Aðgerðaleysið

Aðgerðaleysið

Guðspjall: Matt. 11. 16-24 Lexia: Jes. 5.1-7 Pistill: Post. 13. 44-49

Lokaorð guðspjallamannsins Jóhannesar bera með sér að hann gerði sér fulla grein fyrir því að ógjörlegt væri að gjöra fulla grein fyrir ollu því sem Jesús sagði og gjörði um sína daga. Jóhannes sagði: “ En margt er það annað sem Jesús gjörði, og yrði það hvað eina upp skrifað, ætla ég, að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur sem þá yrðu ritaðar”.

Í guðspjalli þessa drottins dags í Matteusarguðspjalli talar Jesús um þorpin Korasin og Betsaidu. Korasin var sennilega þorp sem var staðsett skammt norður af Kapernaum og Betsaida var fiskiþorp sem var að finna á vesturbakka árinnar Jórdan.Svo virðist sem eitthvað stórkostlegt hafi gerst í þessum þorpum fyrir tilstilli Krists. Samt sem áður eru engar ritaðar heimildir til sem staðfesta það, hvorki í guðspjöllunum fjórum né annars staðar, enda þótt þessi verk hafi jafnvel verið með þeim stórkostlegustu sem Jesús gerði. Þessi orð í Matteusarguðspjalli um þorpin tvö sýna því svo ekki verður um villst hversu lítið við vitum um Jesú. Þau varpa jafnframt ljósi á það að í guðspjöllunum fjórum er að finna aðeins brot af öllu því sem Jesús sagði og gerði á þriggja ára starfstíma sínum.

Jesús talar til íbúa þessara þorpa og ávítar þá fyrir að hafa ekki gert iðrun þrátt fyrir kraftaverkin og segir: Vei þér Korasín! Vei þér Betsaida. Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. Á líkan hátt talar hann til Kapernáum borgar.

Ég velti því fyrir mér hver tónninn í þessum orðum Jesú hafi verið. Í stað mikillar reiði þá finnst mér að það gæti hryggðar og meðaumkunar í orðum hans yfir viðbrögðum íbúa þorpanna við kraftaverkum hans. Þetta er ekki tónn manns sem hefur misst stjórn á skapsmunum sínum. Þetta er ekki tónn manns sem er reiður yfir því að hafa verið móðgaður. Þetta er þess í stað tónn hryggðar, tónn þess manns sem veitti mönnum það sem dýrmætast er í þessum heimi og sá hversu léttvæglega því var tekið og haft að engu í raun og veru. Fordæming Jesú á þessari synd er heilög reiði en reiðin stafar ekki af misboðnu stolti heldur af sundurmörðu hjarta.

Hver var þá synd Korasin borgar, Betsaidu og Kapernaum sem var verri en synd Týrus borgar og Sídonar, Sódómu og Gómorru? Syndin hlýtur að hafa verið mjög alvarleg því að í Biblíunni þá eru borgirnar Týrus og Sídon fordæmdar, t.d. af spámönnum Gamla testmentisins, Jesaja, Jeremía og Ezekiel. Borgirnar Sódóma og Gómorra eru einnig fordæmdar fyrir margvíslegar misgerðir sem þar voru framdar af íbúum þeirra.

Í fyrsta lagi þá var þetta synd fólks sem gleymdi þeirri ábyrgð sem fylgir því að njóta forréttinda. Þorpin, Korasin og Betsaida í Galileu höfðu notið forréttinda sem hvorki íbúar Týrus þorps og Sídon höfðu ekki notið, né íbúar Sódómu og Gómorru. Því að íbúar þorpanna í Galíeu höfðu séð og heyrt til Jesú, séð hann að verki þar sem hann gekk um og læknaði og græddi þá sem á vegi hans urðu. Við getum ekki fordæmt mann sem aldrei hefur haft tækifæri til þess að vita betur. En ef maður sem hefur haft tækifæri til þess að vita hið sanna og gjörir þess í stað það sem rangt er þá stendur hann fordæmdur eftir. Við dæmum ekki barn fyrir það sama og fullorðinn einstakling því að fullorðinn einstaklingur ætti að vita betur en barnið af eðlilegum ástæðum. Við myndum ekki dæma villimann fyrir það sama og siðaðan mann. Við gætum ekki vænst þess að einstaklingur sem lifað hefði á strætum borgar og hvergi hefði átt höfði sínu að halla gæti strax lifað lífi þess sem allar götur hefði verið alinn upp og lifað á góðu og þægilegu heimili. Því meiri sem forréttindi okkar eru því meiri verður fordæming okkar ef við bregðumst að axla þá ábyrgð og samþykkja þær skyldur sem forréttindin hafa í för með sér.

Í öðru lagi þá er þetta synd afskiptaleysisins. Íbúar þessara umræddu borga réðust ekki gegn Jesú. Þeir ráku hann ekki út úr borgarhliðunum. Þeir leituðust ekki við að krossfesta hann. Þeir einfaldlega höfðu hann að engu, létu sem þeir sæju hann ekki og lokuðu eyrum sínum fyrir boðskap hans. Vanræksla getur drepið líkt og ofsóknir.

Við íslendingar erum mikil bókaþjóð. Þegar rithöfundur gefur út bók þá fá gagnrýnendur hana einna fyrst í hendur til umsagnar. Sumir þeirra kynnu að lofa hana, aðrir kynnu að fordæma hana. Það skiptir ekki máli svo lengi sem tekið er eftir bókinni. Það versta sem gæti hent nýútgefna bók er ef hennar væri hvergi getið á jákvæðan eða neikvæðan hátt.

Myndlistamaður einn gerði mynd af Jesú Kristi þar sem hann stendur á einni af brúum London borgar og heldur uppi höndum sínum með ákallandi hætti til mannfjöldans sem á leið hjá. Allir halda sínu striki án þess að gefa Kristi gætur. Aðeins ein kona staldrar við og horfir á hann. Hér stöndum við frammi fyrir nútímalegum viðhorfum sem eru einkennandi fyrir hinn vestræna heim. Það gæti ekki fjandskapar í garð kirkju og kristni. Það er leitast við að gera út af við kristnina í vestrænum heimi með öðrum hætti. Það gætir afskiptaleysis, sérstaklega í stærri bæjum og borgum. Kristur er settur til hliðar og flokkaður með þeim sem skipta ekki máli. Afskiptaleysi er synd, raunar mikil synd því að hún drepur. Afskiptaleysið hefur kæfandi áhrif á lífið sem í trúnni bærist.

Og því stöndum við í þriðja lagi andspænis ógnvænlegum sannleika um syndina sem er aðgerðaleysið. Hin mikla synd Korasin- , Sídon-,og Kapernaum þorpa var aðgerðaleysið.

Hversu oft heyrum við ekki þessi varnar viðbrögð frá samferðamönnum okkar þegar við berum einhvern gjörning upp við þá: “En ég gerði ekkert”. Þessi varnarviðbrögð gætu í raun og veru verið þeirra eigin áfellisdómur.

Höfum við gleymt að axla þá ábyrgð sem forréttindum okkar fylgir? Erum við sek um afskipaleysi gagnvart Kristi, kirkju og kristni? Erum við sek um aðgerðaleysi?

Við hlustuðum á lexíu dagsins úr spádómsriti Jesaja sem er ástarkvæði um víngarðinn. Víngarður ástvinarins bar muðlinga í stað vínberja.

Hvernig höfum við ræktað okkar garð? Höfum við aðgerðalaus horft á þistlana og þyrnirunnana vaxa og kæfa vínberjarunnanna eða er uppskeran ríkuleg og ber þannig vitni um að við höfum axlað þá ábyrgð sem forréttindum okkar fylgir? Höfum við leyft Drottni að gróðursetja ríki sitt í hjörtum okkar? Höfum við gefið þessu gaum?

Forréttindi okkar eru fyrst og fremst þau að fá að vera Guðs börn í þessum síbreytilega hverfula heimi og fá að vera farvegur náðar Guðs og kærleika í garð samferðamannanna, ekki síst í garð þeirra sem eiga erfitt til líkama og sálar, fá að reka erindi Krists í þessum heimi, fá að vera áheyrandi í Krists stað þeim sem eru þurfandi. Fá að vera gjörendur orðsins frá Guði en ekki aðeins áheyrendur. Fá að þekkja Krist og kraft upprisu hans þar sem undrin gerast í daglegu lífi okkar.

Forréttindi okkar eru einnig þau að fá að búa í þessu landi mjólkur og hunangs, Íslandi þar sem fæstir búa við skort en flestir búa við almenna hagsæld í efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu tilliti. Við lítum e.t.v. á þetta sem sjálfssögð forréttindi. Fyrir vikið gleymum við að þakka þeim sem allt gefur og vísum jafnvel orði hans á bug sem hverju öðru kerlingaævintýri.

Kristur er okkur þó nær en við höldum. Þótt við látum sem hann sé ekki til þá er hann hjá okkur í anda sínum og þráir að eiga daglegt samfélag við okkur Við skulum ekki láta það henda okkur frá degi til dags á lífsins brú að láta sem hann sé ekki til. Stöldrum við og leitumst við að eignast bænasamfélag við Guð því að meiri bæn hefur aukna reynslu í för með sér. Sú reynsla eykur þekkingu á Guði og kallar fram meira bænalíf. Menn sem mikið samneyti hafa ræðast við um árangur og áhyggjur og tengjast æ traustari böndum vináttu og samfélags. Svo er einnig um bænasamfélag við Guð. Traustið og samræmið styrkist dag frá degi. Sambandið verður að nauðsyn. Bænin opnar mætti Guðs leið að vanda okkar. Hún tengir okkur Guði svo að við verðum honum háð. Það er mesta blessun lífsins.

Ekki er það að ófyrirsynju sem áminningin um að vaka blasir svo víða við í Heilagri Ritningu og heyrist hvar sem kristinn söfnuður er á þessari jörð. Lífi kristins manns er líkt við vöku og áminningin er borin upp af þeirri vissu að það Guðs ríki, sem Drottinn Jesús ávann og stofnsetti á þessari jörð sé borið uppi af vakandi sálum er sífellt meðtaka kraft þess, geyma það hið innra með sér, eiga það, lifa og hrærast í andrúmslofti þess. Eitt megineinkenni þessa er kærleiksvald Guðs að verki í sálum manna á sinn hljóðláta hátt með mildum og kyrrlátum krafti. Áhrif þess skynjar maðurinn og meðtekur og útbreiðir að því skapi sem hann er vakandi, opinn fyrir þessu og fús til að veita viðtöku, vera á valdi Guðs, þiggja hjálp hans og hlýða honum. Gerir maðurinn það þá er hann vakandi.

Eitt sinn munu allir dagar farnir hjá, tækifærin öll á enda. Þann dag eða stund veit enginn nema Guð. Þá munu menn þrá enn eitt tækifæri, einn náðar dag en árangurslaust. Tækifærin koma ekki aftur. Eftir það er dómurinn, jafnóvænt og öll önnur augnablik, jafnskyndilega eins og allir aðrir dagar. Allir hljóta þá að vaka, hve fast sem þeir áður sváfu. Enginn ávinnur lífs sitt þá. En það sem verður okkur þá til dóms verður ef til vill setningin sem aldrei var sögð, handtakið sem aldrei var boðið eða brosið sem byrgt var inni. Eða verður það bænin sem aldrei var beðin, játningin sem aldrei heyrðist, einlægnin sem var innibyrgð eða hrópið til Guðs sem þaggað var niður? Ekki veit ég það en hitt veit ég að náðartíminn er hljóður en samt er hann í dag. Sá einn sér hann sem leyfir Drottni að gróðursetja ríki sitt í hjartanu.

Sá sem kemst í snertingu við Krist hlýtur hjálp hans. Hvar sem er, hvernig sem ástatt er. Sá sem er einmana. Hinn hrjáði og syndugi. Sá sjúki og vanmáttugi. Sá sem sorgin heimsækir eða dauðinn bíður eftir. Jesús Kristur er hjálpin allra. Hönd hans er útrétt til þín og mín.. Í þeirri snertingu finnum við að við erum aldrei ein. . Hann leiðir okkur, frelsar og styrkir. Fylgir okkur alla leiðina á enda. Amen.