,,Á leiksviði fífla svo stóru.” Lér konungur í Þjóðleikhúsinu

,,Á leiksviði fífla svo stóru.” Lér konungur í Þjóðleikhúsinu

Lér konungur er nærgöngult og sígilt leikverk svo sem fleiri verk Shakespearse. Það afhjúpar þverbresti í mannlífi og ágalla, er afskræma, nái þeir yfirtökum, atgervi og hæfileika svo að trúnaður og elska víkja fyrir undirferlum og svikum og völd og áhrif leiða til hörmunga.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
04. febrúar 2011

Lér konungur

,,Lér konungur fjallar um mikil áföll, sem ríða yfir hvert á eftir öðru. Íslenskt samfélag hefur sannarlega orðið fyrir alvarlegu áfalli”, segir Benedict Andrews, leikstjóri, þegar hann er spurður að því í viðtali, hvers vegna hann hafi haft hug á því setja upp leikrit W. Shakespeares um Lé konung hér á landi.”,, Slíku áfalli fylgir óhjákvæmilega sorg yfir miklum missi. Þau gildi sem voru ríkjandi hafa glatast, öryggið og vissan hverfa. Slíkur missir kallar á þá spurningu hvernig nýtt samfélag eigi að vera.”

Lér konungur er nærgöngult og sígilt leikverk svo sem fleiri verk Shakespeares. Það afhjúpar þverbresti í mannlífi og ágalla, er afskræma, nái þeir yfirtökum, atgervi og hæfileika svo að trúnaður og elska víkja fyrir undirferlum og svikum og völd og áhrif leiða til hörmunga.

Bláar, hvítar og rauðar blöðrur á sviðinu í upphafi leiks minna á íslenska fánann. Þær gefa einnig til kynna mannfjölda og kraðak, drunur og óhljóð, þegar þær springa. Sviðsmyndin, sem er einföld og beinlínis hrá, skerpir umfjöllunarefni og atburðarrás leikverksins. Leiklýsing Lér konungur er mikill harmleikur, en leikskáldið slær þó á létta strengi í verki sínu, sem gera það bærilegra en annars væri. Beinskeyttur fíflaskapur fífls Lérs (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) er sem ljóstýra í myrkri, sem sýnir áttavillu og rangan veg. Ógæfuferlið hefst, þegar Lér konungur aldraður (Arnar Jónsson) skiptir ríki sínu á milli dætra sinna þriggja, Gónerílar sem er elst, (Margrét Vilhjálmsdóttir) Reganar, sem er í miðið (Védís Hrefna Pálsdóttir) og Kórdelíu, sem er yngst. (Álfrún Helga Örnólfsdóttir) Hann telur þær elska sig og virða en vill samt að þær keppi um það að tjá sem best hug sinn til hans. Tvær þær elstu skjalla föður sinn fagurlega, svo að ekki verði efast um ást þeirra og þeirra hlutur verði sem stærstur, en Kordelía, sem hefur þó verið í hvaða mesta uppáhaldinu, getur ekki leikið það eftir þeim heldur segir sem er, að hún elski föður sinn svo sem vera beri en hvorki meira né minna en uppsker fyrir það andúð hans, afneitun og arfleysi. ,,Ég hafna því að við tengjumst böndum blóðs”, segir Lér við hana ,,og framandi tel ég þig hjarta mínu... fyrrverandi dóttir.”

Við svo hastarleg viðbrögð rofna fjölskyldubönd, sem kann þó að sýna hve veik þau hafi verið og byggst fremur á skyldukvöð og valdboði en nærandi ást og umhyggju. Krafa Lérs um keppni dætranna vottar ónærgætni og skilningsleysi hins óbilgjarna og fyrrta konungs enda skilur hann ekki munninn á falsi og tryggð. Eldri dæturnar hafa ekki samúð með útskúfaðri systur sinni og fagna auknum hlut af ríkinu stóra. Jarlinn af Kent (Pálmi Gestsson) fylgist með hvernig Kordelía er leikin. Hann andmælir ranglætinu, kemur henni til varnar og segir við Lé ... ,,ég fullyrði með líf mitt að veði að yngsta dóttir þín elskar þig ekki minnst. Varla er tómt það hjarta er hljómar lágt en bylur ekki”, en hlýtur fyrir óþökk og höfnun konungs, sem segir við hann. ,,Á sjötta degi skaltu á bak og burt úr ríki mínu.” ,,Farðu vel kóngur”, segir Kent, ,,fyrst sá þinn vilji er.” Kordelía verður að treysta á eigið atgervi fremur en auð og völd til að laða til sín vonbiðla. Frakkakonungur hlýtur hana enda segir hann: ,,Fagra Kordelía, í fátækt þinni ertu ríkust, forsmáð göfugust, fyrirlitin dáðust. Þig og dyggðir þínar girnist ég.”

Samhliða því, sem þessir viðburðir marka Lé óheillastefnu, er greint frá jarlinum af Glostri (Eggert Þorleifsson) og sonum hans tveimur, Játgeiri skilgetnum og eldri (Atli Rafn Sigurðarson) og Játmundi. (Stefán Hallur Stefánsson) Hann er óskilgetinn hórusonur en þó mjög elskaður af föður sínum. Hann hefur verið fjarri erlendis í níu ár og stefnir aftur utan. Jarlinn talar til Játmundar í hálfkæringi og skopast að uppruna hans og stöðu, sem undan hlýtur að svíða enda Játmundur gjörvulegur ásýndum. ,,Undir mér var það komið að hann kom undir. Svo margoft hef ég blygðast mín fyrir að gangast við honum að ég er farinn að sjóast”, segir hann í upphafi leikverksins, er hann kynnir Játmund fyrir Glostur jarli. Þessi orðaskipti koma ekki fram í sýningunni. Sá sársauki og særða stolt, sem slík orð hafa valdið, skýra best óbeislaðan metnað Játmundar og sviksemi hans, er rægir Játgeir við föður þeirra með fölsuðu bréfi. ,,Er ég óæðri en hann?”, spyr Játmundur sjálfan sig? Jafn vel er ég þó vaxinn og skynugur, jafn vel af Guði gerður og giftrar konu sonur. Af hverju erum við brennimerktir bastarðsnafni og smán, við sem náttúruleg þörf og stolin gredda gaf meira þrek og þrótt og táp og fjör en fer í heilar ættir ónytjunga...? ”

Styttingar og úrfellingar á leiktextanum í sýningu Þjóðleikhússins á Lé konungi valda því að samhengi leikverksins rofnar nokkuð. Leikhúsgestir fylgja því ekki alveg fléttu verksins og þráðum nema hafi kynnt sér efni þess áður. Þýðing Þórarins Eldjárns er gerð af mikilli leikni og nær hljómi við samtímann án þess að frumtextinn rýrni verulega. Hún er þó á stundum groddaleg og samræmist þá ekki glæstum frumtextanum, sem aldrei verður lágstéttarenska eða götuslang. Þýðingin nýja jafnast enda ekki að hljómfegurð og orðkynngi á við eldri þýðingu Helga Hálfdánarsonar.

Loft er lævi blandað. ,,Þessir síðustu myrkvar á sól og mána vita ekki á gott”, segir Glostur jarl við Játmund. ,,Náttúruvísindi hafa ýmsar skýringar... Ást kulnar, vinir bregðast, bræður deila... milli sonar og föður bresta bönd.” Játmundur er þó nógu glöggur til þess að afneita slíkri afsökun fyrir ábyrgðarleysi, dáðleysi og illvirki og segir: ,,Svona er nú veröldin dásamlega heimsk. Þegar við gerumst sjúk af velmegun- oftast vegna eigin græðgi -kennum við sól, tungli og stjörnum um ófarir okkar, rétt eins og við værum óþokkar af nauðsyn...” ,,Ég erfi ekki land, þess aflar kænskan mér”, segir hann skömmu síðar, eftir að hafa enn blekkt Játgeir, ,,enda geri ég til þess hvað sem er.” Við hann segir Játmundur annað en við föður þeirra og talar um gildi spásagna af himintunglum enda ógna þeir og hræða, er hentar áformum hans. ,,Það er á hreinu”, segir hann við Játgeir, ,,að þau áhrif sem spáð er leiða til hörmunga. Það er óeðli milli barns og föður, dauði og nauð, fornir vinir berjast, róstur í ríkinu... hjúskaparbrot og ég veit ekki hvað.” Úthugsuð áform og verk Játmundar leiða til þess að allt gengur þetta eftir, en hann víkur sér undan ábyrgð á því með því að kenna óræðum öflum og örlögum um.

Lér hyggst dveljast til skiptis hjá dætrum sínum ,,góðu” með hundrað manna lið og væntir þess að geta haft ,,farsæl áhrif “ á framvindu mála en kemst fljótt að öðru. Myrka hliðin á Góneríl sýnir sig fljótt. Hún vill lítið hafa af föður sínum að segja: ,,Hann er mér til ama alla daga, sí og æ með allskyns yfirgang sem illindi vekur”, segir hún við þjón sinn Ósvald (Ólafur Egill Ólafsson) og sendir hann af stað með bréf til Reganar systur sinnar, svo að hún fylgi henni að málum.

Fíflið skartar skrautlegum fíflabúningi og staðhæfir með orðum og látbragði sínu, að konungurinn sé sjálfur orðinn verulegt fífl. Hann hafi klofið sína krúnu í tvennt eins og egg sem innan úr sé tekið. ,,Nú ertu bara núll og níx. Ég er orðinn þér meiri, ég er fífl en þú ert ekkert.”, ,,Ertu dóttir mín?”, spyr Lér Góneríl, þegar hún hefur talað um forréttindafíflið hans og uppvöðsluseggi og hótað hörku. ,,Þekkir mig nokkur hérna?” ... ,,Hver er það sem getur sagt mér hver ég er.?”, spyr hann ráðvilltur? Og fíflið svarar: ,,Skugginn af Lé...” ,,Þú hefðir ekki átt að verða gamall fyrr en þú værir orðinn vitur.”

Er Góneríl lýsir liði föður síns sem ruddum, ribböldum og dónum og vill fækka þeim um helming, bregst hann illur við og kvæsir: ,,Söðlið þið klárana, Kallið saman liðið. Hórgetna drusla, ég hætti að angra þig. Aðra dóttur á ég ”... ,,Andstyggilega lygaskjóðan þín! Lið mitt skipa aðeins úrvalsmenn.” Hann sparar Góneríl ekki bölbænirnar og biður náttúruna að gelda hennar kvið ,,en ef hún gýtur samt, þá gerðu henni úr því barni böl sem lifi og valdi henni kröm og kvölum heiftarlegum.”

Dulbúnum tekst jarlinum af Kent (nefndur Kent) að gerast þjónn Lérs og sýnir hollustu og ávinnur sér traust enda reynist hann sauðtryggur allt til loka. Pálmi sýnir tryggðina vel, en dulbúningur Kents er þó ekki annað en jólasveinaskegg og breytir honum lítið. Lér sendir hann með bréf til Reganar í Glosturborg, þar sem hún dvelst ásamt manni sínum hertoganum af Kornvall. (Baldur Trausti Hreinsson) Þeim Kent og Ósvaldi lýstur saman og Kornvall hertogi lætur setja Kent í gapastokk, sem sýnir með öðru hve Lér konungur er nú lítils virtur. Þegar hann kemur sjálfur á vettvang, trúir hann þessu naumast og segir: ,,Voðalegri en morð er vanvirða slík og ofbeldi gegn kóngi.”

Játmundur villir enn um fyrir föður sínum, sem leggur trúnað á orð hans um að Játgeir vilji hann feigan. Játgeir, sem er á flótta, dulbýst sem fáráðlingurinn Tommi Klikk. Sú umbreyting tekst vel á sviðinu og Atli Rafn sýnir glöggt hve mjög er að Játgeiri sorfið.

Regan vill að faðir hennar fari aftur til Gónerílar en Lér þvertekur fyrir það. ,,Og henda burt fimmtíu manns? Ég hafna frekar sérhverju þaki og kýs að heyja stríð við áhlaup illra veðra, að gerast förunautur úlfs og uglu...” ,,Ég bið þig, dóttir, gerðu mig ekki galinn. Ekki skal ég angra þig meir, vertu sæl”, segir hann við Góneríl, sem líka er komin til Glosturborgar. Regan er enn harðari við föður sinn og vill ekki taka við fjölmennara en tuttugu og fimm manna liði. Þær systur eru nú í öndverðu hlutverki við það, er þær vottuðu föðurást sína með blíðmælgi. Nú bjóða þær niður. Þær telja hirðmenn sína alveg duga til að stjana við föður þeirra. ,,Til hvers þarf einn?”, spyr Regan. ,,Með ánægju veiti ég húsaskjól honum sjálfum en engum fylgifiski.” ,,Endilega, ekki hvetja hann til að gista”, segir Góneríl. ,,Læsið nú dyrum, lævi er blandin nótt. Ráðagóð er Regan: Förum í skjól”, segir eiginmaður hennar.

Lér rýkur á burt óður af bræði og fíflið eitt með honum, ,,sem stritar stanslaust við spaug svo læknist kramið hjarta.” Lér storkar æðandi óveðrinu, ,,Blásið vindar,.... dembist flóð og dynjið vítt og breitt,.. Skelfilega skrugga... Brjóttu lífsins deiglu, fargaðu fræjum, sem fæða af sér vanþakklæti manna.” Mikið sturtuflæði býr til illviðri í fjörutíu mínútur með drunum á sviðinu, hreinsandi og afhjúpandi í senn. Hávaðinn veldur því að leiktextinn fer mjög forgörðum. Arnar veldur því þó öðrum betur að láta í sér heyrast og sýnir vel glímu Lérs, ekki við óveðrið fyrst og fremst heldur stríðandi huga og tilfinningar. Kent hefur upp á kóngi og bendir honum á að kofi sé í grennd, ,,sem veitir þér gegn veðurofsa skjól.” ,,Þetta er sko nótt til að kæla hefðarhóru”, segir fíflið.” ,,Nú flyt ég spádóm áður en ég fer: Þegar guðsmenn tala - en gera minna... í buddurnar sýna okkur svíðingar og saurlífsfólk byggir kirkjurnar, þá er Albíons veldi í voða statt vaxandi upplausn magnast hratt: En eftir þetta, að ég tel, allt mun á fótum ganga vel.”

Lér kvartar ekki yfir veðrinu, ,,Veðurofsi hugans nemur allar aðrar kenndir burt...” ,,Já, ausið þið bara. Ég þrauka... ,,Ó, Regan, Góneríl, aldraður faðir eftirlét ykkur allt ... Sú tilhugsun gerir mig brjálaðan.” Það er sem hann ranki eitthvað við sér og segir við fíflið, sem vill að hann komi sér í skjólið. ,,Svona inn með þig, ég ætla að biðja og sofna svo, og fyllist þá skyndilega samkennd með bágstöddum og spyr: ,,Nakið tötrafólk sem út um allt má þola áhlaup þessa grimma storms berhöfðað með rifjahylkin horuð í gatslitnum flíkum, fær það nokkurt skjól gegn slíkum veðrum? Vanrækt hef ég að leiða hugann að því... prófaðu sjálft það sem lýðurinn má reyna og veittu honum síðan ögn af ofgnótt þinni svo hann geti sannreynt mildi himins.” En hvern ávarpar Lér? Guð?, goðmögn? eða bara sjálfan sig?

Játgeir er í skúrnum nær nakinn sem Tommi klikk. Skúrinn er tómur gámur á sviðinu. ,,Draugur, draugur,” segir fíflið. ,,Hann segist heita Tommi greyið.”,,Gafstu dætrum þínum allt? Og er nú svona komið fyrir þér?”spyr Lér. ” ,,Þessi kalda nótt gerir okkur alla að fíflum og vitfirringum”,staðhæfir fíflið. ,,Betur værirðu kominn í gröfinni en að þurfa nakinn að mæta þessum ofstopa himnanna,” segir Lér og spyr: ,,Er þá maðurinn ekkert meira en þetta?” Skoðið hann vel.” Lér flettir sig klæðum til að sýna hinum klikkaða samstöðu sína. ,,Svona, svona, frændi”, segir þá fíflið, ,,Þetta er ansi kaldsöm nótt til að iðka sund.”

Glostur jarl trúir Játmundi syni sínum fyrir bréfi, þar sem fram kemur að herafli sé stiginn á land til að rétta hlut konungs og lýsir því yfir að þeir verði að standa með honum. Játmundur sér sér þá leik á borði og segir við sjálfan sig. ,,Um þessa forboðnu hjálp fær hertoginn strax allt að vita og eins um þetta bréf...” ,,Það sem aldraðir glata ungir hljóta að fá.”

Jarlinn kemur að skúrnum. Hann hefur leitað að kóngi, þótt konungsdætur hafi skipað fyrir um að skella fast í lás og hrekja hann í hramma trylltrar nætur. Hann þekkir þar samt ekki son sinn í gervi Tomma klikk enda æði hans og orð undarleg: ,,Tommi greyið sem étur frosk á sundi, halakörtu og pöddu, eðlu á vegg og í vatni, sem tryllist í hjarta þegar djöfullinn flár hleypur í hann.”

Játmundur ber svik á jarlinn föður sinn gagnvart Kornvell hertoga. ,,Þetta er bréfið sem hann talaði um sem sannar að hann er flugumaður Frakka...” ,,Hvort sem það er rétt eða rangt hefur það gert þig að Glosturjarli”, segir hertoginn. ,,Hafðu nú uppi á föður þínum svo að hægt sé að taka hann fastan.”

Lér heldur fíflaréttarhöld yfir dætrum sínum í skúrnum og gerir fíflið og Tomma klikk að dómurum, en Glostur jarl biður Kent að fara með Lé til Dover og fer að sækja vistir. Hertoginn af Kornvall gefur þá skipun um að handtaka hann. ,,Heyrið mig nú, þið eruð mínir gestir, góðu vinir, og getið ekki meitt mig.” Þessi hneykslunarorð jarlsins breyta engu. Regan reytir skegg hans og hertoginn ákærir jarlinn fyrir að hafa samið við svikarana, sem stignir séu á land, og Regan gerir það einnig fyrir að senda klikkaðan kónginn til þeirra. Af hverju Dover?, spyr hún. ,,Ég vildi ekki sjá þig klóra með nornarnöglum burt vesalings augun gömlu”, svarar jarlinn, ,,né Góneríl tryllta læsa rándýrsklóm í smurðan konung.” Hertoginn lætur þá halda jarlinum og kremur úr honum auga og Regan segir: ,,Hann er svo hlálega einsýnn. Út með hitt.” Þjóni hertogans blöskrar þetta hátterni og særir hann banasári. Regan drepur þjóninn með sverði. Hertoginn krækir þá hitt augað úr jarlinum. ,,Myrkur án huggunar”, hrópar jarlinn. ,,Sækið Játmund son minn.” Regan svarar því: ,,Hah, gamla skeppna! Þú kallar á þinn helsta hatursmann. Hann er sá sem svik þín afhjúpaði.” Jarlinn rankar þá við sér: ,,Heimskur er ég! Og ég hef svikið Játgeir: Fyrirgefið mér, guðir, og liðsinnið honum!” Þessi átakamikla sena í leikverkinu er vel unnin í sýningunni og blæðandi augnatóftir jarlsins óhugnanlegar.

Sýningin byrjar eftir hlé með voldugum trommuslætti fíflsins. Ólafía Hrönn slær bestu trommuslögurum við með tryllitækjunum og leikhúsgestir fjörgast. En hvaða hlutverki táknar þessi gjörningur í sýningunni? Er hann flott kveðja fíflsins, sem ekki kemur meira við sögu enda færist hún til Dover. Eða er verið að boða að stríðátök séu að hefjast, svo sem atburðarás leikritsins og textinn gefa til kynna? Þau átök geta ekki verið fjör og gaman og hefði þurft að boða með ógnvænlegri hætti. Við fíflalætin tapa áheyrendur ákveðnum tengslum og takti við framvindu verksins.

,,Ég er vegalaus og þarf því engin augu: Ég hrasaði meðan ég sá.”segir jarlinn hryggur. Játgeir sem Tommi klikk ætlar að leiða blindaðan föður sinn til Dover enda þekkir hann þangað eins og hann segir sjálfur: ,,Hvert þrep og hvert hlið, hvern reiðveg og gangstíg.” ,,Það eru ógæfutímar, óðir leiða blinda”, segir jarlinn. Hann vill komast til Dover að háu og þverhníptu bjargi.

Góneríl hefur átt vingott við Játmund og biður hann að fara til mágs hennar og hvetja til vígbúnaðar. Fram kemur í samræðum hennar og hertogans af Alban að hjónaband þeirra er í molum. ,,Æ, Góneríl, þú ert varla ryksins virði”,segir hann...,,Manneskja sem smánar eigið upphaf hvílir aldrei trygg í sjálfri sér.” Og hún svarar: ,,Þvílík raunarolla...Geðlausa drusla og gunga.”

Franskur marskálkur stýrir innrásarliði Frakka, því að Frakkakóngur verður sjálfur að snúa við. Kordelía er með liðinu og hefur fengið bréf frá Kent og frétt af fólsku systra sinna. Lér er þó tregur til að hitta hana. ,,Hann blygðast sín svo fyrir eigin illsku “, segir Kent. Kordelía fréttir af því, að menn hafi orðið varir við Lé trylltan og syngjandi með kórónu úr snarrót, netlum, njóla og lyngi, hundasúrum, óðjurt, arfa og blöðkum. Arnar sýnir Lé tilkomumikinn í þessu skarti og fer á kostum. ,,Hvað megnar mannleg viska til að batni bilað geð hans aftur?, spyr Kordelía sjálfa sig. Þegar henni berast tíðindi af því að herir Breta séu að koma segir hún: ,,Við vígbúumst ekki af valdafíkn og drambi heldur af ást og rækt við rétt míns föður.”

Játgeir, enn í hlutverki Tomma klikk, segir jarlinum föður sínum, að þeir klífi upp hátt bjarg við Dover, þótt honum þyki það flatt. ,,Hér er staðurinn, stattu kyrr, mann sundlar”, segir Játgeir. ,,Hve ógnvænlegt að horfa á hengiflugið,..sigmaður hangir, og tínir grös í þverhnípi... Fiskimenn rölta um fjöruna eins og mýs. Og þrímöstruð skúta er þarna við akkeri.” -,,Ó, miklu máttarvöld! Nú kveð ég þennan heim, fyrir augliti ykkar... Blessið þið Játgeir ef hann er á lífi!”, segir jarlinn áður en hann kastar sér fram af því sem hann trúir að sé hátt bjarg. Öll er þessi sena grátbrosleg svo sem glöggt sést, er þeir feðgar klífa ,,bjargið” á sléttu sviðinu.

Játgeir, er þykist vera aðkomandi maður undir bjarginu, segir við jarlinn, sem fallið hefur fram fyrir sig í gljúpan sand. ,,Þú hlýtur að vera úr lofti, lopa og fiðri- að steypast úr svo hrikalegri hæð og brotna ekki eins og egg,.. þú ert heill á húfi og talar.” ,,Æ, ég er augnalaus”, segir jarlinn og spyr: ,,Er vesalingum neitað um þá náð að stytta sér aldur?” Lér kemur á vettvang skrýddur allskyns gróðri. ,,Þennan róm ég þekki vel og man. Er þetta kóngurinn?, spyr jarlinn og er svarað: ,,Kóngur út í gegn. Þegnar skjálfa þegar ég ygli mig.” Þegar Lér biður jarlinn að lesa segist hann ekkert geta lesið með tómum augnatóftum. ,,Samt sérðu hvert heimurinn stefnir,” segir kóngur. ,,Það þarf ekki augu til að sjá það. Horfðu með eyrunum. Sjáðu hvernig dómarinn þarna hellir sér yfir auman smáþjóf. Hvísl í eyra, makaskipti, legg í lófa kalls kalls og hvor er nú dómari og hvor þjófur?” Það er sem sturlunin hafi gert Lé skyggnan á fals og fláræði enda segir hann: ,,Falsara hengir okrari. Gatslitnar flíkur geta ekki dulið þá synd sem skikkjur og loðfeldir leyna... Við fæðingu við förum strax að gráta að lent við skulum á leiksviði fífla svo stóru.” Fífl Lérs er samt fjarri. Allt er orðið svo dapurt og kostulegt, að þess þarf ekki lengur. Riddaralið kemur á vettvang og sækir Lé.

Ósvaldur, sem ber bréf frá Góneríl til Játmundar, kemur auga á jarlinn og hyggst ganga frá honum og uppfylla með því ósk hennar. Játvarður snýst til varnar og særir Ósvald til bana og kemst yfir bréfið, þar sem Góneríl hvetur elskhuga sinn til að ganga frá eiginmanni hennar.

Kent tekst að koma Lé í búðir Kordelíu, sem borinn er í stól fram fyrir hana og hefur verið klæddur í viðeigandi föt. Lér segir, að hún hafi ástæðu til að gera honum illt. ,,Nei, ekki neina, ekki neina,” svarar hún... ,,Umberðu mig nú”, biður hann, ,,gleymdu og fyrirgefðu gömlum fáráðlingi.” - Átök eru að hefjast. ,,Hvort allt gengur mér andstætt eða í hag fer eftir því hver sigra mun í dag,” segir Kent. Góneríl og Regan keppast um hylli Játmundar. ,,Ég tæki því betur að tapa þessu stríði”, segir Góneríl við sjálfa sig, ,,en tapa slag við systur mína um hann.” Hertoginn af Alban segist ekki kunna að slást nema fyrir göfugum málum, en nú telur hann rétt að berjast út af innrás ,,Frakkans”, en ekki vegna þess að hann veiti konungi lið. ,,Hér þarf samstöðu okkar gegn óvinaher”, segir Góneríl ,,en heimiliserjur og hrepparígur eru ekki við hæfi.”

Játmundur hefur svarið báðum systrunum ást sína en hefur þó einkum eigin valdaáform í huga og ætlar sér að nýta afl Alban hertoga ,,fyrst í orustunni en svo verður hún sem vill hann dauðan strax að láta hann gossa.”

Játgeir flytur jarlinum þau döpru tíðindi, að Lér konungur hafi tapað orustunni og Kordelía og hann séu fangar og vill að þeir hraði sér á brott. ,,Réttast að rotna hér”, svarar jarlinn. ,,Hugsjúkur enn og aftur?” spyr Játgeir og segir svo: ,,Menn verða að þreyja brottför sína héðan og hingaðkomu. Þroskinn er allt.” Lér og Kordelía ræðast við sem fangar og hún segir: ,,Víða sér þess vott: Hið versta býðst oft þeim sem stefna á gott.” Fönguð reyna þau að styrkja hvort annað. ,,Hver sem vill skilja okkur að þarf eld af himnum..,segir Lér huggandi við dóttur sína...,,Gráttu ekki meir. Góðærið mun gleypa þau í heilu lagi.”

Játmundur fær höfuðsmanni það verkefni að færa þau feðgin í tukthús og ganga þar frá þeim, en Alban hertogi vill að fangarnir séu framseldir svo að hljóti þá meðferð sem hátign þeirra sæmi. Það leiðir til ýfinga við Játmund og togstreitu systranna, ástkvenna hans. Regan kveinkar sér vegna innanmeina. ,,Æ, veik, ég er veik.” Og Góneríl gefur afsíðis skýringuna. ,,Já, annars væri lítið gagn að lyfjum.” Alban hertogi sakar Játmund um svívirðileg svik enda sýni bréf, að hann hafi játast Regan, og skorar hann á hólm. Kallari les upp formlega tilkynningu og kall til hersins við lúðurþyt svo að hver þar, sem haldi því fram, að Játmundur sé margfaldur svikari, geti gefið sig fram. Játgeir birtist við þriðja lúðurhljóm, herklæddur með hjálmhlíf, sem í sýningunni virtist einfaldlega vera lambhúshetta. Hann segir ekki til nafns en ber svik á Játmund: ,,...þrátt fyrir...nýja skyndigæfu og sigursæld... þá ertu svikari, falskur við guðina, föður þinn og bróður og bruggar launráð þessum háa herra.”

Er þeir vegast á, fellur Játmundur helsærður og játar þá misgjörðir sínar. ,,Allt sem þú sakar mig um það hef ég gert. Og miklu fleira, sem tíminn leiðir í ljós.” Játgeir segir til sín, tekur ofan hjálminn og greinir frá því, sem hent hefur hann í dulargervinu. Hann hafi þó ekki sagt blindum föður sínum af sér fyrr en búist hafi til að berjast. ,,Ég hafði um sigur von en ekki vissu og bað hann því um blessun,... en hjartað hrjáða þoldi þá ekki...að sveiflast með slíkum öfgum milli gleði og sorgar, hann brosti og svo brast það.”

Riddari kemur með blóðugan hníf. Er Aban hertogi spyr hver sé dáinn, fær hann svarið: ,,Konan þín, herra, frúin og systur sinni byrlaði hún eitur áður. Hún játaði það.”

Til að reyna að gera góðverk við dauða, biður Játmundur um að farið sé til hallar til að forða lífláti Lérs og Kordelíu og sverðið hans sýnt höfuðsmanninum til sannindamerkis. Í átakanlegri senu í leiksýningunni sést Kordelía hanga í snöru upp við vegg og Lér taka hana ofan. Lér vonast til að lífsmark sé enn með henni en sú von bregst: ,,En sé það satt þá bætir sú gæfa og græðir allar sorgir gjörvallrar ævi minnar”... Ég gat vel hlíft henni, hún er nú farin um eilífð... Ég drap hann þrælinn sem hengdi þig.”

Lér fær að vita, að Kent hafi liðsinnt honum í þrengingunum í gervi þjónsins Kajusar. Lér nær að þakka, rétt áður en hann yfirkominn af harmi gefur frá sér andann. Játgeir vill að hann opni augun en Kent segir: ,,Nei, leyfið nú anda hans að fara í friði. Grimmilegt væri að láta hann engjast lengur á lífsins kvalabekk. ,,Berið þau héðan,” biður Alban hertogi. ,,Hér skal lýsa yfir þjóðarsorg en síðan, vinir tveir, þið setjist við stjórnvöl og reisið landið við.” Harmleikurinn endar á orðum Játgeirs, sem í frumtextanum eru svona: “The weight of this sad time we must obey,/ Speak what we feel, not what we ought to say./ The oldest hath borne most; we that are young/ Shall never see so much, nor live so long.”

Þórarinn þýðir svo og gerir vel: Hörmungartímum við hljótum að gera skil, hug okkar segjum, í stað þess sem ætlast er til. Sá elsti bar mest og við sem erum ung vonum að ævin verði ekki jafn löng og þung.” Helgi þýddi þannig og gerði ekki síður vel: ,,Sé gæfa og réttur borinn fyrir borð, er betra að tala sönn en fögur orð. Hið þyngsta bar sá elzti; vér, þeir ungu, fengum þó aldrei, fargi lyft svo þungu.” Túlkun og mat

Harmleikur W. Shakespeares, Lér konungur, er átakanlegur en jafnframt innihaldsríkur. Telja verður að hann spegli að nokkru samfélagsmynd ritunartíma síns enda þótt taka muni mið af breskri arfssögn og hafi sígildar skírskotanir. Grimmd og miskunnarleysi fara ekki leynt, gapastokkar og kvalræði, togstreita og ýfingar meðal aðals- og yfirstéttar. Svik og undirferli búa um sig, eiturmorð tíðkast og vígaferli. Verkið vitnar um upplausn siðferðilegra viðmiðana og lífsgilda, sem gæti verið dæmigert fyrir tíðarandann á Englandi á öndverðri sextándu öld og í byrjun þeirrar sautjándu. Endurreisnin setti manninn í öndvegi og mannhyggjan virkjaði atgervi og hæfni til fjölþættrar listsköpunar í anda menningararfs Grikkja og Rómverja. Afstæðishyggja í trúarhugsun og siðferði fylgdi í kjölfarið, er veikti stöðu Rómarkirkjunnar. Siðbreytingin var um margt afleiðing þessa og dró úr forsjá kirkjuvalds yfir samvisku og skoðunum. Blóðugar trúarstyrjaldir drógu enn úr áhrifum trúar- og kirkju á siðferði og breytni. Efahyggja og vélræn heimsskoðun túlkuðu vélrænt hreyfingar himintungla og fyrirbrigði á jörðu og gerðu Guð óþarfan í heimsmyndinni, þótt hindurvitni stjörnuspeki og galdrafárs létu líka á sér kræla. Guðstrú kemur við sögu í Lé konungi en engan veginn sem rótföst kristin trú heldur svimkennt fálm í fjölgyðismynd. Vísað er til guða og æðri máttarvalda, svarið við Júnó og Júpiter, refsiguðir eru ákallaðir og dulmögn. Játgeir ákærir t.d. Játmund um að vera svikara og falskan við guðina.

Nær auð sviðsmyndin í sýningu Þjóðleikhússins skerpir inntak og kjarna leikverksins, sem eru siðferðileg áttavilla og afhjúpun á tign og ytra valdi, sem er vanmáttugt í sjálfu sér, þótt hreyki sér hátt. Shakespeare lætur ekki allar persónur verksins koma fram undir nafni og gæti með því vísað til þess að fleiri hagi sér á líkan veg. Gervi og klæðnaður sýningarinnar eru nýtískuleg og færa verkið og erindi þess nær samtíðinni. Systurnar Góneríl og Regan eru glæsi- og glanspíur á sviðinu og sómdu sér vel í hröðu og uppskrúfuðu viðskiptalífinu, sem til skamms tíma réði ferð og viðmiðunum í samfélaginu. Umhyggja og fórnfýsi eru þeim framandi, er þær ófyrirleitið beita kyntöfrum sínum og slægð til að svala girndum og metnaði sínum. Söguhetjan Lér, sem vill ekki láta niðurlægja sig, æðir út í veðurofsann, sem gerir hann bjargarvana og viti sínu fjær, sviptir hann tign og veldi og afklæðir líka. Með honum eru galsafengið fífl og dulbúinn útskúfaður jarl, sem var settur í gapastokk, og svo einnig fatalaust ungmenni, vitskert að sjá. Annar jarl og eldri bætist um stund í hópinn, en er síðar augnstunginn af tignum gestum sínum. Umsnúningur á valdi og þjóðfélagsstöðu er skjótur og mikill. Fíflið á enda sviðið, er grimmar aðstæður og illviðri gera alla að ,,fíflum og vitfirringum.”

Spurning Lérs, þegar hann skynjar nektina og skjólleysið, ,,Er þá maðurinn ekkert meira en þetta?”, er áleitin ávallt og eftirtektarverð. Andspænis æðandi náttúruöflum er mannskepnan oft lítils megandi, líka í samtíðinni þrátt fyrir mikla þekkingu og tækni. Tíðindi daganna á sjónvarpsskjáum birta það, skálfti í jörðu og eldvirkni, gosagnir í lofti og hvirfilvindar, ofviðri og æðandi flóð. En hrun og hörmungar verða líka af mannavöldum. Þegar ,,ást kulnar, vinir bregðast, bræður deila”, gliðnar burðarvirkið í samskiptum og samfélagi og eykst enn ef óeðli þrífst milli barns og föður (móður), dauði og nauð stigmagnast og fornir vinir berjast, róstur í ríkinu, ógnanir og illmælgi...hjúskaparbrot og ég veit ekki hvað.”

Efnahagshrunið var sem jarðskjálfti og hvirfilbylur, er skók íslenskt samfélag. Misbrestirnir í efnahagsuppbyggingunni hröðu, svikin og blekkingarnar sáust berlega eftir voðann. Hrunið gerði valdsmenn og drottnara, sem fyrr nutu glópagulls og vafurloga mammons-musteranna, að fíflum og dárum. Að fáum hvarflaði þó að athafna- og útrásarhetjurnar, sem heilluðu fjöldann með fjármálasnilli sinni og dreifðu fé á báða bóga, myndu brátt verða úthrópaðir glæpamenn og eiga yfir höfði sér tukthúsvist, enda þótt beiti öllum ráðum til að koma sér undan ámælum og afneiti, líkt og Játmundur lengstum í leikverkinu, allri ábyrgð á misgjörðum sínum.

Siðferðisrof og lögleysa spilla samskiptum og samfélagi. Það er ekki nýtt en alltaf jafn mikill sannleikur. Afdráttarlaus Guðstrú í Jesú nafni lýsir slíku sem synd og afleiðingum hennar, synd sem öðru fremur er rof á samskiptum við lifanda Guð sem uppsprettu sköpunar og lífs, samræmis og reglu í tilverunni. Afleiðingin er myrkvun og villa, neyð og þraut, sorgir og harmur, sem gera lífsgönguna oft að þjáningarvegi og ,,kvalabekk.” - Fláræði og svik eru örlagavaldar í harmleikjum Shakespeares. Svo er oft á stjórnmálasviði og sýnd og reynd þar sitthvað, líka í samtíðinni þótt frelsi og lýðræði sé hampað. Wikileaks leyniskjölin afhjúpa undirferli og sviksemi, er þrífast vel í því skjóli og stríðseldar loga jafnframt því sem lýðræðisást og friðarþrá eru sögð stýra gjörðum. Munu upplýsingar skjalanna breyta einhverju, þegar frá líður og valda uppgjöri og umskiptum, er auka heillindi og gegnsæi í samskiptum þjóða? Verða þær annað og meira en dægurflugur, sem flögra hjá en svo fer allt í sama horfið? Hörmungar og misyndisverk verða þá enn bara fréttir í fjölmiðlum og svo skemmtiefni í kvikmyndum. ,,Sá friður sem við þráum/ festir ekki rætur í heiminum./ Sviði úrræðaleysis smýgur/inn í smæstu bein okkar, því að/ enn fossa tímarnir/ fram af hvassri brún:/ flyksur blóðs og vopna.” (Fyrir kvölddyrum: Hannes Pétursson)

Harmleikurinn lýsir atburðarrás, sem á sér upphaf og orsakir, er til ills leiða. Þau, sem illu valda, falla vegna eigin verka, en verra er, að aðrir sogast inn í voðaferlið, missa líf og limi. Saklausir gjalda fljótræðis og illra verka og samfélagið allt myrkvast og spillist. Lér vitkast á nýjan veg, þegar hann er sviptur viti sínu og hroki og stærilæti hans verða að víkja. Hann er hjákátlegur að sjá skreyttur jurtum og lífgrösum en samtengist þá lífríki og náttúru. Hann hugleiðir það, sem hann gerði ekki fyrr, bjargarleysi tötrafólks í æðandi stormi og grimmilegt hlutskipti þess. Lér segir blindum Glostur jarli að horfa með eyrunum og sjá hvernig dómarar þiggja mútur og dæma ranglega og hversu ,,gull og gersemar brjóta í sundur laganna sverð”, skikkjur og loðfeldir leyna syndum, en gatslitnar flíkur (smælingjanna) geta það ekki. Glostur jarl uppgötvar enda fyrst eftir augnamissinn sviksemi Játmundar. Ekki er ólíklegt, að orð Játgeirs við Glostur jarl föður sinn, þegar hann segir: ,,Menn verða að þreyja brottför sína héðan og hingað- komu, (líka þegar ótíðindi berast og kjör og líðan eru slæm), því að ,,Þroskinn er allt”, lýsi viðhorfum Shakespeares sjálfs til verks síns og sögulegra viðburða. Þrátt fyrir hörmungar, myrkvun og illsku, er ekki allt til einskis. Í þjáningum, áföllum og raunum getur viska veist og þroski, skilningur gefist og næmi á hvað er satt og hvað er lygi, hvað gott og hvað illt, sem hægt er að nýta við endurreisn á nýrri tíð.

,,Hörmungartímum við hljótum að gera skil og hug okkar segjum, í stað þess sem ætlast er til...” Þessi orð Játgeirs, sem ásamt Kent stendur við lok leikverksins frammi fyrir því verkefni að móta nýja stjórnarhætti og betri framtíð, eru sígild og nærtæk. Hruni fjármálakerfis og efnahagslífs ber að gera skil á líkan veg, skilgreina orsakir þess, viðurkenna svik og siðrof, gönuhlaup og glæpi, svo sem gert var með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Leita verður jafnframt raunsannra lífsverðmæta og leiðarmerkja og glæða þau ,,þjóðgildi” sem mest eru verð og hollust. Andleg vitund og trúarsýn í Jesú nafni mega þar ekki gleymast, því að þeirra vegna veitist aðgangur að líknandi og nærandi lífsins lindum. Nálgun Benedicts Andrews leikstjóra, túlkun hans og sviðsetning á Lé konungi í sýningu Þjóðleikhússins, eru hrá og beinskeytt enda tekur hann mið af aðstæðum hér á landi. Leiksýningin kemur við kaun og kviku og snertir mjög mannlíf og samfélag á líðandi stundu. Hrunið og afleiðingar þess eru enda hrá, óvægin og sár.

Leikarar skila hlutverkum sínum vel og áheyrilega enda skiptir textinn höfuðmáli. Burðarhlutverk eru í góðum höndum og Arnar Jónsson vinnur leiksigur. Framrás verksins stigmagnast í vönduðum leik að endanlegu uppgjöri harmleiksins þar sem sorg og harmur fylla sviðið sem myrkasta nótt, er þó boðar nýjan dag. ,,..nóttin hverfi sem skófla af kolum inn í skíðlogandi dag.” (Ögurstund: Matthías Johannessen)

Stjörnugjöf ****

Gunnþór Þ. Ingason