“Þegar tekur út yfir allan þjófabálk”

“Þegar tekur út yfir allan þjófabálk”

Eg minni á orð Þorsteins Pálssonar frá 1990 af því að eg bind vonir við nýtt fólk í ríkisstjórn sem líklegt er að kynni sjer eðli og sögu sóknargjaldanna og forsendu þess fyrirkomulags sem verið hefur á innheimtu þeirra síðan árið 1987.
fullname - andlitsmynd Geir G Waage
23. febrúar 2017

Ofanritað er yfirskrift greinar sem Þorsteinn Pálsson ritaði í Mbl. 3. nóvember 1990. Tilefni greinarskrifanna var, að þá ráðgerði fjármálaráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson öðru sinni skerðingu á sóknargjöldum þannig, að gjaldið skyldi innheimt að fullu, en ríkissjóður skilaði því skertu til sóknanna. Mismunurinn gengi í ríkissjóð.

Ritstjórnargrein Mbl. rakti í sama blaði upphaf átakasögu ríkis og kirkju um sóknargjöldin undir yfirskriftinni: “Gjaldið keisaranum.”…

Þar er rakið, að með lögum um sóknargjöld árið 1985 hafi þau verið gerð að ákveðnum hundraðshluta af útsvarsstofni hvers gjaldanda. Með skattkerfisbreytingunni 1987 hafi ríkið tekið að sjer að innheimta þessi gjöld kirkjunnar.

Þorsteinn Pálsson nefnir aðgerð fjármálaráðherra í grein sinni “eins konar þjófnað á tekjum kirkjunnar”. “Þessi þjófnaður er þó ekki refsiverður samkvæmt hegningarlögum fyrir þá sök að ríkisstjórnin lét stjórnarmeirihlutann heimila hann með sérstöku lagaákvæði og nú eru uppi áform um að endurtaka leikinn á næsta ári”.-

“Forkastanleg vinnubrögð” segir Þorsteinn í millifyrirsögn og ritar síðan: “En á því er reginmunur að skerða lögbundin framlög til ákveðinna verkefna með þessum hætti og hinu að taka hluta af tekjustofni sjálfstæðra aðila eins og þjóðkirkjunnar og setja í ríkissjóð. Satt best að segja tekur slík framkoma út yfir allan þjófabálk. Áður fyrr byggðust tekjur kirkjunnar á sjálfstæðum gjöldum sem sérstaklega voru lögð á og innheimt í hennar þágu. Þegar staðgreiðslukerfi skatta tók gildi varð um það samkomulag að fella gjöld til kirkjunnar inn í staðgreiðslukerfið með svipuðum hætti og til að mynda útsvar sveitarfélaganna. Í því efni sýndu kirkjunnar menn skilning og samstarfsvilja þegar stjórnvöld töldu nauðsynlegt að einfalda skattheimtuna. Það er alveg forkastanlegt að þessi góði samstarfsvilji þjóðkirkjunnar á sínum tíma skuli nú vera látinn koma henni í koll. Ríkisstjórnarmeirihlutanum hefur enn ekki komið til hugar að taka hluta af útsvari sveitarfélaganna og setja í ríkissjóð. Vera má að vísu að þeim hafi komið það til hugar, en víst hafa þeir ekki þorað að leggja til atlögu við sveitarfélögin því að ráðherrarnir vita að þeir þyrftu ekki að kemba hærurnar eftir slíka atlögu”.

Síðar í greininni ritar Þorsteinn: “Kjarni málsins er sá, að ríkisvaldinu ber að standa við það samkomulag og þá sátt sem gerð var við kirkjuna þegar staðgreiðslukerfi skatta var lögleitt”.

Það var kreppa árið 1990. Þess vegna var skertur lögbundinn hlutur kirkjunnar árið áður. Þegar höggva skyldi í sama knjerunn ári síðar, mótmælti forysta þjóðkirkjunnar. “Það kemur mér undarlega fyrir sjónir ef kirkjunnar menn ætla að vera þeir einu sem segja ekki ég”, var haft eftir ráðherranum í Morgunblaðsviðtali skömmu áður: “Eg taldi að kirkjunnar menn vildu vera með í því endurreisnarstafi sem unnið er að í efnahagsmálum”.

Við hrun var enn á ný gripið til sömu aðgerða gagnvart fjárhag kirkjunnar. Fjárhagur stofnana ríkisins var skertur um fimmtung til fjórðung en málaflokkar kirkjunnar mun meira. Um það liggur fyrir nákvæmt yfirlit í innanríkisráðuneyti. Kirkjuþing fjellst á tímabundna skerðingu lögbundinna tekjustofna og skerðingu jarðeignasamkomulagsins þar til í fyrra. Lögbundnir tekjustofnar sókna og kirkjugarða eru enn stórskertir þrátt fyrir endurtekin vilyrði og loforð. Þegnskapur “kirkjunnar manna” hefur komið kirkjunni í koll nú eins og fyrr.

Eg minni á orð Þorsteins Pálssonar frá 1990 af því að eg bind vonir við nýtt fólk í ríkisstjórn sem líklegt er að kynni sjer eðli og sögu sóknargjaldanna og forsendu þess fyrirkomulags sem verið hefur á innheimtu þeirra síðan árið 1987. Mörg eru þau óbundin af aðkomu að málinu frá fyrri tíð og geta kosið sjer ábyrgð að því með eigin athugun.