Hlýðum á hann

Hlýðum á hann

Guðspjall: Matt.17.1-9 Lexia: 5.Mós.18.15,18-19 Pistill: 2.Pét.1.12-19(20-21)

Í freistingarfrásögunni er sagt frá því hvernig Jesús sigraðist á þeirri freistingu að leggja allan heiminn að fótum sér með því að eignast auð og völd.

Jesús var ekki kominn til þess að drottna heldur þjóna. Og með því að launa illt með góðu og þjóna fólki í kærleika þá gaf hann fólkinu sem hann umgekkst sýn inn í nýjan veruleika. Veruleika góðvildar og miskunnsemi sem átti oft erfitt uppdráttar í hinum gamla heimi sem lærisveinarnir, Pétur, Jakob og Jóhannes tilheyrðu. Jesú hafði áhuga á því að frelsa lærisveinana úr viðjum þessa gamla heims þar sem lögmálið auga fyrir auga og tönn fyrir tönn var enn við lýði. Fólkið sem tilheyrði þessum gamla heimi hafði haft ættfeðurna Abraham, Ísak og Jakob í minni og samskipti þeirra við Guð á göngu þeirra í gegnum lífið. Þar hafði að sönnu gengið á ýmsu þar sem hugsanir ættfeðranna og gjörðir höfðu ekki alltaf farið saman við vilja Guðs. Þrátt fyrir það var Guð aldrei fjarri þeim en þó heldur aldrei raunverulega nálægur fyrr en hann kom til þeirra í manninum frá Nasaret, Jesú, syni Maríu og Jósefs sem þegar við skírn sína í ánni Jórdan var sagður vera sjálfur guðs sonurinn eingetni sem mönnum bæri að hlýða á. Þá heyrðist rödd á himni sem kunngjörði það og sagði: “Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á”. Mt.3.17

Að aflokinni skírninni fór Jesús út í eyðimörkina og var þar einn með sjálfum sér og djöflinum sem freistaði hans með ýmsum hætti. En Jesús sigraðist á freistingunum og sýndi fram á að hann væri syndlaus. Í kjölfarið fór Jesú að starfa og sýndi í orði og verki að hann væri uppfylling boðorða Guðs með því að þjóna fólki í kærleika. Vissulega fóru margir að trúa á Jesú, einkum þeir sem hann hafði persónuleg samskipti við. Trú þeirra styrktist eftir því sem þeir héldu sig nær Jesú. Að sama skapi beið traust þeirra í garð Jesú hnekki er þeir fjarlægðust hann og vanræktu að hlusta á hann eða tileinka sér boðskap hans.

Við sjáum það t.d. að lærisveinarnir voru venjulegir menn sem áttu sínar fjölskyldur og stunduðu sín störf fram að þeim tímapunkti er Jesús kallaði þá til fylgdar við sig. Þá yfirgáfu þeir allt og fylgdu honum. En þrátt fyrir þennan nýja lífsstíl og þetta nána samfélag við frelsarann þá áttu þeir erfitt með að höndla þennan nýja veruleika sem þeir sáu í Jesú Kristi. Þeir áttu erfiðast með að sjá eitthvað guðlegt í fari Jesú. Það var einna helst Símon Pétur sem gerði sér grein fyrir því á einum tímapunkti að Jesús væri sonur Guðs.

Lærisveinarnir voru áveðra fyrir ágjöfum á göngu sinni með Jesú og áhrifagjarnir eftir því. Jesús hefur kallað þá til fylgdar við sig til þess að hann gæti notið óskiptrar athygli þeirra og kennt þeim til að þeir gætu síðan borið fagnaðarerindinu vitni með dagfari sínu, orðum og verkum. En það var margt sem kallaði á athygli þeirra á vegferð þeirra með Jesú sem olli því að þeir áttu mjög erfitt með að sjá að það væri eitthvað guðlegt við hann. Bæði var það að mjög margt fólk fylgdi þeim á ferðum þeirra hvar sem þeir komu með Jesú og eins hitt að lærisveinarnir áttu ugglaust fullt í fangi með að skilja allt sem Jesús sagði þeim. Af þeim ástæðum tók Jesús stundum upp á því að draga þá afsíðis með sér til að þeir fengju frið til íhugunar.

Í guðspjalli dagsins segir frá því er Jesús tók þá Pétur, Jakob og Jóhannes með sér upp á ofurhátt fjall til þess að sýna þeim fram á hvað þeir fengju út úr því að yfirgefa gamla heiminn fyrir nýjan.

Jesús vildi gefa þeim sýn inn í nýjan heim, nýjan veruleika sem þeirra biði. Þeir klifruðu hærra og hærra þar til þeir náðu upp á fjallstoppinn. Þar tók Jesú að skína og varð bjartari og bjartari eins og máninn, lýsandi sem stjarna og að lokum skínandi sem sólin. Það var ekki neitt endurskin sem stafaði frá Jesú. Hann var ljósið sjálft eins og það sjálft er skærast. Hann var ljós heimsins, aflvaki ljóssins, Guð af Guði sönnum.

Í sama mund opnuðust himnarnir og tveir aðrir frelsunarsérfræðingar komu til að tala við Jesú sem voru uppi löngu fyrir daga Péturs, Jakobs og Jóhannesar. Það var annars vegar Móse sem leiddi fólkið úr úr efnahagslegri, trúarlegri og pólitískri ánauð Egypta og hins vegar Elía spámaður sem frelsaði þjóðina úr höndum guða Úr og Harran sem þjóðin var farin að óttast á ný, þar sem áhersla var lögð á barnafórnir til að kaupa frið við guðina.

Viðbrögð Péturs eru athyglisverð því að hann þagði ekki af undrun heldur sagði við Jesú að það væri gott að vera þarna og spurði hvort hann ætti ekki að reisa þrjár tjaldbúðir fyrir þá. Pétur vildi að sönnu þjóna þeim þremur en stundum er betra að þegja og hlusta eftir röddu Guðs. Pétur gleymdi sér í augnabliks hugaræsingi og lét vaða á súðum. Fyrir vikið heyrði hann trúlega ekki í Guði sem mælti skyndilega af himni ofan sömu orð og hann gerði við skírn Jesú. “Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á”. En nú bætti Guð við þessum orðum: “Hlýðið á hann”.

Lærisveinarnir urðu skelfingu lostnir við að heyra röddu Guðs og féllu fram á ásjónur sínar. Það er umhugsunarefni hvers vegna þeir urðu ekki hræddir við að sjá Móse og Elía tala við Jesú í sama mund og ásjóna hans tók að skína sem sólin? Rödd Guðs virtist hafa meiri áhrif á þá í þeim efnum. En aðalatriðið er þó það að þegar þeir hófu upp augu sín þá sáu þeir Jesú einan en Móse og Elía voru horfnir. Rödd Guðs hafði enn einu sinni undirstrikað að Jesús væri sonur Guðs og lærisveinunum bæri að hlýða á hann. Skínandi ásjóna Jesú og klæði var lærisveinunum árétting í þessum efnum. Jesús Kristur er Guð af Guði sönnum.

Ég hitti konu nýlega í sýslunni sem spurði mig að því hvers vegna prestar væru alltaf í messuklæðum í guðsþjónustum. Ég sagði henni að við prestarnir klæddum okkur í messuklæði til þess að það bæri sem minnst á okkur. Við ættum að minnka en Kristur að stækka. Hún hafði aldrei heyrt þetta og fannst svarið athyglisvert. Allt atferli og orðfæri presta í messunni á jafnframt að vera með þeim hætti að það bendi á Krist en ekki þá sjálfa.

Lítill drengur hafði verið í kirkju með móður sinni. Nokkrum dögum síðar hittu þau prestinn á götunni. “Mamma”, sagði drengurinn og benti á prestinn. “Þarna er maðurinn sem var þar sem Jesús átti að vera”.

Þannig getur farið. Það getur verið prédikaranum sjálfum að kenna. Ef til vill vekur hann of mikla athygli á sjálfum sér, talar of mikið um sig og of lítið um Jesú. Sérhver vitnisburður og sérhver ræða ætti að mótast af sama anda og orð Jóhannesar skírara er hann mælti.”Sjá Guðs lamb” Jóh.1.29 Hann leiddi athygli fólks frá sjálfum sér til Jesú.

Jesú sagði eitt sinn: “Ég er kominn til að varpa eldi á jörðina. Hversu vildi ég að hann væri þegar kveiktur”. Lúk. 12.49.

Það er þessi eldur sem logar í hjarta sérhverrar kirkju sem táknað er með altarinu. Þessi eldur þarf einnig að loga í hjörtum okkar þar sem við iðkum bænina af þolgæði og gefumst ekki upp þrátt fyrir ágjafir í lífinu. Það er ákaflega mikilvægt fyrir einingu kirkjunnar að hinir trúuðu ræki bænalífið til þess að Drottinn geti kunngjört þeim leyndardóm vilja sins hverju sinni. Guð kemur til móts við þá sem nálgast Guð í elskuríkri viðleitni sinni í bænalífinu.

Þegar kirkjan siglir í gegnum ólgusjó mennskrar rökhyggju og orðræðna glatar hún sjónum af Kristi. Þá endurtekur sama sagan sig og hjá Pétri postula. Hún sekkur í hafdjúp mennskra mannasetninga en jafnskjótt og hún horfir til Krists verður vatnið að öruggum vegi til hans sem er allt í öllu.

Vesturlandabúar hafa nær undantekningarlaust tamið sér árásargjarna lífsafstöðu. Með rökhugsun sinni beina þeir örvum sínum að heiminum og meðbræðrum sínum en einnig í meira eða minna mæli að Guði til þess að njóta hlutanna til samræmis við óskir sínar, að lifa lífinu sem sigurvegarar og verja eigur sínar með kjafti og klóm. Þess vegna er það alls ekki svo fágætt að hjarta þeirra verði steinhjarta og það glati þeim hæfileika sínum að vera opið gagnvart lífinu og kærleikanum. Þessari afstöðu má lýsa sem svo að maðurinn sé reiðubúinn að notfæra sér annað fólk jafnt og Guð.

Mér þykir sem þjóðkirkjan íslenska hafi undanfarið siglt í gegnum þennan ólgusjó mennskrar rökhyggju og orðræðna í umræðu sinni um málefni samkynhneigðra í stað þess að nema staðar og hlusta eftir orðum frelsarans Jesú Krists. Við sem kirkja ættum á þessum tímamótum að spyrja: Hvernig myndi Kristur bregðast við samkynhneigðum einstaklingi er leitaði ásjár hans? Þetta þurfum við að íhuga í stað þess að gefa okkur einhverja fyrirfram gefna afstöðu sem Kristur tæki.

Kirkjufaðirinn heilagur Kípríanus dó píslarvættisdauða árið 258. Hann skrifaði eitt sinn eftirfarandi: “Við fylgjum Jesú Kristi og göngum í spor Krists, hann er hinn innri leiðsögumaður okkar, hið skæra leiðarljós sem lýsir upp veginn. Hann er uppspretta hjálpræðisins sem leiðir okkur til himna til föðurins og gefur þeim fyrirheit sem knýja á í trú. Ef við fylgjum því fordæmi sem hann gefur okkur eftir af trúfestu, verðum við sannkristin, aðrir kristar”. Amen