Aðgerðirnar í Laugarneskirkju

Aðgerðirnar í Laugarneskirkju

Fólkið í kirkjunni hlýtur að taka afstöðu með fólki í neyð. Þannig högum við okkur í samræmi við kærleiksboðskap kristinnar trúar.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
10. júlí 2016

Aðkoma kirkjunnar að máli hælisleitenda í liðinni viku hefur vakið sterk viðbrögð í samfélaginu. Að gefnu tilefni skal tekið fram að aðgerðunum í Laugarneskirkju var eingöngu ætlað að vekja athygli á stöðu hælisleitenda í anda kærleika og mannúðar. Kirkjan beitir sér og á alltaf að beita sér í þágu þeirra sem standa höllum fæti. Það er kristin trú í verki.

Aðgerðunum í Laugarneskirkju var ekki beint gegn lögreglu, stjórnvöldum eða öðru samstarfsfólki okkar á nokkurn hátt. Eðlilega eru skoðanir skiptar um réttmæti þessara aðgerða og hvernig að þeim var staðið. Þjóðkirkjan hefur bæði fundið fyrir stuðningi og sætt gagnrýni í fjölmiðlum, samskiptamiðlum, símtölum og tölvupóstum fólks sem borist hafa Biskupsstofu.

Ýmis sjónarmið og ábendingar hafa komið fram sem verða kirkjunni gagnlegar við frekari stefnumótun í málefnum hælisleitenda og flóttamanna. Hið sama má segja um gagnrýni á þá stöðu sem þjónar lögreglunnar voru settir í er þeir reyndu að sinna skylduverkum sínum við viðkvæmar aðstæður. Lögregla var upplýst fyrirfram um hvað til stæði en undirbúa hefði mátt aðgerðir betur.

Hvers vegna þessar aðgerðir?

Kirkjan er vettvangur hjálparstarfs og í sóknum landsins er aðstoð iðulega veitt þeim sem eiga á brattann að sækja. Bent hefur verið á að óvenjulegt sé að kirkjunnar fólk taki svo afgerandi afstöðu með hælisleitendum. Hvað með aðra samfélagshópa, öryrkja, aldraða, einstæða foreldra, þá sem misst hafa heimili sín? Og þannig mætti áfram telja. Slíkar ábendingar eru réttmætar en draga þó ekki úr mikilvægi þess sjónarmiðs sem kirkjan vildi koma á framfæri í þessu tilviki.

Fólkið í kirkjunni hlýtur að taka afstöðu með fólki í neyð. Þannig högum við okkur í samræmi við kærleiksboðskap kristinnar trúar. Okkur ber að standa vörð um réttindi fólks hvar sem það fæðist. Málefni hælisleitenda varða grundvallarspurningar um mannréttindi, mannúð og óttaleysi um eigið líf.

Kirkjugrið í nágrannalöndum

Kirkjan í nágrannalöndum okkar, svo sem Noregi, beitir sér í þágu hælisleitenda á sambærilegan máta og Laugarneskirkja lét reyna á. Kirkjan hefur þar skotið skjólshúsi yfir hælisleitendur á meðan stjórnvöld afgreiða umsóknir þeirra. Kirkjunnar fólk, leikir og lærðir, leggja þar sitt af mörkum í samstarfi við yfirvöld til að mæta vanda þeirra og veita þeim stuðning. Á meðan fá þessir einstaklingar að vera í umsjón kirkjunnar og yfirvöld leggja áherslu á að ljúka máli þeirra á málefnalegan máta.

Málefni hælisleitenda og flóttamanna

Málefni hælisleitenda og flóttafólks hafa verið á dagskrá hjá íslensku þjóðkirkjunni undanfarin ár. Prestastefna 2014 ályktaði um málefni hælisleitenda og hvatti biskup Íslands til að standa fyrir málþingi þar sem fjallað yrði frekar um þessi brýnu mál. Þjóðmálanefnd kirkjunnar tók að sér að beiðni biskups að standa fyrir málþinginu og var efnt til samstarfs um það við Útlendingastofnun, Utanríkisráðuneytið og Rauða Kross Íslands. Málþingið fór fram í Norræna húsinu haustið 2015 undir yfirskriftin ,,Hver er náungi minn?“

Málþingið skilaði af sér tillögu að sáttmála sem kirkjuþing 2015 tók sérstaklega fyrir og lýsti ánægju sinni með. Kirkjuþingið samþykkti einnig hvatningu til kirkjunnar í heild að taka áfram frumkvæði í samfélagsmálum enda væri það hlutverk kirkjunnar fólks að hlúa að samfélags- og mannúðarmálum og vera rödd kærleika og umburðarlyndis.

Sóknir þjóðkirkjunnar voru hvattar til að láta sig málið varða, m.a. með því að „hafa eyru og hjörtu opin fyrir reynslu og líðan þeirra sem koma hingað frá öðrum löndum og reyna að fóta sig í nýju landi og að vera talsmenn þeirra sem hafa ekki rödd í samfélaginu.“

Laugarneskirkja

Ýmsir söfnuðir hafa látið gott af sér leiða í þessu sambandi. Málið hefur því verið á dagskrá í kirkjunni undanfarin misseri, umræða hefur átt sér stað innan stofnana hennar og milli stofnana samfélagsins að frumkvæði kirkjunnar. Þá má nefna að Laugarneskirkja, í samstarfi við prest innflytjenda, hefur sérstaklega látið sig varða um málefni hælisleitenda og flóttamanna og veitt þeim margvíslega þjónustu.

Skrefið sem stigið var með táknrænum kirkjugriðum í Laugarneskirkju í liðinni viku var því framhald  af þessari vinnu. Markmiðið var fyrst og fremst að veita hælisleitendunum þann stuðning að fá húsaskjól og samfélag í erfiðum aðstæðum sem við þeim blöstu og vekja athygli á stöðu þeirra í íslensku samfélagi. Vonandi verður sú athygli og umræða til góðs.

Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu laugardaginn 9. júlí 2016