Fyrirmynd nýs hjónabandsskilnings?

Fyrirmynd nýs hjónabandsskilnings?

Hvað er að vera blessaður? Hvað er að þiggja blessun? Viðurkenning og sátt manna í millum í samfélagslegu tilliti. Guðsblessun, er má segja það að lifa í takt við Guðs orð og í takt við hina harla góðu sköpun skaparans og finna handleiðslu hans í lífi sínu. Jakob þáði blessun föður síns, reyndar þá blessun sem bróðir hans átti að njóta.

Góðan daginn!

Já, komiði blessuð og sæl!

Þannig heilsumst við gjarnan úti á götu, eða niður í matvörubúð!

Blessuð!

Hvað þýðir það?

Þegar við segjum þetta orð, blessuð, hvað meinum við? Erum við að biðja viðkomandi Guðs blessunar? Já án efa margir, ég nota þetta orð meðvitað með það í huga, en ætli við séum öll meðvituð um hvað þetta orð þýðir!

Er það almennt viðhorf að þegar fólk notar orðið ,,blessaður” eða ,,blessuð” þá sé viðkomandi að biðja viðmælanda sínum þess að Guð, faðir og sonur og heilagur andi, blessi viðkomandi, líf hans starf og fjölskyldu? Má vera!

Hvað er að vera blessaður? Hvað er að þiggja blessun?

Viðurkenning og sátt manna í millum í samfélagslegu tilliti. Guðsblessun, er má segja það að lifa í takt við Guðs orð og í takt við hina harla góðu sköpun skaparans og finna handleiðslu hans í lífi sínu.

Jakob þáði blessun föður síns, reyndar þá blessun sem bróðir hans átti að njóta, og síðar blessun Guðs, eftir glímu við Guð og menn, eins og segir í lexíu dagsins.

Í fyrstu Mósebók þrítugasta og öðrum kafla, sem lesinn var hér áðan, segir:

,,Og Jakob lagði af stað um nóttina og tók báðar konur sínar og báðar ambáttir sínar og ellefu sonu sína og fór yfir Jabbok á vaðinu. Og hann tók þau og fór með þau yfir ána. Og hann fór yfir um með allt, sem hann átti. Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp.”

Þannig hefst þessi frásaga af Jakobsglímunni. Áður en lengra er haldið í þessum vangaveltum, þá langar mig örstutt að staldra við þessi orð, eitt atriði í þeim sem er þó ekki aðalatriði í þessu heildarsamhengi textans.

Jakob átti tvær konur.

Jakob sem hér í þessum texta fékk nafnið Ísrael frá Guði sjálfum. Ísraelsþjóðin, þjóð Guðs. Sú þjóð sem tók við lögmálinu og lifir eftir því. Hann átti tvær konur. Og samkvæmt nánasta samhengi textans, átti hann afkvæmi með þeim báðum sem og ambáttum þeirra. Hvernig er þetta hjá okkur með fjölskyldulífið og barneignir? Með hjónabandið og skilyrði til þess að ganga í hjónaband?

Eitthvað yrði nú sagt ef karlinn í næsta húsi ætti tvær konur, og börn með báðum, sem og börn með tveimur vinnukonum sínum.

Greinilegt er að eitthvað hefur breyst á þessari leið, frá Jakobi og til okkar daga.

Samfélag okkar þvertekur fyrir fjölkvæni eða fjölveri. Það er aldrei til umræðu, eða hvað? Framhjáhöld og barneignir með öðrum en maka sínum, eru því miður allt of algengur veruleiki í okkar heimi.

Eru það fordómar af hálfu samfélagsins að leggja ekki blessun yfir fjölkvæni? Hvað er að þiggja blessun samfélags? Blessun í því samhengi getur þýtt að viðurkenna.

Ég vil aðeins velta þessum meira fyrir mér! Hvað gerist nú með aukinni fjölmenningu, þegar ólíkir menningarheimar mætast, þegar hópar af ólíkum trúarbrögðum búa í sama þjóðríki?

Það eru menningarhópar í heiminum sem leyfa fjölkvæni, hverju mun íslenskt samfélag svara þegar slík beiðni verður orðuð í okkar kristna samfélagi? Mun samfélag okkar viðurkenna slíkt, mun samfélag okkar telja slíkan búskap samræmast sínum gildum?

Ég veit ekki, kannski þurfum við aldrei að glíma við slíkt, en hver veit?

Ég hugsa að það muni stríða gegn okkar siðferðissjónarmiðum og jafnvel jafnréttissjónarmiðum að karl skuli geta átt tvær konur. En hér höfum við þó biblíuleg rök þess efnis að við karlmennirnir gætum átt fleiri en eina eiginkonu. (Fagni því hver sem fagna vill!)

Nú stendur yfir mikil umræða um þau skilyrði sem samfélag okkar setur til þeirra sem vilja ganga í hjónaband.

Verðum við ekki að skoða dæmið í heild sinni. Getur Jakob verið okkur til fyrirmyndar og eftirbreytni í umhugsun okkar um skilyrði til hjónabands?

Um leið og við tökum afstöðu til þess hvort við viljum gera hjónabandið kynlausa stofnun, þá verðum við að taka afstöðu til atriða líkt og koma fram í lexíu dagsins. Eru það ekki fordómar að leyfa ekki fjölkvæni? Hver er ég að segja að slíkt gæti ekki gengið og orðið Guði til dýrðar?

Ég leyfi mér samt að efast um að slíkt yrði til gæfu. Og ég er alls ekki með þessum orðum að mæla með fjölkvæni eða fjölveri. Hins vegar er einmitt verið að ræða það nú í okkar samfélagi hvort breyta eigi skilyrðum til hjónabands.

Það sést á þessum texta og vangaveltum að allnokkuð vatn hefur runnið til sjávar síðan þessi orð vorum rituð í hina helgu bók.

Á dögum Gamla testamentisins voru það konurnar sem yfirgáfu fjölskyldu sínu og bundust manni sínum, og hans fjölskyldu.

Þær urðu má segja ein af eignum hans, eins og sést í aðdraganda þess að Jakob eignast þær systur Leu og Rakeli.

Jesús Kristur vísar hins vegar til Adams og Evu þegar hann svarar lærisveinum sínum um hjónabandið, í Matteusarguðspjalli, en þar segir hann þegar þeir spyrja hann um hjónabandið:

,,Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: ,,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður. Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.”” (Mt. 19:4-6)

Þetta er eitt af fáu lögmálunum sem Jesús staðfestir, það er að hjónaband skuli vera samband eins karls og einnar konu. Hann snýr því líka á hvolf að konan skuli vera eign mannsins, því hann segir að maðurinn skuli yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni. Jesús staðfestir með þessum orðum jafna stöðu kynjanna, og það að þau njóta fullrar mannréttinda bæði tvö í sínum nánu samskiptum hjónabands.

Ekki staðfestir Jesú skilning manna á hvildardagsboðinu heldur útvíkkar þann skilning þannig að alltaf má vinna lífinu í hag, þjóna lífinu, bjarga, lækna og líkna, jafnvel á hvíldardegi.

Hins vegar staðfestir Jesús það að hjónabandið sé samband eins karls og einnar konu.

Er það ekki vilji okkar að nýjar kynslóðir sem fæðast inn í þennan heim fái tækifæri á að njóta beggja foreldra sinna? Eigum við ekki þá trú að best sé fyrir börnin að alast upp á kærleiksríkum heimilum beggja foreldra?

Að sjálfsögðu getur margt gerst svo sem ótímabær andlát, veikindi, ofbeldi og hvað annað, og jafnvel það að hjón geta ekki eignast börn. En hvað kemur það umræddum breytingum á hjónavígsluskilyrðum við? Þær hugmyndir samrýmast ekki þeim mannskilningi og þeim hjónabandsskilningi sem kristin kirkja hefur haft að leiðarljósi í árþúsund.

Stöðugt glímum við við textana, við Guðs orðið, stöðugt glímum við við samfélagsleg málefni, og allir sjálfsagt með það markmið að gera samfélag okkar réttlátara og betra. Með það markmið að koma Guðsorði upprisu og eilífs lífs áfram og lifa eftir Guðs vilja með kærleika og réttlæti að leiðarljósi öllum til handa.

Að sjálfsögðu eru sjónarmiðin mörg og kirkjan þarf með einhverjum hætti að svara spurningum samtíðarinnar.

En að gera hjónabandið kynlausa stofnun er skref í þá átt að loka augunum fyrir því augljósa. Að gera hjónabandið stofnun fleiri en tveggja er ávísun á kúgun og misrétti.

Mennsku og mannréttindi allra manna verður að virða, svo að manngildi hvers og eins í samfélaginu sé tryggt.

Einungis þannig fá kærleikur og réttlæti að blómstra manna í millum.

Jakob glímdi hart.

Hann vildi sjá náð í augum bróður síns, Esaú. Jakob hafði leikið á hann og hafði Esaú orðið honum reiður.

Jakob hafði þegið blessun föður þeirra sem ætluð var Esaú, en vegna þess að Ísak faðir þeirra var aldur hnigin og sjóndapur þekkti hann ekki þá bræður í sundur og lék Jakob á föður sinn, og náði öllum frumburðarrétti af eldri bróður sínum Esaú.

Það er sérstakur textinn um Jakobsglímuna. Það væri hægt að fara ofan í ýmis atriði í þessum texta en eitt er það sem sameinar þennan texta og guðspjall dagsins, það er að í báðum frásögnum er beðið um blessun.

Jakob krefur þann sem við sig glímir um blessun, sem honum er síðan veitt er hann áttar sig á því að hann hefur glímt við Guð og menn. Hlutverk fær Jakob síðan í framhaldinu, nýtt nafn, Ísrael, hin útvalda Ísraelsþjóð.

Kanverska konan í guðspjallinu fer ekki frá Jesú fyrr en hann hefur veitt henni áheyrn, blessað hana og læknað dóttur hennar af illum anda.

Kanverska konan elti Jesú með hálfgerðum látum, og lærisveinarnir vildu hana í burtu.

En Jesús svarar því til að hann sé ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt, af Jakobsætt!

Konan gengur hart fram, og Jesús sér hve trú hennar er mikil. Og hún fær sem hún óskar, hún öðlast bænheyrslu, hún öðlast blessun.

Hverjir eru það, í dag, sem óska blessunar? Eru einhverjir sem fá ekki blessun í kirkjunni?

Í hvaða stöðu erum við sem samfélag, sem kirkja? Erum við í stöðu lærisveinanna sem vildu ekki heyra þessar nýju raddir, líkt og kanversku konunnar, og finnst óskir um blessun skera í eyrum? Eru það okkar eigin fordómar sem stjórna því að við látum ekki til leiðast og breytum þeim grundvelli sem fjölskyldan hefur staðið á hingað til?

Er ekki umræðan svo oft byggð á misskilningi?

Fá ekki allir blessun í kirkjunni? Hver er það í lok messu hér á eftir sem ekki má taka blessunarorðin til sín? ,,Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.” Segir Drottinn við þig, kæri kirkjugestur!

Allir sem vilja taka við þeirri Guðsblessun í iðrun, trú og kærleika geta það og mega, orðin eru töluð til allra manna sem vilja heyra.

Eins ætlum við hér að ganga til altaris á eftir. Þegar gengið er að borði Drottins, til altarissakramentisins er enginn spurður að uppruna, lit, syndafjölda, fjölskyldustærð, tilfinningum, hneigðum eða öðru, því hver sá sem tekur við sakramentunum og þeim orðum sem þar fylgja í iðrun og trú, tekur við honum.

Allir kristnir eiga það samfélag, og öll göngum við jöfn að því Drottins borði, sem ein stór fjölskylda, og tökum við honum. Tökum við honum sem er alfa og ómega, sem er upphaf og endir, sem skapaði manninn eftir sinni mynd og gjörði hann karl og konu.

Hið almenna bréf Jakobs, pistill dagsins, leggur síðan áherslu á að trúnni fylgja verk. Við sem kristnir einstaklingar eigum að lifa okkar trú. Ekki aðeins vera heyrendur orðsins heldur gerendur þess. Iðka þann kærleika sem orðið boðar, iðka það réttlæti sem Guði er þóknanlegt. Jakobsbréfið gefur dýrmæta leiðbeiningar til hins kristna samfélags. Það að iðka bænagjörð og lestur hefst hjá okkur sjálfum, í þátttöku í kirkjunni líkt og í dag, sem og í lestri og bænagjörð á heimilum okkar.

Ef einhverjum líður illa þá skal hann biðja. Ef liggur vel á einhverjum þá syngi hann lofsöng, segir í Jakobsbréfinu. Trúarbænin gerir kraftaverk, og sem samfélag um hið heilaga skulum við einnig biðja fyrir hvert öðru, og þannig styrkja samfélagið í trú, von og kærleika.

Við skulum hér á eftir, ganga að borði Drottins með bænarorð á vörum og trúarhita í hjarta. Við skulum ganga til móts við Drottinn og þiggja þá blessun sem náðarmeðölin veita, Orðið, sakramentin og bænin. Líf í slíkum anda og í slíku samfélagi, getur verið líf í fullri gnægð.

Fyrir þá blessun sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.