Í litrófi lífsins

Í litrófi lífsins

Vinirnir sem höfðu gengið með honum veg trúarinnar, sem hann treysti, fólkið sem hann taldi hafið yfir fordæmingar. Það dæmdi hann. Dæmdi hann svo að hann hætti að trúa á hið góða, hætti að trúa því að hann væri elskaður af Guði eins og hann var. Faðir minn gafst upp og tók líf sitt.

Í dag er fagnaðardagur. Við fögnum því að geta verið samankomin í kirkjunni okkar, húsi Guðs, þar sem allir eru jafnir. Þar sem ekki er farið í manngreinarálit, þar sem við eigum öll bústað og þar sem allir eru merkilegir og dýrmætir. Að tilheyra kirkju þar sem fólk úr öllum stigum þjóðfélagsins og úr allskonar fjölskyldum finnur sig heima. Fólk, sem á það sameiginlegt að trúa á hið góða, á réttlætið og miskunnsemi sem er ofar okkar skilningi. Það er gæfa og það er lán og því ber að fagna því þetta hefur ekki alltaf verið svo. Og er ekki enn. En er svo mikilvægt vegna þess að sú tilfinning að tilheyra og vera viðurkenndur gerir okkur kleift að finna tilgang í lífinu og vera hamingjusöm.

Alla ævi hefur trúin skipað stóran sess í mínu lífi. Í trúnni á Guð finn ég skjól fyrir næðingi heimsins, ég finn frið, ég finn svör þegar lífið verður snúið, ég finn von í trúnni og ég finn trú á lífið og hið góða í trú minni á Guð. Margoft í lífinu hef ég þakkað Guði fyrir að eiga trú, en sjaldan hefur það skipt mig jafnmiklu máli og fyrir næstum átta árum. Í kvöld ætla ég að segja ykkur frá ástæðunni, því sumar sögur þarf að segja. Þær eru leið til að heiðra, minnast og syrgja.

Sjáið fyrir ykkur mann. Grannvaxinn, dökkhærðann, með augu full af hlýju. Hann er viðkvæmur, má hvergi neitt aumt sjá. Hann starfar við kennslu í litlu þorpi úti á landi og hefur af því mikla unun. Hann elskar að kenna börnum og ungmennum, mæta þeim þar sem þau eru stödd, leita leiða til að efla styrkleika þeirra og vinna með veikleikana. Á sunnudagsmorgnum stýrir hann sunnudagaskóla þar sem allt fyllist af krökkunum í þorpinu og þar sem er sungið “Daginn í dag”, “Ég vil líkjast Daníel”, “Á bjargi byggði...” og “Ég í sunnudagaskóla fer”. Gríðarmikið stuð á hverjum sunnudegi. Seinnipartinn á sunnudögum er samkoma – en þó passar hann vel upp á að samkomutíminn rekist ekki á Húsið á sléttunni sem er alltaf í sjónvarpinu annaðhvort klukkan fjögur eða fimm. Samkomunum stýrir hann af röggsemi með gítarinn. Uppáhaldslagið er “Liljan”; “Ég leit eina lilju í holti, hún lifði hjá steinum á mel...”. Upphafsbænina byrjar hann alltaf á: “Þar sem tveir eða þrír eru samankomnir í þínu nafni, þar ert þú mitt á meðal”. Það er ekki að ástæðulausu sem hann byrjar bænina svona, því meðalfjöldi gesta á samkomunum eru þrír. Ár eftir ár leiðir hann í bæn, staðfastur og trúfastur, því trúin er honum bjargið sem hann byggir á. Hann hefur ákveðið að feta aðra leið í lífinu en margir aðrir þorpsbúar, og þó þeir virði hann fyrir staðfestuna, er stundum grínast með Helga hinn helga. Hann lætur það aldrei á sig fá, trúir því ekki að fólk geti verið illa innrætt, trúir engu slæmu uppá fólk. Kannski er það einmitt ástæða þess að hann á erfitt með að taka á því þegar dóttir hans verður fyrir einelti í þorpinu, hann trúir ekki að fólk geti verið svona illa innrætt. Því hann er líka faðir og eiginmaður. Bakar eplapæ, setur rúsínur og banana í allan mat og er uppfinningasamur. Saumar t.d. samstæð rúmteppi og náttsloppa á tvær eldri dætur sínar þegar eiginkonan er fyrir sunnan að fæða þá yngstu. Hann smíðar líka hús fyrir fjölskylduna sína í höfuðstað Norðurlands og tekur frumburðinn með sér sem handlangara í nokkra daga. Gleymir að kaupa handa henni tannbursta en gefur henni kínaskó og svartar karamellur. Frumburðurinn kemur heim í svörtum kínaskóm og með svartar tennur. Hann á góða, trúaða vini. Vini sem koma öðru hvoru í heimsókn í þorpið, vini sem hann hittir á stórum samkomum fyrir sunnan. Rétt eins og hann upplifir sig tilheyra litlu kirkjunni sinni og fólkinu sínu þar, þá finnst honum ofurdýrmætt að koma í stóran hóp af trúuðum, þar sem hann á heima. Þar sem hann er hluti af einhverju sem er stærra en lífið. Þar sem hann er öruggur. Hann hefur sérlega mikla þörf fyrir að upplifa sig tilheyra hópi, því alla ævi hefur hann upplifað sig öðruvísi. Samt hefur hann lagt sig fram um að gera allt rétt. Hann er svo þakklátur fyrir að hafa kynnst trúnni og því góða fólki sem er í kirkjunni. Því hann trúir á hið góða í fólki, að allir menn búi yfir góðu innræti og vilji leggja gott til. Honum finnst birtingarmynd góðmennskunar birtast í trúnni og því fólki sem hefur einlæga trú.

Hann átti ekki auðvelt líf. Hann vissi frá því hann var kornungur drengur að hann væri öðruvísi en aðrir. Og skilaboðin sem hann fékk frá samfélaginu voru þau að það væri ekki samþykkt eða í lagi að vera svona öðruvísi og þess vegna lokaði hann á þessar tilfinningar. Þannig að hann var enn sælli yfir því að hafa kynnst þessu góða fólki sem leiddi hann til trúar. Meðal þeirra fann hann einlægan kærleika. Hann kynntist ungri stúlku, þau giftu sig og fluttu í litla þorpið með frumburðinn sinn. Og hann söng og talaði um Guð á sunnudögum, bað til hans daglega og þakkaði honum fyrir lífið. Innst inni vissi hann að hann væri ekki heill, ekki heiðarlegur hvorki við sjálfan sig, Guð né fólkið sitt. Innra með honum bærðust tilfinningar og kynhneigð sem hann vissi að samfélagið samþykkti ekki. Og þess vegna var hann svo þakklátur fyrir trúna og hina trúuðu vini sína. Því hvað sem gerðist myndu þeir aldrei snúa við honum baki. Árin liðu. Hann varð afi. Stoltasti og besti afi sem sögur fara af. Eignaðist afakút, sem hann bar á herðum sér. Þeir spiluðu golf, veiddu fisk, fóru í útilegur á húsbílnum hans, Gamla Rauð, og heimsóttu gamlar konur – því hann var alltaf að heimsækja þá sem fengu fáar heimsóknir. Svo eignaðist hann fleiri afabörn, sem hann dekraði með því að gefa þeim tíma. Hann gaf þeim öllum gælunöfn sem lýsa enn frekar hve mikils virði þau voru honum; Kúturinn, Sponsið, Grjónið, Stellurnar og Snúður.

Eftir því sem gráu hárunum fjölgaði fóru tilfinningarnar hið innra að bæra meir og meir á sér. Og það varð barátta. Hann leitaði í áfengi eftir andartakshuggun, hann hafði aldrei upplifað sig jafn einan. Hann leitaði í trúna, bað um frið, bað um leiðsögn. Svo kom að því að hann fann ástina á ný í örmum karlmanns sem hann elskaði meira en lífið sjálft. Og honum hlotnaðist hugrekki til að stíga fram, afhjúpa tilfinningar sínar og sjálfan sig fyrir sjálfum sér, Guði og samfélaginu. Það gerði hann í skjóli og með hjálp trúarinnar. Konan hans fráfarandi studdi hann, dætur hans stóðu með honum og ætluðu að ganga með honum þessa nýju, björtu og heiðarlegu vegferð til framtíðar. Og barnabörnin eignuðust afa sem var líkt og ungur maður á ný.

Ekki leið á löngu þar til trúuðu og góðu vinir hans heyrðu af því stóra skrefi sem hann tók. Heyrðu af hinum hugrakka Helga sem kannaðist við sjálfan sig fyrir Guði og mönnum. Viðbrögð þeirra voru þögn. Ekki eitt orð. Ekkert. Hann upplifði sig ekki lengur tilheyra þeim. Svo fóru orðin að berast frá trúuðu vinunum. Og þau særðu, þau voru beitt og þau voru dæmandi. Allt í einu virtist hinn einlægi kærleikur ekki vera svo einlægur. Og hann bugaðist. Hann bugaðist af sorg, því um leið og hann upplifði hina mestu hamingju, upplifði hann hina mestu höfnun frá vinum sínum. Vinum, sem trúðu á hans Guð og sem bjuggu yfir hinum einlæga kærleika. Hann upplifði að líf hans væri fordæmt. Hann var viðkvæmur fyrir, auðsærður og andlegri heilsu hans fór að hraka. Hans eigin fordómar gagnvart sjálfum sér og kynhneigð sinni komu í veg fyrir að hann gæti notið hins nýfengna tilfinningafrelsis. Um leið þráði hann viðurkenningu og stuðning frá hinum trúuðu, svo mjög að viðurkenning og stuðningur fjölskyldunnar var honum ekki nægur. Vinirnir sem höfðu gengið með honum veg trúarinnar, sem hann treysti, fólkið sem hann taldi hafið yfir fordæmingar. Það dæmdi hann. Dæmdi hann svo að hann hætti að trúa á hið góða, hætti að trúa því að hann væri elskaður af Guði eins og hann var. Faðir minn gafst upp og tók líf sitt.

Ég sagði hér í upphafi að trúin hefði verið mér styrkur fyrir átta árum. Þegar ég reyndi að skilja tilfinningar og aðstæður föður míns var það trúin sem veitti mér svör og styrk. Það var trúin sem gaf mér hugrekki til að fyrirgefa hið ófyrirgefanlega. Það er nefnilega trúin sem skerpir sýn okkar á lífið, hvað er réttlæti, kærleikur og virðing og trúin fyllir okkur von. Faðir minn var óendanlega góður maður. Hann var líka viðkvæm sál. Þegar viðkvæmar sálir opinbera tilfinningar sínar fyrir Guði og mönnum, tilfinningar sem þær hafa barist gegn alla ævi, þurfa þær stuðning. Faðir minn þurfti stuðning og viðurkenningu á því að kynhneigð hans breytti engu um þann kærleika sem trúuðu vinir hans bæru til hans. Hann væri jafndýrmætur og jafnmerkilegur. En það var vinum hans um megn, því samkvæmt þeirra skilningi er samkynhneigð synd. Skilningur sem ég tel ekki vera guðlegan, heldur mannasetningu. Í orði sínu segir Jesús að æðsta boðorðið sé að elska Drottin, Guð af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga. Annað og hliðstætt boðorð segir hann: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Þetta er ekki flóknara. Við eigum að elska náunga okkar, virða hann og vera til staðar fyrir hann. Okkar er ekki að dæma, eins og segir í Matteusarguðsjalli: ,,Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd. Því að með þeim dómi sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða. Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?” Það er nefnilega lífshættulegt að dæma. Orð geta tekið frá okkur von og sært svo mikið að viðkomandi sér aðeins eina leið til að græða sárin. Sá sem setur sig í dómarasæti í skjóli trúar, býr yfir valdi og mætti sem getur valdið óendanlegri sorg og óendanlegum sárindum sem ná djúpt í rætur hjarta og sálar. Nú gæti hver spurt af hverju þetta skiptir svona miklu máli? Jú, því trúin er bjarg okkar sem trúum. Trúin er okkur leiðarvísir um lífið og hvernig á að koma fram við sjálfan sig og annað fólk: Með virðingu, kærleika, umburðarlyndi, einlægni, hjálpsemi og samhygð. Trúin er ekki tæki sem hægt er að beita til að öðlast vald yfir öðru fólki. Ég sagði hér í upphafi að sögu föður míns yrði að segja. Ég vil heiðra minningu hans með þessum orðum mínum, því það er jafnmikilvægt í dag, 29. september 2013 og það var þann 3. desember 2005, að við erum öll Guðsbörn. Við erum öll velkomin í faðminn hans. Hann umvefur okkur á bak og brjóst með kærleika og viðurkenningu og gefur okkur von í heimi sem stundum virðist vonlaus. Þess vegna erum við hér. Finnum öll fyrir því að við tilheyrum og erum viðurkennd og elskuð. Ekki aðeins af Guði heldur af hvert öðru. Ég er þess fullviss að faðir minn gleðst nú á himnum. Og Guð sem er hér á meðal okkar, hann hefur rými fyrir okkur öll. Í litrófi lífsins eigum við öll stað, því við erum öll óendanlega merkileg og dýrmæt. Ég vil enda þessi orð á textabroti úr frásögn sem Sóley, dóttir mín skrifaði fimm árum eftir að afi hennar dó:

Ókunnugu mennirnir, sem voru frá útfararstofunni og lögreglunni, gengu að honum, bjuggu betur um hann, lögðu hann á börur og gengu hægt með hann út úr íbúðinni. Þar með var hann farinn, fullkomlega farinn. Þá stóðum við ein eftir, alein. Ég fór annan hring um íbúðina. Þá tók ég eftir bók. Bókamerkið stóð útúr henni miðri og ofan á henni var hálfklárað súkkulaðistykki. Þá fór ég að hugsa um allt sem hann hefði svo auðveldlega getað klárað ef það hefði ekki verið fyrir þessa afdrifaríku ákvörðun sem hann tók þetta kvöld. Hann hefði getað klárað lífið.

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir Formaður sóknarnefndar Laugarneskirkju