Talið niður

Talið niður

Á hverjum degi þessa mánaðar höfum við séð myndir af glaðlegum jólasveinum á síðum dagblaða með skilti í hendi þar sem á stendur skrifaður fjöldi þeirra daga sem eftir lifa til jóla. Þessi hefð hefur verið við lýði um áratugaskeið og minnist ég þess sem strákur hversu ég um þetta leyti fagnaði hverjum degi sem leið og talan á skiltum sveinanna lækkaði.

Á hverjum degi þessa mánaðar höfum við séð myndir af glaðlegum jólasveinum á síðum dagblaða með skilti í hendi þar sem á stendur skrifaður fjöldi þeirra daga sem eftir lifa til jóla. Þessi hefð hefur verið við lýði um áratugaskeið og minnist ég þess sem strákur hversu ég um þetta leyti fagnaði hverjum degi sem leið og talan á skiltum sveinanna lækkaði.

Sigurganga bernskunnar

Dagarnir eru margir við upphaf mánaðar og ógnarlangt virðist vera að markinu sem fyllir ungan huga óþreyju. En tíminn er bandamaður á þessu æviskeiði og í fyllingu hans rennur dagurinn stóri upp. Ferðin á áfangastað er svo vörðuð öllum þeim hefðum og siðvenjum, söngvum og myndum sem endurtaka sig ár eftir ár og gefa okkur þá tilfinningu að framvindan eigi sér andstæðu í hinu stöðuga, óbreytanlega og fyrirsjáanlega. Glaðlegir jólasveinarir ramma svo þetta allt ágætlega inn og á þorláksmessu stendur tölustafurinn „einn“ á skiltinu. Aðeins einn dagur er til jóla.

Ætli megi ekki líta á þetta sem einn lið í þeirri stöðugu framþróun sem fylgir bernskuárum þess sem nýtur alls hins besta. Þekking og færni vex, sentímetrum fjölgar og fleiri svið tilverunnar opnast skilningi manns og vitund. Þarna má því segja að sigurganga æskunnar hafi birst eins og í hnotskurn.

Erindi til fullorðinna?

Hún er um margt merkileg þessi hefð og mér er satt að segja ekki kunnugt um að hún eigi sér hliðstæður í öðrum löndum. Ágætur maður hér í bæ, af erlendu bergi brotinn, mun a.m.k. hafa velt því fyrir sér hvaða skilaboð leynist í þessari niðurtalningu. Honum datt í hug að þeim væri ekki síður beint til fullorðinna en barna. Glöggt er gests augað, segjum við gjarnan, og þar sem hann hafði blaðað í gegnum íslensku blöðin á aðventunni sótti að honum sú hugsun að á bak við kostulegan svipinn á þeim rauðklæddu mætti greina áminnandi undirtón.

Þetta er í raun ekki svo galið ef vel er að gáð. Eftir því sem nær dregur jólum verða blöðin æ þykkari og auglýsingarnar stórkostlegri og um leið allar þær kröfur sem dynja á okkur sem slitið hafa barnsskónum. Innan um allar myndirnar af flatskjám og stafrænum myndavélum er svo slegið upp viðtölum við fólk sem er algerlega með allt sitt á hreinu. Þarna situr það brosandi við kertaljós eftir að hafa skreytt húsið hátt og lágt, bakað enska jólaköku, klætt börnin upp, keypt allar jólagjafir, sent öll jólakortin og klykkir svo kannske út með uppskrift að veislumat þar sem bornar verða fram þær fimmtán rjúpur sem veiddar voru í vetur. Spurningin sem stendur eftir þegar blaðinu er lokað er auðvitað þessi: „Hvað með þig, kæri lesandi? Hvernig er staðan á þínu heimili?“

Þá er viðeigandi að lauma lítilli mynd á baksíðunni þar sem fram kemur hversu margir dagar eru til stefnu: „Tíminn líður, lesandi góður og er ekki margt eftir ógert? Ertu viss um að þú sért á áætlun með öll þín verk?“

Engu má gleyma

Þorláksmessan er runnin upp og mér er sérstök ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á þessum andartökum þegar þið lítið upp frá skjölum og pappírum og safnist hér saman á göngum þessarar virðulegu byggingar. Við gerum gott með því að verja þessum stundarfjórðungum í að syngja jólasöngva, njóta skreytinganna sem Ásgeir hefur sett hér upp og auðvitað teyga að okkur ilminn af skötunni meðan hann endist. Væntanlega þýtur hver til sinna verka hér að stundinni lokinni. Það er endaspretturinn og engu má gleyma.

Engu má gleyma, segjum við og er það hverju orði sannara. Því ýmislegt er mikilvægara en það sem yfir okkur dynur í fjölmiðlum og við erum hvött til þess að sanka að okkur. Og margt er hollara en að fyllast örvæntingu yfir því þótt ekki sé allt skreytt og pússað hjá okkur. Á jólunum minnumst við þess veruleika sem stendur ofar því sem mölur og ryð fá grandað. Kristnir menn hafa valið þennan tíma þegar daginn er tekið að lengja á nýjan leik til þess að minnast þess þegar frelsari okkar fæddist. Sá tími er vel til fundinn því með þessu erum við minnt á það hvernig náðin og blessunin getur birt upp í lífi okkar eins og sól sem hækkar sífellt á lofti. Þeir atburðir standa vel fyrir sínu óháð öllum undirbúningi og tilstandi. Við ættum að íhuga þann veruleika, leita eftir svolitlu næði mitt í hávaðanum, andartaks kyrrð mitt í erlinum og kærkominni hvíld. Þögnin og andrýmið er nauðsynlegur þáttur gleðinnar og hátíðarinnar. Sú kyrrð ætti að eiga sér hliðstæður í öðru því sem við tökum okkur fyrir hendur á þessari helgu hátíð.

„Einn“

Í dag stendur talan „einn“ á skilti jólasveinsins í blöðunum. Öll vitum við hvað það þýðir. Ég veit ekki með ykkur en mér þykir skemmtileg túlkun þessa erlenda manns á niðurtalningunni. Hrynjandi tímans er okkur, sem fullorðin erum, ekkert sérstakt ánægjuefni. Það er fremur á hinn bóginn – margur hefur af því áhyggjur hversu fljótt dagarnir líða og árin. Skyndilega er komin helgi og skyndilega eru komin jól og hvað þetta flýgur allt hratt!

Mitt í þeim hugleiðingum er rétt að íhuga hvort ekki megi finna jafnvel uppbyggilegan boðskap úr niðurtalningunni sem gæti átt erindi til okkar sem komin erum til vits og ára. Dagarnir líða hraðar en við kærum okkur um. Dagurinn í dag kemur aldrei aftur. Njótum hans, lærum að umgangast andartök ævinnar sem verðmæti og nýta þau til þess að byggja okkur sjálf upp og þjóna náunganum. Sá boðskapur á vel við á helgri jólahátíð þegar við leiðum hugann að því sem okkur er dýrmætast og kærast.

Flutt við Þorláksmessuandakt í Stjórnsýsluhúsi Ísafjarðar 23/12/05