Hlýðni

Hlýðni

Skilaboðin í Rómverjabréfinu, voru að við eigum ekki að vera hálfvolg, heldur eigum við að vera brennandi í andanum, glöð, þolinmóð og staðföst í öllu sem viðkemur trúnni. Við eigum að hafa andstyggð á hinu vonda en halda fast í hið góða. Hlýðni við Guð… er trausts-yfirlýsing…

Net-guðsþjónusta tekin upp í Tálknafjarðarkirkju 17. jan 2021 

2.Mós 33.17-23, Róm 12.6-15 og Jóh 2.1-11

Prédikun….    Hlýðni

Biðjum, Eilífi Guð, opnaðu hjörtu okkar fyrir boðskap þínum, gefðu að lifandi orð þitt snerti líf okkar, verði okkur leiðarljós og styðji okkur í erfiðum ákvörðunum. Gefðu að við verðum aldrei viðskila við þig. Við lofum þig og tignum. Amen

Já, ég ákvað að skipta á textum dagsins í dag fyrir textana sem voru þennan sunnudag á síðasta ári… og hafa þemað “hlýðni”… en mörgum hefur reynst erfitt á þessum covid tímum að hlýða… samkomutakmörkunum eða að fara eftir fyrirmælum… og ég er ekki að tala um börn, heldur hefur mörgum fullorðnum þótt erfitt að hlýða fyrirmælum… víst er fólk orðið langþreytt og við langvarandi ástand kemur upp kæruleysi… sem vex þegar við höldum að þetta sé alveg að verða búið.
En við þurfum að þrauka aðeins lengur og hlýða fólkinu sem vegna hæfni sinnar…er valið til að stjórna … og setja reglur til að vernda okkur.

En snúum okkur að fyrri ritningarlestrinum… þar sem Móse fann náð fyrir augum Drottins, fékk að tala við Guð, finna nærveru hans og sjá baksvipinn því enginn gat séð auglit Guðs og lifað það af. Móse var undir náð Guðs… og nú erum við undir náð vegna trúar okkar á Jesú Krist…

Að vera undir náð… merkir að fyrir trúna verður synd okkar afmáð er við stígum fram fyrir dómarann á efsta degi… ég hafði orðið synd í eintölu og vitna þá til orða Jesú Krists… í Jóh 16:9 Syndin er að þeir trúðu ekki á mig,  Ágústínus kirkjufaðir hélt því fram að synd væri ekki athöfn heldur afstaða… því ætti aðalspurningin að vera: hvaða afstöðu hef ég til Jesú Krists? Er hann leiðtogi lífs míns?

Guð sagði Móse að standa á kletti, en í klettaskoru og sagði, að hann sjálfur myndi hylja Móse með lófanum svo öruggt væri að hann myndi ekki sjá auglit Guðs óvart og farast… Móse hlýddi Guði… Við getum séð Móse fyrir okkur, umlukinn klettavegg á þrjá vegu og hönd Guðs fyrir framan… er til öruggara skjól ?… Það mikilvægasta við þessa frásögn er að Móse hlýddi… Og í svona aðstæðum, þar sem forvitnin brennur, vita allir hvað það getur verið erfitt að hlýða… það hlýtur að hafa verið freistandi að kíkja aðeins… en Móse hlýddi…
Allir textar þessa dags varða á einhvern hátt… hlýðni.

Skilaboðin í Rómverjabréfinu, voru að við eigum ekki að vera hálfvolg, heldur eigum við að vera brennandi í andanum, glöð, þolinmóð og staðföst í öllu sem viðkemur trúnni. Við eigum að hafa andstyggð á hinu vonda en halda fast í hið góða. Hlýðni við Guð… er trausts-yfirlýsing… Við treystum forsjón Guðs. Kaflinn um náðargáfurnar í seinni ritningarlestrinum… ætti að létta af okkur stórum áhyggjum… þar stendur að við höfum fengið margvíslegar náðargáfur… sem eru eins ólíkar og við erum mörg… við eigum að rækta þær sem við fengum… við gerum oft alltof miklar kröfur til okkar… við þurfum ekki að vera góð í öllu… Við þurfum ekki að keppa við hvort annað… náðargáfa hvers og eins er örugglega sniðin að honum sjálfum og því samfélagi sem hann býr í… og saman gerum við samfélagið ríkara. Ef við trúum því að Guð sé almáttugur, þá getum við líka trúað því að hann sé ekki í vandræðum með að senda fólk þangað sem það nýtur sín í þjónustunni… Við höfum sönnun þess hér, því Guð sendi ykkur Mæju alla leið frá Afríku…

Guð opnar okkur leiðir sem eru okkur til heilla og hamingju eins og ritningin segir… og Guð lokar vonandi þeim leiðum sem væru okkur til óhamingju eða skaða… Við verðum að trúa því að Guð blási okkur í brjóst hvað er best fyrir okkur og hvar líf okkar myndi blómstra.  Textinn sagði okkur að halda í það góða… og hafa andstyggð á hinu vonda. Við getum treyst því að Guð vill okkur allt hið besta og umvefur okkur í kærleika sínum… Guðspjallið þar sem Jesús breytti vatni í vín fjallar líka um hlýðni… en ég ætla ekki að tala um að Jesús hlýddi móður sinni… heldur, er það hlýðni þjónanna í veislunni.

Jesús var ekki byrjaður að starfa svo þeir hafa ekki heyrt neinar sögusagnir um hann, enda er ekkert í frásögninni sem bendir til þess að þeir hafi vitað hver hann væri… En við vitum að þjónar eiga allt sitt undir duttlungum húsbænda sinna og enginn vill vera rekinn fyrir það sem væri hægt að titla sem “heimsku”… svo þessi hlýðni hefur takið á… Jesús, (sem þjónarnir þekkja ekki) segir þeim að fylla kerin af vatni… þeir hlýða… fylltu þau á barma og takið eftir að Jesús gerir ekkert þ.e.a.s. hann hvorki blessar vatnið með handayfirlagningu eða segir neitt… en um leið og kerin eru full segir hann:  Ausið nú af og færið veislustjóra.“

Þjónarnir voru að setja vatn í kerin… en þeir hlýða… og textinn segir: Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín  já, þjónarnir færðu veislustjóranum vatn… það breyttist ekki í vín fyrr en hann smakkaði á því… Það er ekki ólíklegt að þjónarnir hafi óttast um starf sitt þegar veislustjórinn smakkaði á “vatninu” en þeir hlýddu Jesú… Það er okkur til eftirbreytni. Hlýðni við Orð Guðs er að treysta orði hans og trúin á Jesú færir okkur undir náð Guðs…  þar sem við viljum vera.
Allar sögur Biblíunnar eru fullar af táknmyndum, sagan um brúðkaupið í Kana er ekki undanskilin… Kerin sem voru fyllt af vatni voru hreinsunarker gyðinga. Með þessu fyrsta kraftaverki… var Jesús í raun að skipta út hreinsunarsiðum þeirra… fyrir ávöxt vínviðarins, sem er hann sjálfur - Jesús er góða vínið… hann er vín-viðar-teinungurinn, rótarkvisturinn sem Jesaja spámaður sagði að myndi vaxa upp úr þurri jörð… og þar fáum við annað tákn… þurr jörð – tóm ker… án Jesú lifum við andlegan skort…

Jesús lét barmafylla kerin… en í sálmi 23, Drottinn er minn hirðir… segir: bikar minn er barmafullur – Bikarinn er fullur af náð Guðs og náðin er svo mikil að hún flæðir yfir barmana. Svo má ekki gleyma því að Jesús sagði að hann væri hið lifandi vatn… og allir vita að án vatns þrífst ekkert líf á jörðinni… og að auki er Jesús uppsprettan að eilífu lífi… Ég sagði í upphafi að fyrir trúna á Jesú erum við undir náð Guðs… Hlýðni við orð hans gefur okkur frið í sál. Traustið á Guð tryggir persónulegt samband tveggja einstaklinga, Guð er aldrei nema eina bæn í burtu… og náð hans yfirfyllin kerin okkar.

Munum að þakka Guði fyrir kærleika hans og umhyggju fyrir okkur.  Þakka honum fyrir að ganga með okkur, gefa okkur þolinmæði og staðfestu til að gera rétt, þökkum honum fyrir að vera skjól okkar og skjöldur, fyrir að verja okkur í þessum heimsfaraldri og fyrir að gefa okkur náðargáfur sem blessa, bæði okkur og samfélagið í heild. 

Megi blessun Guðs fylgja okkur öllum. Amen.

https://www.youtube.com/watch?v=T2QKUIbB_bQ&t=40s