Sumt endist, annað ekki

Sumt endist, annað ekki

Sumt heldur gildi sínu en annað ekki. Og erindi Biblíunnar til okkar er alltaf það sama. Við erum of dýrmæt í augum Guðs til þess að við setjum okkur fánýta mælikvarða á líf okkar og tilgang.

Jæja þá erum við komin með 10 þúsundkall. Listaskáldið góða prýðir hann og þó ég hafi ekki handleikið eintak sjálfur þá hef ég kynnt mér þá peningalist sem í birtist á þessum tímamótaseðli.

Myntbreyting

Ég er nú af þeirri kynslóð sem man það þegar myntbreytingin varð og skyndilega komu nýir seðlar og nýtt klink. Þetta var í byrjun níunda áratugarins og íslenskt samfélag ekki eins vant eins snörpum breytingum og síðar átti eftir að verða. Það voru mikil tímamót að fara í bankann með alla þúsundkallana sem voru í bauknum mínum og fara svo út með nokkra tíkalla – sem voru reyndar virðulegir bláir seðlar með mynd af Arngrími lærða Jónssyni.

En nú eru þeir tíukrónuseðlar komnir á Þjóðminjasafnið og við eigum von á því, á góðum degi, að fá að handfjatla þúsundsinnum hærri seðil. Sjálfur fékk ég sexþúsund krónur í fermingargjöf – og þótti allgott. Þessi nýi miði er nú hærri en það sem samtals kom úr umslögum örlátra ættingja og vina á þeim Drottins degi 18. apríl 1982.

Ógnvekjandi og umkomulaus

Það er svolítið sérstakt að velta fyrir sér þessum nýja miða sem er á sama tíma hálf ógnvekjandi í veldi sínu og um leið tákn um umkomuleysi og hverfulleika þeirra verðmæta sem okkur hættir til þess að vega og meta líf okkar eftir. En á seðlinum leynast hins vegar verðmæti sem eru af allt öðrum toga, fölna ekki með ágangi tímans og rýrna ekki í virði þótt áratugir líði og nýjar kynslóðir taki við af gömlum.

Já, ljóðlínur Jónasar halda gildi sínu eins og öll sönn list gerir. Öll getum við látið hrífast af því hvernig hann meitlar tilfinningar mannsins í orð:

Ástarstjörnu yfir Hraundranga, skýla næturský Hló á himni hryggur þráir sveinn í djúpum dali

Þessi skilaboð mæta okkur þegar við handleikum þetta tákn hins forgengilega og við skynjum þetta tvennt eins og andstæður.

Með hverju mælum við?

Og við spyrjum okkur ef til vill um leið þeirrar ágengu spurningar – hvort við mælum tilveru okkar og árangur út frá því sem dofnar með tímanum. Hversu lítils virði er nú aurinn sem ég fékk í fermingargjöf en hversu óendanlega dýrmæt eru þau fyrirheit sem ég gaf frammi fyrir altarinu.

Já, það er eins og Seðlabankinn hafi hugsað hlýlega til prestanna sem hafa setið sveittir við predikunargerð fyrir þennan sunnudag. Útgáfuna á nýjum 10 þúsundkróna seðli ber upp um svipað leyti og við lesum þessa texta í kirkjum landsins.

Erfitt svar

Hér lásum við nefnilega frásögn af ungum manni sem leitar tilgangs og lífsfyllingar. Hann spurði Jesú um æðstu rök tilverunnar, sjálfan tilgang lífsins. Í fyrstu var svarið ekki ýkja flókið: Fylgdu þeim dýrmætu samskiptareglum sem skráðar eru í boðorðin 10. Við sjáum það í hendi okkar að í lífsmynstrinu eru ákveðin lögmál sem okkur ber að fylgja og hlýða. Jesús er ekkert að flækja þetta fyrir manninum og sýnir honum á einfaldan hátt hvað honum ber að gera – og eins og boðorðin kannski fjalla enn frekar um – hvað hann má ekki gera.

En það veitir ekki þá svölun sem hin leitandi sál sækir í. Enn spyr hann og Kristur sér það á honum að þetta er ekki nóg og segir honum að ganga skrefið lengra.

Og þarna bendir Jesús honum á það hversu lítt hið forgengilega veitir manninum lífsfyllingu og innri sátt. Kristur beinir sjónum að auðævum hans og hvetur hann til þess að gefa allar eigur sínar til fátækra. Þetta var auðugur maður og harmur hann kom þegar í ljós þegar Jesús hafði svarað honum.

Þegar blasir það við okkur að leitin að tilgangi lífsins og hinum eilífu verðmætum liggur ekki í vösum okkar sjálfra heldur í því hvernig við komum fram við systur okkar og bræður.

Kristur beinir sjónum okkar út á við og fær okkur til þess að finna tilgang okkar í þjónustunni við náungann. Og hann beinir sjónum okkar upp á við að þeim veruleika sem er æðri öllu því sem hrörnar og deyr. Loks lætur hann okkur líta inn á við að þeim tilgangi sem við leitum eftir og hvar fjársjóðir hjarta okkar leynast. Sá sem fylgir kalli Krists, sá sem velur sér hann sem leiðtoga í sínu lífi finnur það strax hversu dýrmætt það er að fylgja því kalli.

Tómleikinn

Það er líka áhugavert að lesa um viðbrögð hins ríka unglings þegar Jesús veitti honum svar sitt. Frá því er sagt að hann hafi orðið dapur og við skynjum það einhvern veginn að yfir viðbrögðum hans er einhver tómleiki. Það er eins og hann sýni okkur það hversu innantómt líf þess er sem bindur sitt trúss við hið tímanlega og takmarkaða. Líf hans kann að vera í föstum skorðum hið ytra og ekki rændi hann og ruplaði eigum annarra.

Sagan dregur upp andstæður af því sem endist og því sem hrörnar og dofnar.

Ógnvænlegt svar

Svar Krists setur óneitanlega að okkur ugg sem freistumst gjarnan til þess að meta líf okkar og gæði eftir mælikvarða peninganna sem fölna svo skjótt og dofna. Í þessu ljósi hljótum við að túlka orð Jesú sem ollu lærisveinum hans hugarangri:

Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.

Í Ísrael hinu forna settu menn að jöfnu veraldlegri velgengni og þeirri náð sem fólk taldi að það nyti gagnvart Guði. En þetta er ekki erindi Guð til okkar. Blöðin í Biblíunni geyma ekki áletranir sem smám saman missa gildi sitt og verða að lokum lítils virði.

Því miður er raunin sú með seðlana sem við geymum í vasanum og verjum svo mörgum vökustundum í að öðlast og stundum vökum við margar næturstundir, áhyggjufull yfir því hversu skjótt þeir yfirgefa veskið okkar.

Úlfaldinn kemst fremur inn í Guðs ríki en sá sem bindur allt sitt trúss við hið tímanlega og það sem missir gildi sitt.

Hvílíkt ríkidæmi það nú er að eiga þennan boðskap til þess að fylgja og eiga það leiðarljós til þess að stefna að. Seðillinn með hinum fögru ljóðlínum Jónasar geymir slíka áminningu til okkar. Sumt heldur gildi sínu en annað ekki. Og erindi Biblíunnar til okkar er alltaf það sama. Við erum of dýrmæt í augum Guðs til þess að við setjum okkur fánýta mælikvarða á líf okkar og tilgang.