Stingum af...

Stingum af...

Við höfum líka upplifað gleðidaga. Gleðidaga eins og Mugison lýsir, með okkar nánustu, þar sem við upplifum að við tilheyrum, að við erum elskuð, að við erum dýrmæt. En okkur býðst líka að eiga annars konar gleðidaga. Gleðidaga sem við þurfum ekki að stinga af til að njóta.
fullname - andlitsmynd Arna Ýrr Sigurðardóttir
17. apríl 2012

Það er andvökubjart himinn - kvöldsólarskart, finnum læk, litla laut, tínum grös, sjóðum graut finnum læk, litla laut, tínum grös, sjóðum graut

Finnum göldróttan hval og fyndinn sel í smá dal lækjarnið, lítinn foss, skeinusár, mömmukoss lækjarnið, lítinn foss, skeinusár, mömmukoss

Stingum af - í spegilsléttan fjörð stingum af - smá fjölskylduhjörð senn fjúka barnaár upp í vind, út á sjó verðmæt gleðitár, - elliró, elliró Lag og texti: Mugison

Mugison kann svo sannarlega að lýsa gleðidegi í lífi fjölskyldu. Fjölskyldu sem stingur af úr amstri hversdagsleikans til að njóta návista, þar hittast þau sem best er að vera nærri, ástvinir sem við elskum og sem elska okkur. Sannkallaður gleðidagur.

Emmausfararnir sem segir frá í 24. kafla Lúkasarguðspjalls stungu líka af. En fyrir þá var ferðin frá Jerúsalem til Emmaus engin gleðiganga. Þeir voru daprir. Jesús sem þeir elskuðu var dáinn. Þeir höfðu reyndar heyrt einhverjar sögur um að konur úr þeirra hópi hefðu farið að gröfinni og komið aftur með miklu ofboði og sagt að hann væri ekki þar, hann væri upprisinn. En það var nú ekkert að marka þessar konur, þær gátu nú verið svo dramatískar...

En svo slæst ókunnur maður með þeim í för. Og þeir skynja að þeim líður vel í návist hans. Og þegar hann býst til að skilja við þá, biðja þeir hann að vera lengur hjá sér, ,,því að degi hallar og kvölda tekur". Og þegar þeir neyta saman brauðs og víns, opnast augu þeirra. Þeir sjá Jesú, upprisinn og skilja loks það sem aðrir höfðu reynt að segja þeim. Jafnvel Jesús hafði á göngunni með þeim útskýrt fyrir þeim ritningarnar og spádómana en þeir ekki skilið. Það var ekki fyrr en þeir áttu saman borðsamfélag sem augu þeirra opnuðust. Borðsamfélag sem er eitthvað sem við eigum helst með þeim sem standa okkur næst, eru okkur kærust. Og nú fóru gleðidagar í hönd. Dagar þar sem Jesús var nálægur lærisveinunum, byggði þá upp og styrkti.

Við höfum líka upplifað gleðidaga. Gleðidaga eins og Mugison lýsir, með okkar nánustu, þar sem við upplifum að við tilheyrum, að við erum elskuð, að við erum dýrmæt. En okkur býðst líka að eiga annars konar gleðidaga. Gleðidaga sem við þurfum ekki að stinga af til að njóta. Gleðidaga mitt í amstri hversdagsins. Gleðidaga sem bera nafn með rentu hvort sem við upplifum okkur elskuð og dýrmæt, eða bara ein og yfirgefin, þreytt og sorgmædd. Gleðidaga þar sem Jesús gengur með okkur og er okkur nálægur. Og við finnum það að við erum elskuð og dýrmæt í augum Guðs. Guð gefi að þú megir eiga óteljandi slíka...