Hinn daufdumbi

Hinn daufdumbi

Það verður fyrst að segja satt og draga ekkert undan. Það var gert í Suður Afríku. Þar var engin fjölskylda, hvítra eða svartra, ósnert af böli undanfarinna áratuga kúgunar og harðræðis. Þeir settu á stofn sannleiksnefndir, þar sem leiddir voru saman þolendur og böðlar þeirra.

Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú.

Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“ Mrk 7.31-37

Náð sje neð yður og Friður frá Guði Föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Það er auðvelt að sjá fyrir sjer þann atburð, sem Guðspjallið greinir frá í dag. Þeir komu berandi og dragandi með sjer mikið fatlaðan mann í þeirri von, að Jesús geti hjálpað. Sögnin fero er hjer þýdd með sögninni að færa og merkir eiginlega að burðast með eða drösla með sjer. Hún gefur strax til kynna, hversu ósjálfbjarga þessi maður hefur verið, að öllum líkindum talsvert bæklaður auk þess að vera bæði mállaus og heyrnarlaus. Mjer er heldur ekki grunlaust um að hann hafi verið hræddur og ófús til þess að fara með þeim til Jesú. Það er líka rjett að skoða orðið mogilalos, sem hjer er þýtt málhaltur. Í gömlu þýðingunum er það útlagt dumbur, sem merkir þögull, mállaus. Þegar á allt er litið, þá hefur þessi maður verið hinn mesti vesalingur: Heyrnarlaus mállaus og ósjálfbjarga að auki. Að öðru er einnig að gæta hjer. Jesús var á ferð um Dekapólisbyggðir. Þar voru tíu grískar eða hellenískar borgir, byggðar heiðingjum. Þetta þýðir líklega, að þeir hafi komið til Jesú án þess að fyrir því væru trúarlegar forsendur, því þeir hafa trúlega ekki verið Gyðingar. Þeir hafa heyrt um meistarann og kraftaverki hans og um það, að hann gjörði sjer ekki mannamun. Þeim hefur ekki þókt saka að reyna, því það er sama hvaðan gott kemur. Og Jesús tekur þeim í samræmi við þetta. Þetta skiptir líka máli hjer, því yfirleitt kenndi Jesús á trúarlegum forsendum Gyðingdómsins. Hjer predikar Jesús sannarlega almennt. Hann víkur manninum afsíðis, svo þeir geti átzt við óáreittir. Hann stingur fingrum í eyru honum eins og til þess að stinga á haftinu, sem lokaði eyrum hans. Hann spýtti á fingur sjer og þreifar á stirðri tungunni, eins og til að smyrja hana og hann lítur til himins. Þaðan er hjálpar að vænta.

Allt er þetta augljóst táknmál. Líka þegar hann andvarpar. Er það ekki af meðaumkun og hryggð, -af meðlíðan. Og hann mælir sköpunarorð: “Effaþa, opnist þú. Og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt".

Það er mörg fötlunin, sum meðfædd, sum af völdum slysa og óhappa. Verst og þungbærust sú, sem verður af mannavöldum, þegar menn vinna hver öðrum óbætanlegt tjón; stundum af illum ásetningi, stundum af vanmætti sínum, breyzkleika eða síngirni, stundum óafvitandi.

Verst eru afbrot manna gegn smælingjum og sakleysinu. Þau valda alltaf málleysi og heyrnarleysi hjá þeim sem á yfirborði virðast heilbrigðir og botnlausum hyldýpiskvölum hjá þolendunum. Sum afbrot manna og glæpir, loka manninn algjörlega inni í sjálfum sjer, bæði gerandann og þolandann, gjöra hann daufan og dumban og hjálparvana og ofurselja hann kvöl og angist. Hvernig á að brjótast inn í slíkan vítahring sem oft líkist mest djöfullegum gerningum? Hvar eru úrræði manna: Hvað er hægt að gjöra?

Mönnum er að jafnaði ekki gefið það, að tala sköpunarorðið, sem Guð einn ræður. En þeir geta farið að fordæmi Jesú; hlustað, predikað, tjáð og sýnt meðlíðan og þegar fram er komin iðran og rjett yfirbót og fyrirgefning, þá talar Guð sjálfur sköpunarorðið: "Effaþa, opnist þú" og í því er innifalið þetta: "Barnið mitt, syndir þínar eru þjer fyrirgefnar".

Þá fyrst fer að gróa flakandi, svíðandi, brennandi sárið; eyrun opnast, tungan losnar, því það er Guð, sem græðir mein manna. Sjálfir geta þeir lítið til þess lagt nema góðan vilja og viðleitni. Því veldur breyzkleiki vor og synd, sjálfdæmi og sjergæði, sem er inngróið hjá oss: Eigingirndirnar sem jafnan skipa manninum í Guðs stað, í stað þess að meðganga sitt. "Það var ekki eg, heldur konan sem þú gafst mjer, sem gaf mjer að eta og eg át" sagði Adam forðum. Ekki eg, heldur hún og þú gafst mjer hana. Er til einfaldari og sannferðugri lýsing á manninum, en þessi úr Genesisbókinni: Það er aldrei eg, kannski þú, en umfram allt hann,- einhver annar.

Íslenzkt samfjelag er í sárum: Menn æpa upp úr kvöl sinni og finna engin úrræði. Eins og stygg og hvekkt hjörð eða stóð flæmast þeir úr einum stað í annan og vita ekki sitt rjúkandi ráð annað en það, að finna einhverja sökudólga; í bönkunum, í kirkjunni, í lögreglunni, bara einhvers staðar-. Uppgjörum er hvergi nærri lokið. Hvað kirkjuna varðar, þá fer því fjarri, að þeim málum sje lokið, sem skóku samfjelagið fyrir um það bil hálfum öðrum áratug. Þá var beitt þöggun, staðinn vörður um menn, barizt fyrir því að halda í þagnargildi því, sem betur hefði verið gengizt við. Eg er ekki viss um, að frestur sje á illu beztur.

En eg er viss um það, að ráðleysi vort ofan á alla aðra vanlíðan, stafar mest af því, að vjer höfum nú lengi að undanförnu ekki gefið gaum að grunngildum siðaðra manna samfjelags. Engin lög, siðareglur eða samþykktir geta tryggt það, að menn fari að mannasiðum, hafi þeir ekki vakandi samvizku, eða kunni þeir ekki skil á rjettu og röngu.

"Það sem þjer viljið að aðrir menn gjöri yður, skuluð þjer þeim og gjöra".

"Það sem þjer hafið gjört einum þessara minna minnstu bræðra, það hafið þjer gjört mjer"

Þetta hið síðara hygg eg að megi heimfæra bæði til góðs og ills, þótt Frelsarinn vísi vafalaust sjálfur fremur til hins góða. Hafi þjóðin tapað trú sinni, er ekki undarlegt að siðferði hennar hafi látið á sjá og henni gangi það illa að koma fyrir sig vitinu og fótunum, þegar áföllin dynja á henni.

Eg kann ekki annað ráð til að hafa fyrir fólki en Þetta: Verði þjer á, skaltu kannast við villu þíns vegar og gangast við henni. Játa afbrot þín og reyna að bæta fyrir þau, gjöra iðrun og yfirbót. Þá fyrst er hægt að byrja á því að græða með mönnum: Veita aflausn. Þetta á við um bankamenn, jafnt sem presta, svefnværa stjórnmálamenn, jafnt sem níðinga. Þetta er eina færa leiðin. En það verður fyrst að segja satt og draga ekkert undan. Það var gert í Suður Afríku. Þar var engin fjölskylda, hvítra eða svartra, ósnert af böli undanfarinna áratuga kúgunar og harðræðis. Þeir settu á stofn sannleiksnefndir, þar sem leiddir voru saman þolendur og böðlar þeirra. Þeir voru knúnir til þess að tala saman og segja satt. Þá fyrst varð til forsenda þess, að færi að gróa með mönnum.

Guð hjálpi oss. Hann sendi sinn góða, Heilaga Anda til þess að vekja með oss iðrun og yfirbót. Svo tali hann sitt máttarorð: "Effaþa, opnist þú". Og hann bannaði þeim að segja frá þessu, en þeim mun meira sem hann bannaði þeim það, þeim mun meira báru þeir það út. Þannig er hið góða. Amen.

Dýrð sje Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda. Svo sem var í öndverðu er enn og um aldir og að eilífu. Amen.