Er þér slétt sama?

Er þér slétt sama?

Hvernig bregst fólk við orði Guðs? Á þrenna vegu: Með því að taka við boðskapnum opnum huga, hafna honum alfarið eða sýna tómlæti; “að láta sér fátt um finnast”. Í fljótu bragði kann hin afdráttarlausa höfnun að virðast erfiðust viðureignar, en svo er þó ekki endilega.

Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.

Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun. Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér. Matt 11.16-24

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hvernig bregst fólk við orði Guðs? Á þrenna vegu: Með því að taka við boðskapnum opnum huga, hafna honum alfarið eða sýna tómlæti; “að láta sér fátt um finnast”. Í fljótu bragði kann hin afdráttarlausa höfnun að virðast erfiðust viðureignar, en svo er þó ekki endilega. Dæmin sanna að fólk sem talað hefur hvað snarpast gegn kristinni trú á það til að snúast til hennar á afdrifaríkan hátt – minni á vin okkar Pál postula! Þar er oft hugsandi fólk á ferð, fólk sem ekki er hrætt við að taka afstöðu í lífinu og þess vegna breyta um skoðun við nánari athugun.

Hitt er öllu erfiðara viðfangs – að snúa fólki sem enga skoðun hefur. Við munum eftir orðunum í Opinberunarbók Jóhannesar: “Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur. En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum” (Op. Jóh. 3.15-16). Og hjá Matteusi guðspjallamanni lesum við þessi orð Jesú: “Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir” (Mt. 12.30). Tómlætið er einn versti óvinur kristninnar.

Í guðspjalli dagsins heyrum við hryggðarorð Jesú yfir þeim sem láta sér fátt um finnast. Það er alveg sama hvor aðferðin er notuð, hin þrumandi iðrunarpredikun Jóhannesar skírara, eða aðlöðunarleið Jesú í kærleika og umhyggju fyrir smælingjanum, fólkið lætur sem sér komi fagnaðarboðin ekki við.

Jesús tekur dæmi af svæsnustu borgum gamlatestamentisttímans, Týrus og Sídon og Sódómulandi, sem jafnvel í augljósri synd sinni voru þó betur settar en samtímastaðirnir Korasín, Betsaída og Kapernaum. Hvers vegna? Jú, vegna þess að íbúar hinna síðartöldu höfðu haft möguleika á að heyra og sjá og skilja nærveru Guðs en vísuðu undri lífsins frá sér með fálæti. Ábyrgð þeirra var því meiri þar sem þeir höfðu fengið tækifæri til að meðtaka kraft Guðs. En í staðin höfnuðu þeir honum í sinnuleysi og sýndu kærleiksboðskapnum algjört tómlæti. Yfir þessu hrópar Jesú í sársauka, og minnir með því á að kröfurnar eru meiri eftir því sem kunnáttan eykst.

Hvernig er þetta með okkur nútímafólkið? Hver eru viðbrögð okkar við Guði? Ábyrgð okkar, sem sækjum kirkju og hlýðum á kristna kenningu er sannarlega mikil. Við erum án afsökunar þegar kemur að kærleiksríkri breytni og ræktun trúarinnar, þar sem við þekkjum ást Guðs til okkar – og heimsins (sbr. Róm. 2). Við þurfum að láta boðskapinn hreyfa við okkur, breyta lífi okkar, leyfa orði Guðs ýmist að vekja með okkur hlátur eða grátur, dansandi lífsgleði eða sára iðran, allt eftir því sem við á um líf okkar. Við megum bara umfram allt ekki láta okkur fátt um finnast.

Kannski ber okkar kynslóð sömu einkenni og sú er engin viðbrögð sýndi við Jóhannesi og Jesú. Það er alveg sama hvaða mynd er dregin upp af Guði, hvort minnt er á skuldadagana, iðrunarþörfina, eða hina ríku ást skaparans. Mörgum er bara slétt sama.

Kristnin á sér mörg birtingarform, eins og við sjáum í hinum mörgu trúfélögum, svo sem Krossinum, Hvítasunnukirkjunni, Hjálpræðishernum, Þjóðkirkjunni, Kaþólsku kirkjunni og Orþódoxu kirkjunni, sem nú er að festa rætur hérlendis. Innan hverrar kirkjudeildar eru einnig ólíkar áherslur, eins og í predikun þeirra Jóhannesar og Jesú. Fyrir þetta skulum við þakka, því engin manneskja er “eins og fólk er flest” – öll erum við ólík og þurfum okkar eigin nálgun að fagnaðarerindinu. Vandinn felst ekki í hinu fjölbreytta stafrófi kristninnar, heldur í viðbrögðum þeirra, sem láta sér fátt um finnast. Í ritningartextum dagsins skynjum við sorg Guðs yfir þessu andvaraleysi mannkyns.

Hvers vegna lætur fólk boðskap kristninnar sem vind um eyru þjóta? Hvers vegna nær hvorki áminningin um syndina né opinberun kærleikans að komast í gegn? Kannski vegna þess að fólk þorir ekki að taka áhættuna á því að láta hreyfa við sér. Við manneskjurnar erum föst í viðjum vanans og viljum ekki láta breyta okkur. Maður veit hvað maður hefur, en ekki hvað maður fær, er stundum sagt. Og þó að lífið sé ófullnægjandi, vinnudagur langur og innantómur, fjölskyldulífið þreytandi, óánægjan kraumandi á öllum sviðum, finnst mörgum þó skömminni skárra að þrauka bara innan hins þekkta ramma. Jesús og Jóhannes gera kröfu til okkar, kröfu um endurskoðun lífsins, breytt munstur jafnvel, nýtt hugarfar. Hver þorir að taka þeirri áskorun?

* * *

Hér hefur verið rætt um tvenns konar boðun. Annars vegar höfum við predikun Jóhannesar skírara, sem lýsti réttlátri reiði Guðs og þörf mannsins fyrir iðrun. Hins vegar gefur að líta boðun Jesú í orði og atferli, hans, sem ekki aðgreinir sig frá hinu daglega lífi, heldur tekur þátt í því á kærleiksríkan og læknandi hátt. Þessar tvær leiðir eru ekki andstæður, heldur fylla þær út í myndina af Guði.

Hver er guðsmynd þín? Og hvernig hreyfir hún við þér? Eða réttara: Leyfir þú henni að hreyfa við þér?

Það er alltaf gagnlegt að skoða guðsmynd sína. Sum okkar sjá Guð sem reiðan pabba, sífellt í leit að göllum og mistökum svo hann fái refsað þessum vonlausu börnum sínum. Þessi guðsmynd skín m.a. í gegn í barnasöngnum: “Gættu að þér litla eyra hvað þú heyrir – því að Guð á himnum há, horfir litlu börnin á...”. Með öðrum orðum: Gættu þín á Guði!!!

Önnur sjá Guð sem dæmalaust eftirlátan pabba, endalaust fúsan að fyrirgefa og orðið synd er varla til í þeirra kristilega orðaforða. Þessi guðsmynd hef ég að gamni mínu kallað “koddaguðfræði”, þar sem Guð er eins og mjúkur svæfill eða dúsa sem stungið er upp í fólk við flest tækifæri. Það var þetta sem þýski guðfræðingurinn og píslarvotturinn Dietrich Bonhoeffer kallaði “hina ódýru náð” – “die billige Gnade”, boðun náðar sem gerir lítið úr alvöru lífs og dauða Jesú Krists.

Nálgun við hið sanna í málinu má auðvitað finna með því að skeyta þessum myndum saman og bæta við öllum hinum hliðum Guðs – að því marki sem við í okkar mannlega skilningi fáum það skynjað. Miklu ríkar en besti faðir eða móðir á Guð til handa breyskum börnum sínum óendanlegan kærleika, sem meðal annars kemur fram í því að börnin þurfa að læra sín mörk í hegðun og samskiptum. Hin réttláta reiði Guðs – eða kannski betra – harmur Guðs, sem kemur fram í guðspjalli og lexíu dagsins, er sorg lífgjafans, sem aðeins vill það besta fyrir afkvæmi sín, en fær ekki hrært þau til að fylgja hinum góða vegi.

Leyfum okkur að sjá skírar hið stórkostlega litróf Guðs – gæskuna, sem leiðir til iðrunar, eins og Páll postuli orðar það svo ágætlega (Róm. 2.4). Losum okkur við óttavekjandi mynd hins stranga Guðs eða útþynnta glansmynd hins góða sem engar kröfur gerir. Leyfum Guði að mæta okkur í öllum sínum mikilúðlega leyndardómi og leyfum okkur að láta það mót hræra upp í okkur. Það kostar kjark – því kannski þurfum við að læra nýjan dans þegar við heyrum tónlistina úr lífsins flautu. Og ef til vill þurfum við að staldra við og finna sorgina í hjartanu, harminn yfir töpuðu lífi, sem við með tómlæti og sinnuleysi höfum forðast að horfast í augu við.

Þannig snertir orð Guðs í dag einnig líf okkar, sem þó berum gæfu til að koma í kirkju, jafnvel á sumardegi sem þessum, þegar hálf þjóðin er á faraldsfæti. Við, sem þekkjum kærleika Guðs, þurfum alveg sérstaklega að halda vöku okkar – eins og við vorum minnt á síðast liðinn sunnudag – og skoða helst daglega samband okkar við Guð og hvernig það ber ávöxt í lífi okkar. Aðeins þannig getum við verið þeim sannur vitnisburður um kristna trú, sem ekkert vilja um hana hirða.

Hvaða árangur það ber, veit enginn – utan Guð. Meira að segja þeir stórfrændur Jóhannes og Jesús urðu fyrir vonbrigðum með viðtökurnar æ ofan í æ. Annar var gagnrýndur fyrir að setja sig fyrir utan mannlegt samfélag, hinn fyrir að vera of félagslyndur. Þannig munu gleðifréttirnar áfram þurfa að víkja fyrir ólund og afskiptaleysi kjarklausra manna, sem sýna þau viðbrögð ein að snúa út úr og forðast sannleikann. Gætum þess aðeins að vera ekki í þeim hópi. Verum ekki völd að harmi Guðs en leitum hjálpar frelsarans á hinum hála vegi lífsins.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

10 sd. e. trin. (B): Jes. 5.1-7, Róm. 9.6-9, 14-18, Matt. 11. 16-24 Predikun í Hallgrímskirkju 31. júlí 2005 Sr. María Ágústsdóttir