf foreldra og fagfólks þar sem trúnaður og traust er í fyrirrúmi. Auglýsingar Blátt áfram gera það ekki.

Mikilvægt er að efla forvarnir gegn ofbeldi og fræða um áhrif andlegs, líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis og ekki síst vanrækslu gagnvart börnum og unglingum.

Heilbrigð samskipti grundvallast á trausti, sem verður að gilda um alla nærþjónustu við börnin okkar á heimilinu, í skólanum og tómstundum. Þar skiptir svo miklu samstarf sem byggist á trausti og trúnaði.

Félagssamtökin Blátt áfram hafa birt auglýsingar að undanförnu í fjölmiðlum, m.a. í fjáröflunarskyni, þar sem gefið er í skyn að heilar starfsstéttir geti verið gerendur með ofbeldi gegn börnum og unglingum. Þetta eru alvarlegar ásakanir. Hverju skilar slík auglýsingaherferð? Er verið að ala á tortryggni og vantrausti í garð þeirra fjölmörgu fagaðila sem vinna að heill og velferð barna og unglinga? Í átökum á milli stríðandi hópa er gjarnan beitt aðferðum til að skapa fordóma og tortryggni, vantraust og ótta. Tæpast getur það eflt forvarnir gegn ofbeldi. Viljum við ekki byggja upp samfélag og samskipti þar sem ríkir trúnaður og traust?

Einstaklingar sem störfuðu með börnum og unglingum hafa verið fundnir sekir um ofbeldi. Það réttlætir ekki að heilar starfsséttir, sem láta sig hag og velferð barna skipta beri þá ábyrgð. Mikilvægast er í forvarnarstarfi að efla samstarf allra fagaðila um að efla forvarnir enn frekar, fræða fólk um einkenni ofbeldis gegn börnum og möguleg úrræði. Einnig að styrkja sjálfsmynd barnsins og virðingu fyrir sjálfum sér og líkama sínum, kenna börnum að setja sér mörk, hvað má og hvað ekki.

Síðast en ekki síst að fræða foreldra um leiðir til að sporna gegn ofbeldi gegn börnum og hvernig við tölum við börnin okkar um þann alvarlega vanda.

Mikið forvarnastarf hefur verið unnið á vegum menntastofnana og frjálsra félagsamtaka gegn ofbeldi. Efla verður samstarf foreldra og fagfólks þar sem trúnaður og traust er í fyrirrúmi. Auglýsingar Blátt áfram gera það ekki.